Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 833  —  267. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (kynferðisleg friðhelgi).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Maríu Rún Bjarnadóttur lögfræðing, Heiðu Björgu Pálmadóttur og Ingva Snæ Einarsson frá Barnaverndarstofu, Sigurveigu Þórhallsdóttur frá umboðsmanni barna, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Dagmar Ösp Vésteinsdóttur frá Ákærendafélagi Íslands, Kolbrúnu Benediktsdóttur frá héraðssaksóknara, Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Emblu Guðrúnu Ágústsdóttur frá Tabú, Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Önnu Láru Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Ragnheiði Bragadóttur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot og XXV. kafla laganna um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þá er kveðið á um breytingu á lögum um meðferð sakamála til þess að tryggja virkni þeirra breytinga sem lagðar eru til á hegningarlögum. Efni frumvarpsins miðar að því að styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið með aukinni tæknivæðingu og viðhorfsbreytingum gagnvart kynferðisbrotum á Íslandi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Hótun eða kúgun, fölsun og tæling (1. gr.).
    Við meðferð málsins var bent á að í frumvarpinu væri ekki tekið á þeirri háttsemi þegar hótað er dreifingu eða birtingu efnis. Sama ætti við um þau tilvik þar sem myndefni af kynferðislegum toga sé breytt og látið líta út fyrir að vera af tilteknum aðila. Í því samhengi áréttar nefndin að 2. og 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins ná til slíkrar háttsemi og einnig nær 2. mgr. 1. gr. til þess þegar um er að ræða hótanir sem beitt er til þess að búa til efni. Að auki var bent á að það vanti að tilgreina tælingu í 1. gr. frumvarpsins. Vegna þess bendir nefndin á að í 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga er að finna sérstakt ákvæði um tælingu og væri hægt að beita því ákvæði og nýrri 199. gr. a saman.

Aflar sér eða öðrum (1. gr.).
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um verknaðarlýsinguna „aflar sér“ í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins og hvað teljist til slíkrar háttsemi, þar á meðal leit á leitarvél. Bent var á að verknaðarliðir sem taldir eru upp í 1. mgr. eru í samræmi við upptalningu í svipuðum brotum, þar á meðal 210. gr. a almennra hegningarlaga. Þá hefur hugtakið öflun fengið nokkra umfjöllun í dómaframkvæmd og að sú framkvæmd gefi vísbendingar um inntak hugtaksins. Nefndin telur mikilvægt að samræmi sé á milli þessara ákvæða og vísar í þeim efnum til umfjöllunar um breytingartillögur nefndarinnar þar sem lögð er til orðalagsbreyting, þ.e. aflar sér eða öðrum, til þess að skapa betra samræmi á milli ákvæðanna. Nefndin áréttar að það að framkvæma leit á leitarvél er ekki það sama og „öflun“ í þessum skilningi. Öflun hefur ekki farið fram fyrr en t.d. ljósmynd eða myndbandi hefur verið hlaðið niður og vistað. Þannig telst einföld leit á leitarvél, án niðurhals eða vistunar, ekki sem andlag hegningarlaga samkvæmt þessu. Að öðru leyti vísar nefndin til umfjöllunar um vistun og hýsingu í greinargerð um kynferðislega friðhelgi frá janúar 2020 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að það sé ekki heppilegt að tilgreina þau atriði í ákvæðinu.
    Í þessu samhengi bendir nefndin einnig á að í 2. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eru sett skilyrði fyrir rannsóknaraðgerðum skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. laganna að rannsókn beinist annaðhvort að broti sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Þannig fær lögreglan ekki rannsóknarheimild nema til staðar sé grunur um brot en jafnframt eru þær heimildir tímabundnar og takmarkaðar, t.d. við ákveðin tæki. Til að tryggja fullnægjandi rannsóknarúrræði lögreglu til þess að bregðast við stafrænum brotum gegn kynferðislegri friðhelgi felur 6. gr. frumvarpsins í sér breytingu á 2. málsl. 2. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála þannig að við upptalningu ákvæða bætist vísun í nýja 199. gr. a almennra hegningarlaga.

