Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 832  —  500. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2020.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2020 bar hæst umræðu um þau áhrif sem heimsfaraldur kórónuveiru hafði á málefnasvið þingsins og viðbrögð aðildarríkja við faraldrinum. Eftir að heimsfaraldurinn breiddist út í aðildarríkjum NATO-þingsins í mars var tekin ákvörðun um að aflýsa skipulögðum fundum og vorfundi þingsins sem fyrirhugað var að færi fram í Kænugarði í maí. Í framhaldinu voru allir fundir og ráðstefnur færðar yfir á rafrænt form auk þess sem gerðar voru breytingar á starfsreglum NATO-þingsins svo hægt væri að afgreiða brýn mál á fjarfundum, svo sem að kjósa nýjan forseta NATO-þingsins, og koma í veg fyrir að faraldurinn takmarkaði enn frekar störf þingsins.
    Heimsfaraldurinn setti mark sitt á starf þingsins á árinu og unnu allar málefnanefndir þingsins skýrslur um COVID-19 út frá sínu málefnasviði. Þá var stofnaður vettvangur fyrir formenn landsdeilda til skoðanaskipta um faraldurinn auk framsetningar fjölbreyttra upplýsinga um faraldurinn á vefsvæði þingsins. Þingmönnum var tíðrætt um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins sem einn mesta óvissuþátt komandi ára og þótti ljóst að opinber fjármál yrðu eitt erfiðasta verkefni aðildarríkjanna. Þá ályktaði þingið um áframhaldandi fjárfestingar bandalagsins í varnarmálum eftir COVID-19 og efnahagslegt þol og heimsfaraldra.
    Staða kvenna í öryggis- og varnarmálum fékk aukna athygli á árinu. Þingið ályktaði um jafnréttismál innan NATO og mikilvægi þess að innleiða þau í starfsemi og stefnur tengdar öryggis- og varnarmálum með nánari útfærslu á innleiðingu öryggisályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Íslandsdeild fagnaði ályktuninni og lagði áherslu á að jafnréttissjónarmið yrðu innleidd í allri starfsemi NATO, bæði í hernaðarlega uppbyggingu og pólitíska.
    Þá vakti Íslandsdeild athygli á málefnum norðurslóða á fundum NATO-þingsins. Í svari framkvæmdastjóra NATO við fyrirspurn frá Íslandsdeild á ársfundi þingsins kom fram að bandalagið mundi í auknum mæli horfa til svæðisins. Mikilvægi norðurslóða hefði aukist, m.a. með bráðnun jökla, aukinni hernaðarviðveru Rússa og miklum áhuga Kína á norðurslóðum. NATO legði því aukna áherslu á norðurslóðir og hefði aukið sýnileika sinn, fjölgað heræfingum og bætt varnir gegn kafbátum. Þingmenn voru þó sammála um mikilvægi þess að viðhalda lágri spennu á svæðinu eins og verið hefði, þrátt fyrir að hernaðarviðvera, einkum Rússa, hefði aukist.
    NATO-þingið sendi framlag sitt til sérfræðihóps og framkvæmdastjóra NATO um það hvernig efla megi samstöðu aðildarríkjanna og pólitískt samráð undir merkjum NATO 2030. Þingið samþykkti einnig ályktun um málið þar sem NATO er hvatt til þess að uppfæra stefnumótun sína í ljósi breyttra aðstæðna. Í henni er m.a. lagt er til að bandalagið viðhaldi sterkum vörnum gagnvart Rússum og dragi þá til ábyrgðar fyrir að brjóta alþjóðalög en verði áfram opið fyrir samtali.
