Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 945  —  552. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um ábyrgð nemendafélaga.


     1.      Telur ráðherra eðlilegt að margir skólastjórnendur framhaldsskóla túlki ábyrgð skólans á nemendafélögum, sbr. 39. gr. laga um framhaldsskóla, þannig að þeir hafa tekið fjárráðin af nemendafélögunum og neitað að veita þeim prókúru að fé sem aflað er með valkvæðum félagsgjöldum?
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla veitir skólameistari framhaldsskóla forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma.
    Um nemendafélög í framhaldsskólum gilda lög nr. 92/2008 en skv. 39. gr. laganna er skýrt kveðið á um að nemendafélagið starfar á ábyrgð skólans. Við gildistöku laga nr. 92/2008 breyttist ákvæði eldri framhaldsskólalaga um nemendafélög þannig að nemendafélögin skyldu framvegis starfa á ábyrgð framhaldsskóla. Breytingin var gerð vegna þeirrar gagnrýni sem fram hafði komið um ábyrgð framhaldsskóla á starfi nemendafélaga, einkum eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Rétt er að hafa í huga að nemendur í framhaldsskólum eru flestir á aldrinum 16–19 ára og eru hvorki orðnir sjálfráða né fjárráða í samræmi við ákvæði lögræðislaga, nr. 71/1997, stóran hluta framhaldsskólagöngunnar. Vel getur því komið upp sú staða að gjaldkeri nemendafélags sé t.d. nemandi sem ekki er orðinn fjárráða.
    Það ræðst venjulega af lögum hver getur skuldbundið félög og hvernig ábyrgð er háttað á þeim skuldbindingum. Félög sem ekki hafa fjárhagslegan tilgang eru jöfnum höndum kölluð almenn félög. Sérstök lög hafa ekki verið sett um almenn félög en nemendafélög teljast til almennra félaga. Þó getur verið kveðið á um almenn félög í lögum, sbr. starfsemi nemendafélaga í framhaldsskólum, en við túlkun reynir jafnframt á meginreglur félagaréttar og samþykktir. Almenn félög verða lögaðilar þegar þau hafa verið stofnuð, en skráning er ekki skilyrði fyrir rétthæfi þeirra. Líta verður til laga um framhaldsskóla þegar kemur að nemendafélögum, en þar kemur skýrt fram að nemendafélög starfa á ábyrgð skólans. Þá má benda á að ábyrgð skólans á starfsemi nemendafélags hefur verið staðfest af Hæstarétti Íslands, sbr. Hrd. 350/2012 frá 19. desember 2012.

     2.      Telur ráðherra þörf á lagabreytingu til að auka sjálfstæði nemendafélaga gagnvart skólum og til að tryggja að fjárráð félaganna séu í höndum stjórnenda þeirra hverju sinni en áfram háð eftirliti skólans og renna þannig styrkari stoðum undir lýðræðislega þátttöku ungs fólks með því að fela þeim ábyrgð og traust í lögum?
    Mennta- og menningarmálaráðherra telur ekki þörf á lagabreytingu að svo stöddu til að auka sjálfstæði nemendafélaga gagnvart skólum og til að tryggja að fjárráð félaganna séu í höndum stjórnenda þeirra hverju sinni enda geta komið upp dæmi þar sem slíkt væri ekki í samræmi við ákvæði lögræðislaga, nr. 71/1997.