Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 850  —  504. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (sala á framleiðslustað).

Frá dómsmálaráðherra.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „smásölu“ í 1. mgr. kemur: framleiðslusölu.
     b.      Á eftir orðinu „heildsölu“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: framleiðslusölu.

2. gr.

    Á eftir orðinu „smásala“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: framleiðslusala.

3. gr.

    5. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu, framleiðslusölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni og eftirliti með slíkum leyfum. Þá er í reglugerðinni heimilt að fela tilteknu sýslumannsembætti að annast leyfisveitingar á grundvelli laga þessara.

4. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:
    Til að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað skal sækja um framleiðslusöluleyfi til sýslumanns.
    Veita má handhafa framleiðsluleyfis, sem framleiðir minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári, framleiðslusöluleyfi. Handhafa framleiðslusöluleyfis er heimilt að selja áfengt öl, gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni, sem er að rúmmáli ekki meira en 12% af hreinum vínanda, í smásölu á framleiðslustað.
    Leyfisveitandi skal leita umsagnar sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Óheimilt er að gefa út framleiðslusöluleyfi ef sveitarstjórn leggst gegn útgáfu leyfisins, og skal framleiðslusöluleyfi jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögn. Umsögn skal vera skýr og rökstudd og staðfesta að:
     1.      Starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála.
     2.      Lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
     3.      Afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
     4.      Starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli.
    Óheimilt er að afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.
    Framleiðslusöluleyfi sem gefið er út til umsækjanda í fyrsta sinn gildir í eitt ár. Ef leyfi er endurnýjað er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun leyfis skv. 24. gr.

5. gr.

    Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist: sbr. þó 9. gr. a.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

7. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011: Í stað orðanna „smásölu áfengis“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: smásölu ríkisins á áfengi.
     2.      Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991: Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Áfengisframleiðslusöluleyfi 50.000 kr.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á áfengislögum, lögum um verslun með áfengi og tóbak og lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Frumvarpið er samið á vegum dómsmálaráðuneytisins. Til ráðgjafar við samningu þess voru Haukur Örn Birgisson og Ingvar S. Birgisson, lögmenn hjá Íslensku lögfræðistofunni. Tillagan felur í sér undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda, sem er lögfest í 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011.
    Lagt er til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Frumvarpinu er ætlað að styðja við smærri brugghús, sérstaklega á landsbyggðinni, en umtalsverð gróska hefur verið hérlendis í bruggun áfengs öls á síðastliðnum árum. Þannig eru tugir smærri brugghúsa starfandi um allt land, sem framleiða fjölbreytt úrval afurða með skírskotun til íslenskrar menningar og staðhátta. Við gerð frumvarpsins var meðal annars horft til lagasetningar annars staðar á Norðurlöndunum en í nágrannalöndum Íslands er smærri brugghúsum almennt heimilt að selja áfengt öl í smásölu, þó með mismunandi takmörkunum. Sérstaklega var horft til lagasetningar í Finnlandi en árið 2018 tóku gildi lög þar í landi sem heimila sölu áfengs öls á framleiðslustað í smásölu til neytenda með ákveðnum takmörkunum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Undanfarinn áratug hefur smærri brugghúsum, svonefndum handverksbrugghúsum, fjölgað mikið um allt land. Handverksbrugghús eru brugghús sem eru í eðli sínu smá og leggja áherslu á minni framleiðslu, gæði og sjálfstæði. Árið 2018 voru stofnuð Samtök íslenskra handverksbrugghúsa og eru á þriðja tug smærri brugghúsa meðlimir í samtökunum. Samhliða fjölgun innlendra brugghúsa hefur eftirspurn og áhugi almennings á innlendri áfengisframleiðslu aukist. Endurspeglast það meðal annars í umtalsverðri fjölgun á íslenskum áfengisafurðum, þá sérstaklega áfengu öli. Með frumvarpinu er leitast við að styðja við áframhaldandi vöxt og þróun á rekstrarumhverfi smærri brugghúsa á Íslandi.