    Málefni Rússlands og Kína voru einnig í brennidepli á árinu. Meðlimir þingsins lýstu yfir áhyggjum af auknum hernaðarumsvifum Rússa, nútímavæðingu herafla þeirra og sniðgöngu á alþjóðaskuldbindingum. Þá ályktaði þingið um efnahagslega getu Kína og stefnumótun yfir Atlantshaf. Þar er m.a. lagt til að NATO meti þau tækifæri og áskoranir sem felast í aðgerðum Kínverja á alþjóðavísu og kanni möguleika á nánari samræðum. Skoða beri áhrif Kína á valdajafnvægi í heiminum á breiðum grunni. Að auki lýstu meðlimir þingsins yfir áhyggjum af þeirri ógn sem stafaði af falsfréttaherferðum um heimsfaraldurinn, sem einkum kæmu frá Rússlandi og Kína.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2020 má nefna umræður um það hvernig NATO geti styrkt samstarf sitt við Evrópusambandið, ástandið við Svartahaf í ljósi efnahagslegrar og landfræðilegrar spennu á svæðinu, nýsköpun í varnarmálum og leiðir til að auka fræðslu og þekkingu á bandalaginu. Einnig var rætt um þróun mála í Afganistan og áframhaldandi stuðning bandalagsins við stjórnvöld í landinu, vopnuð átök í Nagorno-Karabakh og harkaleg viðbrögð stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi við mótmælum í kjölfar forsetakosninga þar í landi í ágúst 2020.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja eiga nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE ( Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 269 þingmenn frá aðildarríkjunum 30. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 91 þingmaður frá 12 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forystumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2020 Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknar. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Íslandsdeildin hélt einn rafrænan undirbúningsfundi fyrir ársfundi NATO-þingsins.

Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2020 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Birgir Ármannsson
Stjórnmálanefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Birgir Ármannsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Þorgerður K. Gunnarsdóttir
    Til vara: Jón Steindór Valdimarsson
Nefnd um borgaralegt öryggi: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Efnahagsnefnd: Willum Þór Þórsson
    Til vara: Halla Signý Kristjánsdóttir
Vísinda- og tækninefnd: Njáll Trausti Friðbertsson
    Til vara: Birgir Ármannsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Þorgerður K. Gunnarsdóttir

    Njáll Trausti Friðbertsson var endurkjörinn einn fjögurra varaformanna vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur jafnan tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins jafnan saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda. Vegna heimsfaraldurs COVID-19 var á árinu hætt við fjölda funda NATO-þingsins eða þeir færðir í fjarfundaform.
    Á árinu tók Íslandsdeild þátt í febrúarfundum í Brussel og rafrænum ársfundi í nóvember. Einnig tóku formaður og varaformaður þátt í rafrænum fundum stjórnarnefndar í maí og september. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 17.–19. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags-, öryggis- og varnarmálanefnda. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru hlutverk, forgangsmál og áskoranir NATO, netöryggi, kjarnorkustefna NATO, samskipti Evrópusambandsins og NATO og jafnari byrðar aðildarríkja NATO. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, fundina, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, starfandi ritara.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 17. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum hjá þingmönnum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg þakkaði þingmönnum fyrir stuðning sinn við NATO. Bandalagið hefði sýnt að það væri fullfært um að aðlaga sig að breyttum veruleika í alþjóðaöryggismálum. Stoltenberg fór yfir það sem efst hafði verið á baugi í starfi NATO undanfarna mánuði og svaraði spurningum þingmanna.
    Á fundinum var sérstakur dagskrárliður þar sem Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fór yfir stöðu mála í NATO eins og hún blasir við Bandaríkjunum. Pelosi sagði það vera til marks um skuldbindingu Bandaríkjanna gagnvart NATO að tvö ár í röð sæktu fundinn bæði hún og fjöldi fulltrúa úr báðum deildum Bandaríkjaþings. Pelosi sagði NATO vera táknrænt fyrir sameiginleg gildi og sögu. Mikilvægt væri að fyrirbyggja yfirráð aðila sem ekki aðhylltust þessi sömu gildi yfir samfélagsmiðlum. Þá væri mikilvægt að aðildarríkin stæðu saman með tilliti til þróunar á gervigreind. Pelosi var spurð um stöðuna í Úkraínu. Hún sagði NATO gegna mikilvægu hlutverki í þeim viðræðum.
