Ferill 497. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 828  —  497. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2020.


1. Inngangur.
    Þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn var starfsemi Norðurlandaráðs á árinu 2020 að mörgu leyti meiri og öflugri en á síðustu árum. Þingmenn funduðu oftar en í venjulegu ári, samskipti ráðherra norrænu landanna voru meiri og alþjóðastarfið að sumu leyti virkara en við venjulegar aðstæður. Það kom í hlut Silju Daggar Gunnarsdóttur, forseta Norðurlandaráðs, og Oddnýjar Harðardóttur varaforseta að bregðast við og leiða leitina að nýjum úrræðum þegar faraldurinn lokaði á ferðalög og hefðbundna fundi sem eru undirstaðan í starfi Norðurlandaráðs. Þing Norðurlandaráðs, sem halda átti í Reykjavík, féll niður í fyrsta skipti í nærri sjötíu ára sögu þingmannasamtakanna. Leysa þurfti tæknilegan vanda í tengslum við túlkun á fjarfundum og endurskipuleggja aðra þætti starfseminnar.
    Í upphafi árs leit út fyrir að tvennt myndi helst móta starf Norðurlandaráðs. Annað var formennskuáætlun Íslendinga í Norðurlandaráði og þrjú meginþemu hennar: upplýsingaóreiða og falsfréttir, líffræðilegur fjölbreytileiki og tungumálaskilningur milli norrænna þjóða. Hitt var ný framtíðarsýn norræns samstarfs til ársins 2030 sem mótuð var í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019 og framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á megináherslum framtíðarsýnarinnar um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Endurskoða þurfti allar þessar áherslur eftir að COVID-19-faraldurinn reið yfir.
    Norðurlandaráði var á árinu mikill styrkur í því að á þingi ráðsins árið 2019 hafði verið samþykkt ný stefna um samfélagsöryggi með fjölmörgum tillögum um eflingu norræns samstarfs á þessu sviði. Þegar faraldurinn hófst varð þingmönnum enn betur ljóst hversu tímabærar og mikilvægar þessar tillögur voru. Um þær var sterk samstaða þvert á flokkahópa í Norðurlandaráði og þær urðu því leiðarstef í starfi ráðsins.
    Fundir Norðurlandaráðs með ráðherrum norrænu landanna urðu fleiri og fjölsóttari en á síðustu árum og umræður líflegri en á síðustu árum, en þeir fóru langflestir fram með fjarfundarfyrirkomulagi. Á þeim var einkum rætt og tekist á um tvö meginmálefni. Annað voru tillögur Norðurlandaráðs um öflugra samstarf landanna um samfélagsöryggi og hitt niðurskurður á framlögum til menningarmála til samræmis við áherslurnar í framtíðarsýninni. Þingmenn í Norðurlandaráði bentu á að ráðstafanir sem gripið var til í löndunum vegna COVID-19-faraldursins hefðu komið sérstaklega hart niður á þeim sem þurfa að fara yfir landamæri Norðurlanda vegna vinnu eða af öðrum ástæðum og að samræma þyrfti slíkar aðgerðir betur framvegis til að draga úr neikvæðum áhrifum. Einnig töldu þeir að efla þyrfti og endurskipuleggja samstarf landanna um samfélagsöryggi í breiðum skilningi til að geta tekist á við ýmsar aðrar ógnir. Þingmennirnir vildu einnig draga úr fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til norræns menningarsamstarfs, ekki síst í ljósi erfiðrar stöðu menningarlífsins vegna faraldursins. Það markmið náðist að nokkru leyti.
    Heimsókn norrænna þingmanna, þar á meðal Silju Daggar og Oddnýjar, til skoska þingsins í janúar þótti vel heppnuð og í henni kom skýrt fram vilji Skota til náins samstarfs við Norðurlandaráð og Norðurlöndin almennt. Norðurlandaráð átti einnig gott samstarf við Eystrasaltsþingið á árinu, ekki síst um málefni Hvíta-Rússlands. Silja Dögg, Oddný og fleiri fulltrúar Norðurlandaráðs héldu fjarfund með Svetlönu Tíkhanovskaju, helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, til að sýna lýðræðisöflum í landinu stuðning.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur að jafnaði saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs um mánaðamótin október/nóvember er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi, og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2020 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list og menning og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu – þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta og í framhaldi af því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd og náttúruauðlindir – þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar – þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórn, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin fæst m.a. við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs í upphafi árs 2020 voru: Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, þingflokki Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Miðflokksins. Sú breyting varð 3. mars að Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, tók við stöðu varamanns af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir. Einnig varð breyting 7. október þegar Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, tók við af Guðmundi Inga Kristinssyni sem aðalmaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs en hann tók sæti varamanns.
    Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2020. Í lok janúar var Iris Dager lögfræðingur ráðin tímabundið til að sinna verkefnum tengdum formennsku Íslands í Norðurlandaráði. Hún hætti störfum í lok október.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs sátu Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Vilhjálmur Árnason og Kolbeinn Óttarsson Proppé í sjálfbærninefnd, Anna Kolbrún Árnadóttir í þekkingar og menningarnefnd og Guðmundur Ingi Kristinsson í velferðarnefnd. Guðmundur Ingi sat einnig í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Í október tók Inga Sæland við af Guðmundi Inga í velferðarnefnd og eftirlitsnefnd.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sex sinnum á árinu. Fundað var í janúar, mars, september (tvisvar) og október (tvisvar). Fundurinn í mars og síðari fundir fóru fram með fjarfundarfyrirkomulagi. Að jafnaði er fulltrúum Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Norræna félagsins, Norðurlandaráðs æskunnar, upplýsingaþjónustunnar Info Norden, Norræna hússins og fleiri einstaklingum og samtökum sem tengjast norrænu samstarfi boðið til fundanna. Það var þó í minna mæli gert eftir að fjarfundarfyrirkomulag var tekið upp. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fundaði tvisvar með Íslandsdeild Norðurlandaráðs á árinu.
    Vilhjálmur Árnason var fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) og Norræna þróunarsjóðsins (NDF). Steinunn Þóra Árnadóttir sat fyrir hönd landsdeildarinnar í stjórn Norræna menningarsjóðsins. Anna Kolbrún Árnadóttir var varamaður hennar. Kolbeinn Óttarsson var fulltrúi landsdeildarinnar gagnvart Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC).

