Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 903  —  474. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um dánarbú.


     1.      Til hvaða aðila innan opinberrar stjórnsýslu þurfa dánarbú að leita frá andláti einstaklings þangað til dánarbúi hefur verið skipt?
    Þegar maður er látinn og skipti eftir hann fara fram hér á landi skal svo fljótt sem verða má tilkynna andlátið hjá sýslumanni. Skyldan hvílir á þeim sem getur átt lögerfðarétt eftir þann látna og þeim sem hefur vitneskju um bréferfðarétt sinn eftir hann. Sé um engan slíkan að ræða skal sá tilkynna andlátið sem hefur átt heimili með þeim látna, en ella sá sem hlutast til um útför hans. Ef enginn slíkur er heldur fyrir hendi skulu yfirvöld, sem hafa afskipti af málum þess látna, tilkynna andlátið, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl.     Samkvæmt 32. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., hafa erfingjar fjóra mánuði frá andláti til að aðhafast um skipti dánarbús. Hjá sýslumanni geta aðgerðirnar falist í framlagningu beiðni eftirlifandi maka um leyfi til setu í óskiptu búi, sameiginlegri beiðni erfingja um leyfi til einkaskipta eða yfirlýsingu um eignaleysi dánarbúsins. Þá hefur hver erfingi jafnframt rétt skv. 1. mgr. 38. gr. laganna til að krefjast opinberra skipta dánarbúsins fyrir héraðsdómi, hafi skiptum ekki verið lokið samkvæmt fyrrgreindum leiðum. Sýslumaður fer með forræði dánarbúsins þar til erfingjar eða aðrir hafa aðhafast um skiptin með fyrrgreindum aðgerðum. Eftir það flyst forræði dánarbúsins yfir til eftirlifandi maka, erfingja eða umboðsmanns þeirra, þess sem lýsti yfir eignaleysi dánarbúsins eða skiptastjóra.
    Frá andláti þurfa erfingjar að leita til sýslumanns eða héraðsdóms og skiptastjóra, eftir því hvernig skiptum verður háttað. Hvort leita þurfi til annarra opinberra aðila fer eftir eigna- og skuldastöðu dánarbúsins hverju sinni.

     2.      Hver er meðalbiðtími dánarbúa eftir afgreiðslu hvers stjórnsýsluaðila?
    Meðalbiðtíminn veltur á því hvernig skiptum dánarbús er háttað og hvenær innan fyrr greinds fjögurra mánaða frests erfingjar aðhafast um skiptin. Að jafnaði eru beiðnir um leyfi til setu í óskiptu búi, beiðnir um leyfi til einkaskipta og yfirlýsingar um eignaleysi teknar til skoðunar og afgreiðslu sé skilyrðum fullnægt, svo fljótt sem verða má eftir að þær berast sýslumanni. Sama gildir um kröfu um opinber skipti fyrir héraðsdómi.
    Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. laga nr. 20/1991 hafa erfingjar að jafnaði eitt ár frá andláti til að ljúka einkaskiptum. Heimilt er þó að víkja frá því, þar á meðal framlengja frestinn og endurupptaka einkaskipti, þegar nánar tiltekin atvik eiga við. Tíminn sem fer í opinber skipti veltur að miklu leyti á eigna- og skuldastöðu dánarbús, einkaréttarlegum ágreiningi og afstöðu erfingja.
    Eftirfarandi tölfræði var fengin úr starfskerfum sýslumanna 15. febrúar 2021 með vélrænni talningu og unnin í samstarfi við formann sýslumannaráðs og Þjóðskrá Íslands. Um er að ræða upplýsingar um meðaldagafjölda frá því að mál er stofnað í starfskerfi sýslumanna, þ.e. andlát tilkynnt sýslumanni, og þar til lokadagsetningin er skráð í kerfið. Tölfræðin sýnir þróunina undanfarin þrjú ár, sundurliðað eftir skráðum málalokum.

Málalok 2018 2019 2020
Búsetuleyfi veitt 94 71 38
Einkaskiptum lokið 320 255 145
Opinberum skiptum lokið 534 367 270
Skiptum lokið skv. 25. gr. laga 20/1991. Eignalaust bú. 186 136 65

    Vakin er athygli á því að forræði málsmeðferðartímans er að miklu leyti í höndum erfingja sjálfra þar sem þeir hafa rúman tíma til að aðhafast um skipti dánarbús. Eftir atvikum hefur frágangur gagna af hálfu erfingja og ágreiningur við skipti jafnframt áhrif á tímann sem fer í skipti. Ekki liggja fyrir mælingar á fjölda daga frá því að beiðni er lögð fram hjá sýslumanni eða héraðsdómi og þar til hún er afgreidd.

     3.      Finnst ráðherra eðlilegt að lán sem falla á dánarbú safni vöxtum á meðan beðið er eftir afgreiðslu mála hjá stjórnsýslunni? Ættu viðkomandi stjórnsýsluaðilar frekar að greiða þá vexti?
    Ekki liggur annað fyrir en að sýslumenn og héraðsdómstólar afgreiði þau erindi sem berast þeim vegna skipta dánarbúa eins fljótt sem verða má og innan lögmæltra fresta. Þeir vextir sem leggjast á skuldir dánarbúa fara að miklu leyti eftir þeim tíma sem erfingjar taka sér til að aðhafast um skipti dánarbúsins, enda flyst forræði dánarbús frá sýslumanni þegar sýslumaður eða héraðsdómur hefur afgreitt þá beiðni eða kröfu sem erfingjar leggja fram. Af þeirri ástæðu þykir ekki rétt að hlutaðeigandi stjórnsýsluaðilar beri kostnað sem hlýst af aðgerðaleysi erfingja.