    Smærri brugghús hafa á síðastliðnum árum byggt upp ferðamennsku í kringum rekstur sinn. Á það sérstaklega við á landsbyggðinni en flest störf í tengslum við smærri brugghús eru utan höfuðborgarsvæðisins. Frumvarpið styður því við þá stefnu stjórnvalda að efla atvinnu-starfsemi á landsbyggðinni. Algengt er að brugghús bjóði upp á skipulagðar kynnisferðir um framleiðslustaði gegn gjaldi. Í slíkum ferðum eru afurðir kynntar og stendur gestum til boða að smakka það sem framleitt er á staðnum eða kaupa áfengi á grundvelli vínveitingaleyfis til neyslu á staðnum. Sömu gestir mega ekki kaupa sér áfengi í smásölu, þ.e. í neytendaumbúðum, frá brugghúsinu til þess að taka með sér heim. Hefur það mætt gagnrýni, bæði frá smærri brugghúsum og neytendum. Í frumvarpinu er því lagt til að slík sala verði heimil. Enn fremur hefur borið á því að erfitt sé fyrir smærri brugghús að fá vörur sínar seldar í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, jafnvel nærri framleiðslustað, sérstaklega áfengistegundir sem eru framleiddar einungis tímabundið eða í litlu magni. Smærri brugghús eru oft með fjölbreytt úrval öltegunda sem framleiddar eru í litlu magni eða tímabundið. Hefur það skapað samkeppnisumhverfi þar sem hallar á smærri brugghús, sem eiga umtalsvert erfiðara með að selja vörur sínar til neytenda en stærri samkeppnisaðilar. Þannig kann rekstur áfengisframleiðanda að standa og falla með því að fá vörur sínar seldar í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Með frumvarpinu er leitast til við að jafna stöðu smærri brugghúsa og þeirra stærri hvað þetta varðar.
    Þrátt fyrir að á þriðja tug brugghúsa séu í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa þá nemur áfengisframleiðsla brugghúsanna ekki háu hlutfalli af heildaráfengisframleiðslu framleiðsluleyfishafa á Íslandi. Tillaga um undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er því þröng og mun fela í sér tiltölulega litla fjölgun áfengis-útsölustaða. Gera má ráð fyrir að sala á grundvelli framleiðslusöluleyfis eigi sér fyrst og fremst stað í tengslum við ferðaþjónustu hjá leyfishafa. Þó má einnig ætla að breytingin sem lögð er til muni styrkja sölu leyfishafa í nærumhverfi þeirra. Í því sambandi þarf þó að hafa í huga að framleiðslustaðir áfengisframleiðenda eru almennt ekki staðsettir þar sem verslun fer fram. Hvað sem því líður má ætla að breytingin muni styrkja rekstur smærri brugghúsa, sérstaklega á landsbyggðinni.
    Með frumvarpi þessu er leitast við að koma til móts við þau sjónarmið sem rakin eru hér að framan. Því er lagt til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu beint til neytenda að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Almenn atriði.
    Fyrirrennari Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Áfengisverzlun ríkisins, var sett á laggirnar árið 1922 á sama tíma og áfengisbanni var aflétt að hluta til. Frumvarp þetta hróflar ekki við hlutverki Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þá felur frumvarpið ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í lýðheilsumálum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.
    Atvinnustarfsemi er tengist áfengi er almennt leyfisbundin á Íslandi. Ástæðan fyrir því er sú að áfengi hefur almennt ekki verið talin hefðbundin neysluvara, meðal annars vegna þeirra áhrifa sem það hefur á lýðheilsu. Í 8. gr. áfengislaga er áskilið að til innflutnings áfengis í atvinnuskyni þurfi innflutningsleyfi. Til að framleiða áfengi hérlendis þarf framleiðsluleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga, og einnig þurfa heildsölur með áfengi heildsöluleyfi, sbr. 9. gr. laganna. Innflutningur, heildsala, smásala og framleiðsla áfengis sem fer fram í atvinnuskyni án leyfis samkvæmt lögunum varðar refsingu skv. 27. gr. þeirra. Í samræmi við fyrirkomulag varðandi innflutning, framleiðslu og heildsölu áfengis er lagt til að heimilt verði að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað, að fengnu leyfi til þess.
