Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 823  —  492. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2020.


1. Inngangur.
    Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Á hefðbundnu ári hittast meðlimir ráðsins tvisvar á ári, annars vegar á þemaráðstefnu ráðsins að vetri og hins vegar á ársfundi að hausti. Að þessu sinni fór meginþorri starfsins fram í fjarfundum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu og vann að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi. Í júní samþykkti Alþingi tvær þingsályktanir byggðar á ályktunum ársfundar Vestnorræna ráðsins árið 2019. Þær fjölluðu annars vegar um niðurgreiðslu flugfargjalda fyrir ungmenni milli vestnorrænu landanna og hins vegar um stofnun vestnorrænna umhverfisverðlauna hafsins. Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, gegndi starfi formanns Vestnorræna ráðsins fram að ársfundi ráðsins í nóvember og tók fyrir þess hönd þátt í fundum á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál.
    Vestnorrænu tungumálin voru viðfangsefni þemaráðstefnu ársins sem haldin var í Þórshöfn í Færeyjum í janúar. Rætt var um áskoranir við að vernda tungumálin á tímum stafrænnar byltingar og alþjóðavæðingar. Fundarmenn ítrekuðu mikilvægi vestnorræns samstarfs til að takast á við þessar áskoranir, t.d. við þróun máltækni og kynningu á bókmenntum erlendis.
    Samhliða þemaráðstefnunni ræddu meðlimir ráðsins hvernig hægt væri að gera ályktanir ráðsins markvissari og árangursríkari. Í kjölfar umræðnanna var málið tekið fyrir á vettvangi skrifstofu ráðsins og í forsætisnefnd og á ársfundi var samþykkt innri ályktun um verklag við ályktanagerð. Samkvæmt ályktuninni er mælst til þess að samráð verði haft milli landsdeilda og við sérfræðinga um efni ályktana í aðdraganda ársfundar. Einnig er mælst til þess að ályktanir verði afskrifaðar eftir þrjú ár frá samþykkt þeirra.
    Heimsfaraldur kórónuveiru var tilefni yfirlýsingar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í mars, þar sem ríkisstjórnir landanna þriggja voru hvattar til að vinna saman gegn útbreiðslu veirunnar. Frá marsmánuði var öll starfsemi Vestnorræna ráðsins með fjarfundarbúnaði og unnu starfsmenn skrifstofu ráðsins að mestu að heiman. Ráðið átti einnig fjarfundi með samstarfsaðilum, Norðurskautsráði, þingmannanefnd um norðurskautsmál og Evrópuþinginu. Vestnorræni dagurinn var haldinn hátíðlegur í september með málstofum í Norræna húsinu sem voru sendar út á netinu. Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins árið 2020 fyrir bókina Langelstur að eilífu, en verðlaunin voru afhent í Færeyjum við fámenna athöfn þar sem tilnefndir höfundar tengdust með fjarfundarbúnaði.
    Forsætisnefnd fundaði reglulega með fjarfundarbúnaði og rætt var um að aukin notkun fjarfundarbúnaðar gæti gert forsætisnefnd kleift að eiga nánara samstarf í framtíðinni. Á fundum forsætisnefndar var fastur liður að fara yfir stöðuna varðandi útbreiðslu kórónuveirunnar í löndunum þremur. Vegna einangrunar sinnar áttu vestnorræn stjórnvöld auðveldara með að koma í veg fyrir að smit bærust inn í löndin yfir landamærin en mörg önnur Evrópulönd. Sumarið 2020 var staðan orðin svo góð að meðal ráðsmeðlima ríkti bjartsýni á að hægt yrði að halda ársfund á Íslandi í september. Eftir að smitum fjölgaði í lok sumars var hins vegar ákveðið að fresta ársfundinum fram í nóvember og að lokum að halda hann með fjarfundarbúnaði, í fyrsta sinn í sögu ráðsins.
    Vestnorræna ráðið samþykkti þrjár ályktanir á ársfundi sínum, um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlanda, um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða og um stuðning vestnorrænu landanna við aukaaðild Færeyja og Grænlands að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Árið 2016 var ákveðið að auka við fjárráð ráðsins og ráða annan starfsmann í hálft starf til að sinna málefnum norðurslóða og Norðurskautsráðs. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Samþykki þingið ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 sem fjallaði um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.
    
3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi ársins 2020 voru aðalmenn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins Guðjón S. Brjánsson, formaður, þingflokki Samfylkingar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingflokki Samfylkingar, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Sú breyting varð á skipan Íslandsdeildar hinn 1. október að Guðmundur Ingi Kristinsson tók sæti Ingu Sæland sem aðalmanns fyrir hönd þingflokks Flokks fólksins jafnframt því sem Inga Sæland tók sæti varamanns. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd um málefni norðurslóða var Bryndís Haraldsdóttir og varamaður var Lilja Rafney Magnúsdóttir. Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt.
    Guðjón S. Brjánsson gegndi embætti formanns Vestnorræna ráðsins fram að ársfundi í nóvember. Fyrir hönd ráðsins tók hann þátt í fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál í Strassborg í Frakklandi í febrúar og fjarfundi þingmannanefndarinnar í júní.
    Í tilefni af vestnorræna deginum, 23. september, skipulagði Vestnorræna ráðið málstofur um mikilvægi vestnorrænnar samvinnu annars vegar og um vestnorræna menningu hins vegar. Viðburðunum var streymt á netinu vegna samkomutakmarkana. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins birti einnig grein í Fréttablaðinu í tilefni dagsins. Þá tók Vestnorræna ráðið þátt í skipulagningu á röð rafrænna viðburða undir nafninu Icelandic Arctic Talks haustið 2020 ásamt rannsakendum og stofnunum á vettvangi norðurslóðamála. Þar tók Guðjón þátt í málstofu um ungt fólk á norðurslóðum.
    Íslandsdeild lagði fram tvær tillögur til þingsályktunar á 150. þingi byggðar á ályktunum Vestnorræna ráðsins frá ársfundi ráðsins árið 2019. Tillögurnar voru samþykktar á Alþingi í febrúar 2020. Þær fjölluðu annars vegar um niðurgreiðslu flugfargjalda fyrir ungmenni milli vestnorrænu landanna og hins vegar um stofnun vestnorrænna umhverfisverðlauna hafsins.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2020.
    Þemaráðstefna ársins var haldin í Færeyjum í lok janúar. Ársfundi ráðsins var frestað fram á haustið vegna heimsfaraldursins og að lokum haldinn með fjarfundarbúnaði. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði einnig með fjarfundarbúnaði á árinu auk þess sem hún átti fjarfundi með vestnorrænum samstarfsráðherrum og sendinefnd Evrópuþingsins.

