Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 999  —  344. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson og Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Brynhildi Pétursdóttur og Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Björn Geirsson, Hrafnkel V. Gíslason og Gabríellu Unni Kristjánsdóttur frá Póst- og fjarskiptastofnun, Jóhann Ólafsson og Herdísi Hallmarsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Benedikt S. Benedikt frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Þórunni Önnu Árnadóttur, Benedikt G. Waage og Guðrúnu Lárusdóttur frá Neytendastofu.
    Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Póst- og fjarskiptastofnun, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsluverkefni á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði verði færð frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og að verkefni á sviði rafrænnar auðkenningar og traustþjónustu verði færð til Póst- og fjarskiptastofnunar. Meiri hlutinn bendir á að aukin verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gefa tilefni til þess að endurskoða nafn hennar.

Umfjöllun nefndarinnar.
Verkefnasvið Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að eftirlit með traustþjónustu og rafrænni auðkenningu falli vel að öðrum verkefnum hennar. Póst- og fjarskiptastofnun heyrir stjórnarfarslega undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið en stofnunin bendir í umsögn sinni á að traustþjónusta og rafræn auðkenning heyri stjórnarfarslega undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þá eru í frumvarpinu ekki lagðar til breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.
    Í minnisblaði sem nefndinni barst frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að stefnt sé að því að stjórnarmálefnið rafræn auðkenning og traustþjónusta fyrir rafræn viðskipti verði fært til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins samhliða færslu verkefnanna. Þá kemur fram að umhverfis- og samgöngunefnd hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um Fjarskiptastofu (506. mál) sem ætlað er að leysa af hólmi lög um Póst- og fjarskiptastofnun. Meiri hlutinn vekur athygli umhverfis- og samgöngunefndar á breyttu verksviði stofnunarinnar og telur æskilegt að umfjöllun um hvernig verkefnasvið hennar er tilgreint í lögunum fari fram innan þeirrar nefndar.

Framtíðarsýn í neytendamálum.
    Við tilfærslu verkefna á samkvæmt frumvarpinu Neytendastofa nær eingöngu að sinna eftirlitsverkefnum á sviði neytendaréttar. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að fenginn hafi verið utanaðkomandi ráðgjafi til þess að annast sviðsmyndagreiningu fyrir verkefni á neytendaréttarsviði stofnunarinnar. Stefnt sé að heildstæðri endurskipulagningu á verkefnum þegar greiningin liggur fyrir. Framtíðarsýn fyrir skipulag stofnana og verkefna á sviði neytendaréttar er enn óljós. Brýnt er að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nýti þann tíma sem gefst fram að gildistöku laganna til að setja fram skýrari línur í þessum efnum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við mótun stofnanaumgjarðar mála á sviði neytendaréttar sé lögð áhersla á hagkvæmni, aukin gæði og skilvirkni í þágu atvinnulífsins og neytenda. Tryggja verður að stofnanir geti sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti um leið og komið er í veg fyrir skörun verkefna milli stofnana.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist gildi 1. apríl 2021. Ljóst er að undirbúningur að tilfærslu verkefna milli stofnana mun taka lengri tíma. Meiri hlutinn leggur því til að gildistöku verði frestað til 1. október 2021.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og er þeim ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan „1. mgr. 2. gr.“ í 4. gr. komi: 1. málsl.
     2.      7. gr. orðist svo:
                  Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 1. og 2. mgr. 11. gr., fyrirsögn 14. gr. og 1. og 4. mgr. 16. gr. og orðsins „Neytendastofu“ í 1. málsl. 14. gr., 1. málsl. 15. gr., 2. mgr. 16. gr., 17. gr., 2. mgr. 18. gr., 26. gr. og 2. mgr. 27. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     3.      Á eftir orðunum „hvarvetna annars staðar í lögunum“ í 13. gr. komi: nema í 2. mgr. 28. gr.
     4.      Á eftir 13. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 28. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „áfrýjunarnefndar neytendamála, sbr. lög nr. 62/2005, um Neytendastofu“ í 2. málsl. komi: úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
                  b.      Í stað orðsins „áfrýjunarnefndar“ í 3. málsl. komi: úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
     5.      Í stað „1. apríl 2021“ í 21. gr. komi: 1. október 2021.

Alþingi, 4. mars 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.