Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 879  —  447. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um viðbragðstíma almannavarna.


     1.      Eru samræmdir staðlar um allt land um kröfur sem húsnæði aðila almannavarna þarf að uppfylla til þess að tryggja sem bestan viðbragðstíma?
    Húsnæðis- og mannvirkjamál heyra undir félagsmálaráðherra skv. 4. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með yfirumsjón byggingarmála á Íslandi. Meginþungi byggingareftirlits í landinu er á höndum sveitarfélaganna sem ráða byggingarfulltrúa til að sinna útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd byggingareftirlits. Húsnæði flestra viðbragðsaðila er í flestum tilvikum atvinnuhúsnæði og þarf slíkt húsnæði að uppfylla lög og reglugerðir um byggingu atvinnuhúsnæðis. Aðilar almannavarna geta verið mjög fjölbreytilegir. Sem dæmi má nefna lögregluna, Landhelgisgæsluna, slökkvilið sveitarfélaganna, sjúkraflutningaþjónustu, heilsugæsluna og sjúkrahús, ásamt sjálfboðaliðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða krossins og fl. Lögreglustjórar eru í almannavarnanefndum þar sem eru fulltrúar sveitarfélaga og viðbragðsaðila á svæðinu. Óhætt er að fullyrða að engir samræmdir staðlar gilda um allt land um kröfur sem húsnæði aðila almannavarna þarf að uppfylla til þess að tryggja sem bestan viðbragðstíma.

     2.      Hvernig er gæðavottun á húsnæði slökkviliða háttað og hverjir standa að henni?
    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar. Slökkvilið starfa samkvæmt lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, sem heyra einnig undir félagsmálaráðherra.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að viðbragðsaðilar almannavarna komi sér upp stöðluðu fyrirkomulagi sem tryggir að þeir geti brugðist samstundis við neyðartilfellum, til að koma megi í veg fyrir tilfelli eins og þegar rafmagnsleysi af völdum eldsvoða í Glerárskóla á Akureyri tafði fyrir slökkviliðinu?
    Það staðlaða regluverk sem unnið er eftir eru lög um almannavarnir, nr. 82/2008. Slökkvilið Akureyrar er á vegum sveitarfélagsins. Skv. 16. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, skulu sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, kanna áfallaþol í umdæmi sínu. Þau búa yfir staðarþekkingu sem tryggir að viðbragðsáætlanir taki mið af aðstæðum, tækjakosti og mannafla. Þá skulu almannavarnanefndir, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, gera viðbragðsáætlun í samræmi við hættumat í umdæmi þeirra. Um efni viðbragðsáætlana fer skv. 15. gr. almannavarnalaga. Í 15. gr. er m.a. fjallað um viðbúnað og útbúnað og reglugerð nr. 323/2000 segir nánar til um efni og gerð viðbragðsáætlana. Þetta regluverk á að gera það að verkum að sveitarfélög hafi nægilegan viðbúnað til að bregðast við almannavarnaástandi.
    Ríkislögreglustjóri sem er stofnun á vegum dómsmálaráðuneytis hefur eftirlitshlutverki að gegna. Í 17. gr. almannavarnalaga kemur fram að viðbragðsáætlanir skuli endurskoða eins oft og nauðsyn krefst. Í aðgerðalýsingu átakshóps ríkisstjórnarinnar vegna óveðursins í desember 2019 kom fram eitt mikilvægt stefnumál sem er að unnið verði heildstætt mat á áfallaþoli íslensks samfélags.
    Mikilvægt er að ákveðnir þættir starfsemi og samfélags hafi hátt áfallaþol sem tryggi órofna starfsemi þegar áföll verða. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur komið að vinnu sem tengist áfallaþoli síðustu ár og á tímum COVID-19 hefur orðið til mikil reynsla í samhæfingu á könnun áfallaþols bæði á mikilvægum innviðum og annarri starfsemi og samfélagi.