Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 912  —  449. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um takmörkun á sölu flugelda.


     1.      Hvernig lagði ráðuneytið mat á ólíka hagsmuni áður en ákvörðun var tekin um að fresta útgáfu reglugerðar um takmarkanir á sölu flugelda? Þess er óskað að sérstaklega komi fram hvernig metin voru áhrif á:
                  a.      heilbrigðiskerfið vegna flugeldaslysa og öndunarfærasjúkdóma,
                  b.      útkallsaðila vegna sjúkraflutninga og slökkvistarfs,
                  c.      heilsufarslega viðkvæma hópa, þar á meðal einstaklinga sem eru með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma eða glíma við öndunarfæraeinkenni af völdum COVID-19, og
                  d.      hópamyndun þar sem fólk kemur saman til að skjóta upp flugeldum.
     2.      Hvaða samráð átti ráðuneytið um frestun reglugerðarinnar? Þess er óskað að sérstaklega komi fram hvernig samráði var háttað við:
                  a.      heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni varðandi aukið álag á heilbrigðiskerfið og viðkvæma hópa,
                  b.      lögreglu og slökkvilið varðandi aukið álag á útkallsaðila,
                  c.      umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun varðandi mengun og önnur áhrif á umhverfið, og
                  d.      almannavarnir og sveitarfélög varðandi hópamyndun umfram sóttvarnareglur.

    14. janúar 2020 skilaði starfshópur dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra tillögum sínum um hvernig draga mætti úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Meginniðurstaða starfshópsins var að nauðsynlegt væri að takmarka sem mest mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá einstaklingum. Einnig þyrfti að hafa í huga óæskileg áhrif skotelda um áramót á atferli og líðan margra dýra. Jafnframt benti starfshópurinn á að huga þyrfti að loftmengun í víðu samhengi og draga úr mengun þar sem það er mögulegt, til bættra lífsgæða fyrir allan almenning.
    Ein tillagna starfshópsins laut að því að gera breytingar á reglugerð um skotelda nr. 414/2017 til að fækka söludögum. Drögin voru unnin í dómsmálaráðuneytinu og voru birt í samráðsgátt hinn 14. október 2020. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust og var umsagnarfrestur til 28. október. Unnið var úr ábendingum og athugasemdum sem bárust en þær voru 17 talsins. Með vísan til þess sem fram kom í umsögnum var tekin ákvörðun um að fresta útgáfu reglugerðarinnar. Voru það einkum eftirfarandi sjónarmið sem lágu að baki þeirri ákvörðun:
     *      Fækkun söludaga og takmörkun á opnunartíma söluaðila myndi skapa öngþveiti við sölustaði sem myndi að öllum líkindum auka hættu á smitum.
     *      Söluaðilar höfðu á þeim tíma fyrir allnokkru pantað og móttekið þær vörur sem fyrirhugað var að selja í samræmi við gildandi reglugerð og óvissa skapaðist um leyfisveitingar o.fl.
     *      Fyrirsjáanlegt var að ef reglugerðin yrði sett svo skömmu fyrir jól og áramót myndi það valda söluaðilum, sem höfðu gengið frá kaupum á flugeldum, umtalsverðu tjóni. Rétt þótti að gefa þeim meiri tíma til að búa sig undir slíkar breytingar, m.a. með hliðsjón af þeim afleiðingum sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á fjármögnun björgunarsveita.
    Í samráðsgátt var birtur svohljóðandi texti 2. desember 2020: „Fyrirhugað hefur verið að gefa út reglugerð í því skyni að þrengja tímamörk um almenna notkun skotelda og fækka söludögum. Umsagnarfrestur í samráðsgátt rann út 28. október, alls bárust 17 umsagnir og hefur málið verið í skoðun síðan. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu sökum Covid19-faraldursins er þó ekki æskilegt að fækka söludögum fyrir þessi áramót. Því er útgáfu reglugerðarinnar frestað. Mikilvægt er að söluaðilar fái ráðrúm til að skipuleggja sig með nægum fyrirvara og skoða fleiri leiðir til fjáröflunar áður en slík breyting tekur gildi.“

     3.      Hefur verið unnið að tillögum um varanlega fjármögnun björgunarsveita, sbr. tillögu í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum mengunar frá flugeldum?
    Ráðherra undirbýr nú skipun starfshóps til að móta tillögur um varanlega fjármögnun björgunarsveita í samræmi við tillögur skýrslunnar.

     4.      Kom til álita að tryggja söluaðilum tímabundna styrki vegna tekjufalls um nýliðin áramót í ljósi aðstæðna, frekar en að falla frá fyrirhuguðum reglugerðarbreytingum? Var möguleiki á slíkum tekjufallsstyrkjum ræddur við fjármála- og efnahagsráðuneytið?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Telur ráðherra að afleiðingar þess að fresta útgáfu reglugerðar um takmarkanir á sölu flugelda samrýmist stefnu og aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19, þegar tekið er mið af almannahagsmunum?
    Ráðuneytið hefur unnið að þessari reglugerð í samræmi við stefnu og aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 og með almannahagsmuni að leiðarljósi. Tímabundin frestun útgáfu í ljósi ástandsins breytir því ekki.

     6.      Hvenær er áformað að reglur um takmarkanir á sölu flugelda taki gildi?
    Fyrirhugað er að gefa reglugerðina út þegar niðurstaða starfshóps um fjármögnun björgunarsveita liggur fyrir en stefnt er að því á árinu.