Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 806  —  329. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (opinberar sóttvarnaráðstafanir o.fl.).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Reyni Arngrímsson, Vilhjálm Ara Arason og Dögg Pálsdóttur frá Læknafélagi Íslands, Söndru B. Franks frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Guðbjörgu Pálsdóttur og Höllu Eiríksdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Jóhannes Loftsson, Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, Ólaf Guðlaugsson, Karl G. Kristinsson og Gunnar Tómasson frá sóttvarnaráði, Má Kristjánsson frá Landspítala, Óskar Reykdalsson og Sigríði D. Magnúsdóttur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Þórð Sveinsson frá Persónuvernd, Halldór Benjamín Þorbergsson og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Gunnar Ásbjörnsson frá Lögmannafélagi Íslands, Trausta Fannar Valsson, dósent og deildarforseta við Lagadeild Háskóla Íslands, Ragnhildi Helgadóttur, sviðsforseta Samfélagssviðs Háskólans í Reykjavík, Einar Karl Hallvarðsson, Fanneyju Rós Þorsteinsdóttur og Ólaf Helga Árnason frá embætti ríkislögmanns, Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, Reimar Pétursson lögmann og Hallmund Albertsson lögmann.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Guðrúnu Bergmannsdóttur, Einari S. Hálfdánarsyni, Læknafélagi Íslands, Jóhannesi Loftssyni o.fl., Sjúkraliðafélagi Íslands, Þrándi Arnþórssyni, Birgi Björgvinssyni, Heilsufrelsi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Þórarni Einarssyni, Lögmannafélagi Íslands, Landspítala, Gunnari Tómassyni, Þorsteini Sch. Thorsteinssyni og Persónuvernd.
    Þá barst nefndinni minnisblað frá heilbrigðisráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi sóttvarnalögum með það að markmiði að skýra ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir, m.a. á grundvelli fenginnar reynslu af yfirstandandi heimsfaraldri kórónuveiru.

Umfjöllun nefndarinnar.
Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er að skýra gildandi sóttvarnalög með hliðsjón af reynslu heimsfaraldurs kórónuveiru og koma í veg fyrir réttaróvissu um sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda. Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra sem falið var að semja drög að frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum þar sem horft yrði sérstaklega til ákvæða laganna sem fjalla um opinberar sóttvarnaráðstafanir og valdheimildir stjórnvalda þar að lútandi.
    Með bréfi, dags. 26. ágúst 2020, óskaði forsætisráðherra eftir því að dr. Páll Hreinsson tæki saman álitsgerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Í september skilaði dr. Páll „Álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana“ til forsætisráðherra og byggði áðurnefndur starfshópur vinnu sína að miklu leyti á þeirri umfjöllun. Í álitsgerð dr. Páls er fjallað um fyrrnefndar valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Jafnframt er þar tekið mið af samspili við valdheimildir lögreglu og annarra yfirvalda til að framfylgja slíkum ráðstöfunum.
    Frumvarpinu er, líkt og áður segir, ætlað að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu vegna yfirstandandi heimsfaraldurs kórónuveiru og að skerpa á þeim heimildum sem heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa til að bregðast við og draga úr útbreiðslu smitsjúkdóma, líkt og COVID-19.
    Við umfjöllun um málið hafa nefndinni borist umsagnir frá fjölda einstaklinga og stofnana. Þá hefur nefndin fengið á sinn fund sérfræðinga í lækningum og á heilbrigðissviði, lögfræðinga með sérþekkingu á stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti auk hagsmunaaðila.

