Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1010  —  596. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunar


um sérstaka þróunaráætlun og tilraunaverkefni fyrir ræktun lyfjahamps og notkun kannabislyfja í lækningaskyni.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Páll Magnússon, Jón Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að setja á fót starfshóp sem hafi það hlutverk að útbúa frumvarp sem heimili fyrirtækjum að sækja um leyfi fyrir ræktun lyfjahamps til kannabisræktunar og til framleiðslu og dreifingar á kannabislyfjum í lækningaskyni. Um verði að ræða fjögurra ára tilraunaverkefni sem hefjist 1. janúar 2022. Heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis í upphafi 152. löggjafarþings.

Greinargerð.

    Hinn 1. janúar 2018 var sérstök þróunaráætlun og tilraunaverkefni um ræktun lyfjahamps og notkun kannabislyfja í lækningaskyni kynnt í Danmörku. Tilraunaverkefnið byggist á samkomulagi sem gert var á danska þinginu um ráðstöfun fjármuna í heilbrigðis- og öldrunarmálum 8. nóvember 2016.
    Frá því að þróunaráætlunin um ræktun hamps tók gildi í Danmörku hefur verið heimilt að rækta hampjurtina, cannabis sativa, þar í landi í því skyni að vinna úr henni lyf. Ræktun er háð leyfi dönsku lyfjastofnunarinnar (d. Lægemiddelstyrelsen) og er landbúnaðarstofnunin (d. Landbrugsstyrelsen) umsagnaraðili varðandi landbúnaðarhlið málsins. Þá leggur ríkislögreglan (d. Rigspolitiet) mat á umsækjanda með tilliti til þess hvort fært sé að veita honum ræktunarleyfi. Samkvæmt kerfinu geta því fyrirtæki, garðyrkjustöðvar, í Danmörku sótt um leyfi til kannabisræktunar og síðan frekari leyfi til framleiðslu og dreifingar á kannabis til nota í lækningavörur þar í landi, en samhliða þróunaráætlun Dana um ræktun hamps var sett á laggirnar tilraun um notkun efna úr hampjurtinni í lækningaskyni. Samkvæmt þeim reglum sem gilda um fjögurra ára tilraunina er læknum í Danmörku heimilt að prófa meðferð og ávísa kannabislyfjum til sjúklinga þegar önnur lyf hafa ekki komið að notum.
    Tilraunaverkefninu er ætlað að veita betri grundvöll til að meta notkun kannabisefna í lok reynslutímabilsins og frá 1. janúar 2019 hafa Danir sem nota kannabislyf samkvæmt læknisráði átt kost á endurgreiðslu kostnaðar vegna lyfjakaupanna samkvæmt sérstökum reglum.
    Stefna stjórnvalda og heilbrigðiskerfisins varðandi afstöðu til kannabisefna hér á landi þarfnast umtalsverðrar umræðu og að grundvöllur sé skapaður til frekari rannsókna, hvort sem er á ræktun cannabis sativa-plöntunni, cannabis indica-plöntunni eða öðrum plöntum þeim skyldum. Álit flutningsmanna er að tilraunaverkefni samsvarandi því sem var samþykkt í Danmörku skapi opinskáar umræður hér á landi, tilraunaverkefni sem muni byggjast á rannsóknum og skapa jafnvel ný tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði á orkuríkum svæðum, til að mynda Reykjanesinu.
    Flutningsmenn vilja að skipaður verði starfshópur sem verði falið að kanna, ræða og gera drög að frumvarpi um eftirfarandi:
          Skilgreiningu leyfa til ræktunar, framleiðslu og dreifingar á kannabis í lækningaskyni.
          Útgáfu leyfa.
          Þróunaráætlun sem gildi til fjögurra ára og verði í samræmi við reglur um lyfjaprófsáætlanir.
          Lista yfir þær kannabisvörur sem heimilt verði að framleiða og dreifa og ávísa megi löglega af læknum og afgreiða í apóteki.
          Umsóknarform og umsóknarferlið.
          Skilyrði fyrir útgáfu leyfa og að ræktendur tryggi rekjanleika í báðar áttir og geti tilgreint þá aðila sem þeir hafa fengið aðföng frá, svo sem útsæði og fræ.
          Meðhöndlun og pökkun framleiðslunnar sem uppfylli kröfur laga og reglugerðar um hollustuhætti og mengunarvarnir.
          Markaðssetningu.
          Gjaldtöku.
          Tillögu að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, ásamt reglugerðum.
          Önnur atriði sem nauðsynlegt er að tiltaka í lagafrumvarpinu.
    Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu vilja að heimilt verði á grundvelli sérstakrar þróunar- og tilraunaráætlunar að framleiða virk efni úr kannabis í læknisfræðilegum tilgangi, til að skapa grundvöll til að meta notkun kannabisefna í lok reynslutímabils sem verði fjögur ár. Hér er ekki lögð til lögleiðing á kannabis eða afglæpavæðing kannabisefna. Flutningsmenn telja að líta verði alvarlega til þessarar tilraunaáætlunar sem Danir hafa unnið að sl. ár, byggja á reynslu þeirra og annarra þjóða og skapa grundvöll að þeirri athugun að leyfa kannabis í lækningaskyni til tilraunar. Slæmt sé að fólk sem reyni að lina þjáningar með kannabis þurfi að gerast lögbrjótar, eða upplifi sig sem slíka. Ekki sé rétt að meina sjúklingum um aðgang að kannabisvörum til að vernda þá sem hugsanlega geta misnotað þær.