4. Fundir Norðurlandaráðs.
Reglulegir fundir Norðurlandaráðs:
Janúar.
          26.–27. janúar: Janúarfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Allar nefndir Norðurlandaráðs funduðu (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Brynjar Níelsson (sem varamaður fyrir Vilhjálm Árnason)).
          29. janúar: Fundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn (Anna Kolbrún Árnadóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          29. janúar: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn (Guðmundur Ingi Kristinsson).
Mars.
          31. mars: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason).
Apríl.
          27. apríl: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
Maí.
          25. maí: Fjarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs (Guðmundur Ingi Kristinsson).
          25. maí: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Vilhjálmur Árnason).
          25. maí: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
Júní.
          22. júní: Fjarfundur þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs (Anna Kolbrún Árnadóttir).
          26. júní: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
Ágúst.
          19. ágúst: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
September.
          15. september: Fjarfundur þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs (Anna Kolbrún Árnadóttir).
          15. september: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason).
          18. september: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          25. september: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
Október.
          27. október: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason).
          27. október: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með samstarfsráðherrum Norðurlanda (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          27. október: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með forsætisráðherrum Norðurlanda (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          27. október: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          27. október: Fjarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs (Guðmundur Ingi Kristinsson).
          28. október: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með utanríkisráðherrum Norðurlanda ((Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          28. október: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með ráðherrum almannavarna á Norðurlöndum (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          28. október: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með varnarmálaráðherrum Norðurlanda (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          29. október: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          14.–15. desember: Fjarfundir forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
    Aðrir fundir sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu sem fulltrúar Norðurlandaráðs eða Íslandsdeildar Norðurlandaráðs:
Janúar.
          29.–30. janúar: Heimsókn Norðurlandaráðs til skoska þingsins í Edinborg (Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir).
Mars.
          2. mars: Fundur fastanefndar Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (Oddný G. Harðardóttir).
          9.–10. mars: Heimsókn fulltrúa Norðurlandaráðs til pólska þingsins í Varsjá (Silja Dögg Gunnarsdóttir).
Apríl.
          3. apríl: Óformlegur fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          24. apríl: Fjarfundur um fjárhagsáætlun norræns samstarfs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir).
Júní.
          18. júní: Fjarfundur fjárhagsáætlunarhóps Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir).
Ágúst.
          24. ágúst: Ársfundur Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins með fjarfundarfyrirkomulagi (Kolbeinn Óttarsson Proppé, Oddný G. Harðardóttir).
Október.
          2. október: Fjarfundur formennsku Íslands í Norðurlandaráði með samstarfsráðherra Danmerkur (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir).
          22. október: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norræna fjárfestingarbankans (Vilhjálmur Árnason).
Nóvember.
          10. nóvember: Fjarfundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs með stjórnsýsluhindranaráði Norrænu ráðherranefndarinnar (Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason).
          16. nóvember: Fjarfundur fastanefndar Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (Kolbeinn Óttarsson Proppé).

5. Starfsemi Norðurlandaráðs.
Áhrif COVID-19-faraldursins á starf Norðurlandaráðs.
    COVID-19-faraldurinn hafði margvísleg áhrif á störf Norðurlandaráðs. Janúarfundir ráðsins voru haldnir með hefðbundnu sniði í Kaupmannahöfn en eftir það var eingöngu notast við fjarfundarfyrirkomulag. Skrifstofa Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn lagði mikla vinnu í að finna tæknilegar lausnir sem hentuðu fjarfundum með túlkun. Fyrstu mánuði ársins var notast við Kudo-fjarfundakerfið en í október var nýtt fyrirkomulag innleitt þar sem fundir fóru fram í Zoom en túlkunin í smáforritinu Congress Rental Network (CRN). Á sumum fundum komu upp miklir tæknilegir erfiðleikar en eftir því sem á leið tókst að ráða bót á þeim flestum, sérstaklega eftir að síðarnefnda lausnin var tekin í notkun.
    Í upphafi árs var ráðgert að formennskuáætlun Íslands, sem samþykkt var á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í október 2019, yrði lögð til grundvallar við skipulag starfs Norðurlandaráðs á árinu. Meginþemu hennar voru þrjú: upplýsingaóreiða og falsfréttir, líffræðilegur fjölbreytileiki og tungumálaskilningur milli norrænna þjóða. Ráðgert var að halda námsstefnur og aðra viðburði um þessu þemu í tengslum við fundi Norðurlandaráðs á árinu. Þessir viðburðir féllu að mestu leyti niður vegna COVID-19-faraldursins, að undanskilinni námsstefnu um líffræðilegan fjölbreytileika í hafi sem haldinn var í tengslum við septemberfundi Norðurlandaráðs.
    Að jafnaði heldur Norðurlandaráð tvo þingfundi á ári þar sem helstu mál eru afgreidd og þar sem fram fara umræður með þátttöku ráðherra og fleiri gesta. Snemma árs varð ljóst að vegna faraldursins væri ekki hægt að halda vorþing í Helsinki í Finnlandi í apríl eins og ráðgert hafði verið. Alþingi hafði um langt skeið unnið að undirbúningi Norðurlandaráðsþings sem halda átti í Reykjavík í lok október og fram eftir sumri héldu menn í vonina um að ástandið myndi batna þannig að hægt yrði að halda því til streitu, hugsanlega þó með færri þátttakendum og með ýmsum viðbúnaði til að draga úr smithættu. Einnig var rætt hvort undirbúa ætti það sem varalausn að halda þingfund með fjarfundarfyrirkomulagi en ekki var vilji til þess í forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
    Í ágúst var orðið ljóst að þróun faraldursins væri með þeim hætti að litlar líkur væru á því að hægt væri að halda hefðbundinn þingfund og því ákvað formennska Íslands í Norðurlandaráði í samráði við Íslandsdeildina, yfirstjórn Alþingis, íslensk heilbrigðisyfirvöld og forsætisnefnd Norðurlandaráðs að aflýsa þinginu. Í síðustu viku októbermánaðar, þegar ráðgert hafði verið að halda Norðurlandaráðsþing, voru í stað þess haldnir ýmsir fjarfundir. Flokkahópar og nefndir Norðurlandaráðs funduðu og jafnframt var haldinn sameiginlegur fundur þangað sem boðið var framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og forsætisráðherrum Norðurlanda. Forsætisnefnd fundaði jafnframt með ýmsum ráðherrum. Fundir sem að jafnaði eru haldnir með alþjóðlegum gestum í tengslum við þingið féllu að mestu niður.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur heimild til að taka sér hlutverk þingfundar til að afgreiða mál ef þörf krefur en við venjulegar kringumstæður er það tiltölulega sjaldan gert og aðeins þegar verið er að afgreiða mál sem eru óumdeild. Vegna þess að ekki voru haldnir þingfundir var mun oftar gripið til þess ráðs á árinu 2020. Jafnframt tók forsætisnefnd að sér önnur hlutverk, til dæmis fundi og umræður með ráðherrum, sem að jafnaði fara fram á þingfundi. Forsætisnefnd fundaði einnig oftar en á venjulegu ári. Var það gert annars vegar til að geta sinnt fyrrnefndum verkefnum en einnig vegna þess að fjarfundirnir voru að jafnaði styttri og afgreiðsla mála gekk hægar en á hefðbundnum fundum.
    
