Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 826  —  495. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna stuðnings við smærri innlenda áfengisframleiðendur (áfengisgjald, sala áfengis á framleiðslustað).

Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda framleiðslu áfengis samkvæmt lögum nr. 75/1998 í atvinnuskyni til sölu eða vinnslu, hafa til þess leyfi samkvæmt sömu lögum og framleiða innan við 1.000.000 lítra af áfengisvökva á almanaksári skulu eiga rétt á allt að 50% afslætti af innheimtu áfengisgjaldi, þ.e.:
     1.      50% afsláttur af innheimtu áfengisgjaldi af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 2,25–6% af hreinum vínanda.
     2.      35% afsláttur af innheimtu áfengisgjaldi af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 6–10% af hreinum vínanda.
     3.      25% afsláttur af innheimtu áfengisgjaldi af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 10–30% af hreinum vínanda.
     4.      15% afsláttur af innheimtu áfengisgjaldi af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 30–50% af hreinum vínanda.
     5.      Ekki er veittur afsláttur af innheimtu áfengisgjaldi af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli meira en 50% af hreinum vínanda.
    Þeir einstaklingar og lögaðilar sem sækja um afslátt, sbr. 1. mgr., skulu gera lögbærum eftirlitsaðila, sem hefur reglulegt eftirlit með því hvort skilyrði fyrir afslætti eru uppfyllt, gögn aðgengileg því til sönnunar að þeir fullnægi skilyrðum 1. mgr.
    Einungis er heimilt að veita afslátt, sbr. 1. mgr., einum aðila innan sömu samstæðu. Ef tveir eða fleiri aðilar innan sömu samstæðu sækja um afslátt, sbr. 1. mgr., skal umsókn þess aðila sem framleiðir minnst magn áfengis samþykkt ef hún uppfyllir öll önnur skilyrði fyrir veitingu afsláttar á áfengisgjaldi.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um tilhögun varðandi veitingu afsláttar af áfengisgjaldi, umsóknir um slíkan afslátt, eftirlitsaðila og reglulegt eftirlit hans, sbr. 1. og 2. mgr.

II. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     1.      Á eftir orðinu „smásölu“ í 1. mgr. kemur: sölu á framleiðslustað.
     2.      Á eftir orðinu „heildsölu“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: sölu á framleiðslustað.

3. gr.

    Á eftir orðinu „smásala“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: sala á framleiðslustað.

4. gr.

    5. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu, sölu á framleiðslustað eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni, um eftirlit með slíkum leyfum, leyfissviptingu og andmæli við leyfissviptingu. Þá er í reglugerðinni heimilt að fela tilteknu sýslumannsembætti að annast leyfisveitingar á grundvelli laga þessara.

5. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
    Til að selja áfengi í smásölu á framleiðslustað skal sækja um leyfi til sölu á framleiðslustað til sýslumanns.
    Veita má handhafa framleiðsluleyfis, sem framleiðir innan við 1.000.000 lítra af áfengi á almanaksári, leyfi til sölu á framleiðslustað. Einungis er veitt leyfi til sölu á áfengi sem framleitt er á viðkomandi framleiðslustað eða í nærliggjandi húsnæði. Handhafa leyfis til sölu á framleiðslustað er heimilt að selja eintök af áfengi í eftirfarandi stærðum og fjölda eintaka:
     1.      Allt að 500 ml af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 2,25–6% af hreinum vínanda í hverju eintaki. Heimilt er að selja einstaklingi allt að sex eintök.
     2.      Allt að 500 ml af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 6–13% af hreinum vínanda í hverju eintaki. Heimilt er að selja einstaklingi allt að þrjú eintök.
     3.      Allt að 750 ml af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 13–30% af hreinum vínanda í hverju eintaki. Heimilt er að selja einstaklingi eitt eintak.
     4.      Allt að 50 ml af áfengisvökva sem í eru að rúmmáli 30–50% af hreinum vínanda í hverju eintaki. Heimilt er að selja einstaklingi allt að þrjú eintök.
    Leyfisveitandi skal leita umsagnar sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Óheimilt er að gefa út leyfi til sölu á framleiðslustað ef sveitarstjórn leggst gegn útgáfu leyfisins og skal leyfi til sölu á framleiðslustað jafnframt vera bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögn. Umsögn skal vera skýr og rökstudd og staðfesta að:
     a.      starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála,
     b.      lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu,
     c.      afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um,
     d.      starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli.
    Leyfi til sölu á framleiðslustað sem gefið er út til umsækjanda í fyrsta sinn gildir í eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað gildir það í fimm ár, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr. Ef leyfishafi uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir veitingu leyfis til sölu á framleiðslustað, sbr. 2. og 3. mgr., skal svipta hann leyfi svo fljótt sem verða má.

