Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 944  —  477. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri.


     1.      Hver verða næstu skref við uppbyggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri?
    Árið 2019 hlaut Samband sunnlenskra sveitarfélaga, í samvinnu við Skaftárhrepp og Kirkjubæjarstofu, styrk á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar 2018–2024 til verkefnisins „Þekkingarsetur í Skaftárhreppi“. Verkefnið hlaut styrk að upphæð 17,5 millj. kr. á árinu 2019 og 25 millj. kr. árlega árin 2020 og 2021, samtals 67,5 millj. kr. Styrkurinn er ætlaður til hönnunar á þekkingarsetri í fyrrum heimavist Kirkjubæjarskóla, til framkvæmda í húsinu og til að ljúka hönnun og gera útboðsgögn fyrir nýbyggingu Erróseturs sem á að byggja við heimavistarhúsið.
    Á grundvelli styrksins úr byggðaáætlun og síðan fjármögnunar Skaftárhrepps hefur vinna við endurbætur húsnæðis og uppbyggingu þekkingarseturs í fyrrum heimavist Kirkjubæjarskóla staðið frá 2019 og verður að mestu lokið 2021.
    Staða framkvæmda í upphafi árs 2021 er sú að I. áfanga við breytingar og innréttingar húsnæðis heimavistar Kirkjubæjarskóla er nær lokið, og stefnt er að því að stjórnsýsla Skaftárhrepps geti flutt í hið endurnýjaða húsnæði á 2. hæð byggingarinnar á 1. ársfjórðungi. Kirkjubæjarstofa gæti í kjölfarið einnig flutt aðstöðu sína í húsnæðið á 2. hæð, sem og fleiri aðilar, svo sem rannsóknar- og háskólaverkefni.
    Vinna við endurnýjun á 1. hæð hússins verður hluti af II. áfanga framkvæmdanna og mun sveitarstjórn taka nánari ákvörðun um tímasetningar vinnu við þann áfanga á yfirstandandi ári.

     2.      Hefur öll helsta hönnun varðandi þekkingarsetrið verið unnin og verkáætlun gerð?
    Hönnun á húsnæði þekkingarseturs í fyrrum heimavist Kirkjubæjarskóla er lokið og standa framkvæmdir yfir í samræmi við verkáætlun. Styrkur byggðaáætlunar var einnig veittur til að ljúka hönnun nýbyggingar Erróseturs á yfirstandandi ári. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur áætlað byggingarkostnað Erróseturs en verkefnið hefur enn ekki verið fjármagnað.