    Njáll Trausti tók til máls á fundinum undir dagskrárliðnum pólitísk áætlun NATO (e. NATO's Political Agenda) og spurði hann Bettinu Cadenbach, varaframkvæmdastjóra pólitískra mála og öryggisstefnu hjá NATO, um uppbyggingu hernaðar á norðurslóðum. Cadenbach sagði NATO ekki skipta sér af hernaðaríhlutun á norðurslóðum, bandalagið væri ekki þátttakandi í því samtali en fylgdist grannt með stöðu mála. Áhersla NATO yrði aldrei á að leika lykilhlutverk í viðræðunum heldur aðeins að vernda bandamenn sína.
    Í kjölfar framsögu Antonio Missiroli, varaframkvæmdastjóra öryggisáskorana hjá NATO, undir dagskrárliðnum Öryggi á netöld – áskoranir og tækifæri fyrir NATO spurði Njáll Trausti hversu alvarlega NATO liti netöryggismál. Missiroli sagði netöryggismál ekki vera hluta af umboði NATO gagnvart aðildarríkjunum. Starfsmenn NATO fengju þjálfun varðandi netöryggi og NATO fylgdist vel með á þessu sviði.
    Benedetta Berti, forstöðumaður stefnumótunar á skrifstofu framkvæmdastjóra NATO, hélt framsögu um þróun öryggislandslagsins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku (MENA-svæðið) og hlutverk NATO. Í kjölfar framsögunnar bað Njáll Trausti Berti um að fara nánar yfir stöðu mála á MENA-svæðinu hvað varðar jafnrétti kynjanna. Hann sagði að sérstaklega skipti máli að horfa á stóru myndina þar sem vatnsskortur í heiminum gæti komið verr niður á konum en körlum. Berti sagði NATO hafa gert samkomulag við Sameinuðu þjóðirnar um þjálfun í að viðhalda friði í Afríku. Hvað varðaði kynjajafnrétti væri mikilvægt að hafa í huga að aðildarríki NATO gætu margt lært af þeim ríkjum sem þau væru að hjálpa. Mörg lönd í Afríku væru með hvað jöfnust hlutföll í heiminum þegar kemur að jafnréttismálum. NATO hafi aftur á móti lagt stöðugt meiri áherslu á jafnréttismál á þessu svæði.

Stjórnarnefndarfundur 29. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tóku þátt í fjarfundi stjórnarnefndar 29. maí Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, og Arna Gerður Bang, alþjóðaritari. Á dagskrá voru viðbrögð NATO-þingsins við heimsfaraldri kórónuveiru, aðlögun á starfsreglum NATO-þingsins til að gera þinginu kleift að taka bindandi ákvarðanir á fjarfundum og starfið fram undan á tímum heimsfaraldurs.
    Forseti NATO-þingsins, Attila Mesterházy (Ungverjalandi), bauð nefndarmenn velkomna á fyrsta fjarfund stjórnarnefndar. Hann sagðist harma að ekki hefði verið mögulegt að halda fundi nefndarinnar í Lúxemborg í mars og í Úkraínu í maí eins og skipulagt hefði verið en heimsfaraldur kórónuveiru hefði komið í veg fyrir það. Auk þess hefði þurft að aflýsa vorfundum NATO-þingsins og fleiri skipulögðum viðburðum á fyrri hluta árs en fyrirhugað væri að á seinni hluta árs yrðu fundir þingsins haldnir sem fjarfundir í auknum mæli á meðan faraldurinn geisaði.