6. gr.

    Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist: sbr. þó 9. gr. a.

7. gr.

    Við 2. mgr. 12. gr. laganna bætist: einnig er handhafa til leyfis sölu á framleiðslustað óheimilt að afhenda áfengi á sömu dögum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.
8. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað þess, sbr. 9. gr. a áfengislaga, nr. 75/1998, 65.000 kr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2021.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið og lagt fram í þeim tilgangi að auka stuðning við smærri innlenda áfengisframleiðendur, þ.e. einstaklinga og lögaðila sem framleiða áfengi í atvinnuskyni til sölu eða vinnslu og framleiða innan við 1.000.000 lítra af áfengisvökva á almanaksári. Framleiðendurnir mega ekki vera hluti af samstæðu. Með því er átt við samstæðu félaga, þ.e. móðurfélags og dótturfélaga, þar sem áfengisframleiðandinn er lagalega eða fjárhagslega háður öðru félagi.
    Mikil gróska hefur verið í áfengisframleiðslu hér á landi á síðustu árum. Einnig hefur áfengisframleiðendum, t.d. brugghúsum og framleiðendum á gini, farið fjölgandi síðastliðin ár, sérstaklega á landsbyggðinni. Innlendir áfengisframleiðendur hafa einnig aflað sér vinsælda meðal erlendra aðila, bæði ferðamanna hér á landi sem og neytenda erlendis. Innlendir áfengisframleiðendur hafa margir unnið til alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga fyrir framúrskarandi vörur og hafa staðið sig með sóma í kynningu þeirra á erlendum markaði. Því er talið að verðmæt landkynning eigi sér stað vegna íslenskra áfengisframleiðenda, en þeir styðjast almennt við íslenska sögu og menningu í framleiðsluferli sínu sem og kynningu sinni út á við. Frumvarpið er einnig samið með það í huga að efla nýsköpun í áfengisframleiðslu hér á landi, en nýsköpun, atvinnuþróun og reglulegar nýjungar í vöruúrvali einkenna þá starfsemi sem frumvarpinu er ætlað að styðja við. Talið er að lækkun framleiðslukostnaðar stuðli að frekari nýsköpun ásamt því að gera smærri innlenda áfengisframleiðendur samkeppnishæfari á markaði. Smærri innlendir áfengisframleiðendur framleiða vörur sínar í minna magni og með því er framleiðslukostnaður þeirra hærri fyrir hvert eintak en hjá stærri framleiðendum, eðli máls samkvæmt, sérstaklega við sköpun og þróun nýrra tegunda. Þessi stærðarhagkvæmni (e. economy of scale) endurspeglast í verðlagningu til neytenda, en vegna þessa neyðast smærri áfengisframleiðendur til að selja sínar vörur á hærra verði en þeir stærri.
    Frumvarp þetta er lagt fram m.a. með byggðasjónarmið í huga, en það er til þess fallið að stuðla að frekari atvinnuvexti ásamt fjölbreyttari atvinnumöguleikum um land allt. Í þessu samhengi er bent á að margir smærri áfengisframleiðendur eru staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins.
    Frumvarpið er einnig lagt fram í þeim tilgangi að stuðla að frekari tækifærum fyrir smærri áfengisframleiðendur til útvíkkunar og þróunar á starfsemi sinni, t.d. í ferðaþjónustu. Þá er átt við að margir ferðamenn hafa áhuga á íslenskum áfengisframleiðendum og vörum þeirra. Margir áfengisframleiðendur bjóða upp á leiðsöguferðir um framleiðslustað þeirra með kynningu á framleiðsluferli og smökkun á framleiðsluvörunum, en ófáir ferðamenn sækja slíkar kynningar. Með því hefur starfsemi þeirra þróast í átt að ferðamannaiðnaðinum. Ásamt þessu hefur áhugi almennings á íslenskri áfengisframleiðslu stóraukist. Neytendur kjósa innlenda framleiðslu í auknum mæli, og þá hefur áhugi þeirra á sérvörum frá smærri innlendum áfengisframleiðendum aukist sérstaklega.