Þemaráðstefna í Þórshöfn 28.–30. janúar 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Guðjón S. Brjánsson, formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Norræna húsinu í Þórshöfn í Færeyjum og bar yfirskriftina Tungumál á Vestur-Norðurlöndum. Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfs-ráðherra Norðurlanda í landsstjórn Færeyja, hóf ráðstefnuna. Hann sagði það áskorun fyrir ungt fólk, sérstaklega á tímum stafrænnar tækni, að halda móðurmáli sínu. Íbúum Færeyja, sem eru rúmlega 50.000 talsins, hefði hingað til tekist að standa vörð um tungumál sitt en netið ógnaði því um þessar mundir. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var fulltrúi Norðurlandaráðs á þemaráðstefnunni. Hann sagði tungumálið mikilvægan þátt í sjálfsmynd fólks. Gott vald á móðurmálinu hefði úrslitaáhrif um getu fólks til að öðlast menntun og eiga gott líf. Hann ítrekaði einnig mikilvægi þess að styrkja kunnáttu fólks á Norðurlöndum í norrænum tungumálum til að gera þeim kleift að eiga samskipti við nágranna sína.
    Anna Björk Nikulásdóttir frá Almannarómi ræddi um áskoranir við að tryggja að íslenska verði áfram lifandi mál á tímum stafrænnar byltingar. Hún benti á að nauðsynlegt væri að hægt væri að nota tungumálið í samskiptum við tæki, bæði í rituðu og töluðu máli. Alþjóðleg fyrirtæki í þróun máltækni væru ekki að hugsa um þarfir smárra málsamfélaga og því þyrftu opinberir aðilar að fjármagna nauðsynlegar rannsóknir og þróun. Anna Björk ítrekaði að öll tækniþróun á vegum Almannaróms væri öllum opin. Hún sagði einnig frá samstarfi við færeyska fræðimenn um þróun máltækni og sagði mikla möguleika fyrir hendi varðandi aukið samstarf. Sandra Saxov Lamhauge og Iben Nyholm Debess sögðu frá þróun raddstýringar á færeysku, en verkefnið er styrkt af hinu opinbera. Í máli þeirra kom fram að þegar væru til staðar ýmsir mikilvægir þættir, svo sem kennsluefni, hljóðgervill og villuleit í texta, auk þess sem verið væri að þróa tækni til þýðinga. Guðjón S. Brjánsson tók þátt í pallborðsumræðum í kjölfar erindanna og fagnaði þróun máltækni á Vestur-Norðurlöndum. Hann ítrekaði að ekki væri spurning um hvort tungumálin lifðu stafræna byltingu af heldur hvernig. Vestnorrænum tungumálum væri mjög ógnað af enskum áhrifum en góðu fréttirnar væru að tungumálin væru töluð dagsdaglega.
    Í umræðum um stöðu vestnorrænna tungumála á árinu 2020 sagði Beatrine Heilmann frá grænlensku málstöðinni mikilvægt að hafa í huga að tvö tungumál væru töluð í grænlensku samfélagi. Niðurstöður stofnunarinnar sýndu að um helmingur íbúa landsins talaði grænlensku og hefði takmarkaðan skilning á dönsku, um 20% væru tvítyngd en sterkari í grænlensku, um 20% tvítyngd en sterkari í dönsku og um 10% íbúanna töluðu einungis dönsku. Að hennar mati skorti heildstæða stefnu á Grænlandi að því er snerti grænlensku sem tæki mið af þessum raunveruleika og auknum áhrifum ensku. Hún benti á að forsenda þess að stunda framhaldsnám á Grænlandi væri að hafa gott vald á dönsku eða ensku þar sem ekki væri gott framboð af kennsluefni á grænlensku. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sagði íslenskt mál standa styrkum fótum þrátt fyrir mikil áhrif af ensku málsamfélagi á netinu. Börn og unglingar væru á netinu í sífellt meiri mæli og hefði það áhrif á skoðanir þeirra og viðhorf. Sífellt yngri börn væru útsett fyrir áhrifum enskrar tungu og tæknin yrði æ gagnvirkari. Áhrifin væru þau að skólabörn hefðu í auknum mæli samskipti hvert við annað á ensku. Zakaris Svabo Hansen, prófessor í færeyskri málfræði við Fróðskaparsetur Færeyja, sagði stöðu færeysku aldrei hafa verið sterkari, hvort sem horft væri til fjölmiðla, stjórnvalda eða skólakerfisins. Áskorunin væri að standa vörð um málið á tímum stafrænnar þróunar og tæknibyltingar. Nauðsynlegt væri að tryggja framboð á kennsluefni, stafrænum orðabókum, bókmenntum og stafrænu afþreyingarefni á færeysku. Í pallborðsumræðum benti Guðjón S. Brjánsson á að íbúar Vestur-Norðurlanda hefðu yfir að ráða þekkingu og fagfólki sem myndi hjálpa þeim að vernda tungumálin. Hann benti á að danska hefði ógnað stöðu íslensku fyrir um 200 árum og þótt fínna mál. Samstillt átak stjórnmálamanna, listamanna og rithöfunda hefði aukið veg og virðingu íslenskunnar.
    Niels Jákup Thomsen, útgefandi, og Urd Johannesen frá Miðstöð færeyskra bókmennta ræddu um áskoranir við þýðingar og útgáfu bóka á smáum málsvæðum. Thomsen sagði að erfitt væri að skila hagnaði af útgáfu bóka á færeysku og þess vegna hefðu stjórnvöld styrkt bókaútgáfu frá árinu 1986. Sala á færeyskum bókum erlendis hefði þó aukist til muna eftir að Færeyingum var boðið að vera með á íslenska básnum á bókamessunni í Frankfurt árið 2011. Að mati Thomsens væru barna- og unglingabókmenntaverðlaun Vestnorræna ráðsins ekki bara gæðastimpill fyrir bókaforlög heldur fælu þau einnig í sér aukna möguleika á sölu bóka erlendis þar sem bækurnar væru þýddar á hin vestnorrænu málin og dönsku. Í pallborðsumræðum í kjölfarið lýsti Bryndís Haraldsdóttir ánægju með samstarf Íslendinga og Færeyinga við kynningu á bókmenntum erlendis. Hún sagði nauðsynlegt að stjórnvöld styddu við bókaútgáfu, sérstaklega þýðingar erlendra bóka. Sem betur fer lifði bókin enn þá góðu lífi þrátt fyrir spádóma um hið gagnstæða frá því um aldamótin. Ef eitthvað væri hefði bókin aðlagast stafrænni þróun þar sem eftirspurn eftir bæði rafbókum og hljóðbókum væri sífellt að aukast.