    Þá greindi framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Ruxandra Popa, frá viðbrögðum NATO-þingsins við heimsfaraldrinum og skipulagi starfsins á síðari hluta árs 2020. Hún sagði ástandið fordæmalaust og að NATO-þingið hefði þurft að aflýsa eða fresta öllum fundum frá miðjum mars. Þá sagði hún þing Úkraínu hafa lýst því yfir að Úkraínumenn væru tilbúnir til að taka að sér gestgjafahlutverk fyrir vorþing NATO-þingsins 2022. Í framhaldinu fór hún yfir þær aðferðir og aðgerðir sem skrifstofa NATO-þingsins hefði ráðist í til að bregðast við faraldrinum. Þær hefðu verið samþykktar af framkvæmdastjórn NATO-þingsins á fundi í apríl. Í því sambandi nefndi hún að stofnaður yrði vettvangur fyrir formenn landsdeilda til skoðanaskipta um faraldurinn á snjallforritinu Signal auk framsetningar fjölbreyttra upplýsinga um faraldurinn á vefsvæði þingsins. Hún áréttaði jafnframt að þingið legði áfram áherslu á hefðbundna og samþykkta dagskrárliði og að málefnanefndir auk vinnuhóps um Miðjarðarhafssvæðið ynnu áfram að þeim skýrslum sem samþykktar voru á fundi stjórnarnefndar 2019.
    Einnig greindi framkvæmdastjóri NATO-þingsins frá því að hún og forseti þingsins hefðu fengið staðfestingu á því að NATO-þingið tæki fullan þátt í umræðum sérfræðihóps NATO um framtíðarsýn bandalagsins til 2030. Þá mundi NATO-þingið senda framlag sitt til ráðgjafarhópsins og framkvæmdastjóra NATO og leggja fram ályktun þess efnis á ársfundi sínum í nóvember. Enn fremur sagði Popa afar óljóst hvenær mögulegt væri að halda fundi aftur sem staðfundi og hvatti nefndarmenn til að senda skrifstofu NATO-þingsins tillögur og hugmyndir að starfinu á þeim fordæmalausum tímum sem væru fram undan. Að lokum samþykkti fundurinn nýja starfsáætlun þingsins fyrir síðari hluta árs 2020.
    Næst fór fram umræða um áhrif COVID-19 í aðildarríkjum NATO, þróun sáttmála um opna lofthelgi (e. Open Skies Treaty) og brot Rússa á sáttmálum um vopnahlé. Formaður bandarísku landsdeildarinnar, Gerald E. Connolly, lýsti yfir áhyggjum af varnarútgjöldum aðildarríkjanna í ljósi heimsfaraldurs og taldi líklegt að ríkisstjórnir og þingmenn yrðu fyrir þrýstingi um að draga úr útgjöldum á komandi mánuðum. Þá sagði hann Rússa klárlega hafa brotið gegn sáttmála um opna lofthelgi en hann var ekki sannfærður um að einhliða uppsögn á samningnum væri besta svarið við brotinu. Málið yrði rætt á bandaríska þinginu og kosningarnar í Bandaríkjunum gætu hugsanlega leitt til frekari umræðu um málið. Þá ræddu nefndarmenn að fyrir kaldhæðni örlaganna næðu sennilega fleiri aðildarríki en áður settu marki um að verja 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála þar sem landsframleiðsla þeirra félli sökum heimsfaraldursins.
    Þá tók til máls Wolfgang Hellmich, gjaldkeri NATO-þingsins, og greindi frá fjárhagsstöðu þingsins. Hann sagði uppgjör fyrir árið 2019 vera tilbúið til afgreiðslu á ársfundi þingsins í nóvember og þar kæmi fram smávægilegur tekjuafgangur. Varðandi fjárhagsárið 2020 þá sagði hann fordæmalausa tíma heimsfaraldurs hafa áhrif á útgjöld og þar sem flestum fundum hefði verið frestað undanfarna mánuði og óljóst með framhaldið liti út fyrir að mikill afgangur yrði í lok árs. Varðandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 sagði hann marga óvissuþætti vera til staðar og ekki væri raunhæft að fara yfir hana að svo stöddu. Þróun heimsfaraldursins næstu mánuðina mundi vonandi skýra stöðu mála.
