Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 948  —  335. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um loftslagsmál (niðurdæling koldíoxíðs).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Ögmundsdóttur, Höllu Sigrúnu Sigurðardóttur og Helgu Barðadóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Kristínu Lindu Árnadóttur og Jónu Bjarnadóttur frá Landsvirkjun, Írisi Lind Sæmundsdóttur, Hólmfríði Sigurðardóttur og Eddu Sif Pind Aradóttur frá Orkuveitu Reykjavíkur og Þorgerði Maríu Þorbjarnardóttur frá Ungum umhverfissinnum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Ungum umhverfissinnum og Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis.
    Með frumvarpinu er innleiðingu tilskipunar 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu í íslensk lög breytt á þann veg að kolefnisföngun og niðurdæling koldíoxíðs til varanlegrar geymslu verði heimiluð á íslensku yfirráðasvæði. Þannig verður hefðbundin niðurdæling koldíoxíðs til geymslu leyfð sem og niðurdæling koldíoxíðs til steinrenningar, þ.e. Carbfix-aðferðin sem þróuð hefur verið hér á landi og vakið athygli víða um heim.
    Nefndin fagnar því að Carbfix-aðferðin hafi sannað sig sem góður kostur við bindingu koldíoxíðs hér á landi. Enn fremur er ánægjulegt að hún nýtist utan lands þar sem aðstæður eru réttar. Hún gagnast einnig erlendum fyrirtækjum til að binda hérlendis þessa gróðurhúsalofttegund og hagnýta sér þar með ETS-viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Með notkun Carbfix-aðferðarinnar getur Ísland lagt fram frumlegan og árangursríkan skerf í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
    Fram kom að niðurdæling koldíoxíðs í sama berggrunnssvæði og það er ættað úr, t.d. háhitasvæði með orkuveri og nálægu niðurdælingarsvæði eða niðurdæling innan t.d. olíu- eða jarðgasvinnslusvæðis fellur ekki undir umrædda tilskipun ESB. Um þetta fyrirkomulag niðurdælingar er notað hugtakið endurniðurdæling (e. re-injection). Nefndin minnir á þessa staðreynd en telur ekki þörf á að hugtakið sé skilgreint í lögunum.
    Bent var á að skilgreining frumvarpsins á niðurdælingu koldíoxíðs til varanlegrar geymslu í jarðlögum kynni að vera of þröng með því að tiltaka sérstaklega steinrenningu. Aðrar tæknilausnir við geymslu og bindingu koldíoxíðs gætu þróast og bæri því ekki að afmarka skilgreininguna með því að tiltaka sérstaklega steiningu sem aðferð til varanlegrar geymslu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð frumvarpsins þess efnis að áfram verður hægt að prófa aðrar aðferðir til niðurdælingar þar sem heimild til rannsókna og þróunarverkefna verður enn til staðar. Komi fram nýjar öruggar aðferðir til varanlegrar geymslu koldíoxíðs úr slíkri rannsóknar- og þróunarvinnu væri unnt að endurskoða lögin og heimila slíkar aðferðir.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu fellur Carbfix-aðferðin sem slík undir tilskipunina að mati sérfræðinga Evrópusambandsins. Minni áhersla sé á hvað gerist eftir niðurdælingu, þ.e. hvort það steinrenni eða geymist sem lofttegund neðan jarðar. Nefndin hvetur stjórnvöld til áframhaldandi viðræðna við framkvæmdastjórn ESB með það að markmiði að flýta endurskoðun regluverks Evrópusambandsins þannig að báðum aðferðum niðurdælingar til varanlegrar geymslu verði tryggður skýr sess í regluverkinu.
    Nefndin telur að með þessari lagasetningu sé ekkert að vanbúnaði þeim aðilum er hyggjast nýta Carbfix-aðferðina til kolefnisbindingar, hvorki innlendum né erlendum. Nefndin ítrekar jafnframt að leggja ber ríka áherslu á að minnka losun gróðurhúsalofttegunda jafnhliða aukinni kolefnisbindingu. Hvorugt verkefnið útilokar eða dregur úr mikilvægi hins.

Breytingartillaga nefndarinnar.
    Nefndin leggur til breytingu sem er aðeins tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „tölulið 19a“ í 10. gr. komi: tölulið 21at.

    Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.


Alþingi, 25. febrúar 2021.

Bergþór Ólason,
form.
Ari Trausti Guðmundsson, frsm. Guðjón S. Brjánsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.