    Á ráðstefnunni var tilkynnt um tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Vestnorræna ráðsins árið 2020. Einnig hlýddu ráðstefnugestir á erindi þriggja ungra rithöfunda um móðurmál sitt en það voru þau Pivinnguaq Mørch frá Grænlandi, Anna Malan Jógvansdóttir frá Færeyjum og Fríða Ísberg frá Íslandi sem tóku til máls. Þá var fjallað um vestnorrænu málin sem annað mál aðfluttra íbúa og um átaksverkefni á Grænlandi þar sem ungmenni voru hvött til að skrifa sögur fyrir börn og unglinga.
    Í lokaávarpi sínu lagði Ane Lone Bagger, ráðherra utanríkis-, mennta- og menningarmála á Grænlandi, áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um örsmá tungumál á borð við þau vestnorrænu. Tungumálið væri auðlind og verkfæri og mótaði sjálfsmynd íbúanna. Helgi Abrahamsen, umhverfis- og atvinnuvegaráðherra Færeyja, sagðist sjá tækifæri í stafrænni þróun fyrir smá tungumál. Tungumálið þrifist vel á samfélagsmiðlum og þróaðar hefðu verið 15 stafrænar orðabækur. Guðjón S. Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, þakkaði fyrir innlegg ráðstefnugesta og ítrekaði að tungumálið gegndi lykilhlutverki í menningu og samfélagi landanna. Nauðsynlegt væri að tryggja að tungumál vestnorrænu landanna yrðu áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins.
    Daginn fyrir ráðstefnuna hélt Vestnorræna ráðið innri fund sinn í bænum Gjógv. Á fundinum ræddu meðlimir ráðsins um ályktanir þess, undirbúning þeirra og árangur. Í umræðunum komu fram þau sjónarmið að auka skyldi samráð við sérfræðinga, fulltrúa ráðuneyta og hagaðila í undirbúningsvinnu við ályktanir ráðsins og að landsdeildirnar þrjár ykju samráð sín á milli og legðu til breytingartillögur við drög annarra landsdeilda að ályktunum. Til þess að ályktanirnar hefðu tilætluð áhrif og bæru árangur væri ekki gott að hafa of margar ályktanir í gildi á hverjum tíma. Ákveðið var að fela forsætisnefnd og skrifstofu ráðsins að gera tillögur um fyrirkomulag vinnu við ályktanir ráðsins.
    Þá var rætt um tímasetningar ársfunda og þemaráðstefna og voru fundarmenn sammála um að erfitt væri að finna betri tíma fyrir reglubundna fundi ráðsins. Bent var á að mikilvægt væri að halda fundi ráðsins í hinum ýmsu byggðum landanna þriggja til að ráðsmeðlimir sæju fleiri staði en höfuðborgir landanna og upplifðu þannig lifnaðarhætti íbúanna. Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, sagði stuttlega frá starfi skrifstofunnar frá ársfundi. Meðal verkefna skrifstofu var að undirbúa samning ráðsins við Alþingi um aðstöðu ráðsins í húsakynnum Alþingis og ýmsa þjónustu við skrifstofu ráðsins.
    Í kjölfar ráðstefnunnar fóru meðlimir Vestnorræna ráðsins og gestir í vettvangsheimsóknir í fyrirtæki og stofnanir í Þórshöfn fimmtudaginn 30. janúar. Meðal viðkomustaða voru framhaldsskólinn Glasir, færeyska ríkisútvarpið og Bakkafrost, auk þess sem ráðsmeðlimir kynntu sér hvernig miðaði við gerð jarðganga til Straumeyjar.

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 15. júní 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, Vivian Motzfeldt, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Steen Løgstrup Nielsen, starfsmaður ráðsins, Rannvá Sólheim, ritari færeysku landsdeildarinnar, og Mette B. Berthelsen, ritari grænlensku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá voru undirbúningur undir ársfund ráðsins í september og viðbrögð landanna við heimsfaraldri kórónuveiru.
    Guðjón S. Brjánsson stýrði fundinum sem formaður Vestnorræna ráðsins. Formenn landsdeildanna þriggja sögðu stuttlega frá því nýjasta í landsmálunum og frá viðbrögðum við útbreiðslu kórónuveirunnar. Vivian Motzfeldt greindi frá því að landamæri Grænlands hefðu verið opnuð gagnvart ferðalöngum frá Danmörku þennan sama dag. Búist væri við um 600 farþegum til landsins fyrstu vikuna eftir opnunina. Grænland hefði sloppið vel í kórónuveirufaraldrinum, aðeins 13 hefðu veikst og öllum væri batnað. Enn væru strangar reglur í gildi og þyrftu allir sem vildu ferðast til Grænlands að fara í skimun fyrir kórónuveirunni í Danmörku fyrir brottför. Ef niðurstaðan væri neikvæð þyrfti viðkomandi samt að fara í fimm daga sóttkví við komuna til Grænlands og taka annað próf. Samkomubann væri enn í gildi og miðaðist við fleiri en 100 manns. Talsverður ótti væri við opnunina þar sem margar smærri byggðir hefðu mjög takmarkaða heilbrigðisþjónustu.
    Henrik Old sagði síðasta smitið hafa greinst í Færeyjum 22. apríl svo að ljóst væri að sjúkdómurinn hefði verið upprættur í Færeyjum. Alls hefðu 20% Færeyinga verið skimaðir. Opnað hefði verið fyrir ferðalög fólks frá Íslandi, Grænlandi, Danmörku, Þýskalandi og Noregi til Færeyja. Farþegar frá öðrum löndum þyrftu að fara í sóttkví við komuna til Færeyja. Öllum útihátíðum sumarsins hefði verið aflýst. Færeyska þingið hefði samþykkt aðgerðir til að aðstoða launþega og í bígerð væri aðstoð við iðnað og ferðaþjónustu. Old sagði kórónuveirufaraldurinn hafa haft talsverð áhrif á markaði og benti á að minnkandi eftirspurn væri eftir saltfiski og stofnfiski á markaði á Ítalíu og Spáni.
