Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 935  —  7. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (varnarlína um fjárfestingarbankastarfsemi).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í greinargerð með frumvarpinu segir að með því sé stefnt að því að setja varnarlínu milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi, m.a. með það að markmiði að vernda innlánseigendur. Reyndin er sú að takmörkun sem lögð er til skiptir engu máli. Takmörkun á beinni og óbeinni stöðutöku þannig að samanlögð eiginfjárþörf banka vegna stöðutökunnar verði ekki umfram 15% af eiginfjárgrunni skiptir engu máli.
    Annar minni hluti telur ljóst að um sýndargjörning sé að ræða til að friða þá stjórnarliða sem talað hafa fyrir aðskilnaði viðskiptabankastarfsemi frá fjárfestingarbankastarfsemi. Svo hátt þak mun engu breyta enda var stöðutökuhlutfall stóru bankanna þriggja 4,35% í lok árs 2019 líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.
    Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hvers vegna stjórnarflokkarnir leggja ekki til breytingar á lögum í þá veru að koma í veg fyrir beinar fjárfestingar viðskiptabankanna, svo sem um kaup á hlutabréfum í öðrum fyrirtækjum, ef vilji stendur raunverulega til þess að draga úr áhættusókn eigenda banka áður en hlutur ríkisins í þeim er seldur.

Bankakerfi framtíðarinnar.
    Það að ríkið haldi á svo stórum hluta bankakerfisins sem raun ber vitni skapar ákveðin tækifæri til breytinga á bankakerfinu. Svara þarf spurningunni um hvernig bankakerfi tryggi góða og trausta þjónustu við fólk og fyrirtæki. Þar þurfa leiðarstefin að vera fjölbreytni, samkeppni, öflugt eftirlit, neytendavernd og örugg ódýr innlend greiðslumiðlun.
    Samhliða örri tækniþróun og nauðsyn grænna fjárfestinga er augljósra breytinga þörf í fjármálaumhverfinu. Mikilvægt er að breytt kerfi verði til þess að áhætta í fjárfestingarbankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbanka en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins.
    Það að hafa þrjá stóra banka sem allir eru kerfislega mikilvægir er takmarkandi fyrir samkeppni á markaði og stuðlar að fákeppni óháð því hvort einn eða tveir bankar séu í eigu einkaaðila. Til að skapa fjölbreytni og meiri samkeppni milli banka þarf að huga að heildarskipulagi kerfisins og gera breytingar.
    Aðeins eru rúm 12 ár frá því að einkareknir bankar hrundu á Íslandi með afar neikvæðum efnahagslegum afleiðingum. Rannsókn á þeirri einkavæðingu hefur ekki farið fram, þrátt fyrir samþykki Alþingis á slíkri rannsókn.
    Það þarf að tryggja almenningi aðgang að nauðsynlegri bankaþjónustu og að ódýrasta greiðslumiðlun sem völ er á standi öllum jafnt til boða.
    Bankarnir veita nauðsynlega þjónustu sem varðar okkur öll. Þeir stunda greiðslumiðlun, ávaxta sparifé og veita lán til húsnæðiskaupa eða annarra framkvæmda sem tengjast rekstri heimila og fyrirtækja.
    Eins og málum háttar nú er samhliða stunduð fjárfestingarstarfsemi, stundum mjög áhættusöm, sem fjármögnuð er með sparifé almennings. Bankar ættu að draga sig út úr þess háttar starfsemi. Það getur skapað rými fyrir samkeppni á þeim sviðum þar sem ekki er verið að nýta sparnað almennings sem er með innstæðutryggingarábyrgð til fjármögnunar áhættusamra fjárfestinga.
    Einungis aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi sem er fjármögnuð að hluta til með innlánum og fjárfestingarbankastarfsemi sem ekki er fjármögnuð með innlánum getur komið í veg fyrir að almenningur taki áhættuna af glæfralegum fjárfestingum fjármálafyrirtækja.
    Einhverjir, þar á meðal ráðherrar í núverandi ríkisstjórn, hafa beitt þeim rökum fyrir sölu á hlutum ríkisins í bönkunum, að það sé áhættusamt fyrir ríkið að reka banka. En raunin er sú að sala á eignarhlut í bönkunum verður ekki til þess að losa ríkið undan áhættu af bönkum sem geyma innstæður viðskiptavina. Ríkið mun hvort sem er koma kerfislega mikilvægum bönkum til bjargar verði starfsemi þeirra til þess að vandi þeirra verði ekki leystur með öðrum hætti.
    Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, hefur ítrekað bent á nauðsyn aðskilnaðar fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi, að innlán verði forgangskröfur en fjármagni ekki áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi. Hann segir m.a. á Facebook-síðu sinni um þetta: „Fjárfestingarbanki má ekki fá að hafa Seðlabankann að bakhjarli, „lánveitanda til þrautarvara“, ekki frekar en spilavíti.“
    Áhætta og kostnaður af fjárfestingum sem fara í súginn á að vera óskiptur hjá þeim sem stunda áhættusöm viðskipti. Ekki hjá almenningi. Þess vegna þarf að skilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabönkunum og það má hæglega gera nú þegar ríkið er stærsti eigandi bankakerfisins. Til viðskiptabankastarfsemi telst almenn bankaþjónusta til einstaklinga og fyrirtækja. Í því felst veiting inn- og útlána, greiðsluþjónusta og viðskiptafjármögnun.
    Bankarekstur lýtur ekki sömu lögmálum og annar atvinnurekstur. Bankar eru ekki eins og hefðbundin hlutafélög á markaði heldur líkari veitustarfsemi, sjálfsagðri þjónustu við almenning. Þar á meðal er nauðsynleg þjónusta sem ekki má stöðvast án þess að valda efnahagslífinu tjóni, svo sem greiðslumiðlun.
    Aðskilja þarf eigin viðskipti viðskiptabankanna frá kjarnastarfsemi. Hið sama á við um viðskipti við vogunarsjóði og sérhæfða sjóði. Kostnaðurinn við slíka breytingu yrði í öllu falli mun minni en tjónið af áföllum vegna fjárfestingarbankastarfsemi kerfislega mikilvægra fjármálastofnana.
    Annar minni hluti leggur því til breytingartillögu sem lýtur að því að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. Lagt er til að viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum sé einungis heimilt að stunda viðskipti fyrir eigin reikning með greiðsluskjöl á peningamarkaði, erlendan gjaldeyri, framvirka samninga og skiptirétt, gengisbundin bréf, vaxtabréf og verðbréf í sérstöku félagi. Með breytingunni er ekki verið að draga úr vægi fjármálaþjónustu á Íslandi. Þvert á móti munu breytingarnar stuðla að aukinni samkeppni og einfaldara regluverki fyrir fjárfestingarbankastarfsemina. Aðskilnaðurinn takmarkar vöxt bankanna og hættuna á að bankarnir verði of stórir til að falla.
    Tillögur þessa efnis hafa áður komið fram í frumvörpum og þingsályktunartillögum. Fyrsti flutningsmaður frumvarps á 130. löggjafarþingi var Ögmundur Jónasson og meðflutningsmaður Steingrímur J. Sigfússon. Síðar flutti Ögmundur Jónasson málið ásamt Jóni Bjarnasyni. Allir voru þeir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG). Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um aðskilnað á 144. löggjafarþingi. Meðflutningsmenn voru þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata. Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG, flutti þingsályktunartillögu sama efnis á 146. löggjafarþingi. Meðflutningsmenn voru þingmenn Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata. Ljóst er að aðskilnaðurinn hefur haft góðan stuðning á Alþingi, í það minnsta núverandi tveggja stjórnarflokka og tveggja stjórnarandstöðuflokka.
    Að framansögðu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             4. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
             Viðskiptabönkum, sparisjóðum sem uppfylla ákvæði 2. mgr. 14. gr. og lánafyrirtækjum er einungis heimilt að stunda viðskipti skv. 7. tölul. 1. mgr. í sérstöku félagi. Aðilar skv. 1. málsl. hafa heimildir til viðskipta með verðbréf skv. 25. gr. að undanskildum c-lið 1. tölul. 1. mgr.
     2.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „mega ekki vera svo miklar að samanlögð eiginfjárþörf viðskiptabankans eða sparisjóðsins vegna staðanna samkvæmt viðmiðum sem Fjármálaeftirlitið birtir skv. 116. gr. a, með tilliti til áhættuþátta sem fjallað er um í 1. mgr. 84. gr. e, sé umfram 15% af eiginfjárgrunni hans“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: eru óheimilar.
                  b.      Lokamálsliður 1. mgr. falli brott.
                  c.      2. mgr. falli brott.
                  d.      2. málsl. 3. mgr. falli brott.

Alþingi, 24. febrúar 2021.

Oddný G. Harðardóttir.