Heildarendurskoðun sóttvarnalaga.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið og ábendingar um að nauðsynlegt væri að ráðast í heildarendurskoðun á sóttvarnalögum, þá var á það bent í umsögnum sem nefndinni bárust, m.a. í umsögn Landspítala. Sú stjórnsýsla sem mælt er fyrir um í núgildandi lögum væri að mörgu leyti ágæt en þarfnist úrbóta og skýringa. Hlutverk sóttvarnalæknis og landlæknis með tilliti til stjórnsýslulegrar ábyrgðar og samspils við lög um landlækni og almannavarnir væri að nokkru leyti ábótavant. Þá þyrfti að skýra hlutverk sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana í faröldrum.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur vissulega þörf á að endurskoða sóttvarnalög í heild sinni. Slík heildarendurskoðun verði þó að bíða þinglegrar meðferðar um sinn. Óheppilegt gæti reynst að ráðast í of víðtækar breytingar, m.a. á stjórnsýslu sóttvarnamála, í miðjum heimsfaraldri og gæti það valdið óvissu um hlutverk hvers stjórnvalds á viðkvæmum tíma, þegar hvað brýnast er að verkefnaskipting sé skýr og boðleiðir vel þekktar. Er það því mat nefndarinnar að skynsemisrök mæli gegn því að ráðist sé í of víðtækar breytingar að sinni. Nefndin telur þó mikilvægt að vinna við endurskoðun laganna hefjist sem allra fyrst, óháð þeim faraldri sem nú geisar, og beinir því til heilbrigðisráðuneytisins að sem víðtækast samráð verði haft við heildarendurskoðun sóttvarnalaga.

Gildi stjórnsýslulaga (12. gr.).
    Í 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 14. gr. laganna um aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Er m.a. lagt til að í 5. mgr. greinarinnar verði kveðið á um að áður en stjórnvaldsákvörðun um aðgerð er tekin skuli þess freistað að ná samstarfi við hlutaðeigandi aðila um viðeigandi og hóflegar aðgerðir. Náist slíkt samstarf ekki taki sóttvarnalæknir stjórnvaldsákvörðun að undangenginni málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Lagt er til að í 6. mgr. greinarinnar verði kveðið á um að sóttvarnalæknir geti tekið stjórnvaldsákvörðun munnlega telji hann að töf á afgreiðslu máls sé hættuleg.
    Í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins er lagt til að tekinn verði af vafi um það í lagatextanum í hvaða tilvikum stjórnsýslulögin eigi við og hvenær ekki. Stjórnvöldum ber almennt að fylgja stjórnsýslulögum óháð því hvort stjórnvaldsákvörðun er skrifleg eða munnleg. Því er skynsamlegt að kveða á um í lagatextanum hvaða málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga skuli gilda, og að hvaða marki, þegar sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um einangrun eða sóttkví og töf á afgreiðslu máls er metin hættuleg. Augljóst er að slíka ákvörðun kann að þurfa að taka með afar skjótum hætti og ólíklegt að raunhæft verði að fylgja öllum reglum stjórnsýslulaga, svo sem reglum um rannsókn og andmælarétt.
    Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneytinu er á það bent að samkvæmt orðalagi 12. gr. sé ekki um stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga að ræða takist samstarf við hlutaðeigandi um viðeigandi og hóflegar aðgerðir. Hins vegar sé ljóst að þegar taka þurfi stjórnvaldsákvörðun í máli, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 12. gr. frumvarpsins, þá gildi stjórnsýslulögin. Ráðuneytið bendir á í minnisblaði sínu að ekki hafi verið talið rétt að afnema þær réttaröryggisreglur sem stjórnsýslulögin veita borgurunum í þessum málum þrátt fyrir að taka þurfi ákvarðanir hratt og með litlum aðdraganda. Reglur stjórnsýslulaganna eru almennt matskenndar og kröfur þeirra því breytilegar eftir ákvörðunum hverju sinni. Þannig eru gerðar minni kröfur um rannsókn máls í þeim tilvikum þegar málshraði skiptir miklu máli og öfugt.
    Að þessu virtu telur nefndin ekki tilefni til að bregðast frekar við athugasemd Lögmannafélagsins hvað þennan þátt málsins varðar. Nefndin tekur fram að það heyrir til undantekninga að stjórnvaldsákvarðanir séu teknar munnlega. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti ber að jafnaði að staðfesta slíkar ákvarðanir skriflega eftir á svo fljótt sem verða má. Telur nefndin ljóst af orðalagi ákvæðisins að munnleg ákvörðun á grundvelli þess verður eingöngu tekin þegar brýnt er að bregðast við án tafar og ef töf á töku ákvörðunar kann að valda hættu.