    Þrátt fyrir allt þetta er smærri innlendum áfengisframleiðendum óheimilt að selja vörur sínar til einstaklinga sem sækja þá heim. Skortur á heimild til sölu á framleiðslustað hefur sætt mikilli gagnrýni meðal innlendra áfengisframleiðenda og neytenda. Almennt er talið að slíkt bann veiki stöðu smærri innlendra áfengisframleiðenda á samkeppnismarkaði. Þá eru áfengisframleiðendur hér á landi háðir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) með afkomu sína, en mikið tekjutap felst í því ef verslunin kýs að hafa ekki vörur þeirra til sölu á ákveðnum stöðum. Einnig leiðir aukin netverslun innlendra neytenda á áfengi frá erlendum netverslunum til verri samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda ásamt neikvæðum umhverfisáhrifum sem og neikvæðum áhrifum á ríkissjóð.
    Nefna má Samtök íslenskra handverksbrugghúsa sem eru meðal aðila sem gagnrýna skort á leyfi fyrir sölu á framleiðslustað. Þau samtök voru stofnuð árið 2018 í kjölfar mikillar fjölgunar slíkra brugghúsa, en handverksbrugghús eru smærri brugghús sem leggja áherslu á nýsköpun og fjölbreytt vöruúrval af áfengu öli. Áhugi innlendra og erlendra neytenda á slíkri starfsemi hefur aukist síðastliðin ár og er frumvarpinu ætlað að styðja við þá starfsemi og sambærilega áfengisframleiðendur.
    Frumvarp þetta má flokka í tvo meginþætti, þ.e.:
     1.      Rétt smærri innlendra áfengisframleiðenda á afslætti af áfengisgjaldi, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Afslátturinn er til þess fallinn að styðja við smærri innlenda áfengisframleiðendur með því að stuðla að lægri framleiðslukostnaði, en með því er einnig verið að stuðla að lægra verði á innlendum áfengisvörum til neytenda.
     2.      Heimild til leyfisveitingar til smærri innlendra áfengisframleiðenda til smásölu á áfengi sem framleitt er á framleiðslustað þeirra. Þó að frumvarpið fjalli almennt um sölu á framleiðslustað þá heimilar frumvarpið einnig sölu í húsnæði sem liggur nálægt framleiðslustað. Sækja þarf um leyfið og er samþykkt þess háð ákveðnum skilyrðum. Einnig sætir sala áfengis á framleiðslustað ákveðnum takmörkunum á stærð eintaka og fjölda þeirra fyrir hvern einstakling. Með þeirri heimild verður til undanþága frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis hér á landi, sbr. 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011. Ákall hefur verið fyrir möguleika á sölu á framleiðslustað meðal smærri áfengisframleiðenda hér á landi. Þá býður leyfi til sölu á framleiðslustað upp á aukið frelsi og frekari tækifæri í ferðamannaiðnaði ásamt því að styðja við smærri innlenda áfengisframleiðendur.
    Með þessu er greitt fyrir auknum atvinnutækifærum sem og meira frelsi á áfengismarkaði hér á landi. Einnig stuðlar frumvarpið að auknu vöruúrvali fyrir neytendur og hagstæðara verði á innlendum áfengisvörum til neytenda. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu ættu að vera til hagsbóta fyrir bæði smærri innlenda áfengisframleiðendur sem og neytendur. Það er mikilvægt að örva innlenda framleiðslu á sífellt alþjóðlegri markaði þar sem vörur frá öllum ríkjum heims hafa greiðan aðgang að innlendum markaði, sem gerir smærri innlendri áfengisframleiðsluaðilum erfitt fyrir í rekstri sínum ásamt fyrrgreindri stöðu þeirra á markaðinum.
    Ásamt öllu þessu var sambærileg löggjöf í nágrannaríkjum Íslands höfð til hliðsjónar við gerð frumvarpsins. Veiting afsláttar af áfengisgjöldum til smærri áfengisframleiðenda er viðurkennd aðferð meðal nágrannaríkjanna til að styðja við þá framleiðendur. Það má benda á að í Bretlandi er veittur allt að 50% afslátt af áfengisgjaldi á áfengu öli (e. Beer Duty) smærri brugghúsum sem ekki eru hluti að samstæðu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í Danmörku er einnig veittur allt að 50% afsláttur af áfengisgjaldi á áfengu öli (d. Afgiften på øl) smærri brugghúsum sem ekki eru hluti að samstæðu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frá árinu 1995 hefur smærri brugghúsum í Finnlandi verið veittur allt að 50% afsláttur af áfengisgjaldi á áfengu öli (s. Accis på öl), að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal að þau séu ekki hluti af samstæðu. Ásamt þessu kveða reglur í Noregi á um að áfengisgjald (n. satser for gjæret alkoholholdig drikk) hækki eftir því hversu marga lítra af áfengu öli smærri brugghús sem ekki eru hluti að samstæðu framleiða. Það þýðir að því smærri sem brugghúsin eru því lægra verður áfengisgjaldið. Hins vegar er ekki miðað við prósentu á áfengisgjaldi í Noregi, heldur upphæð gjaldsins í norskum krónum. Þá heimila nágrannalönd Íslands almennt smásölu áfengis á framleiðslustað smærri framleiðenda á sambærilegan máta og lagt er til í frumvarpinu.