Samfélagsöryggi og COVID-faraldurinn.
    Málefni tengd samfélagsöryggi hafa lengi verið til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs og ýmsar tillögur um eflingu norræns samstarfs á þessu sviði hafa verið lagðar fram. Haustið 2018 ákvað Norðurlandaráð að leggja enn meiri áherslu á þetta svið með því að skipa vinnuhóp til að móta sameiginlega stefnu um samfélagsöryggi. Oddný G. Harðardóttir átti sæti í þeim hópi. Vinnuhópurinn skilaði drögum að stefnu sumarið 2019 og endanleg útgáfa var síðan samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi um haustið.
    Í stefnunni er meðal annars hvatt til aukins samstarfs Norðurlanda á sviði heilbrigðismála og bent er á heimsfaraldra sem eina af þeim ógnum sem steðja að Norðurlöndum. Sérstaklega er tekið fram að samræma þurfi aðgerðir Norðurlanda til að tryggja framboð á mikilvægum lyfjum og öðrum búnaði til lækninga. Í stefnunni eru einnig tillögur sem miða að því að efla samstarf landanna í friðar-, netöryggis- og löggæslumálum, um matvæla- og orkudreifingu, almannavarnir og björgunarsveitir og um varnir gegn efna-, sýkla-, geisla- og kjarnavopnum.
    Í janúar 2020 samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs að senda ríkisstjórnum landanna stefnuna. Jafnframt var óskað eftir ítarlegum svörum um það hvort og hvernig ríkisstjórnirnar og Norræna ráðherranefndin hygðust fara að tillögunum og beðið var um ítarlegan rökstuðning í þeim tilvikum þar sem ákveðið væri að gera það ekki.
    Í apríl þegar Norðurlönd voru, eins og heimsbyggðin öll, að glíma við Covid-19 faraldurinn ákvað Norðurlandaráð að frumkvæði íslensku formennskunnar að fylgja tillögunum eftir með því að senda forsætisráðherrum Norðurlanda bréf. Norðurlandaráð ítrekaði í bréfinu mikilvægi þess að farið yrði að tillögunum í stefnunni um samfélagsöryggi en jafnframt voru í því nýjar tillögur og ábendingar. Löndin voru hvött til að hjálpa hvert öðru eftir þörfum, svo sem með lækningabúnaði og heilbrigðisstarfsfólki í samræmi við norræna samninga og fyrri yfirlýsingu þess efnis og að skoða hvort hægt væri að samræma viðbrögð við faröldrum til framtíðar þannig að ráðstafanir landanna leiddu ekki til nýrra stjórnsýsluhindrana milli þeirra. Einnig var óskað eftir því að ríkisstjórnirnar samræmdu aðgerðir sem miða að því að endurreisa og styrkja efnahag landanna í kjölfar faraldursins og að í þeim aðgerðum yrði lögð áherslu á græna og sjálfbæra þróun og tillit yrði tekið til viðkvæmra samfélagshópa. Að lokum voru ríkisstjórnirnar hvattar til þess að efla alþjóðlegt samstarf og að auka norræna samhæfingu í stofnunum á boð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og í Evrópusambandinu.
    Svör ríkisstjórna Norðurlanda bárust í júní. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi sínum 19. ágúst að fela starfshópi nefndarinnar sem mótað hafði stefnuna á sínum tíma að fara yfir svörin. Jafnframt var ákveðið að kalla ráðherrana til samráðs um þau. Starfshópurinn skilaði áliti sínu fyrir fund forsætisnefndar 18. september og samþykkt var að leggja það til grundvallar fyrir fundina með ráðherrunum. Starfshópurinn taldi að ríkisstjórnirnar hefðu svarað sumum spurningum með fullnægjandi hætti en í öðrum tilvikum hefðu svörin verið óskýr eða rökstuðning vantað fyrir að fara ekki að tillögum Norðurlandaráðs.
    Samráð með ráðherrunum fór fram með fjarfundarfyrirkomulagi dagana 27. og 28. október. Fundað var með forsætis-, samstarfs-, utanríkis- og varnarmálaráðherrum og ráðherrum viðbúnaðarmála. Nánast allir ráðherrar þessara málaflokka komu til fundar við forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ræddu svör við spurningum sem féllu undir þeirra verksvið.
    Fundirnir voru lokaðir en á þeim öllum kom fram skýr og greinilegur munur á mati ráðherranna annars vegar og Norðurlandaráðs hins vegar á norrænu samstarfi í tengslum við COVID-19-faraldrinum og þörfina á breytingu og eflingu samstarfs um samfélagsöryggi. Þingmenn forsætisnefndar Norðurlandaráðs töldu að löndin hefðu ekki haft nægilegt samráð um aðgerðir vegna faraldursins og að lokanir landamæra og ýmsar aðrar ráðstafanir hefðu haft neikvæðar afleiðingar fyrir samstarfið og fyrir Norðurlandabúa, sérstaklega íbúa á landamærasvæðum og aðra sem þurfa af ýmsum ástæðum að fara milli landanna. Silja Dögg Gunnarsdóttir áréttaði að með þessu hefðu yfirvöld brugðist íbúum landanna og fleiri tóku undir það. Þingmenn gagnrýndu ráðherrana fyrir að sýna ekki nægilegan metnað í samstarfinu á þessu sviði og bentu á að verulegra umbóta væri þörf á mörgum sviðum samfélagsöryggis. Ýmsir ráðherranna sögðu á móti á að þeir hefðu fundað títt og skipst á upplýsingum eftir að faraldurinn brast á og að samstarfið hefði í heildina gengið vel. Ýmsir þeirra bentu á sameiginlegt átak um heimflutning norrænna ríkisborgara frá öðrum löndum í upphafi faraldursins sem dæmi um vel heppnað samstarf.

Fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs 2021.
    Að venju leiddu forseti og varaforseti viðræður Norðurlandaráðs við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir árið 2021. Fjárhagsáætlunarferlið hefst með því að Norðurlandaráð samþykkir lista yfir forgangsmál sem sendur er Norrænu ráðherranefndinni. Ráðherranefndin gerir því næst drög að fjárhagsáætlun þar sem að einhverju leyti er tekið tillit til áherslna Norðurlandaráðs. Fulltrúar Norðurlandaráðs funda síðan nokkrum sinnum með samstarfsráðherra þess lands sem er í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni til að komast að samkomulagi um einstök atriði áætlunarinnar. Að þessu sinni urðu fundirnir fleiri en venjulega enda voru breytingar á fjárhagsáætluninni meiri en oftast áður og forseti og varaforseti Norðurlandaráðs sóttu það fast að hlustað væri á sjónarmið ráðsins.
    Viðræðurnar hófust í janúar með fundi fjárhagsáætlunarhóps Norðurlandaráðs, sem skipaður er fulltrúum flokkahópa Norðurlandaráðs auk forseta og varaforseta, með þáverandi samstarfsráðherra Danmerkur, Mogens Jensen. Sams konar fundir voru haldnir í júní, ágúst og september. Fjárhagsáætlunarhópurinn fundaði einnig í apríl og í október funduðu Silja Dögg og Oddný með samstarfsráðherranum til að leggja lokahönd á samkomulag Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2020 var mótuð framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á árinu voru samdar þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á áherslunum þremur. Framtíðarsýnin og framkvæmdaáætlanirnar eru nýmæli í norrænu samstarfi. Þessir þættir mótuðu mjög drög Norrænu ráðherranefndarinnar að fjárhagsáætlun og leiddu til þess að tilfærslur milli málefnasviða voru meiri en oftast áður. Fjármagn var veitt til verkefna sem miðuðu beint að því að gera framtíðarsýnina að veruleika og skorið var niður á öðrum sviðum. Menningar- og menntamál hafa löngum verið fyrirferðamikil í fjárhagsáætlunum norræns samstarfs og framlög til þeirra áttu að dragast verulega saman samkvæmt tillögum Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Þingmenn í Norðurlandaráði gagnrýndu þennan niðurskurð og töldu hann of harkalegan. Sú gagnrýni harðnaði enn eftir að áhrifa COVID-19-faraldursins tók að gæta í menningargeiranum á Norðurlöndum. Töldu margir þingmenn, þar á meðal fulltrúar Íslands í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, að taka þyrfti tillit til þessara sérstöku aðstæðna og endurskoða fjárhagsáætlunina til samræmis. Mikil samstaða var milli flokkahópa í málinu. Viðræður fjárhagsáætlunarhóps Norðurlandaráðs og samstarfsráðherra Danmerkur skiluðu nokkrum árangri í þessa átt. Á fundi Silju Daggar og Oddnýjar með Mogens Jensen í október náðist meðal annars samkomulag um að hætta við eða draga verulega úr niðurskurði til Norræna menningarsjóðsins, Orkester Norden, Norrænu bókmenntavikunnar og Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi.
    Í tengslum við umræður um fjárhagsáætlun norræns samstarfs gerði Norðurlandaráð kröfu um að stofnuð yrði ráðherranefnd í samgöngumálum. Slík ráðherranefnd var áður starfandi en var lögð niður í tengslum við skipulagsbreytingar árið 2005. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu Norðurlandaráðs fékkst þessi krafa ekki í gegn á árinu. Meiri hluti samstarfsráðherra Norðurlanda var tillögunni samþykkur en hún strandaði á andstöðu samgönguráðherra Finnlands og Svíþjóðar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Íslands lýsti eindregnum stuðningi við óskir Norðurlandaráðs í þessum efnum.

Ráðning nýs framkvæmdastjóra.
    Í byrjun september tilkynnti Britt Bohlin, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, að hún hygðist láta af störfum í lok janúar 2021 eftir sjö ára starf. Skipaður var starfshópur undir forystu Silju Daggar til að ráða nýjan framkvæmdastjóra. Steinunn Þóra Árnadóttir átti einnig sæti í hópnum sem fulltrúi norrænna vinstri grænna. Að loknum viðtölum lagði hópurinn til að Kristina Háfoss yrði ráðin í starfið. Sú tillaga var samþykkt á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs 14. desember. Kristina Háfoss er þingmaður og fyrrverandi ráðherra og menntuð í lögfræði og hagfræði. Hún verður fyrst Færeyinga til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs.
    