    Fyrir fundi lá samþykkt framkvæmdastjórnar um fyrirkomulag fjarfunda í nefndum þingsins. Stjórnarnefnd staðfesti þessa samþykkt og heimilaði þannig ákvarðanatöku nefnda með fjarfundarbúnaði. Einnig samþykkti stjórnarnefnd að fela öllum málefnanefndum þingsins að fjalla um afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru fyrir stjórnmál, varnar- og öryggismál, efnahagsmál, vísinda og tæknimál og málefni borgaralegs öryggis. Áfram var þó stefnt að því að halda ársfundfund í Aþenu í nóvember.

Stjórnarnefndarfundur 29. september.
    Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins tóku þátt í fjarfundinum 29. september Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Á dagskrá voru m.a. heimsfaraldur kórónuveiru, stjórnmálaástand í aðildarríkjunum, málefni Hvíta-Rússlands og starfið fram undan.
    Forseti NATO-þingsins, Attila Mesterházy, upplýsti fulltrúa stjórnarnefndar um þá tillögu framkvæmdastjórnar að ársfundur NATO-þingsins yrði ekki haldinn í Aþenu eins og fyrirhugað hafði verið heldur færi hann fram með rafrænum hætti 18.–23. nóvember. Þá þakkaði hann grísku landsdeildinni fyrir þá miklu vinnu sem hún hefði lagt í skipulag ársfundarins og lýsti yfir ánægju sinni með að gríska landsdeildin hefði boðist til að vera í staðinn í gestgjafahlutverki á vorfundum NATO-þingsins 2022.
    Framkvæmdastjóri NATO-þingsins, Ruxandra Popa, greindi nefndarmönnum frá starfi þingsins frá síðasta fundi nefndarinnar sem fór fram í maí. Hún sagði að aflýsa hefði þurft öllum staðfundum á tímabilinu sökum kórónuveirunnar og færa ráðstefnur og nefndarfundi yfir á rafrænt form og hefði það gengið vonum framar. Í framhaldinu samþykkti nefndin starfsáætlun þingsins fyrir árið 2021. Þá þakkaði Popa þeim formönnum sem hefðu sent svör við spurningalista um forgangsatriði aðildarríkjanna fyrir stefnumótun NATO til 2030, en Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Íslandsdeildar, hafði gert það fyrir hönd Alþingis. Hún sagði mikilvægt að fá svör frá sem flestum aðildarríkjum þar sem þau yrðu nýtt til að semja skýrslu forseta NATO-þingsins til sérfræðihóps NATO um stefnumótun til 2030 og ályktun NATO-þingsins.
    Þá tók til máls Wolfgang Hellmich, gjaldkeri NATO-þingsins, og greindi frá fjárhagsstöðu þess. Nefndarmenn samþykktu í framhaldinu endurskoðað fjárhagsyfirlit NATO-þingsins fyrir árið 2019 og tillögu gjaldkera um ráðstöfun afgangs. Þá fór fram umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 og hvernig ráðstafa ætti þeim afgangi sem mundi verða á fjárhagsárinu 2020 af völdum heimsfaraldurs. Hellmich kynnti tillögu sína og framkvæmdastjórnar NATO-þingsins þar sem lagt var til að halda árgjaldi óbreyttu á næsta ári og geyma þær fjárhæðir sem höfðu sparast í faraldrinum í sjóðum NATO-þingsins. Fram fóru líflegar umræður um tillögurnar og lagði forseti NATO-þingsins til að þeim yrði haldið áfram á næsta fundi stjórnarnefndar, í nóvember. Þá sagði hann ljóst að ef faraldurinn drægist á langinn yrði að endurskoða tillögur gjaldkera, en hann væri samþykkur þeim eins og staðan væri og vonaðist til að þær yrðu samþykktar á ársfundi þingsins í nóvember.