    Einnig voru reglur Evrópusambandsins hafðar til hliðsjónar við gerð frumvarpsins, en Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða löggjöf Evrópusambandsins, sem fellur undir innri markað, í íslenskan rétt og fylgja, sbr. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem undirritaður var 2. maí 1992 og hefur lagalegt gildi hér á landi, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Í tilskipun ráðsins 92/83/EBE frá 19. október 1992 um samræmingu á samsetningu vörugjalda á áfengi og áfengum drykkjum kemur fram heimild til þess að lækka áfengisgjöld á smærri áfengisframleiðendur um allt að 50%.
    Þó svo að nágrannalönd okkar einblíni almennt á stuðning við brugghús, þ.e. framleiðendur á áfengu öli, þá er talið að gæta þurfi jafnræðis við veitingu ívilnana til smærri áfengisframleiðenda. Hér á landi starfa smærri áfengisframleiðendur sem framleiða aðrar gerðir áfengis en bjór, t.d. gin og viskí, og hafa m.a. unnið til alþjóðlegra viðurkenninga fyrir sínar vörur. Ekki er talið sanngjarnt að mismuna þeim framleiðendum með því að undanskilja þá frá ákvæðum frumvarpsins einungis á grundvelli þess að framleiðsluvara þeirra sé önnur en framleiðsluvara brugghúsa þótt vörur þeirra séu sambærilegar, staða þeirra á markaði sé sambærileg og að bein samkeppni sé á milli þeirra.
    Frumvarpið er talið hafa lítil sem engin áhrif á lýðheilsu þótt framleiðslukostnaður sé lækkaður á áfengi og stöðum fjölgað þar sem áfengi er selt einstaklingum. Þá er sérstaklega bent á að í frumvarpinu felast takmarkanir á sölu á framleiðslustað og voru þær settar inn með lýðheilsusjónarmið til hliðsjónar. Markmið frumvarpsins er hvorki að fjölga skemmtistöðum sem selja áfengi né að stuðla að aukinni áfengisneyslu. Markmið þess er að styðja við fjölbreytta innlenda framleiðslu, fjölga atvinnutækifærum um land allt, bæta möguleika smærri innlendra áfengisframleiðenda í m.a. ferðamannaiðnaðinum og stuðla að auknu frelsi á markaði hér á landi. Þá er bent á þau jákvæðu áhrif sem frumvarpið hefur fyrir smærri innlenda áfengisframleiðendur, m.a. með byggðasjónarmið í huga, en marga slíka framleiðendur má finna víðs vegar um landið.
    Ásamt þessu halda aðrar almennar reglur um áfengi gildi sínu, þar á meðal reglur um áfengisauglýsingar, leyfi til framleiðslu á áfengi og leyfi til heild- og smásölu á áfengi utan framleiðslustaða. Hlutverk Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) tekur með öðrum orðum engum breytingum.
    Ekki er talið að frumvarpið leiði til verulegra áhrifa fyrir ríkissjóð. Þrátt fyrir það getur frumvarpið leitt til þess að neytendur kjósi frekar innlenda framleiðslu með því að versla innan lands í stað þess að versla við erlendar netverslanir. Það getur leitt til jákvæðra áhrifa á tekjur ríkisins með meiri sölu innan lands og auknum tekjum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að bætt verði við lög um gjald af áfengi og tóbaki nýrri grein, 6. gr. a, sem kveður á um rétt smærri innlendra áfengisframleiðenda, sem ekki eru hluti af samstæðu, á allt að 50% afslætti af áfengisgjaldi. Afslátturinn er þrepaskiptur eftir magni hreins vínanda í þeim áfengisvökva sem sætir gjaldinu. Afslátturinn er háður ákveðnum skilyrðum og reglulegu eftirliti. Ráðherra er falið að ákveða nánar, með setningu reglugerðar, tilhögun varðandi veitingu afsláttar af áfengisgjaldi, umsóknir um slíkan afslátt og eftirlitsaðila og reglulegt eftirlit hans.