    Guðjón S. Brjánsson sagði frá því að Íslendingar hefðu opnað fyrir ferðalög til Íslands 15. júní. Búist væri við um sjö flugum á dag og 600 farþegum strax fyrsta daginn. Allir yrðu skimaðir fyrir kórónuveirunni við komu og yrði mögulegt að skima allt að 2.000 farþega á dag. Frá því að faraldurinn braust út hefðu Íslendingar skimað alls 63.000 manns og greint rúmlega 1.800 smit. Veitingastaðir og barir mættu hafa opið til kl. 11 að kvöldi en samkomubann miðaðist við 500 manns. Guðjón sagði mikið álag á Alþingi enda liði að því að þingi yrði frestað fyrir sumarið. Reiknað væri með því að halda þingfundi í lok ágúst og fram í byrjun september til að fjalla um endurskoðaða fjármálaáætlun og mál sem tengdust COVID-19.
    Sigurður Ólafsson greindi frá starfi ráðsins undanfarna mánuði, sem farið hefði fram í fjarvinnu að miklu leyti. Fundir Norðurskautsráðs, sem halda átti í apríl á Akureyri, hefðu fallið niður og sömuleiðis fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál. Skrifstofan hefði þó tekið þátt í fjarfundum þessara stofnana. Erfitt væri að skipuleggja haustið 2020 þar sem enn ríkti mikil óvissa varðandi þróun heimsfaraldursins og ferðatakmarkanir landa. Enn sem komið væri gerði skrifstofan þó ráð fyrir að halda ársfund ráðsins í Reykjavík í september og að taka þátt í Hringborði norðurslóða og Norðurlandaráðsþingi í Hörpu í október. Auk þess væri stefnt að því að halda fund forsætisnefndar með þingmannanefnd Evrópuþingsins í Þórshöfn í nóvember og að taka þátt í fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál í Washington. Sigurður sagðist einnig ætla að funda með grænlensku og færeysku landsdeildunum í heimaþingunum síðar á árinu. Hann sagði skrifstofuna langt komna með að skipuleggja starf ráðsins árið 2021, þótt enn væru ýmsir þættir óljósir. Fjárhagsáætlun, byggð á starfsáætlun, yrði send forsætisnefnd fljótlega.
    Sigurður upplýsti forsætisnefnd um undirritaðan samstarfssamning skrifstofunnar og Alþingis, sem tryggði stöðu skrifstofunnar í húsakynnum Alþingis til framtíðar. Einnig sagði hann frá undirbúningsvinnu í tengslum við hátíðahöld á vestnorræna daginn, 23. september. Vestnorrænu löndin þrjú hefðu skuldbundið sig til að verja 25.000 dönskum krónum til hátíðahaldanna ár hvert. Sigurður hvatti meðlimi forsætisnefndar til að þrýsta á um að menningarmálaráðuneyti þeirra nýtti það fé og skipulegði viðburði í tengslum við daginn. Sigurður sagðist sjálfur hafa lagt ríka áherslu á að við skipulagningu viðburða yrði haft samráð við Vestnorræna ráðið og að meðlimir ráðsins tækju þátt í pallborðsumræðum og ráðstefnum eftir því sem við ætti.
    Greint var frá því að ársreikningur Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2019 væri langt kominn. Vert væri að benda á að samkvæmt ársreikningi væri halli á rekstri. Það skýrðist af því að árið 2019 endurgreiddi ráðið þjóðþingunum afgang af rekstri ársins 2018, alls um 15 milljónir íslenskra króna. Ef þessi gjörningur væri tekinn til hliðar væri afgangur af rekstri ráðsins árið 2019 um 10 milljónir króna. Guðjón S. Brjánsson benti á að taka þyrfti afstöðu til þess hvort sá tekjuafgangur yrði endurgreiddur þjóðþingunum. Forsætisnefnd ákvað að taka afstöðu til þess á fundi sínum í ágúst.
    Forsætisnefnd ræddi fyrirkomulagið í kringum samþykkt ályktana ráðsins og eftirfylgd þeirra. Í ljósi umræðna ráðsmeðlima á innri fundi ráðsins í Færeyjum í janúar ákvað forsætisnefnd að taka upp nýtt vinnulag við ályktanagerð og eftirfylgd. Þannig mæltist forsætisnefnd til þess að drög að ályktunum yrðu, eftir því sem kostur væri, kynnt að vori hvert ár svo að unnt væri að gera athugasemdir við þær og umbætur. Einnig mundi forsætisnefnd leggja til að eldri ályktanir yrðu almennt afskrifaðar á þriðja ársfundi frá því að þær voru samþykktar. Forsætisnefnd samþykkti því að mæla með því við ársfund 2020 að afskrifa ályktanir Vestnorræna ráðsins frá ársfundi 2017 og eldri ályktanir.
    Forsætisnefnd samþykkti einnig að leggja fyrir ársfund drög að ályktun um aukið samstarf milli samstarfsráðherra landanna þriggja.
    Guðjón S. Brjánsson tilkynnti að hann hefði skrifað undir framlengingu á ráðningarsamningi við Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, til næstu fjögurra ára. Þá kvaddi forsætisnefnd fráfarandi ritara grænlensku landsdeildarinnar, Mette B. Berthelsen.

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 11. ágúst 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, Vivian Motzfeldt, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Steen Løgstrup Nielsen, starfsmaður ráðsins, Rannvá Sólheim, ritari færeysku landsdeildarinnar, og Elly Hauge Pedersen, ritari grænlensku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá voru undirbúningur undir ársfund ráðsins í september og viðbrögð landanna við heimsfaraldri kórónuveiru.
    Formenn landsdeildanna þriggja sögðu stuttlega frá þróun kórónuveirufaraldursins og viðbrögðum yfirvalda við honum. Vivian Motzfeldt greindi frá því að ástandið væri enn stöðugt í Grænlandi og aðeins eitt tilfelli hefði greinst um sumarið. Viðkomandi hefði komið erlendis frá með rannsóknarskipi og væri orðinn hraustur á ný. Enn væru í gildi takmarkanir í Grænlandi, t.d. á samskiptum fólks milli sveitarfélaga og á vettvangi íþrótta. Henrik Old sagði faraldurinn hafa náð sér aftur á strik í Færeyjum í kjölfar hátíðahalda á Ólafsvöku í lok júlí. Ekki stæði þó til að loka landinu heldur beita sóttkví og sóttvarnaaðgerðum. Guðjón S. Brjánsson sagði Íslendinga hafa upplifað bakslag líkt og mörg önnur lönd. Innanlandssmit hefðu blossað upp aftur og vakið umræðu um hvort ætti að herða enn frekar á reglum um komu ferðamanna til landsins. Stjórnvöld legðu áherslu á að skólastarf yrði með venjubundnum hætti en líklegt væri að atvinnuleysi færi vaxandi með haustinu. Guðjón sagði Íslendinga hafa ferðast mikið innan lands í sumar og nýtt sér ferðagjöf stjórnvalda.
