Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 962  —  570. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020 (forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi skilgreining bætist við 1. mgr. 3. gr. laganna í viðeigandi stafrófsröð: Skuldagerningar: Skuldabréf og aðrar framseljanlegar skuldir, gerningar sem stofna til skuldar eða viðurkenna skuld og gerningar sem veita rétt til að eignast skuldagerninga.

2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki“ í 6. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: a- eða b-lið 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. a.

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. tölul. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki“ í 2. tölul. 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: a-lið 1. tölul. 1. mgr. 85. gr. a.

4. gr.

    Við 5. mgr. 27. gr. laganna bætist: skv. 85. gr. a.

5. gr.

    Í stað orðanna „fara fram á eftirfarandi hátt, að teknu tilliti til forgangsraðar krafna við slit eða gjaldþrot“ í inngangsmálslið 1. mgr. 28. gr. laganna kemur: vera í samræmi við forgangs röð krafna við skila- og slitameðferð skv. 85. gr. a og fara fram á eftirfarandi hátt.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „slit eða gjaldþrot fyrirtækis eða einingar“ í 3. mgr. kemur: skila- og slita meðferð skv. 85. gr. a.
     b.      Í stað orðanna „slit eða gjaldþrotaskipti“ í 3. tölul. 6. mgr. kemur: skila- og slitameðferð skv. 85. gr. a.

7. gr.

    Í stað orðanna „eignarhalds- eða skuldagerningar“ í 3. málsl. 5. mgr. 35. gr. laganna kem ur: eignarhlutar eða skuldagerningar.

8. gr.

    Í stað orðanna „skuldaskjala sem framseld“ í 2. tölul. 1. mgr. 54. gr. laganna kemur: skulda gerninga sem framseldir.

9. gr.

    Við 2. tölul. 1. mgr. 56. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að eftirgjöf verði beitt á sérhvern hluta tryggðra skuldbindinga sem nemur hærri fjárhæð en uppreiknuðu virði trygginganna.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 58. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „slit eða gjaldþrot“ í 4. tölul. kemur: skila- og slitameðferð skv. 85. gr. a.
     b.      Á eftir orðunum „undanþegnar eftirgjöf“ í 5. tölul. kemur: skv. 56. gr.
     c.      Í stað orðanna „slit eða gjaldþrot, þ.m.t. forgangsröðun innstæðna skv. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 56. gr.“ í 5. tölul. kemur: skila- og slitameðferð skv. 85. gr. a.

11. gr.

    Í stað orðanna „skuldaskjöl útgefin“ í 7. tölul. 1. mgr. 61. gr. laganna kemur: skulda gerninga útgefna.

12. gr.

    Í stað orðanna „slit eða gjaldþrot“ í 2. tölul. 64. gr. laganna kemur: skila- og slitameðferð skv. 85. gr. a.

13. gr.

    Á eftir 85. gr. laganna kemur ný grein, 85. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð.

    Næstar kröfum skv. 109.–112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sbr. þó a-lið 1. tölul., ganga eftirfarandi kröfur á hendur fyrirtæki eða einingu í þeirri röð sem hér segir:
     1.      Kröfur vegna innstæðna í eftirfarandi röð:
                  a.      kröfur vegna tryggðra innstæðna og kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hefur tekið yfir vegna tryggðra innstæðna njóta rétthæðar skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991,
                  b.      kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga sem eru umfram fjárhæðarmörk tryggðra innstæðna,
                  c.      kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna stórra félaga sem eru umfram fjárhæðar mörk tryggðra innstæðna,
                  d.      kröfur vegna annarra innstæðna.
     2.      Almennar ótryggðar kröfur.
     3.      Kröfur vegna skuldagerninga sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                  a.      upphaflegur samningsbundinn lánstími er a.m.k. eitt ár,
                  b.      gerningarnir eru ekki afleiður eða hafa að geyma innbyggðar afleiður, og
                  c.      samningsskilmálar og, ef við á, útboðs- og skráningarlýsing sem unnin er í tengslum við útgáfuna tilgreina forgangsröð samkvæmt þessum tölulið.
     4.      Kröfur skv. 1.–3. tölul. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, í þeirri röð sem þar segir.
     5.      Kröfur vegna annarra víkjandi lána en viðeigandi fjármagnsgerninga.
     6.      Kröfur vegna fjármagnsgerninga og víkjandi lána sem teljast til eigin fjár þáttar 2 sam kvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     7.      Kröfur vegna fjármagnsgerninga sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     8.      Kröfur vegna almenns eigin fjár þáttar 1 samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
    Með skuldagerningum samkvæmt þessari grein er átt við skuldabréf og aðrar fram seljan legar skuldir ásamt gerningum sem stofna til skuldar eða viðurkenna skuld.

14. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 102. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

Innleiðing.

