Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 800  —  276. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (málsmeðferð o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Svönu Helgadóttur og Jón Geir Pétursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Óla Grétar Blöndal Sveinsson og Helga Jóhannesson frá Landsvirkjun, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Sigurð Jónsson og Óskar Magnússon frá Landssamtökum landeigenda á Íslandi, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Baldur Dýrfjörð frá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, og Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur frá Skipulagsstofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landsvirkjun, Landssamtökum landeigenda á Íslandi, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja. Þá barst nefndinni minnisblað frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um náttúruvernd sem tengjast málsmeðferð við friðlýsingar og undanþágum frá ákvæðum friðlýsinga. Þá er lagt til nýtt ákvæði um kortlagningu óbyggðra víðerna.

Auglýsing tillögu að endurskoðaðri náttúruminjaskrá.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 36. gr. laganna um auglýsingu tillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár þess efnis að í stað þess að tillagan sé auglýst í prentmiðlum skuli hún auglýst á vefmiðlum, í Lögbirtingablaði og með öðrum hætti eftir því sem við á. Þar með verður skylt að auglýsa í Lögbirtingablaði og á vefmiðlum en birting auglýsingar á öðrum vettvangi er háð mati Umhverfisstofnunar hverju sinni. Nefndin bendir á að mikilvægt er að auglýsingar séu birtar með sannanlegum hætti og á vettvangi þar sem ætla má að sem flestir sem hagsmuna kunna að gæta sjái hana. Með hliðsjón af því telur nefndin fara vel á því að auglýsing sé birt í öllum helstu fjölmiðlum á viðkomandi svæðum til viðbótar við almenna birtingu í Lögbirtingablaði og á vefmiðlum.

Stytting fresta.
Áform um friðlýsingu.
    Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 38. gr. er ráðherra heimilt að ákveða friðlýsingu með samþykki landeiganda og viðkomandi sveitarfélags þótt ekki sé gert ráð fyrir henni í framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Áður skulu friðlýsingaráformin þó kynnt í samræmi við 2. og 3. mgr. 36. gr. laganna. Í 2. mgr. 36. gr. er kveðið á um að frestur skuli ekki vera skemmri en átta vikur frá birtingu auglýsingar en í greinargerð frumvarpsins kemur fram að sá langi kynningartími byggist á því að verið sé að kynna endurskoðaða náttúruminjaskrá sem sé mun umfangsmeiri en einstaka friðlýsing sem ráðherra sé heimilt að ákveða skv. 38. gr. Er með frumvarpinu lagt til að kynningartími áforma vegna einstakra friðlýsinga verði styttur í tvær vikur. Fram komu sjónarmið þess efnis að tveggja vikna frestur gæti verið of stuttur og var þar m.a. vísað til þess að umsagnaraðilar eru fjölbreyttur hópur sem á misauðvelt með að bregðast skjótt við auk þess sem það kunni að þrengja að þeim ef nokkur kynningarferli eru í gangi samhliða. Einnig komu fram sjónarmið um að ekki væri kveðið skýrt á um þau tilvik friðlýsingar þar sem eignarnám kemur til álita. Nefndin bendir á að áform um friðlýsingu eru undanfari þess að drög að friðlýsingarskilmálum fyrir viðkomandi svæði séu unnin. Í þeim tilvikum sem auglýsa þarf áform þarf jafnframt samþykki landeiganda og viðkomandi sveitarfélags fyrir friðlýsingunni og því allar líkur á að unnið sé að málinu í sátt. Hins vegar telur nefndin mikilvægt að tryggt sé að allir aðilar, þar á meðal minni aðilar, hafi svigrúm til að taka saman vandaða umsögn um áformin og leggur því til að fresturinn verði fjórar vikur að lágmarki. Nefndin leggur áherslu á að um lágmarksfrest er að ræða og ekkert því til fyrirstöðu að Umhverfisstofnun lengi frestinn telji stofnunin þörf á því. Nefndin bendir einnig á að ferill friðlýsingar er skýr í lögum um náttúruvernd og er þar m.a. kveðið á um rétt landeigenda til bóta ef friðlýsing hindrar landnýtingu eða takmarkar hana umfram það sem telja má til almennra takmarkana eignarréttar. Þá hefur ráðherra heimild til beitingar eignarnáms skv. 43. gr. laganna og fer um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta eftir almennum reglum.