    Sigurður Ólafsson sagði skrifstofu ráðsins starfa út frá því að ársfundur yrði haldinn samkvæmt áætlun á Íslandi um miðjan september. Ljóst væri þó að nauðsynlegt gæti orðið að gera breytingar á dagskrá fundarins, fundarstað eða mögulega fresta honum. Árlegri ráðstefnu Hringborðs norðurslóða hefði verið aflýst og ekki væri útséð um að Norðurlandaráðsþing færi fram með venjubundnum hætti. Haft yrði samráð við yfirstjórn Alþingis og sóttvarnayfirvöld og tillögur að breytingum yrðu bornar undir forsætisnefnd.
    Rætt var um eldri ályktanir ráðsins og skýrslur ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands um framfylgd þeirra. Guðjón S. Brjánsson ítrekaði nauðsyn þess að þjóðþing landanna þriggja fjölluðu um nýjar ályktanir Vestnorræna ráðsins áður en kæmi að næsta ársfundi ráðsins. Misbrestur hefði verið þar á og gæti valdið því að framfylgd ályktananna drægist. Hann hvatti forsætisnefndarmeðlimi til að beita sér fyrir því að umfjöllun um ályktanir ráðsins yrði sett í forgang innan þinganna.
    Henrik Old kynnti ný drög færeysku landsdeildarinnar að ályktun Vestnorræna ráðsins um aukna samvinnu ráðherra norðurslóðamála. Vivian Motzfeld tilkynnti að von væri á drögum að annarri ályktun frá grænlensku landsdeildinni um stuðning við aukaaðild Grænlands og Færeyja að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
    Sigurður Ólafsson kynnti fjárhagsáætlun ársins 2021 og ársreikning ársins 2019. Forsætisnefnd samþykkti að leggja það til við ársfund að rekstrarafgangur ársins 2019 yrði endurgreiddur þjóðþingunum.

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 26. október 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, Vivian Motzfeldt, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Steen Løgstrup Nielsen, starfsmaður ráðsins, Rannvá Sólheim, ritari færeysku landsdeildarinnar, og Arnaruluk Lundblad og Elly Hauge Pedersen, starfsmenn grænlensku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá voru undirbúningur fyrir ársfund ráðsins í nóvember og viðbrögð landanna við heimsfaraldri kórónuveiru.
    Formenn landsdeildanna þriggja sögðu stuttlega frá þróun kórónuveirufaraldursins og viðbrögðum yfirvalda við honum. Henrik Old sagði ástandið býsna gott í Færeyjum þar sem aðeins stöku tilfelli greindist daglega. Hins vegar væru horfurnar í efnahagsmálum verri. Færeyska þingið hefði samþykkt fjárveitingu upp á 325 milljónir danskra króna til fyrirtækja sem stæðu höllum fæti. Stærstur hluti fjárveitingarinnar færi til flugfélagsins Atlantic Airways og alþjóðaflugvallarins í Færeyjum. Enn væri öllum sem kæmu til landsins skylt að fara í sýnatöku og greiddu fyrir það sjálfir. Seinni sýnataka færi fram nokkrum dögum eftir komu en hún væri valkvæð. Vivian Motzfeldt greindi frá því að ekkert innanlandssmit hefði komið upp á Grænlandi lengi en jákvæð sýni væru að greinast hjá fólki sem væri nýkomið að utan. Guðjón S. Brjánsson sagði stöðuna erfiða á Íslandi. Landspítalinn starfaði á neyðarstigi og hópsýking hefði komið upp á öldrunardeild spítalans. Sundlaugar landsins væru lokaðar og einnig barir en veitingahús væru opin með takmörkunum. Efnahagsleg áhrif faraldursins væru gríðarleg og einna helst í ferðaþjónustu sem hefði nær algjörlega þurrkast út. Atvinnuleysi færi vaxandi og væri mest á Suðvesturlandi þar sem þjónusta í tengslum við Keflavíkurflugvöll og ferðaþjónusta hefði lagst af.
    Sigurður Ólafsson sagði stuttlega frá starfi skrifstofunnar sem færi fram í fjarvinnu. Flestum fundum hefði verið frestað eða færu fram með fjarfundarbúnaði. Norðurskautsráð héldi alla sína fundi með fjarfundarbúnaði og benti Sigurður forsætisnefnd á fundargerðir frá skrifstofu ráðsins. Unnið væri að því að skipuleggja árlegan fund með norðurslóðanefnd Evrópuþingsins, DEEA-nefndinni, í desember og fram undan væri einnig fjarfundur þingmannanefndar um norðurskautsmál. Vestnorræna ráðið hefði auk þess staðið fyrir opnum fundum í tilefni af vestnorræna deginum 23. september og skipulagt erindi um stöðu vestnorrænna ungmenna á málstofu um ungt fólk á norðurslóðum.
    Forsætisnefnd undirbjó fund sinn með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda 28. október og ársfund Vestnorræna ráðsins 6. nóvember.

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda 28. október 2020.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda með fjarfundarbúnaði. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn frá Vestnorræna ráðinu voru Henrik Old, formaður landsdeildar Færeyja, Vivian Motzfeldt, formaður landsdeildar Grænlands, Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Steen Løgstrup Nielsen, starfsmaður ráðsins, Rannvá Sólheim, ritari færeysku landsdeildarinnar, og Arnaruluk Lundblad og Elly Hauge Pedersen, starfsmenn grænlensku landsdeildarinnar. Á fund forsætisnefndar komu Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi, Kaj Leo Holm Johannesen, samstarfsráðherra Færeyinga, og Steen Lynge, samstarfsráðherra Grænlendinga, auk starfsmanna ráðuneyta.
    Guðjón S. Brjánsson stýrði fundinum sem formaður Vestnorræna ráðsins og sagðist harma það að fundargestir gætu ekki hist í eigin persónu. Frá því að heimsfaraldurinn hefði brotist út hefði meginþorri starfs Vestnorræna ráðsins farið fram á fjarfundum. Á haustmánuðum hefði ráðið einnig staðið fyrir stafrænum viðburðum fyrir almenning í tilefni af vestnorræna deginum 23. september og í tengslum við fyrirlestraröðina Icelandic Arctic Talks þar sem vakin var athygli á málefnum norðurslóða í kjölfar þess að Hringborði norðurslóða var aflýst. Þema ráðsins þetta starfsár væri málefni ungs fólks á jaðarsvæðum og yrði það einnig umfjöllunarefni þemaráðstefnu ráðsins á Suður-Grænlandi í júní 2021. Guðjón benti samstarfsráðherrunum á yfirlýsingu forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins frá því í mars þar sem ríkisstjórnir landanna þriggja voru hvattar til að vinna saman gegn útbreiðslu veirunnar.