Gáleysi (4. mgr. 1. gr.).
    Samkvæmt almennum hegningarlögum er meginreglan sú að brot eru ásetningsbrot. Í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins er að finna gáleysisheimild sem grundvöll refsiábyrgðar. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um hvort efni stæðu til að takmarka refsiábyrgð skv. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins, svo sem við stórfellt gáleysi. Einnig komu fram sjónarmið um að gera þyrfti betri greinarmun á refsiramma 1. gr. frumvarpsins annars vegar fyrir ásetningsbrot og hins vegar fyrir gáleysisbrot.
    Nefndin tekur fram að hún telur ekki þörf á stigskiptum refsiramma varðandi ásetningsbrot en nefndin telur aftur á móti ástæðu til að lækka refsiramma fyrir gáleysisbrot og vísar í þeim efnum til umfjöllunar um breytingartillögur nefndarinnar. Þannig verði jafnframt gerður frekari greinarmunur á refsiramma fyrir ásetningsbrot sem geti varðað sektum eða fangelsi allt að fjórum árum og fyrir gáleysisbrot sem geti varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári.
    Enn fremur leggur nefndin áherslu á að hér er um að ræða samhverft brot, sbr. t.d. 209. gr. almennra hegningarlaga, en ekki tjónsbrot. Þannig þarf hin refsinæma háttsemi að vera til þess fallin að valda tjóni, þ.e. miðað er við verknaðinn sjálfan án tillits til afleiðinga. Með því að ákvæðið feli í sér samhverft brot er dregið úr áherslu á ásetning eða hvata brotamanna. Að áskilja að ásetningur standi til þess að valda þolanda tjóni myndi til að mynda ekki vera til þess fallið að styrkja ákvæðið í framkvæmd, enda getur verið erfitt að sanna ásetning. Eins og ákvæðið er sett fram er ljóst að stórfellt gáleysi myndi duga en einnig einfalt gáleysi. Í dæmaskyni má nefna einstakling sem tekur nektarmynd af öðrum í heimildarleysi og dreifir stafrænt til þriðja aðila. Þriðja aðila getur eftir atvikum ekki verið kunnugt um afstöðu þess sem myndaður er, en sýnir enn öðrum myndina. Í báðum tilvikum er um að ræða refsiverða háttsemi en aðkoma brotamanna ólík og kallar á mismunandi refsiheimildir. Nefndin telur að verði ákvæðið takmarkað við stórfellt gáleysi og ásetning eru líkur á að ákvæðið verði talið fela í sér tjónsbrot, en rétt er að árétta að þegar brot gegn kynferðislegri friðhelgi er metið þarf að horfa heildstætt á atvik máls og þær afleiðingar sem ætla mætti að yrðu af háttseminni. Að því sögðu telur nefndin ekki tilefni til að takmarka refsiábyrgð skv. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins við stórfellt gáleysi.

Friðhelgi einkalífs (2. og 3. gr.).
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Fram komu sjónarmið um að ákvæðin þarfnist frekari skoðunar en auk þess að í frumvarpi til laga um bætur vegna ærumeiðinga (278. mál 150. löggjafarþings) hafi ekki verið gert ráð fyrir að háttsemi, sambærilegri þeirri sem lýst er í 2. og 3. gr. þessa frumvarps, sæti ákæru.
    Nefndin tekur fram að frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga hefur ekki verið lagt fram að nýju. Að mati nefndarinnar er í frumvarpi þessu um að ræða lágmarksbreytingar þar sem leitast er við að tryggja einstaklingum sem ekki eru nákomnir gerendum sínum fullnægjandi réttarvernd friðhelgi sinnar. Hér þarf einnig sérstaklega að huga að stöðu fólks í viðkvæmri stöðu, eins og fatlaðs fólks, og mikilvægi þess að réttarvernd þeirra verði sérstaklega tryggð, eins og þegar um er að ræða birtingu myndefnis í heimildarleysi en til að mynda kom fram á fundum nefndarinnar að nokkuð algengt er að fatlað fólk lendi í því að myndum af þeim í viðkvæmri stöðu sé deilt í heimildarleysi. Nefndin telur þó nauðsynlegt að við yfirstandandi heildarendurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga verði tekið mið af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

Refsiþynging þegar um er að ræða börn og fólk í viðkvæmri stöðu.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ekki væri gert ráð fyrir því að refsing sé þyngd ef brotaþoli er undir 18 ára aldri eða þegar um er að ræða fólk í viðkvæmri stöðu, svo sem fatlað fólk.
    Að mati nefndarinnar er ekki þörf á að tilgreina sérstaklega ákveðna hópa. Þegar brot gegn kynferðislegri friðhelgi er metið þarf að horfa m.a. til þess að hverjum háttsemin beinist. Þannig þarf að horfa m.a. til aldurs í þessu samhengi og einnig hvort brotaþoli er í viðkvæmri stöðu eða ekki. Þá er að finna ákvæði í almennum hegningarlögum um refsiákvörðunarástæður, sem eru til refsimildunar eða refsiþyngingar. Ef börn eru brotaþolar myndi einnig reyna á ákvæði 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, um ósiðsamlegt athæfi gagnvart börnum. Þá er rétt að árétta að ef brot beinist gegn barni þá ætti alla jafna að heimfæra slíkt brot undir 210. gr. a almennra hegningarlaga.