Drög að friðlýsingarskilmálum.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er lagt til að frestur til að gera athugasemdir við drög að friðlýsingarskilmálum skv. 2. mgr. 39. gr. verði styttur úr þremur mánuðum í sex vikur. Fram kom að sá tími kynni að vera of stuttur þar sem drög að friðlýsingarskilmálum gætu verið afar umfangsmikil. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð frumvarpsins að þriggja mánaða fresturinn sé óþarflega langur og telur brýnt að tryggja skilvirkni og að ferli friðlýsinga dragist ekki úr hófi. Þá bendir nefndin á að frestir til að koma að athugasemdum eru gjarnan sex vikur í öðrum lögum. Má þar nefna kynningartíma frummatsskýrslu skv. 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, umhverfisskýrslu skv. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana og kynningartíma aðalskipulagstillögu og svæðisskipulagstillögu skv. 31. og 24. gr. skipulagslaga. Nefndar tillögur og skýrslur eru yfirleitt umfangsmeiri en friðlýsingarskilmálar einstakra svæði og telur nefndin með vísan til þess að sex vikna frestur til að koma að athugasemdum sé fullnægjandi.

Kortlagning óbyggðra víðerna.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt ákvæði um kortlagningu óbyggðra víðerna. Ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um kortlagningu óbyggðra víðerna. Þar verði kveðið á um þau viðmið og forsendur sem liggi til grundvallar kortlagningunni og skuli kortið vera til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld við stefnumótun um verndun landslags og aðra landnotkun. Bent var á að ekki væri skýrt hver ætti að sjá um kortlagninguna, hvernig meðferð hennar yrði háttað, hvaða réttaráhrif hún hefði og hvaða aðkomu hagaðilar hefðu að vinnunni. Þá kom fram að kveða ætti fastar að orði og að kortlagningin ætti ekki einungis að vera til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld. Nefndin áréttar að ekki er gert ráð fyrir að kortlagning óbyggðra víðerna hafi réttaráhrif í för með sér. Kortlagningin mun hins vegar koma sér vel fyrir sveitarfélög og aðra aðila við ákvörðunartöku um skipulag og landnotkun. Í ljósi þess að kortlagningunni er ekki ætlað að binda hendur skipulagsyfirvalda leggur nefndin til þá orðalagsbreytingu að í stað þess að kortið skuli vera til leiðbeininga fyrir stjórnvöld verði það til upplýsinga. Þá bendir nefndin á að nánara fyrirkomulag, þar á meðal um hver mun sjá um kortlagninguna, verður útfært í reglugerð. Fyrir liggur að Skipulagsstofnun hefur þegar unnið tillögur að kortlagningu óbyggðra víðerna á hálendi Íslands og látið vinna skýrslu um flokkun og kortlagningu landslagsgerða ( Landslag á Íslandi – flokkun og kortlagning landslagsgerða á Íslandi, EFLA/Land Use Consultants, 2020) sem gagnast getur við kortlagningu víðerna. Því má telja eðlilegt að hún haldi áfram utan um verkefnið með aðkomu annarra fagstofnana og hagaðila, m.a. Náttúrufræðistofnunar Íslands sem einnig hefur unnið að kortlagningu víðerna.
    Þá leggur nefndin til smávægilega lagfæringu á fyrirsögn í 6. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „tvær“ í a-lið 3. gr. komi: fjórar.
     2.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðsins „leiðbeiningar“ í 2. mgr. efnisgreinar komi: upplýsinga.
                  b.      Fyrirsögn efnisgreinar orðist svo: Kortlagning óbyggðra víðerna.

    Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 26. janúar 2021.

Bergþór Ólason,
form.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.