Um 2. og 3. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 3. og 4. gr. áfengislaga í þeim tilgangi að heimila veitingu leyfis fyrir smásölu áfengis á framleiðslustað.

Um 4. gr.

    Lögð er til heimild ráðherra til að setja reglugerð vegna veitingar leyfa til innflutnings, framleiðslu og heildsölu áfengis ásamt sölu áfengis á framleiðslustað, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Þá er einnig lagt til að ráðherra hafi heimild til að fela einu sýslumannsembætti að annast leyfisveitingar samkvæmt lögunum.

Um 5. gr.

    Lagt er til að bætt verði við áfengislög nýrri grein, 9. gr. a, sem kveður á um heimild til veitingar leyfis fyrir smásölu smærri innlendra áfengisframleiðenda á framleiðslustað þeirra eða nærliggjandi húsnæði. Með þessari grein verður til undanþága frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis hér á landi. Slík sala er háð ákveðnum skilyrðum og takmörkunum. Þá er kveðið sérstaklega á um þrepaskiptar takmarkanir á sölu áfengis til hvers einstaklings eftir magni hreins vínanda í hverju sölueintaki fyrir sig. Viðeigandi aðilar sækja um leyfi hjá sýslumanni, sem kannar hvort tilskildum skilyrðum er fullnægt áður en umsækjanda er veitt leyfi. Þau skilyrði koma einnig fram í greininni, en þau eru sett með núverandi skilyrðum fyrir veitingu á sambærilegum leyfum, t.d. rekstrarleyfi skv. III. kafla laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Þar koma einnig fram tímamörk leyfisveitingar í hvert skipti fyrir sig ásamt því að leyfi skal afturkalla um leið og leyfishafi uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfinu.

Um 6. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á 1. mgr. 10. gr. áfengislaga vegna tilkomu undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis hér á landi.

Um 7. gr.

    Í 2. mgr. 12. gr. áfengislaga kemur fram bann við opnun áfengisútsölustaða á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Hér er lögð til viðbót við þá málsgrein sem fellir leyfishafa skv. 5. gr. frumvarpsins undir það bann.

Um 8. og 9. gr.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.