Rannsóknarskylda og mat á meðalhófi.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að gætt væri að meðalhófi við töku ákvarðana um aðgerðir sem heimilaðar eru í frumvarpinu. Þær aðgerðir sem heimilaðar eru væru þess eðlis að þær gengju að nokkru á stjórnarskrárvarin réttindi borgara, svo sem friðhelgi einkalífs og atvinnufrelsi.
    Tekur nefndin undir þau sjónarmið og telur mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda, sama hvers eðlis þær eru, gangi aldrei lengra en brýna nauðsyn ber hverju sinni. Ljóst er að þeim aðgerðum sem lagðar eru til í frumvarpinu ber að aflétta eftir því sem dregur úr nauðsyn þeirra, eða eftir atvikum ber stjórnvöldum að leggja til aðrar og vægari aðgerðir eftir að því ástandi sem á þær kallaði léttir.
    Aðgerðum þeim sem lagðar eru til í frumvarpinu og heimilaðar eru með setningu reglna á grundvelli þess er almennt ætlaður stuttur gildistími, samanborið við aðrar reglur sem stjórnvöld setja. Hvað varðar mat stjórnvalda á því hvort tilteknar ákvarðanir séu réttlætanlegar á hverjum tímapunkti, telur nefndin ljóst að frumvarpið beri með sér skýra kröfu um jafnræði og að þeim aðgerðum sem þar eru lagðar til verði ekki beitt nema að undangengnu mati á því hvort vægari úrræði nái sama markmiði. Hið sama eigi við þegar aðgerðum stjórnvalda er aflétt.
    Hvað það varðar hvort réttlætanlegt sé að beita aðgerðum gagnvart tilteknum aðilum, hópum eða starfsstéttum, leiðir það jafnframt af skýrri kröfu stjórnarskrárinnar um jafnræði sem og skráðum og óskráðum meginreglum um meðalhóf við töku ákvarðana. Meðalhófsmat stjórnvalda skal ávallt fara fram með þeim hætti að athugað sé hvort þær aðgerðir sem gripið er til stangist á við réttindi annarra og þá jafnframt metið hvort vægari úrræði nái sama marki. Þá telur nefndin einnig mikilvægt að eftir því sem unnt er verði horft til heildarhagsmuna samfélagsins, þ.m.t. efnahagslegra, félagslegra og lýðheilsufræðilegra þátta. Þá verði jafnframt horft til hlutlægra mælikvarða eftir því sem við getur átt og aðgerðir stjórnvalda verði eins fyrirsjáanlegar og unnt er hverju sinni.
    Nefndin brýnir fyrir sóttvarnayfirvöldum að tryggja að þær ákvarðanir sem teknar verða á grundvelli sóttvarnalaga byggist ávallt á áðurnefndu meðalhófsmati og að þeim verði aflétt eins fljótt og verða má.

Smitrakning.
    Í frumvarpinu er lagt til að hugtakið smitrakning verði skilgreint í lögunum og um hana fjallað sem eitt þeirra úrræða sem sóttvarnalæknir getur gripið til. Nefndin áréttar að smitrakning er ein þeirra aðferða sem gefið hefur hvað besta raun í baráttunni við yfirstandandi heimsfaraldur kórónuveiru. Smitrakning hefur reynst vel við að fylgjast með útbreiðslu kórónuveirunnar og í mörgum tilvikum hefur hún komið í veg fyrir að smit dreifðist. Smitrakning er mikilvægur hlekkur í keðju þeirra aðgerða sem beitt hefur verið til að stemma stigu við heimsfaraldrinum og án hennar væri ljóst að stjórnvöld hefðu þurft að grípa til róttækari aðgerða.