    Með lögum þessum eru ákvæði eftirfarandi tilskipana innleidd:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og breytingu á til skip un ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012, að undanskildum ákvæðum 4. gr. að því er varðar einfaldar endurbótaáætlanir, 5.–9. gr., 19.–30. gr. og 103.–106. gr. Tilskipunin var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25. frá 19. apríl 2018, bls. 4–162.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 frá 12. desember 2017 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar rétthæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við ógjaldfærnimeðferð sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 87. frá 17. desember 2020, bls. 341–346.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

16. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002:
                  a.      3. mgr. 102. gr. laganna orðast svo:
                      Við slit á fjármálafyrirtæki gilda, eftir því sem við á, reglur laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um forgang og rétthæð krafna.
                  b.      Í stað orðanna „og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/76/ESB“ í 117. gr. laganna kemur: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/76/ESB og 4. gr. að því er varðar einfaldar endurbótaáætlanir, 5.–9. gr. og 19.–30. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB.
     2.      Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta:
                  a.      Í stað orðanna „1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti“ í 2. málsl. 4. mgr. 10. gr. laganna kemur: lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
                  b.      16. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í þeim tilgangi að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar rétthæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við ógjaldfærnimeðferð. Tilskipunin tók gildi í ríkjum Evrópusambandsins 28. desember 2017 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 305/2019 frá 13. desember 2019.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpinu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 um breytingu á tilskipun 2014/59/ESB að því er varðar rétthæð ótryggðra skuldagerninga í réttindaröð við ógjaldfærnimeðferð verði innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin breytir tilskipun 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (BRRD-tilskipunin) en sú tilskipun hefur að meginstefnu til verið innleidd hér á landi með lögum nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020.
    Efni tilskipunar (ESB) 2017/2399 tengist kröfum skv. IV. kafla laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL-kröfur). Til að koma í veg fyrir réttaróvissu á mörkuðum og fyrir fyrirtæki og einingar sem heyra undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja þykir mikilvægt að tryggja skýrleika varðandi hæfar skuldbindingar, þannig að þær geti uppfyllt MREL-kröfurnar sem skilavald Seðlabanka Íslands skal ákveða. Fyrirtæki munu uppfylla MREL-kröfurnar með skuldabréfum sem eru undirskipuð (e. subordination) til að lágmarka hættu á lagalegum ágreiningi við lánardrottna ef tap þeirra af skilameðferð verður meira en þeir hefðu þurft að þola ef fyrirtæki hefði verið tekið til slitameðferðar (e. no creditor worse off principle). Til að auka einsleitni á innri markaðnum kveður tilskipunin á um sameiginlega nálgun á forgangsröð tiltekinna krafna til að koma í veg fyrir réttaróvissu ef til skilameðferðar kemur.
    Lagt er til að efni tilskipunar (ESB) 2017/2399 verði innleitt með breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Tilskipunin breytir meðal annars 108. gr. BRRD-tilskipunarinnar með því að leggja til viðbætur við þá grein. Með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja var 108. gr. BRRD-tilskipunarinnar innleidd með breytingu á 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eins og sú grein hljóðaði fyrir þá breytingu sem leiðir af tilskipun (ESB) 2017/2399. Efni tilskipunarinnar varðar rétthæð krafna bæði við skilameðferð og slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki en hefur þó meiri tengsl við skilameðferð enda markmið reglna hennar að styðja við skilvirka skilameðferð. Slitameðferð getur ýmist komið til í framhaldi af skilameðferð eða sem sjálfstætt úrræði ef skilameðferð á fyrirtæki þykir ekki nauðsynleg vegna almannahagsmuna.
    Í frumvarpinu er lagt til að sá hluti tilskipunar (ESB) 2017/2399 sem þegar hefur verið lögfestur í 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki verði sameinaður lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og verði þannig hluti af heildstæðri forgangsröð krafna. Þannig megi ljóst vera hvaða forgang tilteknir flokkar krafna hafa, bæði ef fyrirtæki fer í skilameðferð og slitameðferð. Sú leið að staðsetja lagaákvæði um forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er í samræmi við þá leið sem farin hefur verið hjá flestum Norðurlandaþjóðunum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, og afleiddar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Frumvarpið kveður á um reglur um forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð.