    Næst var rætt um stjórnmálaástandið í aðildarríkjunum með áherslu á heimsfaraldur COVID-19, ástandið í Hvíta-Rússlandi og átökin í Nagorno-Karabakh auk þess sem nefndarmenn fordæmdu harðlega morðtilraun á rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Forseti þingsins sagði aðildarríkin standa frammi fyrir miklum áskorunum, faraldurinn væri enn í vexti á heimsvísu og meiri hluti íbúa Evrópu væri berskjaldaður fyrir sýkingu. Á fordæmalausum tímum sem þessum væri mikilvægt að takmarkanir á frelsi almennra borgara væru tímabundnar, nauðsynlegar og löglegar. Aðildarríkin þyrftu áfram að bregðast hratt við heimsfaraldrinum og tryggja aðhald löggjafans með framkvæmdarvaldinu.
    Þá lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum af ástandinu í Hvíta-Rússlandi og ótryggri stöðu í landinu þar sem mótmæli höfðu staðið yfir nær sleitulaust frá forsetakosningunum í ágúst. Dr. Karl Lamers, formaður þýsku landsdeildarinnar, greindi frá því að hann og Svetlana Tsíkhanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, hefðu átt fund saman nýverið. Hann sagði að hún væri boðberi friðar og sannfærð um að íbúar Hvíta-Rússlands héldu áfram að mótmæla friðsamlega og ekki láta kúgunarvald þagga niður í sér. Hann sagði mikilvægt að NATO-þingið tæki til frekari umræðu málefni Hvíta-Rússlands en tók fram að Tsíkhanovskaja hefði áréttað að hún vildi ekki utanaðkomandi afskipti af málinu. Þá lagði franski þingmaðurinn Philippe Folliot áherslu á að NATO-þingið tæki til umræðu morðtilraun á rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní og sendi rússneskum stjórnvöldum skýr skilaboð þar sem tilræðið væri fordæmt harðlega.

Ársfundur 18.–23. nóvember.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn í fyrsta sinn sem fjarfundur dagana 18.–23. nóvember. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Aþenu en sökum ferðatakmarkana vegna COVID-19 var fundurinn haldinn rafrænt. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, og Willum Þór Þórsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 280 þingmenn frá 30 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 13 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var haldinn þingfundur þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hafði borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru öryggismál á tímum COVID-19, framtíð NATO og áhrif Kína á valdajafnvægi í heiminum. Einnig fóru fram umræður um það hvernig NATO gæti styrkt samstarf sitt við Evrópusambandið, hernaðaruppbyggingu Rússa og innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
    Á fyrsta degi ársfundarins fór fram sérstök umræða um heimsfaraldur COVID-19 og tillögur að viðbrögðum NATO-þingsins við honum. Rætt var um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins sem einn af mestu óvissuþáttum komandi ára og ljóst þótti að opinber fjármál yrðu eitt erfiðasta verkefni aðildarríkjanna. Mikilvægt væri því að standa vörð um framlög til öryggis- og varnarmála og að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar um að verja a.m.k. 2% af vergri þjóðarframleiðslu til málaflokksins. Þá lýstu fundarmenn yfir áhyggjum af þeirri ógn sem stafaði af falsfréttaherferðum um COVID-19, sem einkum kæmu frá Rússlandi og Kína. Að auki fjölluðu allar málefnanefndir NATO-þingsins um skýrslur tengdar heimsfaraldrinum á fundum sínum.
    Stjórnarnefnd NATO-þingsins hélt tvo fundi í tengslum við ársfundinn. Á fundunum voru m.a. teknar ákvarðanir um starfsemi, fjármál og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrri hluta árs 2021. Áhersla verður m.a. lögð á leiðir bandalagsins til að takast á við fjölþættar nýjar áskoranir sem blasa við og tryggja getu sína og nauðsynlegan styrk til þess að standa við skuldbindingar sínar. Þá verða málefni Rússlands áfram í brennidepli sem og vöxtur Kína í alþjóðamálum.
