Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 802  —  428. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um rannsóknir á peningaþvætti og lengd þeirra hjá lögreglu.


     1.      Hversu margar ábendingar um peningaþvætti bárust skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, áður peningaþvættisskrifstofu, hjá héraðssaksóknara á árunum 2015–2020? Svar óskast sundurliðað eftir árum og hvaðan ábendingar bárust.

júlí–des. 2015 2016 2017 2018 2019 2020
Fjármálafyrirtæki 158 647 942 1176 1551 1959
Stjórnvöld 0 6 7 18 61 39
Aðrir tilkynningarskyldir aðilar 0 1 2 6 31 32
Almenningur 1 1 3 2 3
Samtals 158 655 952 1203 1645 2033

    Peningaþvættisskrifstofa ríkislögreglustjóra fluttist til embættis sérstaks saksóknara 15. júlí 2015. Embætti héraðssaksóknara tók til starfa 1. janúar 2016.
    Með fjármálafyrirtækjum er átt við eftirfarandi aðila sem eru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóði, umboðsaðila greiðslustofnunar, lánastofnanir, greiðslustofnanir, lífeyrissjóði, dreifingaraðila rafeyris, þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla, gjaldeyrisskiptastöðvar og verðbréfafyrirtæki.
    Með öðrum tilkynningarskyldum aðilum er átt við eftirfarandi aðila sem eru undir eftirliti Skattsins, þ.e. bílasala, endurskoðendur, fasteignasala, heildsala, lögmenn og einstaklinga eða lögaðila sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga.

     2.      Hversu margar ábendinganna leiddu til lögreglurannsóknar og hver varð niðurstaða hverrar rannsóknar?

júlí 2015 til des. 2016 2017 2018 2019 2020*
Byggt á tilkynningum 134 139 107 326
Greiningar 39 72 76 65 78
Rannsakaðar eða viðbótarupplýsingar inn í mál sem er þegar til rannsóknar 12 25 44 49 41*
*Miðað við stöðuna í september 2020.

    Hlutverk skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er að miðla greiningum til lögbærra stjórnvalda á borð við héraðssaksóknara, lögreglu og skattrannsóknarstjóra. Byggt á upplýsingum úr greiningum geta lögbær stjórnvöld hafið rannsókn eða upplýsingarnar geta verið viðbót við rannsókn sem þegar er hafin. Þegar rannsókn er lokið eru ákærur gefnar út í þeim tilvikum þegar um ætlaða refsiverða háttsemi er að ræða.
    Um það leyti sem sendinefnd FATF kom til Íslands í vettvangsathugun í september á síðasta ári var gerð athugun á hversu oft upplýsingar úr greiningum skrifstofu fjármálagreiningu lögreglu höfðu verið notaðar til að hefja rannsókn eða upplýsingarnar notaðar til viðbótar við rannsókn sem þegar var hafin hjá lögbæru stjórnvaldi. Eins og sjá má í töflu hér að framan, vann skrifstofa fjármálagreininga lögreglu 78 greiningar árið 2020 byggðar á 326 tilkynningum. Miðað við stöðuna í september 2020 höfðu upplýsingar úr 41 greiningu verið notaðar til að hefja rannsókn eða notaðar sem viðbót inn í rannsókn sem þegar var hafin hjá lögbæru stjórnvaldi.
    Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er ekki hægt að svara því hver niðurstaða hverrar rannsóknar hafi verið út frá þeim upplýsingum og kerfum sem lögregla og ákæruvald búa yfir. Til þess að svara fyrirspurninni þyrfti því að fara yfir hvert mál sérstaklega frá því að tilkynning barst og þar til ákæra var gefin út eða málið fellt niður. Slík úttekt yrði svo umfangsmikil að ekki væri hægt að svara í stuttu máli, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

     3.      Hver var meðallengd lögreglurannsókna í dögum talið árin 2015–2020?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara er ekki hægt að svara 3. tölul. fyrirspurnarinnar út frá þeim upplýsingum og kerfum sem lögregla og ákæruvald búa yfir. Til þess að svara fyrirspurninni þyrfti að fara yfir öll mál sérstaklega en vegna fjölda mála yrði slík úttekt svo umfangsmikil að ekki væri hægt að svara í stuttu máli, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Í dæmaskyni má nefna að á árinu 2019 voru 9626 brot skráð sem rannsökuð að fullu. Af þeim var gefin út ákæra vegna 8164, eða 84,8%. Þessu til viðbótar er rannsókn vegna fjölda brota lokið hjá lögreglu þegar ekki þykir tilefni til að ljúka rannsókn, t.d. ef í ljós kemur að kæra var ekki á rökum reist eða aðrar ástæður gefa ekki tilefni til að halda rannsókn áfram.

     4.      Hvert var frávik í lengd lögreglurannsókna frá rannsóknaráætlunum fyrir árin 2018– 2020 að meðaltali í dögum talið?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara bjóða kerfi lögreglu ekki upp á að greina frávik í lengd lögreglurannsókna frá rannsóknaráætlun. Til þess að svara 4. tölul. fyrirspurnarinnar þyrfti því að fara yfir öll mál sérstaklega og bera saman skráningar í kerfi lögreglu við rannsóknaráætlanir í hverju tilviki. Vegna fjölda mála yrði slík úttekt svo umfangsmikil að ekki væri hægt að svara í stuttu máli, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Megintilgangurinn með gerð rannsóknaráætlana er eins og kemur fram í lið 2 í fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 2/2018 að ná sem bestum árangri í rannsóknum sakamála með notkun viðeigandi úrræða, mannafla og tíma, að leiða til betri faglegrar stjórnunar og eftirlits með framvindu máls auk þess sem notkun rannsóknaráætlana er grunnur að vandaðri ákvörðunartöku og þar með auknum gæðum rannsóknar, styttri málsmeðferðartíma og réttri niðurstöðu. Meginmarkmið rannsóknaráætlana er því ekki að setja einhvers konar lokafrest fyrir viðkomandi rannsókn. Gera má ráð fyrir því að rannsóknaráætlun taki í flestum tilvikum breytingum eftir því sem rannsókninni vindur áfram. Almennt ætti lokagerð rannsóknaráætlunar, þar sem bætt hefur verið inn frekari viðvikum við rannsóknina og frestum til að framkvæma þau, að falla að heildartíma sem rannsóknin tekur en þar geta þó verið einhver frávik ef lokafrágangur rannsóknar og frágangur tekur lengri tíma en áætlað var.