    Lagt er til að sömu almennu skilyrði verði sett fyrir framleiðslusöluleyfi og fyrir öðrum leyfum sem fjallað er um í áfengislögum. Verði frumvarpið að lögum munu einstaklingar og lögaðilar því almennt geta fengið slíkt leyfi hafi þeir náð tilskildum aldri og tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína. Þó er gerð sú krafa að auki að leyfishafinn hafi einnig framleiðsluleyfi skv. 6. gr. laganna og framleiði minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári. Þá munu sýslumenn annast leyfisveitingu en við veitingu framleiðslusöluleyfis ber sýslumanni að leita umsagnar sveitarstjórnar. Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld munu annast eftirlit í samræmi við 4. mgr. 4. gr. laganna. Ráðherra mun með reglugerð geta kveðið nánar á um slíka leyfisveitingu og eftirlit með leyfishöfum, sbr. 3. gr. frumvarpsins.

3.2. Smásala á áfengu öli á framleiðslustað.
    Í frumvarpinu er lagt til að smásala á áfengu öli verði heimiluð á framleiðslustað að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeir handhafar framleiðsluleyfa, sem framleiða minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári, munu geta fengið framleiðslusöluleyfi, verði frumvarpið að lögum. Framleiðslusöluleyfi mun gera handhafa leyfisins kleift að selja áfengt öl, gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni, sem inniheldur ekki meira en 12% af hreinum vínanda að rúmmáli, á framleiðslustað.
    Markmið þessarar breytingar er að styðja við smærri brugghús og jafna samkeppnisstöðu þeirra og stærri áfengisframleiðenda. Einfaldasta leiðin til þess að skilja á milli smærri og stærri brugghúsa er að miða við heildarframleiðslu áfengis á almanaksári, en öllum áfengisframleiðendum er gert að skila framleiðslubókhaldi til ríkisins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna. Þessi leið var farin í Finnlandi árið 2018 þegar framleiðendum svonefnds handverksöls var gert kleift að selja afurð sína í smásölu til neytenda.
    Í fyrri frumvörpum ráðherra um breytingu á áfengislögum, sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda 29. nóvember 2019 og 28. september 2020, var gert ráð fyrir að samhliða framleiðslusöluleyfi yrði sala áfengis í vefverslun heimiluð, sjá nánar umfjöllun í kafla 5. Breytingin náði hins vegar ekki fram að ganga og voru ákvæði um heimild til sölu áfengis í vefverslun tekin út úr frumvarpinu.
    Lagt er til að sótt verði um framleiðslusöluleyfi til sýslumanns. Sýslumaður skuli leita umsagna sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Óheimilt verði að veita framleiðslusöluleyfi ef sveitarstjórn leggst gegn útgáfu leyfisins og skal leyfið jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögn. Sveitarstjórnir hafi því ákvörðunarvald um hvort smásala á framleiðslustað eigi sér stað innan sveitarfélagsins og hvernig. Þetta er í samræmi við umsóknarferli rekstrarleyfa skv. III. kafla laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

