Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 970  —  465. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, nr. 7/2011 (útganga Bretlands úr Evrópusambandinu).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti. Nefndinni bárust engar umsagnir.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) sem samþykkt var þar í landi 23. júní 2016 með þjóðaratkvæðagreiðslu og tilkynnt formlega um 29. mars 2017. Útganga Bretlands varð að veruleika 31. janúar 2020. Samkvæmt útgöngusamningi milli Bretlands og ESB gilti svokallað aðlögunartímabil til ársloka 2020 sem fól í sér skuldbindingu Bretlands til að framfylgja reglum ESB tímabundið eftir að aðild þess að sambandinu lyki, þ.m.t. Brussel-reglugerð nr. 1215/2012 sem m.a. fjallar um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Fyrrgreindu aðlögunartímabili er nú lokið og Bretland því ekki lengur aðili að Lúganósamningnum en hefur sótt um sjálfstæða aðild að samningnum en samningaviðræðum þar að lútandi ólokið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lög um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, nr. 7/2011, verði bætt ákvæði til bráðabirgða sem tryggi að samningurinn og þær þrjár bókanir sem honum fylgja gildi um mál sem borist hafa íslenskum dómstólum til meðferðar fyrir 1. janúar 2021. Þá er lagt til að hið sama gildi um mál sem íslenskum dómstólum berast til meðferðar eftir það tímamark, að því gefnu að þau grundvallist á dómi sem var kveðinn upp í Bretlandi fyrir árslok 2020.
    Meiri hlutinn áréttar að mál sem tengjast Lúganósamningnum geta varðað umtalsverða hagsmuni, bæði fyrir einstaklinga og lögaðila, og meiri hlutinn telur mikilvægt að þeir hagsmunir verði tryggðir þrátt fyrir að Bretland sé ekki lengur aðili að samningnum. Þá hefur Bretland tryggt með lagasetningu að þar í landi verði farið með hliðstæð íslensk mál eftir ákvæðum Lúganósamningsins og gagnkvæmni því tryggð.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 1. mars 2021.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.