Hagnýt þekking heilbrigðisstétta.
    Nefndin telur mikilvægt, líkt og bent er á í umsögn Sjúkraliðafélags Íslands, að heilbrigðisyfirvöld leitist við að nýta sér í auknum mæli þá reynslu sem sjúkraliðar og aðrar heilbrigðisstéttir hafa af umönnun sjúklinga og nærþjónustu við þá. Hagnýt reynsla sjúkraliða, sem og annarra heilbrigðisstétta, er gott innlegg m.a. í starfshópa og ráð sem ætlað er að bregðast við aðstæðum sem skapast þegar farsóttir geisa.
    Tekur nefndin undir ábendingarnar og hvetur til þess að hagnýt reynsla og þekking sjúkraliða og annarra heilbrigðisstétta af vinnu með sjúklingum verði nýtt enn frekar. Slík reynsla gæti nýst við stefnumótun og ráðleggingar, m.a. hjá sóttvarnaráði og við vinnslu stjórnvaldsfyrirmæla heilbrigðisráðherra eða undirbúning þeirra hjá sóttvarnalækni.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Skilgreiningar (1. gr.).
    Í umsögn Landspítala er á það bent að skilgreining laganna á orðinu sótthreinsun kunni að vera ófullnægjandi. Bendir Landspítali á að sótthreinsun sé ferli sem óvirkjar eða drepur flestar örverur en vinnur ekki á sporum. Sótthreinsun húðar fer fram með efnum en sótthreinsun umhverfis og hluta fer fram með efnum eða hita. Árangursrík sótthreinsun byggist á góðri hreinsun.
    Nefndin tekur undir ábendingu Landspítala og leggur til breytingu á skilgreiningu orðsins sótthreinsun, í samræmi við ábendingar Landspítala.
    Í erindi sem nefndinni barst frá Gunnari Tómassyni, lektor í faraldsfræðum, sem jafnframt situr í sóttvarnaráði, er vikið að skilgreiningu frumvarpsins á orðinu farsótt. Bent er á að skilgreining frumvarpsins kunni að vera of víðtæk og ekki í takt við almenna málvenju. Lögð er til ný skilgreining, svohljóðandi: Smitandi sjúkdómur, innan samfélags eða landsvæðis, sem er nýr eða í tíðni sem er umfram það sem skýra má með því að um tilviljun sé að ræða.
    Nefndin tekur undir ábendinguna og leggur til breytingu á skilgreiningunni í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í áður tilvísuðu erindi.
    Þá leggur nefndin til að við 1. gr. frumvarpsins verði bætt skilgreiningu á sóttvarnahúsi. Sóttvarnahús verði skilgreind sem staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé. Eftir atvikum getur sóttvarnahús nýst þeim einstaklingum sem búsettir eru á landsbyggðinni og eiga um langan veg að sækja.
    Nefndin bendir á að það kunni að vera mismunandi eftir eðli faraldra og þeirra sjúkdóma sem þeir valda hversu íþyngjandi úrræði sóttkví þarf að vera á hverjum tíma. Alvarleiki hvers faraldurs getur verið breytilegur frá einum tíma til annars. Nefndin telur eðlilegt að sóttvarnayfirvöld leitist við hverju sinni að hafa þau úrræði sem beita skal eins lítið íþyngjandi og kostur er að teknu tilliti til alvarleika faraldurs hverju sinni. Þá telur nefndin einnig ljóst að heimildir stjórnvalda til töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana leiði eðli máls samkvæmt til heimildar þeirra til að beita takmarkaðri og vægari úrræðum.

Sóttvarnahús (4. gr.).
    Nefndin leggur til breytingu á 4. gr. frumvarpsins, þess efnis að við a-lið 4. gr. bætist nýr töluliður þar sem fjallað er um heimild sóttvarnalæknis til að opna sóttvarnahús, sem nánar er skilgreint í orðskýringu. Telur nefndin mikilvægt að skýrlega sé kveðið á um að sóttvarnalæknir hafi heimildir til að opna slíkt hús á vegum stjórnvalda.