    Kaj Leo Holm Johannesen sagðist fullur aðdáunar á viðbrögðum nágrannalandanna við útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Hann lagði til að sem fyrst yrði komið á frjálsri för fólks milli landanna þriggja þannig að engin landamæri væru milli vestnorrænu þjóðanna. Auðvitað myndu reglur landanna um skimun fyrir veirunni við komu gilda áfram en það yrði mjög áhrifamikið á alþjóðlegum vettvangi ef vestnorrænu löndin gætu opnað fyrir ferðalög sín á milli. Sigurður Ingi Jóhannsson sagðist þakklátur fyrir gott samstarf landanna í tengslum við útbreiðslu COVID-19. Hann sagði sóttvarnir hafa gengið ótrúlega vel í löndunum þremur en því miður hefði smitum fjölgað mjög á Íslandi á síðustu vikum. Hann tók undir með Johannesen að þegar Íslendingum hefði tekist að kveða niður þriðju bylgju faraldursins yrði það góð auglýsing fyrir vestnorræn ríki ef tækist að opna landamærin á þessum óvenjulegu tímum. Hann ítrekaði þó að Ísland hefði aldrei lokað landamærum sínum alveg heldur sett ströng skilyrði um sóttkví og sýnatökur.
    Guðjón S. Brjánsson greindi frá umræðum á vettvangi ráðsins um bætt vinnulag við gerð ályktana. Meginniðurstaða umræðnanna hefði verið að bæta undirbúningsvinnu við nýjar ályktanir, auka samráð milli landsdeilda og við sérfræðinga og hagaðila, en einnig að fækka gildandi ályktunum ráðsins til að tryggja að þær væru markvissari og skiluðu árangri. Í þeim tilgangi hygðist ráðið nú afskrifa ályktanir eftir þrjú ár. Það væri enn fremur álit meðlima ráðsins að það myndi gagnast vestnorrænu samstarfi að formgera frekar samskipti samstarfsráðherranna. Þess vegna lægi fyrir ársfundi að þessu sinni ályktun sem hvetti samstarfsráðherrana til að ræða framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins með reglubundnum hætti. Steen Lynge sagði mikilvægt að vinna á markvissan hátt að framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins. Hann benti á að samstarfssamningur menningarmálaráðherra vestnorrænu landanna væri dæmi um það hvernig hægt væri að gera það vel. Hann sagðist þó hikandi gagnvart því að til stæði að afskrifa eldri ályktanir Vestnorræna ráðsins um fiskveiðar og rannsóknir á örplasti. Hann sagði ályktanirnar hafa skilað árangri með því að vekja athygli á áskorunum sem löndin stæðu frammi fyrir og senda þau skilaboð að þessi málefni væru löndunum mikilvæg. Guðjón ítrekaði að markmið Vestnorræna ráðsins væri að gildandi ályktanir skiluðu árangri. Það að eldri ályktanir væru afskrifaðar bæri ekki að skilja sem svo að málefnið væri ráðinu ekki lengur mikilvægt. Afskrifaðar ályktanir mætti nýta sem grundvöll nýrra ályktana á sama málefnasviði sem væru þannig sérhæfðari og hnitmiðaðri. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði það góða tillögu að samstarfsráðherrarnir hittust reglulega og ræddu framfylgd ályktana ráðsins. Í núverandi skipulagi væru það fagráðherrarnir sem tækju ákvörðun um hvort og hvernig þeim hugnaðist að framfylgja ályktunum ráðsins. Með breyttu fyrirkomulagi gætu samstarfsráðherrarnir komið sér saman um hvaða málefni þeim þætti rétt að setja í forgang og tekið málið upp innan sinna ríkisstjórna í kjölfarið. Kaj Leo Holm Johannesen fagnaði umbótastarfi ráðsins og sagði það styrkja ráðið að ályktanir þess væru fáar en mikilvægar. Hann fagnaði endurnýjun fríverslunarsamnings milli Íslands og Færeyja og ítrekaði þá afstöðu sína að mikilvægt væri að vinna að þríhliða samningi milli vestnorrænu landanna þriggja.
    Guðjón S. Brjánsson vakti máls á þeirri stöðu sem komin væri upp varðandi virkni sérhæfðra leiðsögukerfa í vestnorrænni landhelgi. Hann benti á að leiðréttingarkerfi Evrópusambandsins, EGNOS, og hið bandaríska WAAS, sem auka nákvæmni staðsetningarupplýsinga sem hægt er að fá frá GPS-kerfinu, væru ekki aðgengileg alls staðar á Íslandi eða á Grænlandi. Ríkisstjórnir landanna gætu leyst vandamálið í samvinnu við bandaríska og evrópska aðila og Vestnorræna ráðið hvetti eindregið til þess. Einnig hygðist Vestnorræna ráðið halda málinu á lofti í samskiptum sínum við sendinefnd Evrópuþingsins. Steen Lynge tók undir með Guðjóni að samstarf landanna myndi gagnast öllum og benti á að stækkun dreifisvæðis þessara kerfa kæmi bæði skipa- og flugumferð til góða. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði málefnið efst á baugi í samskiptum Íslendinga við evrópska aðila og tók undir með Lynge að skoða bæri samráð við grænlensku ríkisstjórnina.
    
Ársfundur Vestnorræna ráðsins 6. nóvember 2020.
    Vestnorræna ráðið fundaði með fjarfundarbúnaði en Alþingi bauð til fundarins. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, auk Helga Þorsteinssonar, alþjóðaritara. Guðjón stýrði fundinum sem formaður ráðsins.
    Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, ávarpaði fundinn og lýsti ánægju sinni með þróun vestnorræns samstarfs frá því hann tók sjálfur þátt í stofnun Vestnorræna ráðsins. Hann sagði bagalegt að geta ekki hist í eigin persónu því félagsleg samskipti væru nauðsynleg mannkyninu.
