Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 936  —  476. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um skráningu hagsmunavarða.


     1.      Hefur skrá yfir tilkynningar um hagsmunaverði verið birt á vef Stjórnarráðsins skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 64/2020, um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands, sem tóku gildi 1. janúar 2021? Ef svo er ekki, hvenær má búast við að slík skrá verði birt og hvað hefur tafið birtingu?
    Unnið hefur verið að smíði sérstaks vefsvæðis á vef Stjórnarráðs Íslands þar sem birtar verða upplýsingar sem ráðuneytinu er skylt að birta samkvæmt lögum nr. 64/2020, um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Vinnan er á lokastigi en ráðgert er að vefsvæðið verði aðgengilegt almenningi í lok febrúarmánaðar.

     2.      Hverjir hafa verið tilkynntir sem hagsmunaverðir skv. 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga frá gildistöku laganna?
    Við ritun svarsins hefur ráðuneytinu borist ein tilkynning á grundvelli 3. mgr. 4. gr. laga nr. 64/2020. Með erindi ráðuneytisins til stærstu hagsmunasamtaka hér á landi, dags. 23. febrúar 2021, var áréttuð heimild þeirra til að senda tilkynningu um þá einstaklinga sem sinna hagsmunagæslu í umboði þeirra.

     3.      Hversu oft hafa stjórnvöld átt samskipti við hagsmunaverði frá 1. janúar 2021 og hversu mörg slík tilvik hafa verið skráð skv. 2. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga?
    Ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 64/2020 kveður á um skyldu stjórnvalda til að skrá upplýsingar um samskipti við hagsmunaverði í samræmi við ákvæði upplýsingalaga, laga um opinber skjalasöfn og laga um Stjórnarráð Íslands. Er þar átt við skyldu allra stjórnvalda til að skrá upplýsingarnar í málaskrá en ekki er skylt að tilkynna forsætisráðuneytinu um samskiptin, umfram það sem hagsmunavörðum ber að tilkynna skv. 3. mgr. sama ákvæðis. Ráðuneytið hefur því ekki í vörslum sínum upplýsingar sem geta varpað ljósi á það hversu oft stjórnvöld landsins hafa átt samskipti við hagsmunaverði frá 1. janúar 2021. Ráðherra hefur átt fimm fundi á þessu tímabili með fulltrúum hagsmunasamtaka sem ætla má að verði skráðir hagsmunaverðir.