Hlutverk sóttvarnaráðs (5. gr.).
    Í umsögn Læknafélags Íslands bendir félagið m.a. á að það hefði talið eðlilegra að viðhalda og styrkja stefnumótandi hlutverk sóttvarnaráðs. Læknafélaginu hafa borist ábendingar um að í yfirstandandi heimsfaraldri hafi lítið verið leitað til sóttvarnaráðs til ráðgjafar. Mikilvægt er að leggja áherslu á ráðgefandi hlutverk sóttvarnaráðs auk þess sem sóttvarnaráð komi að mótun stefnu í sóttvörnum.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram athugasemdir sama efnis. Nefndin tekur undir ábendingar Læknafélags Íslands og leggur til að 5. gr. frumvarpsins verði felld brott. Leggur nefndin áherslu á það að leitast verði við að móta breytt hlutverk sóttvarnaráðs í samráði við hlutaðeigandi aðila í fyrirhugaðri heildarendurskoðun laganna.

Samræmi við stjórnarskrá (10. gr.).
    Í 10. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 12. gr. sóttvarnalaga sem fjallar um sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands. Er m.a. lagt til að í 2. mgr. 12. gr. verði sérstaklega kveðið á um heimild ráðherra til að ákveða, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, um stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann. Jafnframt er lagt til að við 12. gr. laganna bætist ákvæði þess efnis að ekki skuli beita úrræðum samkvæmt greininni nema brýna nauðsyn beri til til verndar heilsu og lífi manna og að við beitingu ráðstafana, sem og afléttingu þeirra, skuli gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til verndarhagsmuna, einkum þeirra sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að.
    Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands er bent á að hvorki megi skerða eignarrétt né atvinnufrelsi nema með lagaboði og að því tilskildu að almenningsþörf krefji, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrirmælin hafi í dómaframkvæmd verið túlkuð þannig að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni heldur verði löggjöfin að mæla fyrir um meginreglur þar sem fram komi umfang og takmörk þeirrar réttindaskerðingar sem talin er nauðsynleg. Laganefndin telur æskilegt að mæla nánar fyrir um takmörk og umfang skerðingar á atvinnufrelsi og eignarréttindum í lagatextanum en lagt er til í frumvarpinu. Bendir laganefndin á að í athugasemdum um 10. gr. í greinargerð með frumvarpinu sé að einhverju leyti fjallað um slík tilvik. Þar kemur fram að stöðvun atvinnurekstrar hafi hingað til stuðst við gildandi heimild til að kveða á um samkomubann og hafi beinst að starfsemi þar sem margt fólk kemur saman eða er í miklu návígi eða þar sem eðli starfsemi krefst snertingar. Þá kemur fram að hingað til hafi ekki verið gripið til útgöngubanns hér á landi og að vegna þess hve íþyngjandi slík ráðstöfun geti verið þurfi að gjalda varhug við beitingu þess. Aðeins verði beitt útgöngubanni í algerum neyðartilvikum.
    Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti er að nokkru leyti tekið undir athugasemdir Lögmannafélags Íslands, þó er á það bent að varhugavert kunni að vera að afmarka heimild til stöðvunar atvinnurekstrar einungis við það hvernig COVID-19-sjúkdómurinn smitast. Telur ráðuneytið að unnt sé að bregðast við athugasemdinni með þeim hætti að bæta nýjum málslið við d-lið 10. gr. frumvarpsins.
    Sambærilegar athugasemdir er að finna í umsögn Samtaka atvinnulífsins. Þar er vikið að mikilvægi þess að takmörkun á atvinnu- og eignarrétti verði að eiga sér skýra stoð í lögum.
    Að þessu virtu leggur nefndin til að d-liður 10. gr. frumvarpsins verði nánar útfærður og tiltekið að ekki skuli stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér áhættu á útbreiðslu farsóttar, svo sem vegna fjölda fólks sem þar kemur saman eða návígis þess eða snertingar.
    Þá leggur nefndin einnig til breytingar á b-lið 10. gr. frumvarpsins og samhliða því verði skilgreining 1. gr. um útgöngubann felld brott. Fyrir nefndinni kom fram að ekki hefði verið talin þörf á að setja útgöngubann í yfirstandandi faraldri og að ólíklegt væri að til slíks banns kæmi. Telur nefndin að umfjöllun um jafnviðamikið inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi fólks og útgöngubann felur í sér þarfnist ítarlegri umfjöllunar sem verður betri staður fundinn við heildarendurskoðun laganna. Með því móti er jafnframt unnt að tryggja skjótari afgreiðslu frumvarpsins.