3.1. Forgangsröð krafna vegna innstæðna.
    Ákvæði 2. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399 breytir 108. gr. BRRD-tilskipunarinnar með þeim hætti að kveðið er á um viðbætur við greinina. Ákvæði 1. mgr. 108. gr. BRRD-tilskipunarinnar fjallar um rétthæð tiltekinna innstæðna og var ákvæðið innleitt með breytingu á 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, við gildistöku laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Tilskipun (ESB) 2017/2399 kveður ekki á um breytingar á reglum um rétthæð innstæðna. Í frumvarpinu er því ekki kveðið á um efnisbreytingar varðandi þá forgangsröð krafna vegna innstæðna sem þegar er í gildi lögum samkvæmt. Gildandi forgangur krafna vegna innstæðna gildir um tryggðar innstæður, kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), sem sjóðurinn hefur tekið yfir vegna tryggðra innstæðna, og kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga. Kröfur vegna tryggðra innstæðna og kröfur TIF njóta sem fyrr rétthæðar skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga ganga næstar þar á eftir, sbr. gildandi 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Orðalagi ákvæðanna er þó lítillega breytt til að auka skýrleika líkt og fram kemur í skýringum við 13. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki verði breytt og samhljóða ákvæði gildandi laga verði bætt við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og komi þar fyrir sem hluti nýrrar greinar (tillögu að 85. gr. a laganna) sem fjallar um forgangsröð krafna, sbr. a- og b-lið 1. tölul. 1. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins.
    Tilskipun (ESB) 2017/2399 kveður á um lágmarkssamræmingu á rétthæð ótryggðra krafna sem stafa af skuldagerningum við ógjaldfærnimeðferð. Tilskipunin fjallar ekki um rétthæð innstæðna umfram það sem leiðir af ákvæðum 108. gr. tilskipunar 2014/59/ESB, sem innleidd hafa verið og fram koma í 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Aðildarríkjum er því heimilt að hafa í gildi eða lögfesta viðbótarreglur um forgang krafna vegna innstæðna. Ýmis aðildarríki á borð við Ítalíu, Portúgal, Grikkland, Kýpur, Slóveníu og Slóvakíu hafa ákveðið að fara þá leið og veita í landsrétti sínum öllum kröfum vegna innstæðna aukinn forgang umfram almennar ótryggðar kröfur. Þessi aðildarríki eiga það sameiginlegt að innlán eru veigamesti hluti skuldafjármögnunar bankakerfis í viðkomandi ríkjum. Að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins gerði Seðlabanki Íslands greiningu á álitaefninu um rétthæð krafna vegna innstæðna og færði í kjölfarið röksemdir fyrir þeirri leið að veita öllum innstæðum forgang umfram almennar kröfur. Röksemdirnar eru eftirfarandi:
     1.      Innstæður eru veigamesta fjármögnun bankakerfisins, yfir 60% af skuldafjármögnun bankanna, en einnig kvikasta fjármögnun kerfisins þar sem 90% af innstæðum eru óbundnar eða með binditíma innan við þrjá mánuði. Að forgangsraða innstæðum ofar en almennum ótryggðum kröfum minnkar líkur á fjármagnsflótta á álagstímum.
     2.      Eigendur svokallaðra SP-skuldabréfa (e. Senior Preferred) eru að jafnaði vel upplýstir fagfjárfestar og betur til þess fallnir en eigendur innstæðna að meta efnahag og rekstur banka. Að sama skapi gera þeir sér betur grein fyrir áhrifum laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja á starfsemi þeirra, þ.m.t. umbreytingu skulda í almennt eigið fé við beitingu á skilaúrræðinu eftirgjöf.
     3.      Ef allar innstæður eru ofar í forgangsröð en almennar ótryggðar kröfur geta SP-skuldabréf nýst til að uppfylla MREL-kröfur fjármálafyrirtækja. Slík kröfuröð mun stuðla að því að fjármálafyrirtæki geta þegar uppfyllt skilyrði MREL-krafna um undirskipan. Þannig geta fjármagnsgerningar (SP-skuldabréf) sem falla í flokk almennra ótryggðra krafna orðið hluti af MREL-kröfunum og nýst til endurfjármögnunar fjármálafyrirtækis þar sem hætta á lagalegum ágreiningi við lánardrottna hefur verið lágmörkuð.
    Auk framangreindra röksemda telur ráðuneytið að horfa beri til þess að allar innstæður hafa verið rétthærri en almennar ótryggðar kröfur í forgangsröð undanfarinn áratug. Áframhaldandi forgangur innstæðna myndar samfellu við það réttarástand sem hefur verið við lýði hér á landi og ætti að vera til þess fallinn að skapa traust um fjármálakerfið, ekki síst ef áföll raungerast. Það kann svo að hafa jákvæð áhrif á fjármálastöðugleika.
    Í frumvarpinu er því lagt til að svigrúm í Evrópureglunum verði nýtt með því að kveða á um aukinn forgang annarra krafna vegna innstæðna en þeirra sem þegar njóta forgangs. Í frumvarpinu er því kveðið á um að kröfur vegna tryggingarhæfra innstæðna stórra félaga gangi næstar kröfum vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga og þar næst gangi kröfur vegna annarra innstæðna, þ.e. þeirra sem ekki teljast til tryggingarhæfra innstæðna. Af þessu leiðir að kröfur vegna allra innstæðna verða rétthærri en almennar ótryggðar kröfur. Fjallað er um hugtökin tryggð innstæða, tryggingarhæf innstæða og stórt félag í skýringum við 1. tölul. 1. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins.

3.2. Nýr forgangsflokkur undirskipaðra skuldagerninga.
    Í frumvarpinu er kveðið á um nýjan flokk undirskipaðra forgangslausra skuldbindinga, svokölluð SNP-skuldabréf (e. Senior Non-preferred), innan forgangsraðar krafna við skila- og slitameðferð og er þeim skuldbindingum ætlað að tryggja skilabærni fyrirtækja í samræmi við III. kafla laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Forgangsflokkurinn samanstendur af skuldagerningum sem uppfylla ákveðin skilyrði og er þeim flokki skipað í forgangsröð fyrir ofan eiginfjárgrunnsgerninga og víkjandi lána sem ekki teljast til eiginfjárgrunnsgerninga en fyrir neðan aðrar forgangslausar skuldbindingar (e. senior liabilities). Ótryggðir skuldagerningar sem ekki uppfylla skilyrði hins nýja forgangsflokks skuldagerninga og aðrar ótryggðar skuldbindingar sem ekki eru skuldagerningar skipast því ofar í forgangsröð en nýi undirskipaði forgangsflokkurinn.
    Tilskipun (ESB) 2017/2399 gerir skilavaldinu kleift að beita eftirgjöf á SNP-skuldabréf á undan öðrum ótryggðum skuldbindingum í stað þess að þurfa að niðurfæra samtímis og jafngilt (e. Pari Passu) allar ótryggðar skuldbindingar, þ.m.t. rekstrarskuldir, afleiður og tilteknar innstæður sem ekki njóta verndar samkvæmt gildandi 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Erfitt getur verið að niðurfæra þessar skuldbindingar og því hafa skilastjórnvöld aðildarríkja gjarnan ákveðið að nýta heimild í BRRD-tilskipuninni til að undanskilja þær, að hluta eða í heild, við beitingu á skilaúrræðinu eftirgjöf.

