Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 885  —  445. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum.


     1.      Er vilji heimamanna ljós varðandi áform um friðlýsingu og stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum sem birtust í greinargerð Umhverfisstofnunar 5. nóvember 2020? Ef vilji heimamanna hefur ekki verið kannaður, verður það gert?
    Í byrjun ársins 2020 hófst vinna með Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun þar sem fyrirhugað var að vinna að mögulegri stækkun á náttúruvættinu Dynjanda og friðlandinu í Vatnsfirði, sem er í landi Brjánslækjar. Sú vinna hófst eftir að RARIK gaf ríkinu jörðina Dynjanda á Degi íslenskrar náttúru 16. september 2019 í tilefni 75 ára afmælis lýðveldisins. Af því tilefni var undirritað samkomulag á milli ríkisins og RARIK með það að markmiði að útivistar- og náttúruverndargildi jarðarinnar Dynjanda væri tryggt. Fljótlega komu fram hugmyndir um að tengja verndarsvæðin saman í eitt stærra friðlýst svæði vegna náttúru, sögu og menningarverðmæta, horfa til jarðarinnar Hrafnseyrar í Arnarfirði, annarra jarða í eigu hins opinbera og jarðarinnar Langa Botns í Geirþjófsfirði í eigu Landgræðslusjóðs og kanna möguleika á stofnun þjóðgarðs. Í kjölfarið var ákveðið að skipa stærri starfshóp og bættust fulltrúar forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Landgræðslusjóðs, sem á jörðina Langa Botn í Geirþjófsfirði, í hópinn. Áform um þjóðgarð voru kynnt opinberlega 2. nóvember 2020 í átta vikur eins og lög kváðu á um. Með kynningu á áformum var kallað eftir athugasemdum heimamanna, haghafa og annarra sem vildu koma umsögn að um tillögu að friðlýsingu svæðisins sem þjóðgarðs. Starfshópurinn vinnur að undirbúningi að stofnun þjóðgarðsins og er nú m.a. unnið að gerð friðlýsingarskilmála fyrir svæðið. Kjörnir fulltrúar Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar sitja í starfshópnum. Þegar skilmálarnir liggja fyrir verða þeir auglýstir í þrjá mánuði og kallað eftir umsögnum, heimamanna, haghafa og annarra sem vilja koma umsögn að um málið.

     2.      Er að mati ráðherra ástæða til að endurskoða áætlunina þannig að Hrafnseyrarhluti væntanlegs garðs og Dynjandishlutinn verði samhangandi, þó að Mjólkárvirkjun verði innan garðsins?
    Í vinnu starfshópsins er horft er til þess að mynda þjóðgarð um náttúruverðmæti og sögu á því svæði sem áætlunin nær til. Skaginn á milli Arnar- og Dýrafjarðar, sem jörðin Hrafnseyri er hluti af, er á náttúruminjaskrá vegna landslags, jarðmyndana, gróðurfars og söguminja og gæti því svæðið orðið hluti af þjóðgarðinum. Mjólkárvirkjun er ekki hluti af því svæði sem er á náttúruminjaskrá og því líklegra að slík starfsemi yrði utan þjóðgarðs. Í kynningu á áformum um þjóðgarðinn komu ekki fram tillögur um að „Hrafnseyrarhluti væntanlegs garðs og Dynjandishlutinn verði samhangandi“. Ráðherra telur því rétt að horfa til þeirra tillagna um mörk þjóðgarðs sem starfshópur lagði fram þegar áform voru kynnt. Bent er þó á að ef vilji landeigenda á nærsvæðum stendur til þess að verða hluti af þjóðgarðinum og mat á verndargildi þeirra svæða staðfestir að þau séu til þess fallin að verða hluti af þjóðgarðinum þá er ekkert því til fyrirstöðu að þjóðgarðurinn stækki sem því nemur í framtíðinni.

     3.      Hvenær áætlar ráðherra að af stofnun þjóðgarðs geti orðið ef áformin ganga eftir?
    Starfshópur sem nú vinnur að gerð friðlýsingarskilmála fyrir þjóðgarðinn þarf að ljúka sinni vinnu. Þegar þeirri vinnu er lokið eru friðlýsingarskilmálarnir auglýstir opinberlega í þrjá mánuði. Í kjölfar þess og að lokinni úrvinnslu Umhverfisstofnunar á athugasemdum sem berast á þriggja mánaða tímabilinu getur ráðherra staðfest friðlýsingu. Hægt er að horfa til þess að af stofnun þjóðgarðs geti orðið um eða eftir mitt ár 2021.

     4.      Verður gert nýtt aðalskipulag fyrir Vesturbyggð sem tekur tillit til væntanlegs þjóðgarðs í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir honum í gildandi aðalskipulagi?
    Svæði geta verið friðlýst innan sveitarfélaga án þess að aðalskipulagi sé breytt strax í kjölfarið. Hins vegar, þegar kemur að endurskoðun aðalskipulags hjá sveitarfélögum og svæði innan skipulagsmarka þeirra hafa verið friðlýst, þá ber sveitarfélögum skylda til þess að gera grein fyrir þeim svæðum sem eru friðlýst í nýju aðalskipulagi. Vesturbyggð vinnur nú að nýju aðalskipulagi. Sveitarfélagið á fulltrúa í starfshópi um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Jákvætt er að þessi vinna fari fram á sama tíma þar sem þá er hægt að taka tilliti til atriða sem hafa samlegðaráhrif í þessum tveimur áætlunum.

     5.      Hafa aðrir staðir innan væntanlegs þjóðgarðs verið skoðaðir sem staðsetning fyrir gestastofu þjóðgarðsins en þeir sem fjallað er um í lýsingu Umhverfisstofnunar, t.d. Flókalundur og Mjólkárvirkjun?
    Starfshópur um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum hefur ekki farið í ítarlega skoðun á mögulegum gestastofum. Hópurinn hefur hins vegar í greinargerð sinni sem finna má á vef Umhverfisstofnunar bent á að til eru innviðir þar sem slík starfsemi gæti verið, m.a. í Presthúsinu á Brjánslæk þar sem nú er sýning um náttúruvættið Surtarbrandsgil og á Hrafnseyri í Arnarfirði þar sem nú er sýning um Jón Sigurðsson. Umræðu um tillögur að staðsetningu er ekki lokið hjá starfshópnum og verða tillögur hópsins kynntar í skýrslu hans sem skilað verður til ráðherra í vor.

     6.      Hvaða áhrif hafa bættar vegasamgöngur um Gufudalssveit og Dynjandisheiði og líkleg fækkun ferjuferða um Breiðafjörð á fyrirhugaðan þjóðgarð?
    Eitt af markmiðum þjóðgarða er að tryggja aðgengi almennings til útivistar og til að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Rannsóknir hafa sýnt að ferðamenn hafa áhuga á að kynna sér friðlýst svæði. Leiða má að því líkur að þjóðgarður á sunnanverðum Vestfjörðum muni auka umferð um það svæði sem verður að þjóðgarði. Bættar samgöngur um Gufudalssveit eru utan marka mögulegs þjóðgarðs en vegur um Dynjandisheiði yrði innan þjóðgarðs. Ljóst er að bættar vegasamgöngur eru áherslumál allra Vestfirðinga og er bættur vegur um Dynjandisheiði hluti af því. Innan þjóðgarða er gætt að því að lagning vega fari ekki gegn verndarmarkmiðum þeirra, en jafnframt má benda á að þjóðvegir liggja í gegnum þjóðgarða um allan heim og þar með talið hér á landi. Því er ekkert því til fyrirstöðu að þar séu góðir vegir. Einnig má benda á að almennt, með tilliti til friðlýstra svæða og góðra vegasamgangna, er samstarf Vegagerðar og umsjónaraðila friðlýstra svæða mikilvægt í ljósi umferðar um svæðið. Til að mynda er ákjósanlegt við endurhönnun vega að gert sé ráð fyrir áningar- og útsýnisstöðum við þjóðvegi á friðlýstum svæðum þar sem ferðalangar geta notið útsýnis og upplifunar og að staðsetningin taki mið af umferðaröryggi og flæði á svæðinu.