Bókhaldserfiðleikar Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Innleiðing nýs bókhaldskerfis Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2019 var upphafið að atburðarás sem hafði töluverð áhrif á störf Norðurlandaráðs á árinu 2020. Innleiðingin sjálf gekk illa og varð mun tímafrekari og erfiðari en gert hafði verið ráð fyrir. Við skoðun dönsku ríkisendurskoðunarinnar komu jafnframt í ljós ýmsir vankantar á fjármálastjórn Norrænu ráðherranefndarinnar sem teygja sig lengra aftur í tímann. Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar sér einnig um bókhald Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins og erfiðleikarnir höfðu því einnig áhrif á þær stofnanir. Verst var þó staðan varðandi verkefnastjórn Norrænu ráðherranefndarinnar. Eftirlitsnefnd og forsætisnefnd Norðurlandaráðs fylgdust vel með málum og fengu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og samstarfsráðherra Danmerkur, sem þá var í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, ítrekað á fundi til að gera grein fyrir stöðu mála. Norrænu ráðherranefndin þurfti að leggja í verulegan kostnað til að ráða bót á vandanum. Áhrifin á starfsemi Norðurlandaráðs voru mun minni. Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs undir forystu norsku þingkonunnar Ruth Mari Grung fékk mikið hrós íslensku formennskunnar og annarra forsætisnefndarmanna fyrir aðkomu sína að málinu og hafði forsætisnefnd mikið gagn af tillögum og ráðgjöf eftirlitsnefndarinnar. Þegar kom fram í lok árs 2020 var vandinn að mestu leystur.

Alþjóðasamstarf.
    Norðurlandaráð á samstarf við ýmis önnur alþjóðasamtök, lönd og svæði í nágranni Norðurlanda. Áherslurnar í alþjóðasamstarfinu og helstu samstarfsaðilar eru nefndir í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum fyrir tímabilið 2018–2022. Fulltrúar þessara aðila koma að jafnaði á Norðurlandaráðsþing og ýmsa fundi Norðurlandaráðs og jafnframt fara fulltrúar Norðurlandaráðs, oft forseti og varaforseti hvers árs, á fundi og í heimsóknir utan Norðurlanda. Þessi hefðbundnu samskipti féllu að miklu leyti niður vegna COVID-19-faraldursins. Þó fóru fulltrúar Norðurlandaráðs í nokkrar ferðir í byrjun árs.

Samskipti við skoska þingið.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti, Oddný G. Harðardóttir varaforseti og sænski þingmaðurinn Hans Wallmark þáðu boð skoska þingsins um að koma í heimsókn til Edinborgar í lok janúar. Sendinefndin kom til Skotlands 30. janúar, daginn fyrir útgöngu Bretlands úr ESB. Brexit var þar af leiðandi töluvert til umræðu í heimsókninni og þá sérstaklega þýðing þess fyrir Skotland og samstarf við Norðurlönd og ESB. Hvorir tveggja skosku þingmennirnir og fulltrúar Norðurlandaráðs undirstrikuðu mikilvægi þess að halda áfram uppi öflugu samstarfi eftir Brexit. Silja Dögg, Oddný og Wallmark funduðu meðal annars með Ken Macintosh, forseta skoska þingsins, og með fulltrúum þingmannanefndar sem sinnir samskiptum við Norðurlönd (Cross Party Group on Nordic Countries). Rætt var um að fulltrúar skoska þingsins myndu koma á Norðurlandaráðsþing en vegna COVID-19-faraldursins varð ekki af því. Samskiptin héldu þó áfram. Silja Dögg og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, áttu til dæmis fjarfund með Macintosh þingforseta 20. apríl og ræddu þá meðal annars kórónuveirufaraldurinn og mikilvægi náins samstarfs á erfiðum tímum. Í öllum þessum samskiptum kom skýrt fram mikill áhugi skoska þingsins á nánum tengslum við Norðurlandaráð og Norðurlönd almennt og áform voru um að halda þeim áfram í formennskutíð Dana í Norðurlandaráði 2021.

Heimsókn til Póllands.
    Í mars fóru Silja Dögg, norski þingmaðurinn Michael Tetzschner og finnski þingmaðurinn Erkki Tuomioja sem fulltrúar Norðurlandaráðs í heimsókn til pólska þingsins. Forseti öldungadeildarinnar, Tomasz Grodzki, sem er þingmaður stjórnarandstöðunnar, bauð Norðurlandaráði til þessarar heimsóknar í því skyni taka upp að nýju samstarf sem legið hafði niðri frá árinu 2015 þegar þjóðernisflokkurinn Lög og réttur (PIS) komst til valda í Póllandi. Öldungadeild pólska þingsins var á þessum tíma ein fárra stofnana í landinu þar sem stjórnarandstaðan var ráðandi.
    Í samræðum norrænu gestanna við Grodzki og aðra pólska þingmenn var meðal annars fjallað um umdeildar breytingar á dómskerfinu, afskipti valdhafa af störfum fjölmiðla, falsfréttir og upplýsingaóreiðu og slæma stöðu hinsegin fólks. Norrænu þingmennirnir lýstu vilja sínum til að styðja eftir mætti við lýðræðisöflin í Póllandi. Einnig var rætt um stöðu pólskra innflytjenda á Norðurlöndum. Á fundi með utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar voru öryggismál á dagskrá og sérstaklega staðan í Úkraínu.