Aðgerðir á landamærum (11. gr.).
    Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um þær ráðstafanir sem ráðherra er heimilt að kveða á um að ferðamenn undirgangist. 4. tölul. 2. mgr. fjallar um reglugerðarheimild ráðherra til að kveða á um að við komu eða brottför og af ástæðum er varða lýðheilsu megi krefjast þess að ferðamenn undirgangist læknisskoðun. Ekki skuli beita inngripum nema gagnvart þeim sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir smiti.
    Telur nefndin mikilvægt að auka á skýrleika ákvæðisins svo að það nái einnig til þeirra sem gætu hafa orðið fyrir smiti og leggur því til breytingar þess efnis.
    Í a-lið 4. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að skylda ferðamenn til að undirgangast ónæmisaðgerðir. Nefndin telur ákvæðið ekki þjóna þeim markmiðum sem því er ætlað og leggur til breytingar þess efnis að áðurnefndur a-liður verði felldur brott. Í stað hans verði kveðið með skýrari hætti á um að meðal þeirra læknisskoðana sem um ræðir séu sjúkdómsskimun með stroki úr nef- eða munnholi eða annars konar heilbrigðisskoðun. Þá telur nefndin ljóst að það leiði af heimild frumvarpsins til að beita hvort tveggja heilbrigðisskoðun og sóttkví gagnvart ferðamönnum að unnt sé að krefjast þess að ferðamenn undirgangist tvöfalda skimun með sóttkví á milli.
    Mörg þeirra úrræða sem 11. gr. frumvarpsins kveður á um eru í eðli sínu íþyngjandi og telur nefndin mikilvægt, m.a. í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga og í samræmi við stjórnarskrá, að við heildarendurskoðun sóttvarnalaga verði sérstaklega horft til þessara ákvæða og árangur af þeim metinn í ljósi yfirstandandi heimsfaraldurs kórónuveiru.

Tilkynningarskylda ráðherra (12. gr.).
    Nefndin telur mikilvægt að heilbrigðisráðherra verði falið að upplýsa Alþingi reglulega um framvindu smitsjúkdóma og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til til að bregðast við útbreiðslu þeirra. Nefndin leggur því til breytingu á 12. gr. frumvarpsins þess efnis að við hana bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um skyldu heilbrigðisráðherra til að upplýsa Alþingi um þær sóttvarnaaðgerðir sem varað hafa lengur en í tvo mánuði. Vari aðgerðir lengur en í tvo mánuði skuli heilbrigðisráðherra skila skýrslu til þingsins eigi sjaldnar en á mánaðarfresti að þeim tíma liðnum. Nefndin telur einnig mikilvægt að heilbrigðisráðherra hafi, eftir því sem tilefni þykir til, samráð við aðra ráðherra í ríkisstjórn um skýrslugjöf sína og að aðrir ráðherrar skili eftir atvikum sjálfstæðum skýrslum til þingsins um framvindu sinna málaflokka og áhrif sóttvarnaaðgerða á þá.
    Þá brýnir nefndin það fyrir stjórnvöldum að haga upplýsingagjöf eftir þeim áhrifum sem aðgerðir hverju sinni kunna að hafa á grundvallarréttindi almennings og lögaðila og telur eðlilegt að metið sé hverju sinni hvort þörf sé á tíðari upplýsingagjöf, svo sem með skýrslugjöf eða minnisblöðum til velferðarnefndar og eftir atvikum til annarra fastanefnda Alþingis.

Kæra á stjórnvaldsákvörðunum sóttvarnalæknis (13. gr.).
    Fyrir nefndinni var á það bent að samkvæmt orðalagi 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins væri sóttvarnalækni falið að vera sóknaraðili þeirra mála sem borin eru undir dóm vegna töku ákvörðunar hans um að einstaklingur skuli sviptur frelsi sínu. Samkvæmt sóttvarnalögum skal sóttvarnalæknir hafa sérþekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Nefndin telur óeðlilegt að gera þá kröfu til þess sem gegnir starfinu að hann sé jafnframt löglærður. Telur nefndin því rétt að í ákvæði 13. gr. verði kveðið á um það að sóttvarnalæknir, eða eftir atvikum löglærður fulltrúi embættis landlæknis, skuli vera sóknaraðili í þeim málum sem þar um ræðir.

