Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 971  —  136. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn styður meginefni frumvarpsins en telur að bótaréttur skv. 1. mgr. d-liðar 2. gr. frumvarpsins (19. gr. d) eigi að ná til rétthafa, en ekki takmarkast við höfunda, sem væri jafnframt í samræmi við umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu um „bætur til rétthafa“. Minni hlutinn fellst þannig t.d. ekki á að réttur útgefenda byggist einvörðungu á samningum þeirra við höfunda og að útgefendur eigi þannig engan sjálfstæðan rétt.
    Minni hlutinn bendir á að útgefendur hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta þegar gengið er til samninga við höfund, enda jafnan áskilið í þeim samningum að útgefandi leggi í margvíslegan kostnað við útgáfu og markaðssetningu bókar. Samkvæmt framangreindu ákvæði á útgefandi sem gefur út verk þar sem annaðhvort höfundarréttur er fallinn niður eða verkið unnið á forlagi af starfsmönnum þess engan rétt á bótum fyrir frjáls afnot bókarinnar jafnvel þótt hann eigi sambærilegan rétt og lifandi höfundur bókar til að njóta arðs af henni á almennum markaði og verði fyrir sambærilegu tjóni. Í þessu samhengi bendir minni hlutinn á að útgefendur ættu jafnframt ekki rétt á bótum vegna ýmissa verka og stórvirkja sem unnin eru á ritstjórnum bókaútgáfufyrirtækjanna með tilheyrandi kostnaði. Dæmi um slík verk eru til að mynda nýjar útgáfur af Íslendingasögum.
    Minni hlutinn telur að viðurkenna eigi bótarétt rétthafa líkt og gert hefur verið í Danmörku. Þá telur minni hlutinn ekki loku fyrir það skotið að erfingjar höfundar eða aðilar sem hafa ráðstafað umsýslu höfundarréttinda sinna inn í félag sem fer með fjárhagslegan hluta höfundaréttar viðkomandi höfundar verði ekki taldir eiga rétt til bóta ef bótaréttur er takmarkaður við höfund en ekki við rétthafa.
    Minni hlutinn leggur áherslu á að gætt sé jafnræðis allra rétthafa sem sæta skerðingu réttinda sinna og telur að með frumvarpinu sé gengið of skammt í þeim efnum. Með hliðsjón af framangreindu leggur því minni hlutinn til breytingar þess efnis að rétthafar eigi rétt til bóta.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „skal höfundur“ og orðsins „höfundar“ í 1. mgr. d-liðar 2. gr. komi: skulu rétthafar; og: rétthafa.

Alþingi, 1. mars 2021.

Guðmundur Andri Thorsson.