3.3. Eiginfjárgrunnsgerningar og víkjandi lán.
    Á grundvelli laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er skilavaldi Seðlabanka Íslands heimilt að niðurfæra og umbreyta fjármagnsgerningum og skuldbindingum í almennt eigið fé. Fjallað er um röð og framkvæmd niðurfærslu og umbreytingu fjármagnsgerninga og víkjandi lána sem ekki teljast til fjármagnsgerninga í 28. og 58. gr. laganna. Ákvæði 13. gr. frumvarpsins, sem tilgreina forgangsröð krafna, eru almenn og gilda bæði við skilameðferð og slitameðferð skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, þ.e. ef um er að ræða fyrirtæki eða einingu sem heyrir undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Sú útfærsla að leggja til að reglur sem þegar koma fyrir í 28. gr. og 58. gr. fyrrgreindra laga verði einnig lögfestar í 85. gr. a laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sbr. 13. gr. frumvarpsins, sem hluti af heildstæðri forgangsröð krafna, tekur meðal annars mið af útfærslu löggjafar í fjölmörgum aðildarríkjum og tillögum að útfærslu á lögum í Noregi. Með þeim hætti má ráða skýrt og á aðgengilegan hátt hvernig forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð tiltekinna fyrirtækja og eininga lítur út.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 í íslenskan rétt og gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Seðlabanka Íslands. Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst fjármálafyrirtæki, fjárfesta og skilavald Seðlabanka Íslands. Áform um lagasetningu voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar í júlí 2020 en engar athugasemdir bárust. Áformin voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 25. september – 8. október 2020, sbr. mál nr. S-199/2020. Ein umsögn barst um áformin frá Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem lagt er til að kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta kann að eignast, komi til greiðslu úr sjóðnum, ásamt öllum kröfum neytenda á hendur föllnu fjármálafyrirtæki njóti lögveðsréttar. Fjármála- og efnahagsráðherra svaraði fyrirspurn um sambærilegt efni og fram kemur í umsögninni á 149. löggjafarþingi (742. mál, þskj. 1986). Til viðbótar við þá ítarlegu umfjöllun sem finna má í því svari þykir ástæða til að nefna að tilgangur MREL-krafna er meðal annars að innlánsstofnun búi yfir nægu eigin fé og skuldbindingum sem hægt er að nota til að mæta tapi fyrirtækis og endurreisa eigið fé þess. MREL-kröfurnar ásamt þeim miklu breytingum á laga- og regluumhverfi fjármálafyrirtækja, meðal annars um aukið magn og gæði eigin fjár, veita því tryggðum innstæðum meiri vernd en áður hefur verið hér á landi. Slíkt má meðal annars ráða af þeim fjölmörgu gerningum sem eru réttlægri en innstæður innan forgangsraðar krafna, sbr. 13. gr. frumvarpsins. Einnig ber að nefna að í frumvarpinu er lögð til breyting þannig að skýrt megi vera að skilavaldinu sé heimilt að beita eftirgjöf á þann hluta sértryggðra skuldabréfa sem nemur hærri fjárhæð en uppreiknað virði trygginganna, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Drög að frumvarpi voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 11.–25. janúar 2021, sbr. mál nr. S-8/2021. Þá voru drögin jafnframt send sérstaklega til Samtaka fjármálafyrirtækja, Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og dómsmálaráðuneytisins. Ein umsögn frá Hagsmunasamtökum heimilanna barst um drögin í samráðsgátt stjórnvalda. Umsögnin var efnislega samhljóða fyrri umsögn samtakanna og er afstöðu ráðuneytisins getið framar í kaflanum. Ráðuneytinu bárust jafnframt tæknilegar ábendingar frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og Samtökum fjármálafyrirtækja sem var að mestu leyti tekið mið af.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2399 kveður á um heildstæðar reglur um forgang krafna við skila- og slitameðferð. Fyrirséð áhrif á ríkissjóð af samþykkt frumvarpsins eru engin.
    Verði frumvarpið samþykkt sem lög frá Alþingi mun það stuðla að samræmdari meðferð krafna lánardrottna við skila- og slitameðferð tiltekinna fyrirtækja á fjármálamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglurnar eru mikilvægar fyrir réttarstöðu lánardrottna og munu leiða af sér fyrirsjáanleika varðandi meðferð krafna þeirra ef fjármálafyrirtæki verða tekin til skila- eða slitameðferðar.
    Í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, er fjallað um möguleg áhrif af MREL-kröfunum sem ákveða skal fyrir einstök fjármálafyrirtæki. Þar kemur meðal annars fram að áhrifin muni hafa í för með sér breytta fjármagnsskipan íslensku bankanna og aukið vaxtaálag á skuldabréf sem flokkast sem hæfar skuldbindingar.
    Í frumvarpi þessu eru ákvæði um MREL-kröfur skilavalds útfærð frekar. Af frumvarpinu sést skýrar en áður hvaða skuldbindingar geta verið notaðar til að uppfylla MREL-kröfurnar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að skilgreiningu á hugtakinu skuldagerningar sem ætlað er að ná yfir enska hugtakið debt instruments verði bætt við lögin. Hugtakið kemur víða fyrir í lögunum og þykir nauðsynlegt að ráða megi hvaða merkingu ber að leggja í það. Efni greinarinnar tekur mið af 48. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB fyrir þá breytingu sem gerð er á töluliðnum með 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399. Lagt er til að skilgreining á hugtakinu skuldagerningar í þrengri merkingu, sbr. ii-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399, verði tekin upp í nýrri grein, 85. gr. a, sbr. 2. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins. Af nýjum skilgreiningum sem kveðið er á um í frumvarpinu á þannig að vera ljóst að hugtakið eins og það er skilgreint í þessari grein gildir á öllum stöðum í lögunum að undanskildri 85. gr. a þar sem það er skilgreint sérstaklega í þrengri merkingu.