Frestir í kærumálum (14. gr.).
    Í 13. og 14. gr. frumvarpsins er lagt til að þrjár nýjar greinar komi í stað 15. gr. sóttvarnalaga þar sem kveðið verði á um málsmeðferð um lögmæti stjórnvaldsákvörðunar sem sviptir einstakling frelsi sínu fyrir dómi. Í 2. mgr. b-liðar 14. gr. frumvarpsins er kveðið á um að úrskurði dómara um það hvort stjórnvaldsákvörðun skuli staðfest megi skjóta til Landsréttar með kæru og að um hana fari eftir almennum reglum um kæru í einkamálum eftir því sem við á. Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. mgr. 15. gr. gildandi sóttvarnalaga.
    Í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins kemur fram það sjónarmið að mæla þurfi fyrir um skemmri fresti sé ætlunin að láta ákvæði laga um meðferð einkamála að öðru leyti gilda um meðferð kærumála. Bendir laganefndin á að hafa megi til hliðsjónar fresti samkvæmt XXX. kafla laga um meðferð sakamála í því samhengi.
    Í minnisblaði frá ráðuneytinu kemur fram að frestir í kærumálum hafi komið til skoðunar hjá starfshópnum sem falið var að skrifa drög að frumvarpi. Það hafi verið mat starfshópsins að sama hversu langur kærufrestur væri samkvæmt sóttvarnalögum mætti almennt gera ráð fyrir að ef ætlunin væri að kæra úrskurð í þessum málum yrði það gert samstundis eða mjög fljótt. Hins vegar væri ekki útilokað að sá sem úrskurðaður væri í einangrun í 15 sólarhringa vildi og hefði lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð eftir nokkra daga í einangrun.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem reifuð eru í minnisblaði ráðuneytisins um að kærufrestir sakamálalaga séu vissulega styttri, en telur jafnframt ljóst að flestir þeirra sem sæta þeim aðgerðum sem hér um ræðir kæri slíka ákvörðun strax. Lög um meðferð sakamála geri almennt ráð fyrir því að málsmeðferð sé hraðari og frestir styttri en í þeim tilvikum sem mál eru rekin fyrir dómstólum á grundvelli einkamálalaga. Að þessu virtu telur nefndin að almennar reglur sakamálalaga séu betur til þess fallnar að ná fram markmiði laganna um að tryggja réttarvernd þeirra sem sviptir hafa verið frelsi sínu vegna sóttvarnaaðgerða og leggur því til breytingu þess efnis.

Heilbrigðisskoðanir.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við það að í frumvarpinu væri notast við orðið læknisskoðun. Ljóst væri að það heilsufarslega mat sem um væri að ræða væri framkvæmt af ýmsum heilbrigðisstéttum, svo sem læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, erfðafræðingum og öðrum vísindamönnum. Var á það bent að orðið heilbrigðisskoðun væri fyllilega skýrt til að ná til allra þessara aðila og að orðskýring 6. tölul. 1. gr. um „læknisskoðun“ þarfnaðist ekki mikilla breytinga svo að hún gæti átt jafnt við um allar þær heilbrigðisstéttir sem komið hafa að því að ákvarða heilbrigðisástand einstaklinga í yfirstandandi heimsfaraldri.
    Tekur nefndin undir þau sjónarmið og telur mikilvægt í ljósi fenginnar reynslu að skýra orðalag frumvarpsins þannig að það nái til allra þeirra viðurkenndu heilbrigðisstarfsmanna sem ákvarða heilbrigðisástand einstaklinga, hvort sem er með líkamsskoðun eða með öðru móti.
    Með vísan til þess sem að framan er rakið leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Helga Vala Helgadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Sara Elísa Þórðardóttir og Sigríður Á. Andersen skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.


Alþingi, 26. janúar 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Sara Elísa Þórðardóttir,
með fyrirvara.
Sigríður Á. Andersen,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.