    Stjórnmálanefnd ræddi um fjórar skýrslur á fundum sínum og fjallaði sú fyrsta um það hvernig styrkja mætti samstarf NATO og Evrópusambandsins. Í annarri skýrslunni var rætt um leiðir til að auka fræðslu og þekkingu á bandalaginu og í þeirri þriðju var sjónum beint að COVID-19 og öryggismálum beggja vegna Atlantshafs. Að lokum fór fram umræða um vöxt Kína og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar sem bar yfirskriftina stefnumótun yfir Atlantshaf um efnahagslega getu Kína. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um varnir og getu NATO og helstu áskoranir við að viðhalda friði og öryggi á Vestur-Balkanskaga. Þá fór fram umræða um nútímavæðingu herafla Rússa og áskoranir sem snúa að bandalagsþjóðum NATO. Að auki samþykkti nefndin ályktun um áframhaldandi fjárfestingu í vörnum NATO eftir COVID-19. Einnig fór fram umræða um skýrslu um eflingu stöðu kvenna í öryggis- og varnarmálum og var samþykkt ályktun um frekari innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar.
    Vísinda- og tækninefnd fjallaði annars vegar um ofurvopn sem ná fimmföldum hljóðhraða (e. hypersonic weapons) og þær tæknilegu áskoranir sem blasa við aðildarríkjum NATO og hins vegar um stríðsrekstur í þéttbýli. Jafnframt samþykkti nefndin ályktun um nýsköpun í varnarmálum sem byggist á samnefndri skýrslu. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í störfum nefndarinnar og var einnig endurkjörinn einn fjögurra varaformanna hennar.
    Á fundum efnahagsnefndar NATO-þingsins var m.a. rætt um ástandið við Svartahaf í ljósi efnahagslegrar og landfræðilegrar spennu á svæðinu. Einnig var til umræðu skýrsla um hernaðarlegt og efnahagslegt mat á vegferð Kína til framtíðar. Skýrsluhöfundur nefndarinnar, norski þingmaðurinn Christian Tybring-Gjedde, varaði aðildarríkin við því að reiða sig um of á sjúkravörur eða annan mikilvægan búnað frá löndum á borð við Kína, sem væru í raun í samkeppni við vestræn ríki. Að auki benti hann á mikilvægi þess að fara varlega í fjárfestingar í viðkvæmum innviðum á tímum COVID-19. Á grundvelli umræðna nefndarinnar samþykkti nefndin ályktun um efnahagslegt þanþol á tímum heimsfaraldurs. Willum Þór Þórsson tók þátt í störfum nefndarinnar.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 23. nóvember þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Stoltenberg lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO á tímum heimsfaraldurs og fjölmargra öryggisáskorana. Hann sagði NATO eina vettvanginn þar sem ríki Evrópu og Norður-Ameríku hittust daglega og mikilvægt að nýta hann enn betur til hreinskilinnar umræðu um öryggismál. Þá var herafla NATO vottuð virðing fyrir hlutverk sitt í baráttunni gegn COVID-19 og hvatt til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu.
    Vakin var athygli á málefnum norðurslóða á þingfundinum og Stoltenberg spurður hvort NATO mundi horfa í auknum mæli til svæðisins. Hann svaraði því játandi og sagði mikilvægi norðurslóða hafa aukist, m.a. með bráðnun jökla á svæðinu, aukinni hernaðarviðveru Rússa og miklum áhuga Kína. NATO legði því aukna áherslu á norðurslóðir og hefði aukið sýnileika sinn, fjölgað heræfingum á svæðinu og bætt varnir gegn kafbátum. Nauðsynlegt væri að Norður-Atlantshafið væri varið og sjógeta bandalagsins viðunandi. Þá hefði NATO opnað nýja Atlantshafsherstjórn í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.