    Sigurður Ingi Jóhannsson flutti ávarp fyrir hönd vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna. Hann sagði samstarfið aldrei hafa verið mikilvægara og að löndin hefðu unnið þétt saman í baráttunni gegn heimsfaraldri kórónuveiru. Hann sagði að á nýlegum fundi samstarfsráðherranna hefði komið fram sú hugmynd að vestnorrænu löndin þrjú tilkynntu um hindranalaus ferðalög milli landanna. Svæðið gæti orðið með þeim fyrstu í heimi til að opna á ferðalög með gagnkvæmum viðurkenningum á heilbrigðisvottorðum og niðurstöðum skimana. Ráðherrarnir legðu einnig mikla áherslu á að framfylgja þróunaráætlun Norður-Atlantshafsins (NAUST), stefnu norrænu ráðherranefndarinnar gagnvart vestnorrænu löndunum og strandhéruðum Noregs. Sigurður Ingi sagði ályktanir Vestnorræna ráðsins endurspegla vel áherslur ráðsins og viljann til að þróa víðtækt samstarf milli vestnorrænu landanna. Mikilvægt væri að styrkja og þróa Vestnorræna ráðið til að auka stjórnmálaleg, menningarleg og viðskiptaleg tengsl milli landanna.
    Ásmundur Friðriksson spurði ráðherra hvort það gæti verið sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuaðila í löndunum þremur að höfða til viðskiptavina frá vestnorrænu löndunum. Heimsfaraldurinn hefði haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna og það gæti tekið tíma fyrir ferðalanga að upplifa aftur öryggi á ferðalögum erlendis. Þannig gæti það heillað íbúa vestnorrænu landanna að ferðast til nágrannalanda, þar sem brugðist hefði verið við útbreiðslu veirunnar á ábyrgan hátt. Sigurður Ingi Jóhannsson sagðist sjá mikla möguleika í því að hvetja til ferðalaga milli landanna þriggja þegar þau hefðu öll náð tökum á faraldrinum. Svæðið stæði einnig vel þegar kæmi að uppbyggingu í kjölfar heimsfaraldursins þar sem það hefði mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
    Í skýrslu sinni um starf ráðsins á árinu sagði Guðjón S. Brjánsson ótrúlegt að lifa þessa tíma og upplifa í fyrsta sinn ársfund fyrir framan tölvuskjá og með grímur. Hann benti þó á að það væri ekkert nýtt fyrir ráðsmeðlimi að þurfa að hnika til fundum vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Yfirleitt væri það ofsaveður sem hefði sett strik í reikninginn síðustu ár en ráðið kæmist í gegnum þetta líka. Áður en heimsfaraldurinn skall á hefði ráðið þó náð að halda þemaráðstefnu sína í Færeyjum. Á innri fundi ráðsins hefði enn fremur verið unnið mikilvægt starf við endurskoðun á vinnu við ályktanir ráðsins. Starf ráðsins hefði svo haldið áfram með stafrænum hætti. Forsætisnefnd ráðsins hefði haldið góðu sambandi með fjarfundum á árinu og ráðstefnur verið haldnar og erindi flutt með fjarfundarbúnaði. Þannig héldi ráðið áfram starfi sínu þar til þessum stormi linnti og legði áherslu á málefni ungs fólks á komandi starfsári. Guðjón þakkaði að lokum fyrir samstarfið við forsætisnefndina, ráðsmeðlimi og starfsmenn ráðsins á formannsári sínu og óskaði arftaka sínum góðs gengis.
    Formenn landsdeilda gerðu ráðinu grein fyrir starfinu á liðnu ári og flutti Bryndís Haraldsdóttir skýrslu Íslandsdeildar. Hún sagði starf íslensku þingmannanna hafa breyst mikið í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Nefndastörf færu fram með fjarfundarbúnaði og fjöldi þingmanna í þingsal væri takmarkaður. Þrátt fyrir þetta héldu þingstörf áfram, líkt og nauðsynlegt væri fyrir borgarana. Þingmenn og starfsmenn hefðu lært að nýta tæknina og sýnt mikinn sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Til að mynda hefði verið haldið upp á vestnorræna daginn í september með málstofu sem streymt var frá á netinu. Á vormánuðum hefði Alþingi svo samþykkt tvær þingsályktanir byggðar á ályktunum Vestnorræna ráðsins frá árinu 2019.
    Í umræðum um starf ráðsins á árinu þakkaði Halla Signý Kristjánsdóttir fyrir umræður og samvinnu á þemaráðstefnunni í janúar. Hún sagðist þakklát tækninni fyrir að ráðsmeðlimir gætu haldið starfinu áfram þrátt fyrir þær aðstæður sem heimsfaraldurinn skapaði. Einangrun landanna væri sem betur fer ekki jafn mikil og raunin varð í seinni heimsstyrjöldinni. Hins vegar væri mikilvægt að geta hist í eigin persónu til að öðlast aukinn skilning á hagsmunum hvert annars og deila ólíkum sjónarmiðum.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði það aldrei hafa verið mikilvægara að stuðla að vestnorrænu samstarfi um áskoranir landanna á vettvangi heilbrigðis- og efnahagsmála. Fólk hefði verið fljótt að tileinka sér nýja tækni sem yrði sjálfsagt notuð meira í framtíðinni, þrátt fyrir að hún kæmi aldrei í staðinn fyrir fundi í eigin persónu. Vonandi liti árangursríkt bóluefni dagsins ljós innan skamms svo að þjóðir heimsins gætu aftur tekið upp samstarf undir venjulegum kringumstæðum.
    Á ársfundinum var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Igaliku á Grænlandi í júní 2021 og að þemaefnið yrði staða ungmenna á Vestur-Norðurlöndum. Þá yrði næsti ársfundur ráðsins haldinn í Suðuroy í Færeyjum um mánaðamótin ágúst/september 2021. Ráðið samþykkti auk þess leiðbeinandi vinnureglur um gerð ályktana þar sem hvatt var til þess að drög að ályktunum kæmu fram á vormánuðum og færu í samráðsferli fyrir forsætisnefnd. Einnig var mælst til þess að ályktanir ráðsins yrðu afskrifaðar eftir þrjú ár.
    Ársfundurinn samþykkti þrjár ályktanir sem verða sendar til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Í þeirri fyrstu voru vestnorrænir samstarfsráðherrar Norðurlanda hvattir til að auka samstarf sitt og halda a.m.k. einn árlegan fund til að ræða ályktanir Vestnorræna ráðsins og framfylgd þeirra. Í annarri ályktuninni var kallað eftir aukinni samvinnu vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða. Ráðherrarnir voru hvattir til að halda árlegan fund þar sem þeir ræði um möguleika á að styrkja og samræma hagsmuni landanna á norðurslóðum og vinni að sjálfbærum lausnum þegar kemur að hafinu, náttúrunni, íbúum og atvinnulífi á norðurslóðum. Einnig kvað ályktunin á um skýrslugjöf frá ráðherrunum til Vestnorræna ráðsins um stefnu ríkisstjórnanna í norðurslóðamálum og gagnvart Norðurskautsráðinu. Í þriðju ályktuninni voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda hvattar til þess að stuðla að því að Færeyjar og Grænland fái aukaaðild að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
    Henrik Old var einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi. Við það tækifæri sagði hann heimsfaraldurinn varpa skugga á komandi starfsár. Vestnorræna ráðið beindi sérstaklega sjónum sínum að áhrifunum á ungt fólk og gæti vonandi rætt þau málefni í eigin persónu á þemaráðstefnunni á Suður-Grænlandi í júní. Ráðið héldi einnig áfram að taka þátt í umræðu um norðurslóðir á ýmsum vettvangi og gæta hagsmuna landanna á tímum aukins áhuga stórveldanna. Að lyktum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins.

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins 7. desember 2020.
    Árlegur fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með þingnefnd Evrópuþingsins fór fram með fjarfundarbúnaði að þessu sinni. Þingnefndin sinnir samskiptum Evrópuþingsins við Sviss, Noreg, Ísland og EES-svæðið auk norðursins og er kölluð DEEA-nefndin. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru ný norðurslóðastefna ESB og heimsfaraldur kórónuveiru. Fyrir fundinn hélt forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fjarfund til að undirbúa þátttöku sína.
    Henrik Old, formaður færeysku landsdeildarinnar og Vestnorræna ráðsins, hóf fundinn og þakkaði fyrir tækifærið til að hittast á fjarfundi. Ekki hefði reynst mögulegt að fá fundarmenn til Færeyja vegna heimsfaraldurs kórónuveiru en að boðið stæði á næsta ári. Andreas Schwab, formaður þingnefndar Evrópuþingsins um norðurslóðasamvinnu og samskipti við EES-löndin, sagði frá starfi nefndarinnar á árinu. Fram undan væri aukið samstarf við Norðurlandaráð og eftirlit með vinnu við nýja norðurslóðastefnu Evrópusambandsins. Guðjón S. Brjánsson sagði stuttlega frá helstu vendingum í stjórnmálum í löndunum þremur og frá starfi ráðsins frá síðasta fundi sendinefndanna. Hann sagði heimsfaraldurinn hafa haft mikil áhrif á efnahagslífið í löndunum og sérstaklega á ferðaþjónustuna. Vonast væri til þess að bólusetning leiddi til efnahagslegs bata á komandi ári.
    Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart norðurslóðum, sagði frá vinnu við nýja norðurslóðastefnu ESB. Óskað hefði verið eftir umsögnum frá hagaðilum og almenningi og stæði nú yfir greining á athugasemdum og tillögum. Stefnt væri að því að birta nýja norðurslóðastefnu í lok árs 2021. Evrópusambandið vildi bjóða evrópskar lausnir á áskorunum norðurslóða með áherslu á vísindi og hagsmuni íbúa. Meðal þeirra málefna sem ný stefna næði til væru loftslagsmál, sjálfbær þróun, græn umskipti, heilbrigðismál, ferðaþjónusta, leit og björgun, málefni ungs fólks og jafnréttismál.
    Anna Fotyga, nýskipaður skýrsluhöfundur Evrópuþingsins um norðurslóðamál, sagði nauðsynlegt að fylgjast með þróun mála á norðurslóðum. Lítil spenna hefði verið á svæðinu undanfarna áratugi en það væri að breytast í kjölfar áhrifa loftslagsbreytinga sem hefðu opnað svæðið fyrir atvinnulífi, auðlindanýtingu og skipaflutningum. Atlantshafsbandalagið og stórveldi heimsins fylgdust náið með þróun mála á norðurslóðum og orðið hefði vart við aukna samkeppni. Hún sagði mikla þörf á að uppfæra stefnu ESB í norðurslóðamálum til að taka mið af þessum breytingum.
    Vivian Motzfeldt, formaður grænlensku landsdeildarinnar, sagði Vestnorræna ráðið fylgjast grannt með þróun nýrrar norðurslóðastefnu ESB. Ráðið hefði sent umsögn um stefnuna í samráðsgátt Sambandsins þar sem áhersla hefði verið lögð á sjálfbæra þróun, öryggi á sjó og stöðu ungs fólks og lítilla tungumála á norðurslóðum. Hún ítrekaði nauðsyn þess að tryggja ungu fólki á norðurslóðum lífvænlega framtíð.
    Guðjón S. Brjánsson fór stuttlega yfir þróun heimsfaraldurs kórónuveiru á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Hann benti á að það hefði vissa kosti í för með sér í baráttunni við faraldurinn að vera á eyju í miðju Atlantshafi. Mögulegt hefði verið að stjórna ferðum til og frá löndunum og senda fólk í sóttkví og skimun. Einnig hefði skimun og smitrakning innan lands verið auðveldari en hjá stærri þjóðum. Grænlendingar hefðu aðeins greint 18 smit og í Færeyjum hefðu 500 smit greinst en ástandið væri alvarlegra á Íslandi þar sem 5.500 smit hefðu greinst og 27 látist. Samkomutakmarkanir hefðu áhrif á andlega líðan íbúa og aukning hefði orðið í tilkynningum um heimilisofbeldi. Guðjón benti á að gildi evrópskrar samvinnu hefði sannað sig í tengslum við samninga um aðgang að bóluefni á undanförnum vikum.
    Christel Schaldemose, Evrópuþingkona frá Danmörku, sagði jákvætt að faraldurinn hefði sýnt fram á mátt Evrópusamvinnunnar og nauðsyn þess að auka samhæfingu innan ESB. Sambandið hefði komið sér upp birgðum af hlífðarbúnaði og tækjum á sex stöðum í Evrópu sem væri hægt að nýta til að aðstoða aðildarríki í vanda. Útbúinn hefði verið litakóði til að gera ráðleggingar til ferðalanga auðskiljanlegar, tekist hefði að halda vöruflutningum ótrufluðum og aðildarríkjum yrði tryggt jafnt aðgengi að bóluefni frá mörgum framleiðendum.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 6. nóvember 2020.
          Ályktun nr. 1/2020 um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlanda.
          Ályktun nr. 2/2020 um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða.
          Ályktun nr. 3/2020 um stuðning vestnorrænu landanna við aukaaðild Færeyja og Grænlands að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Guðjón S. Brjánsson,
form.
Ásmundur Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir.