Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 895  —  534. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingar á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun (flutningur póstmála).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019.

1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Yfirstjórn og verkefni Byggðastofnunar.

    Ráðherra fer með yfirstjórn póstmála.
    Verkefni Byggðastofnunar á sviði póstmála eru:
     1.      Að annast framkvæmd laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með póstþjónustu eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Stofnunin skal framfylgja lögunum og stuðla að því að markmið þeirra náist.
     2.      Að stuðla að samkeppni á sviði póstþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti með því að vinna gegn röskun eða takmörkun samkeppni á mörkuðum póstþjónustu.
     3.      Að taka þátt í þróun markaðar fyrir póstþjónustu og upplýsingatækni með því meðal annars að:
                  a.      vinna gegn hindrunum í vegi framboðs á aðstöðu og þjónustu sem tengist póstþjónustu,
                  b.      stuðla að því að gætt sé jafnræðis við meðhöndlun póstrekenda sem búa við sömu aðstæður,
                  c.      eiga samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu og Eftirlitsstofnun EFTA í þeim tilgangi að koma á samræmdum eftirlitsháttum og samræmdri túlkun löggjafar, stuðla að þróun upplýsingasamfélagsins með markvissri innleiðingu nýrrar tækni og vinnubragða.
     4.      Að gæta hagsmuna almennings með því meðal annars að:
                  a.      vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu,
                  b.      stuðla að vernd neytenda í viðskiptum þeirra við póstrekendur,
                  c.      vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs,
                  d.      stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæis gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar póstþjónustu,
                  e.      tryggja hag notenda sem best, þ.m.t. einstakra þjóðfélagshópa, svo sem öryrkja, að því er varðar val, verð og gæði.
     5.      Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld á sviði póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði póstmála. Skal stofnunin beina tilmælum um breytingar á lögum og reglugerðum til ráðherra ef þess gerist þörf.
     6.      Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði póstmála.
     7.      Annað sem lýtur að framkvæmd póstmála.
    Byggðastofnun og Samkeppniseftirlitið skulu setja sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um póstmál og samkeppnislaga. Skulu reglur þessar birtar.
    Forstjóra Byggðastofnunar er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar sem framkvæmd er með heimild í lögum þessum.


2. gr.

    Á eftir I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli A, Eftirlit, með tveimur nýjum greinum, 4. gr. a og 4. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (4. gr. a.)

Eftirlit með póstrekendum.

    Byggðastofnun hefur eftirlit með starfsemi póstrekenda, þ.m.t. fjárhagsstöðu þeirra, og skal fylgjast með því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, skilyrði eða ákvarðanir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

    b. (4. gr. b.)

Eftirlitsúrræði Byggðastofnunar og viðurlög.

    Byggðastofnun getur krafið þá sem stunda starfsemi sem fellur undir lög um póstþjónustu um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt ákvæðum laga um póstþjónustu sem ekki snúa að póstrekendum er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Byggðastofnun í té allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg.
    Byggðastofnun getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
    Sem hluta af eftirliti er Byggðastofnun heimilt að krefjast þess að henni séu meðal annars látnir í té ársreikningar, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.
    Byggðastofnun getur með sömu skilyrðum og í 3. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
    Telji Byggðastofnun að fjárhagsstaða póstrekenda sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum, rekstrarleyfum eða skilgreindum alþjónustukvöðum getur stofnunin krafist þess að bætt verði úr innan tiltekins frests.
    Byggðastofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað póstrekanda sem úthlutað hefur verið réttindum og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum, lögum um póstþjónustu eða reglum eða ákvörðunum stofnunarinnar. Við þessar aðgerðir skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.
    Vanræki póstrekandi skyldur sínar eða uppfylli ekki kröfur sem Byggðastofnun gerir um úrbætur innan hæfilegs frests getur stofnunin afskráð hann af lista yfir póstrekendur eða tilkynnt póstrekanda að hann njóti ekki lengur almennrar heimildar að undangenginni skriflegri viðvörun.
    Byggðastofnun skal gera ráðstafanir til að stöðva rekstur póstrekanda sem starfar án heimildar eða uppfyllir ekki skilyrði laga og reglna um slíka starfsemi. Er heimilt að leggja á dagsektir í þessu skyni, sbr. 44. gr.
    Byggðastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þ.e. upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við athugun á málum sem Byggðastofnun vinnur að samkvæmt lögum þessum, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Byggðastofnunar.

3. gr.

    Í stað orðanna „skv. 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003“ í 5. mgr. 5. gr. og 9. mgr. 17. gr. laganna kemur: skv. 44. gr.


4. gr.

    Í stað 3. mgr. 32. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Telji neytendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um póstþjónustu eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Byggðastofnun um að hún láti málið til sín taka.
    Byggðastofnun skal leita álits viðkomandi póstrekanda á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan hátt. Náist ekki samkomulag skal úr ágreiningi skorið með ákvörðun.
    Byggðastofnun er heimilt að setja reglur um lausn slíkra ágreiningsmála.

5. gr.

    Á eftir 38. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 39. gr. – 44. gr. ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:

    a. (39. gr.)

Samskipti við eftirlitsstjórnvöld og þagnarskylda.

    Byggðastofnun skal veita Eftirlitsstofnun EFTA almennar upplýsingar sem skylt er að veita með hliðsjón af skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, svo sem varðandi alþjónustu og kvaðir sem lagðar eru á fyrirtæki.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má Byggðastofnun veita eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni upplýsingar um póstmál sé það liður annað hvort í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila eða við úrlausn einstakra mála og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um skipti á upplýsingum við eftirlitsstjórnvöld hér á landi. Byggðastofnun er því aðeins heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein að sá sem upplýsingarnar fær sé háður sams konar þagnarskyldu.
    Þagnarskylda skal ekki vera því til fyrirstöðu að Byggðastofnun gefi fulltrúum Eftirlitsstofnunar EFTA sem fjalla um póstmál allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Byggðastofnun er heimilt að skiptast á upplýsingum um póstmál við sambærilegar stofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins og samningsríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að því marki að ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða.
    Byggðastofnun er heimilt að birta tölfræðilegar upplýsingar um magn pósts og skulu póstrekendur láta stofnuninni í té slíkar upplýsingar.

    b. (40. gr.)

Lausn deilumála milli póstrekenda.

    Komi upp deilur milli póstrekenda um skyldur sem leiðir af lögum getur deiluaðili beint málinu til Byggðastofnunar. Byggðastofnun skal leita sátta með aðilum. Náist ekki samkomulag skal skorið úr ágreiningi með ákvörðun eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en innan fjögurra mánaða nema sérstaklega standi á.
    Ákvörðun Byggðastofnunar skal birta opinberlega með fyrirvara um kröfu um viðskiptaleynd.
    Byggðastofnun getur í ákveðnum tilfellum gripið inn í deilur aðila að eigin frumkvæði til þess að ná markmiðum laga um póstþjónustu eða laga um Byggðastofnun.
    Byggðastofnun er heimilt að setja reglur um málsmeðferð samkvæmt þessari grein.
    
    c. (41. gr.)

Heimild til bráðabirgðaákvörðunar.

    Telji Byggðastofnun nauðsynlegt að taka ákvörðun án tafar í einstökum málum sem varða kvartanir neytenda, sbr. 32. gr., eða deilur á milli póstrekenda, sbr. 40. gr., enda sé hætta á því að dráttur á ákvörðun valdi því að réttindi aðila máls fari forgörðum eða hann verði fyrir verulegu fjártjóni, er stofnuninni heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun.
    Byggðastofnun skal taka málið til umfjöllunar skv. 32. gr. eða 40. gr. innan sjö daga frá því að bráðabirgðaákvörðunin var tekin ella fellur hún úr gildi.

    d. (42. gr.)

Kæruheimild.

    Ákvarðanir Byggðastofnunar um póstþjónustu sem teknar eru samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Um meðferð kæru vegna ákvarðana Byggðastofnunar skulu gilda sömu málsmeðferðarreglur og kveðið er á um í 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

    e. (43. gr.)

Gjaldtaka o.fl.

    Fyrir tilnefningu alþjónustuveitanda fyrir póstþjónustu greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Póstrekendur skulu árlega greiða Byggðastofnun rekstrargjald sem nemur 0,4% af árlegri bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem þessir aðilar hafa af póststarfsemi sinni hér á landi. Rekstrargjald skal miða við næsta almanaksár á undan ákvörðun gjaldsins. Tekjur skal telja til bókfærðrar veltu á því ári sem þær verða til.
    Póstrekendur skulu skila Byggðastofnun upplýsingum um gjaldskylda veltu eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Berist Byggðastofnun ekki upplýsingar innan tilskilins tíma er stofnuninni heimilt að áætla veltu viðkomandi aðila.
    Álagning rekstrargjalds skv. 2. mgr. skal fara fram eigi síðar en 15. maí ár hvert. Byggðastofnun gera eftirlitsskyldum aðilum grein fyrir álagningunni með bréfi. Rekstrargjald greiðist með þremur jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársþriðjungs er 1. júní og eindagi 15. júní, gjalddagi 2. ársþriðjungs er 1. september og eindagi 15. september og gjalddagi 3. ársþriðjungs er 1. desember og eindagi 15. desember. Sé rekstrargjald greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu.
    Vanræki póstrekandi greiðslu rekstrargjalds er Byggðastofnun heimilt að fella niður starfsheimild viðkomandi fyrirtækis.
    Byggðastofnun er heimilt að ákvarða álagningu rekstrargjalds að nýju fyrir tiltekna aðila reynist álagningarstofn eða aðrar forsendur fyrri álagningar ekki réttar.
    Byggðastofnun getur gert póstrekanda að greiða samkvæmt reikningi útlagðan kostnað, svo sem vegna sérfræðivinnu, við sérstakar kannanir sem stofnunin telur nauðsynlegar vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum og rekja má sérstakan kostnaðarauka til atvika er varða fyrirtækið.
    Ráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu sem Byggðastofnun er falið að veita samkvæmt lögum þessum. Heimilt er að taka gjald, sem miðast við kostnað, fyrir skráningu fyrirtækja og útgáfu leyfisbréfa og skírteina. Auk þess er Byggðastofnun heimilt að taka gjald fyrir aðra þjónustu sem aðilar óska eftir. Við ákvörðun gjalda samkvæmt þessari grein skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu, auk ferða og uppihalds sem af því leiðir.
    Byggðastofnun annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein. Tekjur af gjöldunum renna í ríkissjóð að undanskildum tekjum skv. 7. og 8. mgr. sem renna til Byggðastofnunar.
    Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til reksturs Byggðastofnunar sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af gjöldum samkvæmt þessari grein.

    f. (44. gr.)

Dagsektir og innheimta.

    Þegar póstrekandi fer ekki að ákvæðum laga þessara, skilyrðum almennrar heimildar, skilyrðum sérstakra réttinda eða einstökum ákvörðunum Byggðastofnunar eða veitir ekki þær upplýsingar sem honum er skylt að afhenda stofnuninni er henni heimilt að leggja á og innheimta dagsektir sem nemi 50.000–500.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið. Eru slíkar sektir aðfararhæfar skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Málskot til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frestar aðför.

6. gr.

    Á eftir 1. tölul. 1. mgr. 41. gr. laganna kemur nýr töluliður, 2. tölul., svohljóðandi: Framkvæmd eftirlits Byggðastofnunar skv. 4. gr. b.


II. KAFLI

Breyting á lögum um Byggðastofnun, nr. 106/1999.

7. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
    Byggðastofnun annast framkvæmd laga um póstþjónustu, og hefur eftirlit með póstþjónustu, eins og nánar er kveðið á um í lögum um það efni.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðin „starfsemi Byggðastofnunar og“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir orðinu „Ársreikningum“ í 2. mgr. kemur: Byggðastofnunar.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna.
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
              3.      Þjónustugjöld skv. 2. og 3. mgr.
     b.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
              Byggðastofnun er heimilt að taka gjald fyrir:
                  1.      Umsýslu og skjalagerð sem tengist lánastarfsemi stofnunarinnar.
                  2.      Umsýslu vegna aflamarks Byggðastofnunar skv. 10. gr. a laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
                  3.      Vinnu við verkefni á sviði byggðaáætlunar og alþjóðlegra verkefna sem stofnuninni er falið að sinna.
             Stjórn Byggðastofnunar setur gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Upphæð gjalda tekur mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og má ekki vera hærri en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

10. gr.

    16. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Tilgangur og markmið þessa frumvarps, sem samið er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun og Byggðastofnun, er að mæla fyrir um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar.
    Gildandi lög um Póst- og fjarskiptastofnun hafa tekið miklum breytingum frá setningu þeirra og það sama á við um aðra lagabálka á málefnasviðum póst- og fjarskipta. Vinna er hafin við að yfirfara lagaumhverfi stofnunarinnar með það að markmiði að uppfæra, einfalda og skýra lög og reglur þannig að stofnunin geti mætt væntingum samfélagsins og þörfum í heimi fjarskipta- og upplýsingatækni. Jafnframt er horft til þeirra markmiða að tengja betur stefnu stjórnvalda á þessu sviði og móta stofnun sem mætir þörfum og kröfum samtímans og er í stakk búin til að leiða þróun samfélagsins á sínu málefnasviði inn í 3. áratug 21. aldarinnar þar sem fjórða iðnbyltingin, gervigreind og uppbygging innviða í fjarskiptum verða í forgrunni. Í þessu skyni stendur til að líta vítt yfir sviðið og fara ítarlega yfir gömul og ný verkefni stofnunarinnar, skörun við tengd svið og skoða tækifæri til úrbóta.
    Meðal nýlegra breytinga á lagaumhverfi stofnunarinnar má nefna lög um póstþjónustu sem samþykkt voru árið 2019. Þá ber einnig að geta frumvarps til nýrra laga um fjarskipti, sbr. þskj. 210, 209. mál á 151. lögþ. 2020–2021, sem er í þinglegri meðferð, sem og frumvarps til nýrra laga um íslensk landshöfuðlén, sbr. þskj. 9, 9. mál á 151. lögþ. 2020–2021, sem einnig er í þinglegri meðferð, en hvort tveggja mun hafa áhrif á starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar. Loks ber að nefna frumvarp til nýrra heildarlaga um Póst- og fjarskiptastofnun sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi. Rétt er að nefna að í frumvarpi til nýrra heildarlaga um Póst- og fjarskiptastofnun er gert ráð fyrir að lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, falli brott, að Póst- og fjarskiptastofnun verði að Fjarskiptastofnun og verkefni hennar verði framvegis eingöngu á sviði fjarskipta.
    Stofnaður hefur verið verkefnahópur með fulltrúum frá Póst- og fjarskiptastofnun og Byggðastofnun sem mun vinna að því að flutningur verkefnisins verði vandaður og að þess verði gætt að sú þekking og reynsla sem er innan Póst- og fjarskiptastofnunar í málaflokknum nýtist Byggðastofnun áfram meðan á tilfærslunni stendur.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ljóst er að póstmál hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár og almennum bréfasendingum hefur fækkað umtalsvert. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um póstþjónustu á líkleg áframhaldandi fækkun bréfasendinga sér eðlilegar og að flestu leyti „jákvæðar“ orsakir. Þannig hefur breytt samskiptatækni og samskiptamáti fært upplýsingagjöf í auknum mæli frá prentmiðlum yfir á stafræna miðla. Tölvupóstur, upplýsingagáttir á netinu, samfélagsmiðlar o.fl. hafa fyrir löngu leyst af hólmi hefðbundin prentuð bréf. Auk þess hafa bætt fjarskipti og samgöngur á undanförnum árum dregið úr mikilvægi póstþjónustu hér á landi, sér í lagi hvað varðar dreifingu á hefðbundnum bréfum, svo sem útsendingu á reikningum, launaseðlum og öðru slíku. Með tilkomu stafrænna samskiptalausna gegnir póstþjónusta ekki sama hlutverki og áður.
    Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar á sviði póstmála hefur þar af leiðandi minnkað en samkvæmt verkgreiningu stofnunarinnar er þörf á a.m.k. tveimur stöðugildum til að sinna verkefninu eins og því er lýst í lögum, auk sameiginlegs kostnaðar og kostnaðar við yfirstjórn. Eigi að síður gegnir póstþjónusta enn mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulíf, og er í lykilhlutverki í vefverslun. Er það því mat ráðuneytisins að til framtíðar litið sé það hlutverk ríkisins að tryggja að allir landsmenn njóti alþjónustu póstsins sem lýst er í lögum um póstþjónustu. Tækifæri eru þó fyrir hendi til að einfalda hlutverk ríkisins í þessum málum en mikilvægt er að gæta að byggðasjónarmiðum og jafnræði landsmanna við slíka einföldum.
    Meginhlutverk Byggðastofnunar skv. 2. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, er að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Innan stofnunarinnar starfar sérstakt þróunarsvið sem ber að fylgjast með þróun byggðar í landinu, meðal annars með gagnasöfnun og rannsóknum og gera eða láta gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Hafa rannsóknir þróunarsviðsins vakið athygli fyrir vandaða og mikilvæga vinnu og innan stofnunarinnar er að finna öflugt og sérhæft starfsfólk á sviði byggðamála og rannsókna.
    Mæla því ýmis rök með því að Byggðastofnun taki að sér verkefni póstmála á þessu stigi svo að stofnunin geti unnið áfram með ráðuneytinu næstu misserin við að samhæfa enn betur byggðasjónarmið og póstmál, innan þess svigrúms sem Evrópulöggjöf á þessu sviði veitir, auk þess að tryggja að áfram verði tryggð hagkvæm, skilvirk og áreiðanleg póstþjónusta um land allt og til og frá landinu og að jafnræði landsmanna til að njóta alþjónustu verði tryggt. Fyrir liggur því að eitt af hlutverkum ráðuneytisins og Byggðastofnunar vegna tilfærslunnar verður að vinna að því að skoða tækifæri til einföldunar á lagaumhverfi póstmála, þ.m.t. að skoða fýsileika þess að færa þann hluta póstmála sem varðar samkeppniseftirlit til Samkeppniseftirlitsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginmarkmið þessa frumvarps er, eins og áður segir, að leggja til breytingar á lögum sem eingöngu fela í sér að verkefni póstmála flytjist frá Póst- og fjarskiptastofnun yfir til Byggðastofnunar. Þá er það einnig markmið frumvarpsins að gæta þess að hlutverk Byggðastofnunar verði það sama og hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir tilfærsluna og að Byggðastofnun hafi allar sömu heimildir og skyldur sem lagðar voru á Póst- og fjarskiptastofnun. Til að ná þessum markmiðum var valin sú leið að leggja til breytingar á lögum um póstþjónustu sem eingöngu fela í sér tilfærslu á verkefnum póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun yfir til Byggðastofnunar. Er frumvarp þetta því byggt upp með þeim hætti að ákvæði sem kveða á um verkefni og skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eru færð í lög um póstþjónustu og í lög um Byggðastofnun. Er sú leið í samræmi við lagaframkvæmd annarra ríkisstofnana sem sinna verkefnum á fleiri en einu sviði, svo sem Þjóðskrá Íslands.
    Þau ákvæði sem lagt er til að verði bætt við lög um póstþjónustu eru eftirfarandi:

Hlutverk Byggðastofnunar á sviði póstmála.
    Í 3. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er hlutverki stofnunarinnar lýst á sviði fjarskipta og póstmála. Ákvæðið kemur nú inn sem ný 3. gr. laga um póstþjónustu að því leyti sem það tekur til póstþjónustu og er því lagt er upp með að engar breytingar verði á hlutverki Byggðastofnunar frá hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar. Í ákvæðinu kemur fram að hlutverk Byggðastofnunar sé meðal annars að hafa eftirlit með póstþjónustu, stuðla að samkeppni á sviði póstþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti, taka þátt í þróun markaðar fyrir póstþjónustu og upplýsingatækni, gæta þess að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu og stuðla að vernd neytenda, vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld á sviði póstþjónustu og taka þátt í alþjóðasamstarfi fyrir hönd Íslands á sviði póstmála.

Eftirlitsákvæði.
    Fjallað er um eftirlitsskyldur og -heimildir Póst og fjarskiptastofnunar með póstþjónustu í 4. og 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Í frumvarpinu er lagt til að komi nýr kafli í lög um póstþjónustu, I. kafli A, þar sem framangreind ákvæði laga um Póst- og fjarskiptastofnun eru tekin orðrétt upp í lög um póstþjónustu, með þeirri undantekningu að ákvæðin taka ekki til fjarskiptamála eðli málsins samkvæmt.

Meðferð kvartana frá neytendum.
    Í 3. mgr. 32. gr. laga laga um póstþjónustu kemur fram að notendur eða aðrir sem eiga hagsmuna að gæta geti beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar. Síðan segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti látið málið til sín taka á grundvelli laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Ljóst er að 10. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun skarast á við umrætt ákvæði en þar kemur fram að neytendur fjarskipta- eða póstþjónustu, eða aðrir sem eiga hagsmuna að gæta, geta beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar. Í 2. og 3. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að stofnuninni beri að freista þess að jafna ágreining aðila og skera úr með ákvörðun ef ekki næst samkomulag, auk þess sem stofnuninni er veitt heimild til að setja reglur um lausn slíkra ágreiningsmála. Í ljósi framangreindar skörunar á 10. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun og 32. gr. laga um póstþjónustu er ekki lagt til að fyrrnefnda ákvæðið verði lögfest óbreytt í lögum um póstþjónustu heldur eingöngu að 2. og 3. mgr. ákvæðisins verði bætt við ákvæði 32. gr. laga um póstþjónustu.

Samskipti við eftirlitsstjórnvöld og þagnarskylda.
    Í 7. og 8. gr. laga um um Póst- og fjarskiptastofnun er fjallað um þær reglur sem gilda um samskipti Póst- og fjarskiptastofnunar við önnur eftirlitsstjórnvöld sem og reglur um þagnarskyldu stofnunarinnar. Ef ákvæðin er skoðuð er ljóst að sum þeirra eiga eingöngu við fjarskiptamál auk þess sem ákvæðin skarast á við hið almenna þagnarskylduákvæði Byggðastofnunar sem kemur fram í 18. gr. laga um Byggðastofnun. Lagt er því til að þær reglur 7. og 8. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnunar sem eiga við um póstmál verði sameinuð og verði að einu ákvæði í lögum um póstþjónustu, að undanskilinni reglu sem kemur fram í 7. mgr. 10. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Þar kemur fram að Póst- og fjarskipastofnun hafi heimild til að krefjast upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra en lagt er til að sú regla komi fram í eftirlitsákvæði laganna.

Deilur á milli póstrekenda og bráðabirgðarákvörðun Byggðastofnunar.
    Í 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er fjallað um deilur fyrirtækja á sviði fjarskipta og póstrekenda og segir þar að hægt sé að beina ágreiningi aðila til stofnunarinnar, auk þess sem kveðið er á um frekari málsmeðferðarreglur slíkra mála í ákvæðinu. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðið verði lögfest orðrétt í lögum um póstþjónustu að því leyti að það taki einungis til deilna póstrekenda. Í 11. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er fjallað um heimild stofnunarinnar til að taka bráðabirgðaákvörðun í einstökum málum. Ljóst er að ákvæðinu er ætlað að taka bæði til mála sem varðar kvartanir neytenda og mála er varðar deilur póstrekenda, enda kemur það í beinu framhaldi af ákvæðum þar sem fjallað er um slík tilvik. Er því lagt til að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að skýrt sé að það taki til beggja tilvika, þ.e. mál er varða deilur póstrekenda og mál er varða kvartanir neytenda.

Kæruheimild.
    Í 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er lögð stoð undir starfsemi úrskurðarnefndar póst- og fjarskiptamála. Í frumvarpinu er lagt til að sú stoð haldi sér en kveðið verði á um í lögum um póstþjónustu að heimilt sé að kæra ákvarðanir er varða póstmál til nefndarinnar og að sömu málsmeðferðarreglur eigi við um slíkar kærur og eiga við um kærur vegna fjarskiptamála.

Önnur ákvæði.
    Í 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er kveðið á um heimild stofnunarinnar til að leggja dagsektir á póstrekendur vegna tiltekinnar vanrækslu og í 14. gr. laganna er að finna heimild stofnunarinnar til að leggja á ákveðin gjöld. Lagt er til að ákvæðin verði lögfest óbreytt í lögum um póstþjónustu að því leyti sem þau taka til póstmála. Þá ber einnig að geta þess að í 15. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er fjallað um skyldu stofnunarinnar til að birta árlega skýrslu um starfsemi sína, þar á meðal lista yfir póstrekendur. Ekki var talin ástæða til að lögfesta slíkt ákvæði í lög um póstþjónustu.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um Byggðastofnun vegna tilfærslunnar og er gert ráð fyrir því að tekið verði fram í 2. gr. laganna að hlutverk Byggðastofnunar sé að annast framkvæmd laga um póstþjónustu. Þá er einnig lagt til að gerðar verði tímabærar lagfæringar á lögum um Byggðastofnun er snúa að heimildum stofnunarinnar til að innheimta tiltekin þjónustugjöld, skýrslugjöf stofnunarinnar og fjárvörslu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í lögum um póstþjónustu eru efnisákvæði pósttilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB, sbr. tilskipun 97/67/EB, tekin upp í íslenskan rétt. Einnig er gert ráð fyrir lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/644, um pakkasendingar yfir landamæri. Reglugerðin kemur til viðbótar reglum sem Evrópusambandið hefur sett um póstþjónustu, þ.e. tilskipun 97/67/EC (fyrsta pósttilskipunin), 2004/4/EC (önnur pósttilskipunin) og áðurnefnd tilskipun 2008/6 (þriðja pósttilskipunin). Reglugerðinni er einkum ætlað að ýta undir traust neytenda á því að eiga viðskipti á netinu milli landa með aukinni söfnun og miðlun upplýsinga um pakkasendingaþjónustu. Þess er gætt að frumvarpið sé í samræmi við framangreindar þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Frumvarpið er unnið í samvinnu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar og Byggðastofnunar. Áform um heildarendurskoðun laga um Póst- og fjarskiptastofnunar hafa verið birt öllum ráðuneytum í innra samráði Stjórnarráðsins. Drög að frumvarpinu voru ennfremur birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 21. október – 2. nóvember 2020 (mál nr. S-223/2020). Í umsögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Skagafirði og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra er hvatt til tilfærslunnar. Samtök atvinnulífsins leggjast hins vegar í meginatriðum gegn frumvarpinu. Meðal atriða sem samtökin gagnrýna er að ekki liggi fyrir greining á fjárhagslegum og faglegum ávinningi sameiningarinnar, að ekki sé fjallað með skýrum hætti um þær stofnanabreytingar sem fara fram samhliða á sviði fjarskiptamála og að rétt sé að sameina Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið enda væri óþarft að hafa sértækar samkeppnisreglur á sviði póst- og fjarskiptamála. Félag atvinnurekenda leggst einnig gegn breytingunni þar sem félagið telur að sérfræðiþekking og reynsla glatist, togstreita verði á hlutverkum Byggðastofnunar þar sem hún er ekki hlutlæg eftirlitsstofnun heldur framkvæmi pólitíska stefnu stjórnvalda um uppbyggingu í þágu byggðar og að skörun sem hafi verið á hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins sem hafi verið leyst með samskiptareglum og samstarfi stofnananna. Breytingarnar munu leiða til þess að afmörkun valdsviðs hefjist upp á nýtt. Samtök verslunar og þjónustu leggja til að eftirlit með póstmálum færist yfir til Samkeppniseftirlitsins. Þá er að finna í umsögn samtakanna ýmsar efnislegar ábendingar um ákvæði frumvarpsins sem eru nú þegar gildandi lög. Íslandspóstur ohf. gerir ekki athugasemd við tilfærsluna en gerir ýmsar efnislegar athugasemdir við ákvæði frumvarpsins sem eru nú þegar gildandi lög.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Póst- og fjarskiptastofnun og Byggðastofnun hafa yfirfarið athugasemdir og þau sjónarmið sem fram komu í framangreindum umsögnum. Ekki er talin þörf á að gera efnislegar breytingar á þeim lagaákvæðum sem eru færð óbreytt úr lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, í lög um póstþjónustu, nr. 98/2019, þar sem athugasemdir umsagnaraðila byggja í flestum tilvikum annað hvort á misskilningi eða eru ekki til bóta. Hafa þarf í huga að markmið og tilgangur tilfærslunnar er að veita ráðuneytinu og Byggðastofnun færi á vinna að skilvirkari framkvæmd í málaflokknum og er því ekki talið rétt að breyta gildandi ákvæðum laga sem gilda um póstþjónustu á þessu stigi.
    Í samskiptum Póst- og fjarskiptastofnunar og ráðuneytisins vegna vinnu við frumvarpið hefur komið fram að unnið sé eftir skýru verklagi varðandi eftirlit með samkeppni á sviði póstmála og þannig sé komið í veg fyrir tvíverknað í samskiptum stofnunarinnar og Samkeppniseftirlitsins. Ekkert ætti að koma í veg fyrir að það verklag geti haldist eftir breytinguna.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið muni hafa áhrif á ríkissjóð enda er eingöngu um tilfærslu verkefna að ræða. Þá er ekki gert ráð fyrir áhrifum á póstrekendur eða neytendur póstmála í tengslum við eftirlit ríkisins með póstmálum eða gjaldtöku. Samkvæmt verkgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunar er áætlað að verkefnið krefjist fulls vinnuframlags a.m.k. tveggja starfsmanna, auk utanumhalds, stjórnunarkostnaðar o.fl. Fyrir liggur að þau gjöld sem innheimta skal vegna verkefna póstmála renna í ríkissjóð á grundvelli laga um opinber fjármál og ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til Byggðastofnunar sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af slíkum gjöldum. Er því gert ráð fyrir að áætlaðar tekjur sem koma til vegna framangreindra gjalda muni hér eftir renna til Byggðastofnunar í stað Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá er að auki gert ráð fyrir fjárheimild til Byggðastofnunar, að hámarki 20 millj. kr., sem fjármögnuð verður úr útgjaldaramma samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í fjármálaáætlun.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, að því leyti sem ákvæðið tekur til póstmála. Vísað er til skýringa við umrætt ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, sjá þskj. 961, mál 600 á 128. lögþ. 2002–2003.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði 4. og 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, sem fjalla um eftirlitskyldur og heimildir stofnunarinnar komi óbreytt inn í lög um póstþjónustu sem nýr kafli. Að öðru leyti er vísað til skýringa við umrædd ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, sjá þskj. 961, mál 600 á 128. lögþ. 2002–2003.

Um 3. gr.

    Ákvæðið mælir fyrir um þá breytingu að Byggðastofnun tekur við því hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar sem stofnuninni er ætlað samkvæmt lögum um póstþjónustu í samræmi við markmið frumvarpsins.

Um 4. gr.

    10. gr. laga og Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, og 32. gr. laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, fjalla um kvartanir neytenda póstþjónustu eða annarra sem eiga hagsmuna að gæta við að póstrekendur framfylgi skyldum sínum. Í ljósi þess að ákvæðin skarast á er lagt til að 2. og 3. mgr. 10. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun verði skeytt við 32. gr. laga um póstþjónustu. Að öðru leyti vísast til skýringa á umræddum ákvæðum í frumvörpum til viðeigandi laga.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að tilteknum ákvæðum laga um Póst- og fjarskiptastofnun verði bætt við VIII. kafla laga um póstþjónustu sem ber heitið Milliríkjasamningar, viðurlög o.fl. Um er að ræða ákvæði sem varða samskipti við eftirlitsstjórnvöld og þagnarskyldur, deilur milli póstrekenda, heimildir Byggðastofnunar til að taka ákvarðanir í málum er varðar kvartanir neytenda og deilur á milli póstrekenda, kæruheimildir, ákvæði um gjaldtökuheimildir Byggðastofnunar og ákvæði um dagsektarheimildir. Gert er ráð fyrir að engar efnislegar breytingar verði á umræddum heimildum frá gildandi rétt og eru ákvæðin að mestu leyti orðrétt og sambærileg ákvæði í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með eftirfarandi undantekningum.
    Í 7. gr. og 8. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, er fjallað um samskipti stofnunarinnar við eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu og um almenna þagnarskylduheimildir stofnunarinnar. Í ljósi þess að í lögum um Byggðastofnun er mælt fyrir um þagnarskyldu stjórnarmanna og starfsmanna Byggðastofnunar í 18. gr. laganna, og þær sérreglur í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem fjalla um undaþágur frá þagnarskyldu varða fyrst og fremst samskipti við önnur eftirlitsstjórnvöld, var talið rétt að sameina ákvæðin að undanskilinni reglu sem kveðið er á um í 7. mgr. 8. gr. laganna. Þar kemur fram að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum. Réttara þótti að slíka reglu væri að finna í ákvæði sem fjallar um eftirlitsheimildir Byggðastofnunar, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
    Í ákvæðinu er einnig fjallað um kærurétt vegna póstmála. Í 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, er mælt fyrir um þær reglur sem gilda skuli um úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála og ekki þykir ástæða til að tvítaka þá lagastoð. Í frumvarpinu er því einungis mælt fyrir um að ákvarðanir samkvæmt lögum um póstþjónustu sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar en að þær málsmeðferðarreglur sem kveðið er á um í 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun skuli gilda um slíka kærur. Er hér meðal annars átt við kærufrestinn sem er fjórar vikur frá því viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Byggðastofnunar, að úrskurður nefndarinnar skuli að jafnaði liggja fyrir innan 12 vikna frá því að kæra berst, að aðila beri að höfða mál fyrir dómstólum innan sex mánaða frá því hann fékk vitneskju um úrskurð nefndar og að Byggðastofnun geti í undantekningartilvikum, að fengnu samþykki ráðherra, borið úrskurð nefndarinnar undir dómstóla. Sömuleiðis að málshöfðun fresti ekki réttaráhrifum úrskurða nefndarinnar á sviði póstmála, að aðili getið borið ákvörðun Byggðastofnunar undir dómstóla innan þriggja mánaða frá því hann fékk vitneskju um ákvörðun stofnunarinnar og að málshöfðun fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana eða að slíkt málskot til dómstóla hindri að úrskurðarnefnd sé heimilt að taka kæru er varðar póstmál til málsmeðferðar. Þá er einnig gert ráð fyrir að gjaldtökuheimild nefndarinnar, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, taki einnig til póstmála.
    Að öðru leyti vísast til skýringa í frumvarpi til laga um Póst- og fjarskiptastofnun vegna umræddra ákvæða, sjá þskj. 961, mál 600 á 128. lögþ. 2002–2003.

Um 6. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að kveðið verði skýrt á um að hlutverk Byggðastofnunar sé að annast framkvæmd laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, eins og því er lýst nánar í 3. gr. þeirra laga.

Um 8. gr.

    Í núverandi 13. gr. laga um Byggðastofnun er gert ráð fyrir því að ráðherra gefi Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar. Starfsemi stofnunarinnar er orðin mun umfangsmeiri en við gildistöku laganna og hefur þessi skýrslugjöf ráðherra yfirleitt takmarkast við framvindu byggðaáætlunar og þau verkefni sem stofnunin sinnir þar um. Breytingunni er ætlað endurspegla þann veruleika.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um gjald sem Byggðastofnun er heimilt að taka vegna verkefna sem leiðir af lögunum. Lagt er til að ráðherra setji, að fengnum tillögum frá Byggðastofnun, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Þá skal upphæðin taka mið af rekstraráætlun þar sem þau atriði sem gjaldið byggir á eru rökstudd og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Þá er kveðið á um að gjaldskrá skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda og að heimilt sé að innheimta gjöld með fjárnámi.

Um 10. gr.

    Í 16. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, er mælt fyrir um fjárvörslu og hvernig Byggðastofnun skal ávaxta handbært fé sitt. Slík lagafyrirmæli eru fljót að úreldast og framboð leiða til ávöxtunar handbærs fjár er töluvert meira nú en þegar lögin voru sett. Fyrirmæli greinarinnar eins og þau eru fram sett geta valdið því að stofnunin væri ekki að ávaxta handbært fé sitt á besta mögulega hátt og er því lagt til að hún falli brott í heild sinni.

Um 11. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.