    Njáll Trausti Friðbertsson tók til máls á þingfundinum og fagnaði því að sérstök umræða hefði farið fram um frekari innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Eitt af markmiðum ályktunarinnar væri að stuðla að sanngjarnara umboði bæði karla og kvenna þegar horft væri til varnarmála og friðarumleitana. Þá spurði Njáll Trausti framkvæmdastjóra NATO hvort hann sæi aukna áherslu hjá bandalaginu á jafnréttismál og hvort það mundi styrkja stöðu kvenna markvisst innan NATO. Stoltenberg sagði það forgangsmál að jafnréttissjónarmið yrðu innleidd í alla starfsemi NATO, bæði hernaðarlega og pólitíska uppbyggingu. Auk þess þyrfti að uppræta kynbundna misnotkun og áreitni innan bandalagsins. Þá nefndi hann sérstaklega starf NATO í Afganistan þar sem bandalagið hefur lagt áherslu á að virkja og styðja konur á svæðinu.
    Bandaríski þingmaðurinn Gerald E. Connolly var kosinn nýr forseti NATO-þingsins og tók hann við embættinu af Attila Mesterházy frá Ungverjalandi. Hann kynnti fundargestum ályktun ársfundarins sem ber yfirskriftina NATO 2030: sterkara og sameinaðra bandalag á alþjóðavettvangi. Á leiðtogafundi NATO í desember 2019 var Stoltenberg falið að meta hvernig efla mætti samstöðu aðildarríkjanna og pólitískt samráð. Sér til ráðgjafar skipaði Stoltenberg hóp tíu sérfræðinga til að ræða stöðu og framtíð NATO undir merkjum NATO 2030. Með ályktuninni ársfundarins er NATO hvatt til að uppfæra stefnumótun sína í ljósi breyttra aðstæðna. Lagt er til að bandalagið viðhaldi sterkum vörnum gagnvart Rússum, dragi þá til ábyrgðar fyrir að brjóta alþjóðalög en verði áfram opið fyrir samtali. Varðandi málefni Kína var lagt til að NATO mæti þau tækifæri og áskoranir sem fælust í metnaði og aðgerðum Kínverja á alþjóðavísu og kannaði möguleika á nánari samræðum. Fyrirhugað er að vorfundir NATO-þingsins fari fram í Stokkhólmi 14.–17. maí 2021.

Nefndarfundir.
    Eftir því sem leið á árið og NATO-þingið þróaði notkun fjarfundabúnaðar í nefndastarfi fór fundum nefnda fjölgandi. Njáll Trausti tók þátt í fjarfundum vísinda- og tækni nefndar og stjórnmálanefndar NATO-þingsins auk fjarfundar formanna Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (NB8). Þá tók Þorgerður þátt í fjarfundum varnar- og öryggismálanefndar og vinnuhóps um Miðjarðarhafssvæðið. Einnig tók Willum Þór Þórsson þátt í fjarfundum efnahags
nefndar NATO-þingsins. Að auki sóttu fulltrúar Íslandsdeildar ýmsa fjarfundi sem skipulagðir voru á árinu um málefni NATO-þingsins.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
varaform.
Willum Þór Þórsson.


Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2020.


Ársfundur (rafrænn) 18.–24. nóvember:
          Ályktun 460 um NATO 2030: Sterkara og sameinaðara bandalag á heimsvísu.
          Ályktun 461 um nánari útfærslu á innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
          Ályktun 462 um áframhaldandi fjárfestingar bandalagsins í varnarmálum eftir COVID-19.
          Ályktun 463 um efnahagslegt þol og heimsfaraldra.
          Ályktun 464 um stefnumótun yfir Atlantshaf og um efnahagslega getu Kína.
          Ályktun 465 um nýsköpun í varnarmálum.