Eystrasaltsþingið, Benelux-þingið og Hvíta-Rússland.
    Norðurlandaráð hefur um árabil átt í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið sem eru samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháen og svipar um margt til Norðurlandaráðs. Benelux-þingið er samstarfsvettvangur þinga Belgíu, Hollands og Lúxemborgar og hefur það einnig átt í töluverðum samskiptum við Norðurlandaráð um nokkurt skeið.
    Benelux-þingið hélt rafræna þingfundi og aðra viðburði á árinu og bauð fulltrúum Norðurlandaráðs til þátttöku. Silja Dögg og Oddný tóku meðal annars þátt í ráðstefnu á vegum Benelux-þingsins í október þar sem rætt var um Brexit og stöðuna í Hvíta-Rússlandi. Oddný tók einnig þátt í fundi Norðurlandaráðs með fulltrúum Benelux-þingsins í Brussel í mars.
    Fulltrúar Eystrasaltsþingsins, Benelux-þingsins og Norðurlandaráðs komu einnig saman á nokkrum þríhliða fundum á árinu og er það nýmæli. Þar voru Silja Dögg og Oddný meðal þátttakenda. Helstu umræðuefni voru Covid-19 faraldurinn og málefni Hvíta-Rússlands.
    Norðurlandaráð hefur árlega haldið námsstefnu um Hvíta-Rússland og á annan hátt látið sig málefni þess varða. Sökum Covid-19 faraldursins féll ráðstefnan niður í þetta sinn en vegna ólgunnar í Hvíta-Rússlandi í tengslum við forsetakosningarnar 9. ágúst ákvað forsætisnefnd Norðurlandaráðs að skipa sérstakan starfshóp til að fylgjast með stöðu mála og leggja til aðgerðir. Silja Dögg og Oddný áttu báðar sæti í hópnum. Starfshópurinn fékk góðan stuðning frá skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Litháen sem fylgist náið með þróun mála í nágrannalandinu í austri. Í september hélt hópurinn fjarfund með Svetlönu Tíkhanovskaju, helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, til að sýna lýðræðisöflum í landinu stuðning.

Evrópusambandið.
    Haustið 2017 kom Norðurlandaráð á fót skrifstofu með einum starfsmanni í Brussel til að sinna samskiptum við Evrópusambandið, einkum þó Evrópuþingið. Árið 2020 rann starfsumboð skrifstofunnar út og miklar umræður fóru fram í Norðurlandaráði um framtíð hennar. Ákveðið var að halda áfram starfsemi skrifstofunnar en að skilgreina betur verkefni hennar.
    Í apríl sendi Norðurlandaráð beiðni til Evrópuþingsins um að taka upp formlegt þingmannasamstarf sambærilegt því sem Evrópuþingið á við Noreg, Ísland og Vestnorræna ráðið. Beiðnin var samþykkt en samstarfið hefst árið 2021.
    Ráðgert hafði verið að Norðurlandaráð stæði fyrir námsstefnum í Brussel í mars um stafræna þróun, orkumál og sýklalyfjaónæmi með þátttöku þingmanna ráðsins og Evrópuþingsins. Þeim var ítrekað frestað vegna COVID-19-faraldursins og að lokum var hætt við halda þær á árinu 2020.

Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Oddný G. Harðardóttir tók þátt í fundi fastanefndar Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC) sem haldinn var í Brussel 2. mars sem fulltrúi Norðurlandaráðs. Oddný var einnig fulltrúi Norðurlandaráðs á ársfundi BSPC sem haldinn var með fjarfundarfyrirkomulagi 24. ágúst. Kolbeinn Óttarsson Proppé sat ársfundinn sem fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Hann sótti einnig fjarfund fastanefndar samtakanna 16. nóvember. Í nóvember tók Kolbeinn sæti í nýjum vinnuhópi BSPC um loftslagsmál. Norðurlandaráð lagði í starfi sínu í BSPC áherslu á lýðræði, mannréttindi og málefni Hvíta-Rússlands.

6. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. danskar kr.
    Undanfarin ár hafa verðlaun Norðurlandaráðs verið afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Vegna COVID-19-faraldursins var það ekki hægt í þetta sinn. Í staðinn var brugðið á það ráð að gera sjónvarpsþátt um verðlaunin og verðlaunahafa ársins. RÚV sá um gerð þáttarins í nánu samstarfi við skrifstofu Alþingis, Norræna húsið og skrifstofu og upplýsingadeild Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Þátturinn var sýndur á RÚV 27. október. Á vef Norðurlandaráðs, www.norden.org, eru nánari upplýsingar um verðlaunin.

7. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2021.
    Danir fara með formennsku í Norðurlandaráði 2021. Bertel Haarder er forseti ráðsins 2021 og Annette Lind varaforseti.
    Norðurlandaráðsþing verður haldið í Kaupmannahöfn.
    Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Dana árið 2021 eru norrænt samstarf um varnarmál og almannavarnir, loftslagsmál, menning og tungumál og ferðamennska.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
form.
Oddný G. Harðardóttir,
varaform.
Vilhjálmur Árnason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Steinunn Þóra Árnadóttir. Inga Sæland.
Anna Kolbrún Árnadóttir.


Fylgiskjal I.


Tilmæli Norðurlandaráðs árið 2020.


Tilmæli.
          Tilmæli 1/2020 – Reiki á Norðurlöndum að Færeyjum og Grænlandi meðtöldum.
          Tilmæli 2/2020 – Ríkisstjórnirnar fjalli um stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi.
          Tilmæli 3/2020 – Endurnýtingarstefna.
          Tilmæli 4/2020 – Rannsókn á súrnun sjávar.
          Tilmæli 5/2020 – Aðgerðir til að draga úr matarsóun á Norðurlöndum.
          Tilmæli 6/2020 – Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2021.
          Tilmæli 7/2020 – Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2021–2024.
          Tilmæli 8/2020 – Ný samstarfsáætlun á menningarsviði 2021–2024.
          Tilmæli 9/2020 – Ný samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun og -skipulag.
          Tilmæli 10/2020 – Áætlun um samstarfið Nágrannar í vestri 2021–2023.
          Tilmæli 11/2020 – Fjölmiðla- og upplýsingalæsi.
          Tilmæli 12/2020 – Forvarnir gegn sjálfsvígum á Norðurlöndum.
          Tilmæli 13/2020 – Afnám klukkubreytinga á Norðurlöndum.
          Tilmæli 14/2020 – Aukið eftirlit með skipum í norrænum höfnum varðandi áfengismælingar og öryggi um borð.
          Tilmæli 15/2020 – Næturlestir á Norðurlöndum.
          Tilmæli 16/2020 – Samanburðargreining á áhrifunum sem lokun skóla hefur haft á nemendur á Norðurlöndum.
          Tilmæli 17/2020 – Örplast í líkamanum.
Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2020.