Kynferðisleg tjáning ungmenna.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um mikilvægi þess að það verði ekki gert refsivert þegar sakhæf ungmenni senda sjálfviljug mynd af sér til jafningja.
    Í greinargerð frumvarpsins er tekið fram að kynferðisleg tjáning einstaklinga njóti verndar tjáningarfrelsis og getur verið þáttur í mótun sjálfsmyndar þeirra. Þá sé áhersla lögð á að nektarmyndir eða annars konar kynferðisleg tjáning einstaklinga verði ekki sjálfkrafa álitin andlag hegningarlaga. Því sé í frumvarpinu sérstaklega hugað að mörkunum á milli kynferðislegrar tjáningar annars vegar og hins vegar brota gegn kynferðislegri friðhelgi með því að útbúa eða dreifa kynferðislegu efni af öðrum í heimildarleysi. Að auki er í greinargerð tekið fram að í ljósi örra tækniframfara séu ekki talin standa efni til þess að telja upp efnislega framsetningu kynferðislegrar tjáningar svo að tæmandi sé. Þá verði ekki sett hlutlæg viðmið um það hvað teljist kynferðislegt heldur þarf að eiga sér stað heildstætt mat á því efni sem til skoðunar er. Í tengslum við þetta kom fram á fundum nefndarinnar að í þeim tilvikum þegar um er að ræða t.d. ungmenni og myndsendingar með samþykki beggja aðila hafi framkvæmdin verið sú að háttsemin sé ekki talin andlag hegningarlaga. Nefndin tekur þó undir að þörf er á að kveða sérstaklega á um refsileysi slíkrar háttsemi og að gerðar verði viðeigandi breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga. Í því samhengi tekur nefndin fram að vinna stendur yfir við endurskoðun á ákvæði 210. gr. a almennra hegningarlaga um barnaníð, m.a. þar sem er til skoðunar refsirammi ákvæðisins sem og að framangreind háttsemi ungmenna verði refsilaus. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að ljúka þeirri endurskoðun sem fyrst.

Fræðsla.
    Nefndin áréttar mikilvægi fræðslu um kynferðislega friðhelgi sem og um helstu birtingarmyndir ofbeldis, m.a. gegn fötluðu fólki, einnig að fræðslan eigi sér stað í öllu samfélaginu, sem og nauðsyn þess að efla og treysta réttarvörslukerfið. Í því samhengi hefur þingsályktun nr. 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025, mikilvægu hlutverki að gegna en einnig þingsályktun nr. 35/149 um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Barnaníð og kynferðisleg áreitni.
    Nokkuð var rætt um mikilvægi þess að hækka annars vegar refsiramma fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni og hins vegar refsiramma fyrir brot gegn 210. gr. a sömu laga um barnaníð.
    Nefndin telur að refsirammi þessara ákvæða þarfnist endurskoðunar og gæta þurfi að innra samræmi, m.a. að teknu tilliti til alvarleika brota, en jafnframt er tilefni til að skoða heildstætt refsirammann í kynferðisbrotum almennt. Nefndin telur þó æskilegra að breyting á refsiramma ákvæðanna krefjist sérstakrar umræðu og að slíkar breytingar komi fram í sérstöku frumvarpi. Í þessum efnum vísar nefndin til fyrri umfjöllunar um endurskoðun dómsmálaráðuneytis á 210. gr. a almennra hegningarlaga en bendir einnig á að lagt hefur verið fram frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á verknaðarlýsingu og refsiramma 210. gr. a almennra hegningarlaga (241. mál yfirstandandi þings). Í ljósi þeirrar endurskoðunar telur nefndin einnig rétt að benda á mikilvægi þess að refsirammi kynferðisbrota verði skoðaður heildstætt, þ. á m. refsirammi 199. gr. laganna.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Kynferðisleg friðhelgi (1. gr.).
    Í umsögn ríkissaksóknara eru lagðar til breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að refsirammi 1. mgr. ákvæðisins verði sá sami og hvað varðar brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga um blygðunarsemi og að ekki sé þörf á stigskiptum refsiramma varðandi ásetningsbrot. Í öðru lagi er lagt til að í stað orðanna „í heimildarleysi“ í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins komi „án samþykkis“ sem þyki skýrara og í samræmi við ákvæði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun. Í þriðja lagi er lagt til að samræma orðalag 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins við orðalag 1. gr. frumvarps til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (umsáturseinelti) (132. mál yfirstandandi þings), þannig að í stað orðanna „að vekja ugg“ komi „vekja hræðslu eða kvíða“. Í fjórða lagi er lagt til að færa efni 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins í 1. mgr. þess. Að lokum eru lagðar til minni háttar orðalagsbreytingar.
    Nefndin telur tillögur ríkissaksóknara til bóta og leggur til breytingar þess efnis. Nefndin áréttar að þótt nefndin telji ekki þörf á stigskiptum refsiramma er mikilvægt að horfa til þess hvert umfang háttseminnar er, að hverjum hún beinist, með hvaða hætti og í hvaða samhengi. Mikilvægt er að horfa heildstætt á atvik máls og þær afleiðingar sem ætla mætti að yrðu af háttseminni. Kjarni matsins er fólginn í afleiðingum brotsins enda geta afleiðingar brota af þessum toga orðið víðfeðmari en ásetningur brotamanns stendur til.

Gáleysi (1. gr.).
    Í ljósi þess að nefndin telur ekki tilefni til að takmarka refsiábyrgð skv. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins við stórfellt gáleysi heldur nægi bæði einfalt og stórfellt er það mat nefndarinnar að æskilegast væri að lækka refsiramma gáleysisbrota í allt að einu ári. Það er einnig í samræmi við þá breytingu nefndarinnar að gera enn frekari greinarmun á refsiramma ásetningsbrota og gáleysisbrota.

Aðgangur að gögnum eða forritum í heimildarleysi (3. gr.).
    Ákvæði 3. gr. frumvarpsins tekur til háttsemi sem greinir í tölvubrotasamningi Evrópuráðsins og er nú kveðið á um í 2. málsl. 1. mgr. 228. gr. almennra hegningarlaga en með frumvarpinu er lagt til að færa efni þess í 229. gr. laganna. Á fundum nefndarinnar var rætt um hvort ástæða væri til að kveða á um að ákvæði 3. gr. frumvarpsins eigi ekki við þegar háttsemin sé réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna líkt og gert sé í b-lið 2. gr. frumvarpsins, m.a. með hliðsjón af starfsemi fjölmiðla. Hins vegar var bent á að í núverandi 2. málsl. 1. mgr. 228. gr. almennra hegningarlaga sé ekki að finna refsileysisástæðu vegna þeirrar háttsemi sem þar greinir og því feli 3. gr. frumvarpsins ekki í sér efnislega breytingu hvað það varðar.
    Með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu sem og samspili 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga telur nefndin æskilegt að einnig verði kveðið á um að ákvæði 3. gr. frumvarpsins eigi ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni. Hins vegar telur nefndin að um afmörkuð tilvik geti verið að ræða þegar um er að ræða einkahagsmuni og þurfi að meta heildstætt og túlka þröngt hvort refsileysisástæða eigi við í þeim tilvikum. Nefndin áréttar að XXV. kafli almennra hegningarlaga sætir nú endurskoðun. Telur nefndin rétt að þar til þeirri endurskoðun er lokið verði ákvæðin a.m.k. með þeim hætti sem lagt er til hér.

Opinber ákæra (4. gr.).
    Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að brot gegn ákvæði 228. gr. almennra hegningarlaga sæti opinberri ákæru, sbr. 1. tölul. 242. gr. laganna. Við meðferð málsins var bent á að í greinargerð frumvarpsins virðist sem gert hafi verið ráð fyrir að brot gegn 229. gr. laganna ætti einnig að sæta ákæru. Réttast væri að brot gegn 229. gr. laganna sætti einnig ákæru þar sem ekki er útilokað að það geti orðið samspil milli 228. og 229. gr. laganna varðandi framningu brots en einnig að ákvæði 229. gr. geti staðið eitt og sér. Aftur á móti komu fram sjónarmið um að 229. gr. fjalli ekki um þá hagsmuni sem frumvarpinu er ætlað að ná til og því væri ekki viðeigandi að leggja til að brot gegn 229. gr. laganna sæti opinberri ákæru og þar með breyta með einhverjum hætti refsigrundvelli ákvæðisins.
    Í ljósi þeirrar breytingar sem nefndin leggur til á 3. gr. frumvarpsins telur nefndin rétt að brot gegn 229. gr. laganna sæti einnig ákæru en einnig með hliðsjón af því að ekki er loku fyrir það skotið að samspil verði á milli 228. og 229. gr. laganna varðandi framningu brots og heldur ekki að ákvæðið standi eitt og sér.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Efnisgrein 1. gr. orðist svo:
                  Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.
                  Sömu refsingu skal sá sæta sem hótar því sem greinir í 1. mgr., enda sé hótunin til þess fallin að vekja hræðslu eða kvíða hjá þeim sem hún beinist að.
                  Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
     2.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.
     3.      Við 4. gr. bætist: 229. gr.

    Páll Magnússon og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 1. febrúar 2021.

Páll Magnússon,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, frsm. Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson, með fyrirvara. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.