3.3. Lýðheilsusjónarmið.
    Með frumvarpinu er reynt að koma til móts við sjónarmið þeirra sem vilja aukið frjálsræði í verslun með áfengi og þeirra sem kjósa aðhaldssama áfengisstefnu. Tillögur um aukið frjálsræði við fyrirkomulag sölu á áfengi hafa verið gagnrýndar fyrir að sumum neytendum geti reynst erfitt ef áfengi verði til sýnis í öðrum verslunum en þeim sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins rekur. Þá feli áfengi, sem er til sýnis í daglegum athöfnum fólks, í sér freistingu fyrir neytendur sem auki neyslu áfengis og vandamál sem því tengjast. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar sem fela í sér að áfengi verði sýnilegra í íslensku samfélagi en áður, heldur verði farin sú leið að heimila smásölu áfengis í gegnum smærri brugghús, nánar tiltekið að brugghúsum verði gert kleift að selja afurðir sínar beint til neytenda í smásölu á framleiðslustað. Þrátt fyrir auknar heimildir til smásölu áfengis sem frumvarpið gerir ráð fyrir verða áfengisauglýsingar enn óheimilar og hefðbundinn verslunarrekstur með áfengi verður enn að meginstefnu í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Framleiðslusöluleyfishöfum verður heimilt að hafa áfengi til sýnis í sínum verslunum en ekki er talið að það muni hafa teljandi áhrif á neyslu áfengis. Brugghús eru almennt utan alfaraleiðar og fjarri verslunarkjörnum þar sem verslanir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eru staðsettar. Enn fremur eru brugghús sem falla undir skilyrði framleiðslusöluleyfis í flestum tilvikum staðsett á landsbyggðinni. Ekki er talið að þessi breyting muni hafa teljandi áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar þrátt fyrir að breytingin feli í sér fjölgun á áfengisútsölustöðum. Síðastliðna áratugi hefur fjöldi sölustaða áfengis aukist umtalsvert og á það bæði við um fjölda verslana ÁTVR sem og fjölda vínveitingaleyfa án þess að samsvarandi aukning hafi orðið á áfengisneyslu meðal þjóðarinnar. Styðst það meðal annars við upplýsingar frá embætti landlæknis um áfengisneyslu á Íslandi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið varðar réttindi sem varin eru af 65. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Með frumvarpinu er stuðlað að því að styrkja atvinnufrelsi og jafnrétti með hliðsjón af framangreindum ákvæðum. Við gerð frumvarpsins var tekið til skoðunar hvort sú tilhögun að veita tilteknum innlendum áfengisframleiðendum, þ.e. smærri brugghúsum, heimild til smásölu á áfengi öli á framleiðslustað fæli í sér mismunun sem bryti í bága við 11. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Skv. 11. gr. EES-samningsins eru magntakmarkanir á innflutningi bannaðar, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif. Enn fremur kemur fram í 16. gr. samningsins að samningsaðilar skuli tryggja að breytingar á ríkiseinkasölu feli ekki í sér að gerður sé greinarmunur á milli ríkisborgara Evrópusambandsins og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara. Við skoðun á þessum atriðum var meðal annars horft til sambærilegrar lagasetningar í Finnlandi þar sem tilteknum brugghúsum var gert kleift að selja áfengi í smásölu til neytenda á framleiðslustað. Ljóst er að tillaga um framleiðslusöluleyfi felur í sér þrönga undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. Þessi þrönga undanþága mun fela í sér mjög takmarkaða heimild fyrir tiltekin smærri brugghús, þar sem rýmkaðar verða heimildir þeirra til sölu varnings á framleiðslustað. Fyrirséð er að um tiltölulega litla söluaukningu verði að ræða, sem beinist fyrst og fremst að ferðamönnum, sem getur tæplega talið fela í sér ólögmæta mismunum gagnvart erlendum brugghúsum. Þá beinist heimildin fyrst og fremst að smærri brugghúsum á landsbyggðinni, þó að ákvæði frumvarpsins mæli ekki berum orðum fyrir um slíkt. Að teknu tilliti til framangreinds er ekki talið að frumvarpið feli í sér brot á 11. og 16. gr. EES-samningsins, enda sé um þrönga undanþágu að ræða frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Frumvarpið verður þannig ekki talið skapa vandkvæði með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar eða alþjóðlegra skuldbindinga.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum hennar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 29. nóvember 2019 (mál nr. S-296/2019). Í því frumvarpi var lagt til að heimila sölu áfengis í vefverslun. Var frestur til athugasemda veittur til 13. desember sama ár en í gegnum samráðsgáttina barst 31 umsögn. Í miklum meiri hluta umsagna var lýst yfir stuðningi við áformin um lagasetninguna og talið tímabært að styðja við innlenda framleiðendur og auka frelsi í sölu á áfengi. Þá komu einnig fram umsagnir frá einstaklingum, foreldrafélagi gegn áfengisauglýsingum og bindindissamtökum sem töldu fyrirhugað frumvarp varhugavert í ljósi lýðheilsusjónarmiða. Drög að frumvarpi til breytinga á áfengislögum voru svo birt til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda 13. febrúar 2020.
    Ný drög að frumvarpi til breytinga á áfengislögum voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á ný 28. september til 12. október 2020 (mál nr. S-200/2020) með viðbættum ákvæðum um sölu eigin framleiðslu á framleiðslustað. Alls bárust 147 umsagnir frá einstaklingum, opinberum stofnunum og hagsmunaaðilum. Meginefnistök umsagna voru svipuð og í þeim umsögnum sem skrifaðar voru við þann hluta frumvarpsins sem birtist í samráðsgátt stjórnvalda 13. febrúar 2020. Fjölmörg minni brugghús lýstu yfir ánægju með áform frumvarpsins um að leyfa sölu áfengs öls á framleiðslustað. Töldu þau frumvarpið styðja við smærri brugghús svo þau gætu vaxið og dafnað, og fyrirkomulag á smásölu áfengis færðist nær því sem tíðkast í löndum sem Ísland almennt ber sig saman við. Margir hagsmunaaðilar lögðu áherslu á að fyrirhugaðar lagabreytingar myndu styrkja rekstur þeirra á tímum COVID-19-faraldursins, en til að mynda hafa fjölmargir veitingastaðir óskað eftir heimild til að selja áfengi í netverslun með heimsendingu. Hagsmunaaðilar gerðu þó athugasemdir við þær takmarkanir sem framleiðslusöluleyfið setur, t.d. að það sé bundið við áfengt öl og að leyfishafi megi ekki framleiða meira en 500.000 lítra á almanaksári. Þannig næði frumvarpið ekki til allra þeirra litlu aðila sem aðild eiga að samtökum íslenskra handverksbrugghúsa. Í fyrri frumvörpum ráðherra frá febrúar og október 2020 var, til viðbótar við heimild til sölu á framleiðslustað, lagt til að heimila sölu áfengis í vefverslun. Sú breyting hefði mætt síðastnefndum athugasemdum hagsmunaaðila.
    Í ljósi þess að framleiðslusöluleyfið felur í sér undanþágu frá einkaleyfi íslenska ríkisins á smásölu áfengis er ekki talið hyggilegt að víkka undanþáguna svo að hún nái til allrar eða nær allrar áfengisframleiðslu á Íslandi. Vísast í því sambandi til umfjöllunar í 4. kafla greinargerðar um skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Félag atvinnurekenda vísaði til þess í umsögn sinni að lagasetning í Finnlandi um sölu áfengs öls á framleiðslustað væri ekki gott fordæmi fyrir gerð þessa frumvarps, þar sem þar hefði samhliða verið heimiluð sala áfengs öls í verslunum. Þannig hefði erlendum aðilum verið heimilað að koma vörum sínum á framfæri með sömu skilyrðum og finnskum brugghúsum, en slíkt sé ekki gert í frumvarpi þessu og brjóti því frumvarpið gegn jafnræðisreglu Evrópuréttar. Hvað þetta varðar vísast til umfjöllunar í köflum 3.2. og 4 hér að framan. Meta verður áhrif framleiðslusöluleyfisins með tilliti til þeirra ströngu skilyrða sem verða sett fyrir slíku leyfi og því er ljóst að leyfið muni hafa óveruleg áhrif á smásölu áfengis á Íslandi, þótt áhrifin kunni að vera umtalsverð fyrir þau smærri brugghús sem uppfylla skilyrði leyfisins.

6. Mat á áhrifum.
    Smásala áfengs öls á framleiðslustað mun hafa óveruleg samfélagsleg áhrif enda er ráðgert að smásala á grundvelli framleiðslusöluleyfis verði að miklu leyti bundin við ferðaþjónustu.
    Frumvarpinu er ekki ætlað að stuðla að aukinni neyslu heldur einungis að gera brugghúsum kleift að selja sína vöru, þó með skýrum takmörkunum. Er því ekki ástæða til að ætla að áfengisneysla, og sá vandi sem henni kann að fylgja og sem kann að birtast með ólíkum hætti milli kynja, muni aukast verði frumvarpið að lögum. Frumvarpið gerir því ekki greinarmun á kynjum eða tekur kyn til skoðunar og er hvorki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á áfengissölu ÁTVR verði það að lögum. Þá er ekki talið að frumvarpið muni hafa teljandi áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Eftirlit verður eins og verið hefur á grundvelli áfengislaga verði frumvarpið að lögum. Veiting leyfanna verður með sama hætti og leyfisveitingar annarra leyfa á grundvelli áfengislaga. Gert er ráð fyrir að þau rúmist innan ramma fjárveitinga.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í 1. og 2. gr. eru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. áfengislaga sem leiðir af því að lagt er til að heimilt verði að veita einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásölu á áfengi á framleiðslustað.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er lögð til breyting á 5. gr. áfengislaga um heimild ráðherra til setningu reglugerðar vegna veitingu leyfa til innflutnings, heildsölu, framleiðslusölu og framleiðslu áfengis í atvinnuskyni. Lagt er til að bætt verði við heimild ráðherra í 5. mgr. 5. gr. að hann geti með reglugerð kveðið nánar á um eftirlit með fyrirkomulagi veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu, framleiðslusölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni. Þá er lagt til að ráðherra verði gert kleift að fela einu tilteknu sýslumannsembætti að annast leyfisveitingar á grundvelli laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Ekki er talið nauðsynlegt að vísa til framleiðslusöluleyfis í 1. og 4. mgr. 5. gr. Er það vegna þess að einungis handhafar framleiðsluleyfis geti fengið framleiðslusöluleyfi og því er nægjanlegt að vísa til framleiðsluleyfis.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er lagt til að bætt verði við áfengislög grein um framleiðslusöluleyfi, 9. gr. a, sem veiti leyfishafa heimild til að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Er hér um undantekningu að ræða frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis.
    Sótt skal um framleiðslusöluleyfi til sýslumanns. Sýslumaður skal leita umsagnar sveitarstjórnar í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Óheimilt er að veita framleiðslusöluleyfi ef sveitarstjórn leggst gegn útgáfu leyfisins og skal leyfið jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögn. Í umsögn sveitarstjórnar skal staðfest að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála, að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu, að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um og að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli. Sveitarstjórnir hafa því ákvörðunarvald um hvort smásala á framleiðslustað eigi sér stað innan sveitarfélagsins og hvernig. Þetta er í samræmi við umsóknarferli rekstrarleyfa skv. III. kafla laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sbr. 3. og 4. mgr. 10. gr. laganna. Með þessum hætti er aðkoma sveitarstjórna tryggð samhliða því að einföld stjórnsýsla leyfisveitinga er tryggð þar sem sækja má um framleiðsluleyfi, framleiðslusöluleyfi og rekstrarleyfi á grundvelli fyrrgreindra laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, á einum stað.
    Framleiðslusöluleyfi má veita handhafa framleiðsluleyfis sem framleiðir minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári. Í 4. mgr. 5. gr. áfengislaga er mælt fyrir um að framleiðsluleyfishafa sé skylt að halda framleiðslubókhald og sölubókhald eftir atvikum. Á grundvelli ákvæðisins hefur verið sett reglugerð nr. 828/2005 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni, með síðari breytingum. Í 9. gr. reglugerðarinnar er nánar mælt fyrir um skyldu handhafa framleiðsluleyfis til þess að halda framleiðsluskýrslur. Þar segir að framleiðsluskýrslur skuli halda með þeim hætti að hægt sé að rekja með auðveldum og öruggum hætti hverja átöppun á áfengi til einstakra áfengistegunda og umbúða. Á grundvelli þessara skýrslna geta umsækjendur lagt fram gögn sem sýna fram á að ársframleiðsla áfengis sé undir hámarki ákvæðisins, þ.e. sé undir 500.000 lítrum.
    Handhafa framleiðsluleyfis er einungis heimilt að selja áfengt öl sem inniheldur ekki meira en 12% af hreinum vínanda að rúmmáli og er gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni. Ljóst er að með ákveðnum framleiðsluaðferðum getur styrkleiki áfengs öls orðið meiri en 12%, jafnvel sambærilegur og í sterku áfengi, og er því talið nauðsynlegt að tiltaka ákveðið hámark vínanda að rúmmáli, enda er það ekki ætlunin með frumvarpinu að heimila smásölu sterks áfengis á framleiðslustað. Þá er vísað til þess í frumvarpinu að hið áfenga öl skuli gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni og er það meðal annars gert til þess að eyða öllum vafa um að áfengir gosdrykkir falla ekki undir söluheimildir leyfisins.
    Eins og fyrr segir er skilyrði fyrir veitingu framleiðslusöluleyfis að viðkomandi aðili hafi framleiðsluleyfi, sbr. 6. gr. laganna, og að áfenga ölið sé framleitt á grundvelli þess leyfis, enda vísar 5. gr. frumvarpsins til sölu á framleiðslustað. Þrátt fyrir að vísað sé til framleiðslustaðar er gert ráð fyrir að smásalan geti farið fram í húsnæði aðliggjandi við framleiðsluhúsnæði eða í öðru húsnæði á lóð framleiðsluhúsnæðisins. Rökin sem liggja þar að baki eru þau að framleiðsluhúsnæði er oft ekki hentugt undir verslunarrekstur. Er því talið nauðsynlegt að halda þeim möguleika opnum að sala hins áfenga öls eigi sér stað í aðliggjandi húsnæði við framleiðslustað eða í húsnæði á sömu lóð. Að endingu er þetta atriði sem leyfishafi mun þurfa að vinna úr með sveitarstjórn í því sveitarfélagi þar sem framleiðsla fer fram. Ólíkt verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins verður ekki nauðsynlegt að skilja rekstur verslana á grundvelli framleiðslusöluleyfis frá öðrum verslunarrekstri. Þannig gæti leyfishafi t.d. selt áfengt öl í hillu í sama rými og annar varningur er seldur, t.d. merktar ölkrúsir og annar gjafavarningur.
    Handhafa leyfisins verður óheimilt að afhenda áfengi á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumar-daginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Þá er gert ráð fyrir því að framleiðslu-söluleyfi verði í fyrsta sinni gefið út til umsækjanda í eitt ár. Að því loknu þarf umsækjandi að sækja um endurnýjun sem mun vera ótímabundin, verði leyfið ekki afturkallað, sbr. 24. gr. áfengislaga. Um er að ræða sama fyrirkomulag og er viðhaft með önnur leyfi á grundvelli laganna.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. 10. gr. áfengislaga er kveðið á um einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis. Með nýrri 9. gr. a, sbr. 4. gr. frumvarpsins, er kveðið á um undantekningu frá því fyrirkomulagi og er því rétt að vísað sé til hennar í 1. mgr. 10. gr.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Í 1. tölul. 7. gr. er lagt til að 1. mgr. 1. gr. laga um verslun um áfengi og tóbak, nr. 86/2011, verði breytt í því skyni að þrengja gildissvið laganna, þ.e. að þau fjalli eingöngu um verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Gildissvið laga um verslun með áfengi og tóbak nær til „smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki“, eins og 1. mgr. 1. gr. er orðuð. Lögin fjalla í meginatriðum um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem hefur einkaleyfi á smásölu áfengis í gildandi lagaumhverfi. Verði frumvarp þetta að lögum er ljóst að gildissvið laga um verslun með áfengi og tóbak muni ekki ná til smásölu áfengis á framleiðslustað og því er rétt að uppfæra gildissviðsákvæði laganna til samræmis við það.
    Þá er í 2. tölul. 7. gr. lagt til að við 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði bætt tölulið þess efnis að fyrir útgáfu á leyfi til að selja áfengt öl á framleiðslustað skuli greiða gjald að fjárhæð 50.000 kr.