Stöndum vörð!
    Á síðustu árum hefur verið sótt að ýmsum stoðum lýðræðissamfélags og þeim gildum sem hafa verið ríkjandi í alþjóðasamskiptum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt stendur mannkynið allt frammi fyrir hættulegri þróun og erfiðum úrlausnarefnum í tengslum við þær breytingar sem verða á loftslagi jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Einnig, að hluta til vegna loftslagsbreytinganna, er hætt við að mjög muni draga úr líffræðilegum fjölbreytileika til ómælds skaða fyrir náttúruna og mannfólkið allt.
    Nú reynir á ríki þar sem lýðræðishefðin er sterk, virðing fyrir mannréttindum og réttarríkinu rótgróin og áhuginn á umhverfisvernd mikill að vinna saman og standa vörð um grundvallarverðmæti.
    Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði 2020 verður lögð áhersla á að
          standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem grafa undan því,
          standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika sem ógnað er af loftslagsbreytingum, mengun og fleiri þáttum sem rekja má til starfsemi manna,
          treysta böndin milli Norðurlandabúa með því að efla tungumálakunnáttu innan Norðurlanda til að stuðla að því að þeir geti í sameiningu tekist á við þessi stóru verkefni.

Upplýsingaóreiða og falsfréttir.
    Upplýsingaóreiða og falsfréttir ógna friði í heiminum með því að grafa undan trausti og gildum lýðræðis og mannréttinda.
    Falsfréttir og áhrif þeirra á kosningaúrslit og lýðræðið almennt hafa verið mikið til umræðu á síðustu árum, einkum í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2016 og þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit í Stóra-Bretlandi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að erlendir aðilar hafa reynt að hafa áhrif á kosningar með ýmsum aðferðum, þar á meðal með því að dreifa falsfréttum. 1
    Dreifing villandi og falskra upplýsinga til að koma höggi á andstæðinga á sér langa sögu og hefur oft verið skipulega beitt í deilum og átökum þjóða, hópa og einstaklinga. Með þeirri byltingu sem orðið hefur í net- og upplýsingatækni og ekki síst með tilkomu og hröðum vexti samfélagsmiðla á síðustu árum hefur þessi ógn tekið á sig nýja og geigvænlegri mynd en áður. Hægt er að safna margvíslegum upplýsingum um notendur miðlanna og beina í kjölfarið að þeim sérsniðnum falsfréttum og áróðri sem ætla má að þeir séu móttækilegir fyrir.
    Í sumum tilvikum eru þessar falsfréttir sem birtast á samfélagsmiðlunum ekki sérstaklega til þess ætlaðar að grafa undan lýðræðissamfélögum heldur er markmiðið einfaldlega að fá notendur til að smella á þær og afla þannig auglýsingatekna. Áhrifin á traust og lýðræði eru þó að miklu leyti hin sömu og í upplýsingastríði aðila þar sem röngum upplýsingum er dreift í því skyni að koma höggi á stjórnvöld og stofnanir í opnum lýðræðislegum samfélögum og valda pólitískum óstöðugleika.
    Ljóst er að stjórnvöld geta ekki ein ráðið fram úr þessum vanda. Þá mega úrræði sem miða að því að auka áfallaþol samfélagsins ekki verða til þess að fórna þurfi því frelsi og grunngildum sem eru undirstaða lýðræðisríkja. Virkja þarf samfélagið allt og nýta sér þann styrk sem býr í opnu og frjálsu samfélagi þar sem frjáls félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar fá að þrífast og dafna. Þessir aðilar þurfa allir að taka höndum saman til að verjast þessari nýju ógn. 2
    Óháðir og trúverðugir fjölmiðlar hafa löngum verið eitt helsta mótvægið við áróðri og fölskum upplýsingum en þeim hefur reynst erfitt að fóta sig í nýjum veruleika sem mótast af upplýsingatækni og samfélagsmiðlum. Auglýsingatekjur sem áður voru mikilvægur þáttur í fjármögnun fjölmiðlareksturs lenda nú að miklu leyti í höndum alþjóðlegra tæknifyrirtækja sem ekki búa við sama lagaramma og faglegir og sjálfstæðir fjölmiðlar. Þessi þættir stuðla saman að því að fjölmiðlum reynist erfitt að uppfylla lýðræðishlutverk sitt.
    Á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði hyggst Íslandsdeild Norðurlandaráðs beita sér fyrir umræðu um dreifingu falskra og villandi upplýsinga með því að leita svara við eftirfarandi spurningum:
          Hvernig geta stjórnvöld, stjórnmálamenn, félagasamtök og aðrar stofnanir samfélagsins brugðist við dreifingu rangra og villandi upplýsinga til almennings í þeim tilgangi að standa vörð um lýðræðisleg grundvallargildi og mannréttindi? Hvert er hlutverk norræns samstarfs á þessu sviði?
          Hvaða hlutverki geta fjölmiðlar gegnt í baráttunni gegn falsfréttum og villandi upplýsingum og hvaða stuðning þurfa þeir til að geta sinnt því verkefni? Getur norrænt samstarf stuðlað að því að styrkja stöðu fjölmiðlanna og hvernig getur Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin beitt sér?
          Hvernig er hægt að auka vitund almennings um dreifingu rangra upplýsinga og falsfrétta, þannig að sem flestir verði meðvitaðir um hættuna sem getur falist í að dreifa þeim? Hvernig er betur hægt að nýta norrænt samstarf til þess?

Líffræðilegur fjölbreytileiki.
    Í formennskutíð Íslendinga í Norðurlandaráði 2020 er ætlunin að beina sjónum að tveimur þáttum sem tengjast líffræðilegri fjölbreytni. Annars vegar er fyrirhugað að virkja ungt fólk á Norðurlöndum þannig að það geti haft áhrif á mótun nýrra alþjóðlegra markmiða um líffræðilega fjölbreytni á árinu 2020. Þetta tengist beint verkefni sem Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin eru að vinna að og er afrakstur tillögu sem samþykkt var í Norðurlandaráði í fyrra. Hinn þátturinn snýr að líffræðilegri fjölbreytni í hafi sem hefur mikið gildi fyrir Ísland og önnur norræn ríki sem eru mjög háð auðlindum hafsins.
    Útdauði tegunda í heiminum eykst nú hraðar en áður hefur þekkst og ljóst er að tap á líffræðilegri fjölbreytni er að mestu leyti af mannavöldum. Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika sem kom út í maí 2019 segir að fjórðungur dýra- og plöntutegunda á jörðinni sé í útrýmingarhættu. 3
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) var samþykktur á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro árið 1992. Markmið samningsins eru þrjú, þ.e. að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu og tryggja ráðstöfunarrétt ríkja yfir erfðafræðilegum auðlindum sínum og skiptingu hagnaðar af nýtingu. Til þessa hafa 196 ríki gerst aðilar að samningnum um líffræðilega fjölbreytni.
    Í samningnum frá 1992 er líffræðileg fjölbreytni skilgreind sem „breytileiki meðal lífvera frá öllum uppsprettum, þar með talin meðal annars vistkerfi á landi, í sjó og vötnum og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af: þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og í vistkerfum.“
    Árið 2010 samþykktu aðildarríki samningsins um líffræðilega fjölbreytni 20 heimsmarkmið (Aichi-markmiðin) um framkvæmd hans til ársins 2020. Meðal annars átti að vernda svæði sem mikilvæg væru fyrir líffræðilega fjölbreytni og viðkvæm vistkerfi. Miðað er við að um 17% þurrlendis og votlendis verði friðuð, en um 10% hafsvæða.
    Á næsta ári er stefnt að því að ríki heims setji sér ný markmið um líffræðilegan fjölbreytileika sem leysa af hólmi markmiðin frá 2010. Umhverfisráðherrar Norðurlanda samþykktu á fundi sínum í apríl 2019 að senda sameiginlegt bréf til Sameinuðu þjóðanna þar sem lögð yrði áhersla á mikilvægi þess að sýna metnað og stórhug svo að ná mætti markmiðum um líffræðilegan fjölbreytileika sem taka við eftir árið 2020. 4

Áhrif ungs fólks á markmið um líffræðilegan fjölbreytileika.
    Norðurlandaráð samþykkti í fyrra tillögu um að vinna að því að virkja ungt fólk á Norðurlöndum þannig að það geti haft áhrif á mótun nýrra alþjóðlegra markmiða um líffræðilega fjölbreytni 2020. 5 Ráðgert er að halda fundi ungmenna í öllum norrænu löndunum og svo sameiginlegan norrænan fund í byrjun árs 2020 þar sem samþykktar verða ályktanir um markmiðin sem beint verður til ríkisstjórna og alþjóðasamfélagsins. Í kjölfarið er stefnt að því að unga fólkið haldi fundi með fulltrúum landa og alþjóðastofnana til að koma viðhorfum sínum á framfæri.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hyggst á formennskuárinu styðja við þetta starf og aðstoða við að koma ályktunum og ábendingum unga fólksins á framfæri.

Líffræðileg fjölbreytni í hafi.
    Í úttekt Sameinuðu þjóðanna á vistkerfum jarðar frá 2005 (Millennium Ecosystem Assessment) er bent á ýmsar hættur sem steðja að lífríki sjávar:
          Mengun af landi og næringarefnaofauðgun (eutrophication).
          Ofveiði, stjórnlausar veiðar og ólögmætar veiðar (Illegal, Unreported and Unregulated (IUU) fishing).
          Búsvæðaeyðing/búsvæðaröskun (Alterations of physical habitats).
          Innflutningur framandi tegunda (Invasions of exotic species).
          Loftslagsbreytingar.
    Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um áhrif loftslagsbreytinganna á hafið og freðhvolfið sem kynnt var í september 2019 segir að þær séu þegar farnar að hafa áhrif á vistkerfi á strandsvæðum, úti á opnu hafi og á hafsbotni. 6 Loftslagsbreytingarnar leiði meðal annars til hlýnunar sjávar sem aftur valdi hækkandi sýrustigi. Þessi þróun í samspili við annað álag af mannavöldum á höfin getur leitt til þess að líffræðilegur fjölbreytileiki glatist.
    Í byrjun árs 2018 lagði Íslandsdeild Norðurlandaráðs fram tillögu um norrænt samstarf um rannsóknir á súrnun sjávar. Á formennskuárinu mun hún fylgja því máli eftir og beita sér fyrir því að í umræðu og við mótun markmiða um verndun líffræðilegs fjölbreytileika verði sérstaklega horft til umhverfis hafsins.
1     time.com/5340060/donald-trump-vladimir-putin-summit-russia-meddling/
2    Sjá Mikael Wigell: Democratic deterrence: How to dissuade hybrid interference. FIIA Working Paper 110. www.fiia.fi/en/publication/democratic-deterrence
3     www.ipbes.net/news/Media-Release-Global-Assessment
4     www.norden.org/is/news/ny-markmid-um-liffraedilegan-fjolbreytileika-thurfa-ad-vera-metnadarfull
5     www.norden.org/is/node/24821
6     www.ipcc.ch/srocc/home/