Um 2. gr.

    Greinin breytir tilvísun sem leiðir af nýrri 85. gr. a laganna í 13. gr. frumvarpsins, sbr. einnig breytingu á 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í a-lið 1. tölul. 16. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Greinin breytir tilvísun sem leiðir af nýrri 85. gr. a laganna í 13. gr. frumvarpsins, sbr. einnig breytingu á 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í a-lið 1. tölul. 16. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Greinin kveður á um viðbót sem leiðir af efni 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 5. gr.

    Greinin kveður á um viðbót sem leiðir af efni 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 6. gr.

    Greinin kveður á um breytingu sem leiðir af efni 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 7. gr.

    Í greininni er misritun í lagatextanum leiðrétt. Lagt er til að í stað hugtaksins eignarhaldsgerningar sem ekki er notað í lögunum komi hugtakið eignarhluti en það hugtak er skilgreint í 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagt til að hugtakanotkun verði lagfærð til samræmis við hugtakanotkun í þessu frumvarpi. Rétt þykir að nota orðið „skuldagerningar“ yfir enska hugtakið debt instrument þar sem við á í lögunum.

Um 9. gr.

    Efni greinarinnar leiðir ekki af tilskipun (ESB) 2017/2399. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu barst ábending um að skýringartexti við 2. tölul. 1. mgr. 56. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja væri efnislega rangur þar sem fjallað er um eignir í tryggingasafni. Skýringin gæfi svo tilefni til rangtúlkunar á ákvæði töluliðarins. Ákvæðinu er ætlað að skýra að þótt tryggðar skuldbindingar, þ.m.t. sértryggð skuldabréf, séu almennt ekki eftirgefanlegar er heimilt að beita eftirgjöf á þann hluta tryggðu skuldbindinganna sem nemur hærri fjárhæð en uppreiknuðu virði trygginga eða tryggingasafns vegna skuldbindinganna. Til trygginga í þessu samhengi geta talist eignir, þ.m.t. veðlán, ábyrgðir eða veð. Um þýðingarmikið ákvæði getur verið að ræða og því er lagt til að sú viðbót sem kveðið er á um í greininni verði lögfest sem nýr málsliður við 2. tölul. 1. mgr. 56. gr. laganna. Greinin er í samræmi við þriðju undirmgr. 2. mgr. 44. gr. tilskipunar 2014/59/ESB.

Um 10. gr.

    Greinin kveður á um breytingu sem leiðir af efni 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki skýringar.

Um 11. gr.

    Með greininni er lagt til að hugtakanotkun verði lagfærð til samræmis við hugtakanotkun í þessu frumvarpi. Líkt og fram kemur í skýringu við 8. gr. frumvarpsins þykir rétt að nota orðið „skuldagerningar“ yfir enska hugtakið debt instrument þar sem við.

Um 12. gr.

    Greinin kveður á um breytingu sem leiðir af efni 13. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 13. gr.

    Greinin er innleiðing á tilskipun (ESB) 2017/2399 og kveður á um forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð tiltekinna fyrirtækja og eininga. Greinin gildir um þau fyrirtæki sem heyra undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, þ.e. fyrirtæki skv. a-lið 1. mgr. 2. gr., og ef við á, eininga skv. b–d-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, sbr. einnig skilgreiningar í 13. og 17. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Hugtakið verðbréfafyrirtæki, sem fellur undir það að vera fyrirtæki skv. a-lið 1. mgr. 2. gr., er skilgreint í 36. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Einungis þau verðbréfafyrirtæki sem eru með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.e. að jafnvirði 730 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum, heyra því undir gildissvið 13. gr. frumvarpsins. Gildissvið slita skv. B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki var rýmkað með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og gildir kaflinn því um einingar skv. b–d-lið 1. mgr. 2. gr. laganna ef þessir aðilar hafa verið teknir til skilameðferðar, sbr. 3. mgr. 66. gr. laganna.
    Rétthæð krafna samkvæmt greininni ræður því í hvaða forgangsröð einstakar kröfur verða niðurfærðar eða umbreytt við skilameðferð eða þær gerðar upp við slitameðferð. Í 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar eru rétthæstu kröfurnar taldar upp, sbr. þó kröfur samkvæmt inngangslið 1. mgr. greinarinnar, og þær réttlægstu koma fram í 8. tölul. Að undanskildum kröfum skv. 1. og 4. tölul. 1. mgr. greinarinnar njóta kröfur innan sama töluliðar í forgangsröðinni jafns forgangs, þ.e. þær skulu niðurfærðar, þeim umbreytt eða greiddar út hlutfallslega jafnt, nema kveðið sé á um annað í lögum. Sú forgangsröð sem kveðið er á um í greininni tekur við af þeirri forgangsröð krafna (skuldaröð, réttindaröð) sem kveðið er á um í 109.–112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Hið sama gildir því um skila- og slitameðferð og almenn gjaldþrotaskipti, þ.e. að sértökukröfur skv. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eru rétthæstar, því næst koma búskröfur skv. 110. gr., svo veðkröfur skv. 111. gr. og þar á eftir forgangskröfur skv. 112. gr. þeirra laga, sbr. þó a-lið 1. tölul. 1. mgr. þessarar greinar.
    Þeirri forgangsröð á kröfum sem fram kemur í 5.–8. tölul. 1. mgr. greinarinnar er einnig getið í 1. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 58. gr. laganna, en þær greinar fjalla um framkvæmd niðurfærslu og umbreytingu, bæði samkvæmt sjálfstæðu úrræði skv. VI. kafla og við eftirgjöf skv. E-hluta X. kafla laganna. Þessi grein frumvarpsins er almenn og tekur bæði til skilameðferðar og slitameðferðar og því þykir ástæða til að efnið verði einnig lögfest í greininni.
     Um 1. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn fjallar um rétthæð krafna vegna innstæðna. Andstætt við aðra töluliði greinarinnar, sbr. þó 4. tölul., ganga kröfur samkvæmt þessum tölulið að réttri tiltölu við fjárhæð hverrar kröfu og eru kröfur skv. a-lið þannig rétthæstar og kröfur skv. d-lið réttlægstar innan töluliðarins.
    Um a-lið 1. tölul. Í ákvæðinu er fjallað um rétthæstu kröfurnar við skila- og slitameðferð að undanskildum kröfum skv. 109.–111. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þær kröfur sem ákvæðið fjallar um eru jafnstæðar öðrum kröfum sem njóta rétthæðar skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Ákvæðið er efnislega samhljóða gildandi 1. tölul. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem tryggðum innstæðum er skipað í réttindaröð á meðal forgangskrafna. Tryggðar innstæður njóta ríkrar verndar enda er á meðal markmiða laganna skv. 1. gr. að vernda þær. Óheimilt er að beita eftirgjöf á tryggðar innstæður, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 56. gr. laganna, og þá njóta þær einnig verndar laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999. Ef tap lánastofnunar í skilameðferð er það umfangsmikið að innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu getað borið tap við skilameðferð greiðir Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta þá fjárhæð til skilameðferðarinnar sem samsvarar niðurfærslu á tryggðum innstæðum eða fjárhæð sem innstæðueigendur tryggðra innstæðna hefðu tapað við slit á lánastofnun, sbr. 2. og 3. mgr. 82. gr. laganna.
    Um b-lið 1. tölul. Ákvæðið er efnislega samhljóða gildandi 2. tölul. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og fjallar um rétthæð tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga sem eru umfram tryggingarvernd tryggðra innstæðna skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar. Ákvæðið gildir bæði um innstæður hjá lánastofnunum og útibúum þeirra, þ.m.t. innstæður sem hefðu talist til tryggingarhæfra innstæðna ef þær hefðu ekki verið lagðar inn hjá útibúi sem staðsett er utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í ákvæðinu er lögð til orðalagsbreyting frá gildandi rétti sem ætlað er að auka skýrleika. Ekki er um efnisbreytingu að ræða. Tryggðar innstæður skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar eru sá hluti tryggingarhæfra innstæðna sem rúmast innan fjárhæðarmarka tryggingarverndar skv. 2. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, þ.e. að jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum, sbr. skilgreiningu í 6. mgr. 9. gr. sömu laga, sbr. einnig skilgreiningu í 34. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Það þykir því fara betur að tilgreina að hér sé átt við tryggingarhæfar innstæður einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga sem eru umfram fjárhæðarmark tryggingarverndar vegna tryggðra innstæðna, enda njóta tryggingarhæfar innstæður innan fjárhæðarmarksins rétthæðar skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar, sbr. gildandi 1. tölul. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Hugtakið tryggingarhæf innstæða er skilgreint í 5. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sbr. einnig skilgreiningu í 35. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Hugtakið örfélög, lítil og meðalstór félög er skilgreint í 38. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Rétt er að benda á að skilgreiningin á örfélögum, litlum og meðalstórum félögum tekur mið af tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB um skilgreininguna á örfyrirtækjum, litlum fyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum. Í tilmælunum er viðmið ársveltu, þ.e. jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum, frábrugðið viðmiði um hreina veltu í ársreikningatilskipuninni 2013/34/ESB sem innleidd var með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Umrædd félög eru hvert og eitt skilgreind í 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og í c-lið þess töluliðar kemur fram að hrein velta hjá meðalstóru félagi skuli ekki vera umfram 6 millj. kr. miðað við gengi evru 19. júlí 2013, þ.e. jafnvirði 40 millj. evra í ísl. kr.
    Um c-lið 1. tölul. Í ákvæðinu eru lögð til nýmæli um rétthæð krafna vegna tryggingarhæfra innstæðna stórra félaga. Samkvæmt ákvæðinu skulu þær ganga næstar kröfum vegna tryggingarhæfra innstæðna einstaklinga, örfélaga, lítilla og meðalstórra félaga. Með hugtakinu stórt félag er átt við félag þar sem árleg velta fer umfram jafnvirði 50 millj. evra í ísl. kr.
    Um d-lið 1. tölul. Ákvæðið kveður á um nýmæli um rétthæð innstæðna sem ekki teljast til tryggingarhæfra innstæðna. Í 9. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, er tæmandi upptalning á því hvaða innstæður teljast ekki tryggingarhæfar en þar undir falla meðal annars innstæður lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og sjóða um sameiginlega fjárfestingu, ríkis, sveitarfélaga og stofnana þeirra.
     Um 2. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn innleiðir hluta af 2. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399 sem áskilur að almennar ótryggðar kröfur (e. ordinary unsecured claims), sem njóta ekki lögum samkvæmt annarrar stöðu í forgangsröð, skuli vera rétthærri en ótryggðir skuldagerningar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. greinarinnar. Undir þennan flokk innan forgangsraðarinnar falla meðal annars kröfur sem heyra undir almennar kröfur skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, samkvæmt gildandi rétti ef viðkomandi krafna er ekki getið í öðrum töluliðum 1. mgr. greinarinnar.
     Um 3. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn innleiðir hluta af 2. mgr. og 6. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399 og kveður á um nýjan forgangsflokk krafna um undirskipaða skuldagerninga. Hugtakið skuldagerningar í skilningi ákvæðisins tekur mið af skilgreiningu 2. mgr. greinarinnar. Gerður er sá áskilnaður til skuldagerninga í skilningi ákvæðisins að þeir uppfylli ákveðin skilyrði en með því er ætlunin að tryggja að þeir falli að skilyrðum þess að teljast hæfar skuldbindingar skv. IV. kafla laganna. Í b-lið ákvæðisins er fjallað um að skuldagerningar megi ekki vera afleiður eða geyma innbyggða afleiður. Leggja ber þann skilning til grundvallar að skuldagerningar með breytilega vexti, sem stafa af viðmiðunarvöxtum í almennri notkun, og skuldagerningar sem eru ekki gefnir upp í heimagjaldmiðli útgefanda, að því tilskildu að höfuðstóllinn, endurgreiðsla og vextir séu gefin upp í sama gjaldmiðlinum, teljist ekki vera skuldagerningar sem hafa að geyma innbyggðar afleiður einungis vegna þessara þátta. Af c-lið ákvæðisins leiðir að skuldagerningar skulu hafa lægri rétthæð við ógjaldfærnimeðferð og skal það tilgreint sérstaklega í viðeigandi samningsskjölum og ef við í útboðs- og skráningarlýsingu. Af tilgreiningu um að skuldagerningar hafi rétthæð skv. 3. tölul. 1. mgr. greinarinnar leiðir að þeir séu réttlægri en aðrir skuldagerningar sem falla í flokk almennra ótryggðra krafna skv. 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar.
     Um 4. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn tilgreinir þann forgang sem eftirstæðar kröfur skv. 1.–3. tölul. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hafa innan forgangsraðar greinarinnar. Ekki er fjallað um þessar kröfur í tilskipun (ESB) 2017/2399 en staðsetning þeirra innan forgangsraðar greinarinnar tekur meðal annars mið af innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku, sbr. 13. gr. laga um endurskipulagningu og skilameðferð tiltekinna fjármálafyrirtækja (d. lov om restrukturering og afvikling af visse finansielle virksomheder), sbr. einnig 98. gr. laga um gjaldþrotaskipti (d. konkursloven) þar í landi. Næstar þeim kröfum sem fjallað er um í þessum tölulið ganga svo víkjandi kröfur, þ.e. víkjandi lán og fjármagnsgerningar skv. 5.–7. tölul 1. mgr. greinarinnar. Um er að ræða kröfur sem féllu áður undir 4. tölul. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, en hafa bæði með lögum nr. 70/2020 og nú með frumvarpi þessu verið flokkaðar frekar innan forgangsraðar krafna við skila- og slitameðferð tiltekinna fjármálafyrirtækja.
     Um 5. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn er að hluta til innleiðing á 3. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399, sbr. einnig d-lið 1. mgr. 48. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Víkjandi lán sem ekki teljast til eiginfjárgrunnsgerninga viðbótar eigin fjár þáttar 1 skv. 84. gr. b og þáttar 2 skv. 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skulu vera ofar í forgangsröðinni en fjármagnsgerningar og víkjandi lán sem teljast til eiginfjárgrunnsgerninga samkvæmt þeim ákvæðum. Í ákvæðinu er vísað til lána sem ekki teljast til „viðeigandi fjármagnsgerninga“ en það hugtak er skilgreint í 37. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
     Um 6. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn er að hluta til innleiðing á 3. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399, sbr. einnig c-lið 1. mgr. 48. gr. og c-lið 1. mgr. 60. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Fjármagnsgerningar og víkjandi lán eigin fjár þáttar 2 skv. 84. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skulu vera ofar í forgangsröðinni en fjármagnsgerningar sem teljast til viðbótar eigin fjár þáttar 1 skv. 84. gr. b og almennt eigið fé þáttar 1 skv. 84. gr. a þeirra laga.
     Um 7. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn er að hluta til innleiðing á 3. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399, sbr. einnig b-lið 1. mgr. 48. gr. og b-lið 1. mgr. 60. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Fjármagnsgerningar sem teljast viðbótar eigið fé þáttar 1 skv. 84. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skulu vera ofar í forgangsröðinni en gerningar sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 skv. 84. gr. a sömu laga.
     Um 8. tölul. 1. mgr. Töluliðurinn er að hluta til innleiðing á 3. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2017/2399, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 48. gr. og a-lið 1. mgr. 60. gr. tilskipunar 2014/59/ESB. Ákvæðið tilgreinir réttlægstu kröfurnar innan þeirrar forgangsraðar sem kveðið er á um í greininni. Almennt eigið fé þáttar 1 skv. 84. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skal fyrst niðurfært við skilameðferð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. og. 1. tölul. 1. mgr. 58. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Ef fyrirtæki uppfyllir ekki skilyrði þess að vera tekið til skilameðferðar skv. 35. gr. laganna og fer í slitameðferð skv. B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki er um að ræða kröfur sem eru síðast greiddar út til kröfuhafa.
     Um 2. mgr. Í ákvæðinu er að finna skilgreiningu á hugtakinu skuldagerningar sem gildir þegar reglum greinarinnar er beitt. Líkt og fram kemur í skýringum við 1. gr. frumvarpsins er um að ræða þrengri merkingu á hugtakinu en lagt er til að bætist við skilgreiningar 1. mgr. 3. gr. laganna, en andstætt þeirri skilgreiningu rúmast „gerningar sem veita rétt til skuldagerninga“ ekki innan hugtaksins samkvæmt þessu ákvæði.

