Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 931  —  408. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um skólasóknarreglur í framhaldsskólum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Telur ráðherra rétt að endurskoða skólasóknarreglur í framhaldsskólum til að gera nemendum kleift að taka þátt í samfélagslegum verkefnum sem hafa það að markmiði að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks?
     2.      Ef ráðherra er reiðubúinn að skoða skólasóknarreglur í framhaldsskólum, hvenær gæti vinna við endurskoðun kafla 16.2 í aðalnámskrá framhaldsskóla hafist?


    Samfélagsleg verkefni sem hafa það að markmiði að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks falla vel að einum grunnþætti aðalnámskrár framhaldsskóla sem er „Lýðræði og mannréttindi“. Grunnþættirnir eru fyrirmæli um allt skólastarfið og eiga að fléttast inn í allt starfið, svo sem inntak náms og starfshætti. Í anda þess eru allir skólarnir með margháttuð verkefni og námskeið sem taka mið af efnisatriðum sem koma fram í fyrirspurn um samfélagsleg verkefni sem hafa það að markmiði að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks, mörg þeirra í nánu samstarfi við helstu félagasamtök á þessu sviði. Skólar geta verið með mismunandi útfærslur, eins og undanþágu frá skólasóknarreglum, hliðrun á námi eða skipulögð námskeið til eininga, t.d. námskeiðið Björgunarmaður bjö2a05 sem Menntaskólinn á Tröllaskaga býður upp á og er grunnnám fyrir fólk sem vill starfa í björgunarsveit.
    Hvað varðar skólasókn þá eru á flestum vinnustöðum í gildi ákveðnar reglur um mætingu. Til þess að ná árangri í námi þarf að sinna því vel og rannsóknir sýna að jákvæð fylgni er á milli mætingar og árangurs. Skólasóknarreglur gegna m.a. því hlutverki í skólunum að veita nemum aðhald en einnig að gefa skólanum tækifæri til þess að fylgjast betur með stöðu nema og geta brugðist við í tíma ef út af bregður.
    Framhaldsskólar starfa á grundvelli laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og aðalnámskrá framhaldsskóla sem mennta- og menningarmálaráðherra setur með vísan í 1. mgr. 21. gr. laga um framhaldsskóla. Í henni er nánar kveðið á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi sem sýnir að skólarnir hafa mikið sjálfræði og skipuleggja m.a. sjálfir sínar skólasóknarreglur.
    Samkvæmt 12. kafla aðalnámskrárinnar skal hver framhaldsskóli gefa út skólanámskrá þar sem fjallað er um stefnu skólans og framtíðarsýn auk sérstöðu hans eða sérstakar áherslur. Kafli 14.7 fjallar um skólareglur sem birtar skulu í skólanámskrá, þar á meðal skólasóknarreglur skólans. Ekki er kveðið nákvæmlega á um innihald skólareglna en sú leiðsögn kemur fram að við setningu reglna um skólasókn skal taka sérstakt tillit til langveikra nemenda og nemenda sem eru tímabundið fjarverandi frá skóla vegna veikinda eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.
    Í 16. kafla er fjallað um undanþágur frá aðalnámskrá. Samkvæmt kafla 16.2 skal koma sérstaklega til móts við afreksfólk, svo sem í íþróttum eða listum, og er það almennt gert í framhaldsskólum landsins. Þess utan koma margir skólar til móts við óskir nema um tilhliðrun í skólasókn og námi ef þeir starfa að mikilvægum samfélagslegum verkefnum öðrum. Mörg félagasamtök hafa enn fremur aðlagað verkefni sín fyrir ungt fólk að skólastarfi eins og kostur er.
    Á grundvelli framangreinds telur ráðherra að lög um framhaldsskóla og aðalnámskrá framhaldsskóla veiti skólunum talsvert umboð til að gera nemendum kleift að taka þátt í samfélagslegum verkefnum. Engu að síður má færa fyrir því rök að skilgreiningar í aðalnámskrá séu full þröngar hvað þetta varðar og því tilefni til þess að endurskoða 16. kafla aðalnámskrár með tilliti til þess. Sú vinna er þegar farin af stað innan ráðuneytisins.