Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1000  —  532. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um framtíð ferjusiglinga yfir Breiðafjörð.


     1.      Hvaða áform eru uppi varðandi framtíðarþjónustu Breiðafjarðarferjunnar Baldurs?
    Stuðningur ríkisins við rekstur ferju yfir Breiðafjörð hefur verið miðaður við að auðvelda samgöngur þar til hægt verður að tryggja samgöngur á vegum allt árið. Samningur er í gildi um rekstur Baldurs til maí 2022. Heimilt er að framlengja þann samning um eitt ár. Vegagerðin skoðar nú slíka framlengingu.

     2.      Er hafinn undirbúningur að endurnýjun núverandi skips? Ef ekki, stendur það til?
    Sú ferja sem notuð hefur verið til samgangna yfir Breiðafjörð er í eigu einkaaðila. Svo lengi sem hún uppfyllir skilyrði sem sett eru í útboði auk annarra skilyrða, svo sem um haffærni, hefur það verið rekstraraðilans að velja það skip sem heppilegast er miðað við fyrirliggjandi verkefni.

     3.      Hefur samráð verið haft við sveitarstjórnir á svæðinu um framtíðarskipan þessa þáttar samgöngumála á sunnanverðum Vestfjörðum?
    Fundur var haldinn haustið 2020 með sveitarstjórnum á svæðinu. Þar var farið yfir áherslur þeirra og óskir. Á þessum fundi kom fram að breytingar á atvinnulífi kalli í auknum mæli á þungaflutninga með vörur frá fiskeldi suður vegna útflutnings. Þessar vörur eru viðkvæmar en auk þess er afhendingaröryggi meginforsenda viðskipta og því óásættanlegt að flutningaleiðir geti lokast. Klettsháls lokast reglulega vegna snjóa og er það því mat heimamanna að ferjan verði nauðsynleg þrátt fyrir þær vegabætur sem nú standa yfir.
    Veður hefur undanfarið valdið því að ástand vega í Gufudalssveit og Reykhólasveit er með versta móti. Færð hefur því verið erfið fyrir flutningabíla. Vegagerðin og Sæferðir, sem reka Baldur, hafa komist að samkomulagi um að bregðast við því. Sé nauðsyn á verður hægt að fjölga ferðum í tvær á dag á miðvikudögum og fimmtudögum.
    Að auki hafa sveitarfélög á svæðinu ákveðið nýta ferðir úr aukaferðapotti til þess að bæta við ferðum á þriðjudögum. Með þessum aðgerðum er möguleiki á að sigla tvisvar á dag alla virka daga.
    Þessar mótvægisaðgerðir, sem hugsaðar eru til loka mars, eru því að mati Vegagerðarinnar nauðsynlegar til að stuðla að öruggum og greiðum samgöngum frá sunnanverðum Vestfjörðum.

     4.      Telur ráðherra raunhæft að áætla að dregið verði úr ferjusiglingum milli Brjánslækjar og Stykkishólms, eða þær jafnvel lagðar af, þegar vegir hafa verið bættir til muna og ef svo er, hverjar þurfa þær umbætur að vera umfram þær sem nú eru í deiglunni til þess að það verði raunhæfur möguleiki?
    Styrkir til ferjureksturs á þessari leið hafa miðast við erfiðar samgöngur á landi, eins og áður segir. Gríðarlegt átak hefur verið unnið í vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Í ljósi breytinga á atvinnuháttum er þó rétt að þarfagreining fari fram að nýju. Með lagningu vegar um Teigsskóg munu samgöngur á vegum á sunnanverðum Vestfjörðum batna til muna. Fyrirhugað er að þeim framkvæmdum ljúki árið 2023.

     5.      Hefur á einhverju stigi verið gerð heildarúttekt á hagkvæmni bættra samgangna á landi með hliðsjón af ferjuþjónustunni, svo sem umhverfis-, kostnaðar- eða ábatagreining?
    Slík úttekt hefur ekki verið gerð. Með hliðsjón af því að líklegt er að Klettsháls verði alltaf farartálmi að vetri til er ástæða til að meta að nýju framtíð ferjuþjónustu á Breiðafirði. Þar væri eðlilegt að fjalla um gæði samgangna, áhrif á ferðaþjónustu og umhverfisáhrif með hliðsjón af kostnaði.