Um 14. gr.

    Við setningu laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, láðist að lögfesta ákvæði um innleiðingu á tilskipun 2014/59/ESB. Í greininni er lagt til að úr því verði bætt ásamt því að tilgreina þá tilskipun sem efni frumvarpsins er ætlað að innleiða. Hluti af ákvæðum tilskipunar 2014/59/ESB var innleiddur með lögum nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. tillögu að breytingu í b-lið 1. tölul. 16. gr. frumvarpsins. Ákvæði 103.–106. gr. tilskipunar 2014/59/ESB fjalla um gjaldtöku í skilasjóð og tengd atriði og verða þau viðfangsefni þriðja áfanga innleiðingar á tilskipuninni. Áformað er að leggja fram frumvarp þess efnis á Alþingi á 152. löggjafarþingi og lýkur þar með innleiðingu á tilskipuninni að fullu.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 16. gr.

    Í 1. tölul. eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Um a-lið 1. tölul. Í ákvæðinu er lögð til breyting á 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Breytingin leiðir af 13. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að efni gildandi 3. mgr. 102. gr. laganna verði lögfest í a- og b-lið 1. tölul. 1. mgr. nýrrar 85. gr. a. Af ákvæðinu leiðir að sömu reglur um rétthæð krafna gilda ekki um annars vegar fyrirtæki og einingar sem eiga undir gildissvið laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og hins vegar önnur fjármálafyrirtæki. Öll fjármálafyrirtæki eiga undir gildissvið B-hluta XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki en eins og fjallað er um í skýringum við 13. gr. frumvarpsins er hinni nýju forgangsröð krafna ekki ætlað að gilda um slitameðferð þeirra allra. Um rétthæð krafna gagnvart þeim fyrirtækjum sem eiga ekki undir gildissvið BRRD-regluverksins gilda eftir sem áður sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, þ.e. XVII. kafli laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     Um b-lið 1. tölul. Í ákvæðinu eru tilgreind þau ákvæði í tilskipun 2014/59/ESB sem innleidd voru með lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. breytingalög nr. 54/2018. Um er að ræða reglur um endurbótaáætlanir, tímanleg inngrip og fjárstuðning innan samstæðu.
    Í 2. tölul. eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.
     Um a-lið 2. tölul. Í ákvæðinu er kveðið á um orðalagsbreytingu í 4. mgr. 10. gr. laganna sem tekur mið af efni frumvarpsins. Ekki er um að ræða efnisbreytingu þar sem kröfur sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tekur yfir njóta sem fyrr rétthæðar skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Rétt þykir þó að vísa til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sbr. tillögu að nýju ákvæði 85. gr. a í 13. gr. frumvarpsins, enda er þar kveðið á um forgangsröð krafna við skila- og slitameðferð lánastofnana. Þá kemur fram í ákvæðinu að krafa sjóðsins njóti rétthæðar við gjaldþrotaskipti. Innlánsstofnanir verða ekki teknar til hefðbundinna gjaldþrotaskipta, heldur til skila- og/eða slitameðferðar, og því þykir ónákvæmt að vísa til gjaldþrotaskipta í ákvæðinu.
     Um b-lið 2. tölul. Í ákvæðinu er lagt til að 16. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II falli brott enda efnislega rangt ákvæði eftir gildistöku laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Einungis tryggðar innstæður njóta rétthæðar í samræmi við 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Aðrar innstæður ganga þar næstar líkt og kveðið er á um í 1. tölul. 1. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins.