Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1033  —  450. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um aðstoðarmenn dómara.


    Á öllum þremur dómstigum starfa aðstoðarmenn dómara. Í lögum nr. 50/2016, um dómstóla, er gerður greinarmunur á hlutverki aðstoðarmanna dómara í héraði, Landsrétti og Hæstarétti.
    Dómstjóra héraðsdómstóls er heimilt að fela aðstoðarmanni dómara að fara með og leysa efnislega úr einkamálum þar sem vörnum er ekki haldið uppi og sakamálum fram að aðalmeðferð þeirra. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að aðstoðarmenn dómara í Hæstarétti og Landsrétti sinni eiginlegum dómstörfum á sama hátt og aðstoðarmenn héraðsdómara og er það hlutverk forseta Landsréttar og forseta Hæstaréttar að ákveða verksvið þeirra og stöðu.
Í 32. gr. laga um dómstóla er kveðið á um aðstoðarmenn dómara við héraðsdóm en þar segir:
    „Til aðstoðar dómurum má ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. Aðstoðarmaður skal ráðinn til fimm ára í senn. Um ráðningu og starfslok starfsmanna héraðsdómstóla fer að öðru leyti eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Dómstjóri getur falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjóri ber ábyrgð á störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.“

     1.      Hvernig er ráðningu aðstoðarmanna dómara hagað? Eru almennt gerðar sérstakar kröfur um það í ráðningarsamningi hvernig eftirliti með störfum þeirra er hagað og hver séu valdmörk þeirra?
    Í héraði starfa 13 aðstoðarmenn dómara við fimm héraðsdómstóla. Dómstólasýslan óskaði eftir upplýsingum frá dómstjórum héraðsdómstólanna til að svara spurningunni. Hjá þeim kom fram að stöður löglærðra aðstoðarmanna eru auglýstar opinberlega. Um ráðningu þeirra fer sem um aðra opinbera starfsmenn, sbr. ákvæði laga um dómstóla þar um. Eftirlit með störfum þeirra er í höndum dómstjóra og í Héraðsdómi Reykjavíkur í höndum varadómstjóra. Valdmörk þeirra eru ákveðin í lögum um dómstóla.

     2.      Hljóta aðstoðarmenn dómara einhverja skylduþjálfun? Ef svo er, hvernig er henni háttað og er hún samræmd á milli dómstólanna?
    Í svörum héraðsdómstólanna kemur fram að ekki er um samræmda skyldubundna þjálfun aðstoðarmanna að ræða. Fer hún eftir aðstæðum hjá hverjum og einum héraðsdómstóli en öll störf aðstoðarmanna eru unnin á ábyrgð dómstjóra. Þeim standa öllum til boða ýmis námskeið á vegum dómstólasýslunnar.
    Í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem flestir aðstoðarmenn starfa, er til staðar ferli þar sem dómstjóri, varadómstjóri og mannauðs- og rekstrarstjóri setja nýja starfsmenn vel inn í störf þeirra. Eftir að upphafsþjálfun hefur átt sér stað stendur aðstoðarmönnum til boða nokkur fjöldi símenntunarnámskeiða sem þeir eru hvattir til að sækja. Löglærðir aðstoðarmenn sinna fyrir fram tilgreindum verkefnum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hluti þessara starfa felst í almennri aðstoð við dómara á meðan aðrir aðstoðarmenn aðstoða í deildum sakamála og svokallaðra ágreiningsmála. Til viðbótar sjá allir aðstoðarmenn um tiltekin verkefni eins og reglulega þingið. Til að auka færni aðstoðarmanna í starfi og auka fjölbreytileika er þeim róterað á milli þessara verkefna einu sinni á ári.

     3.      Eru í gildi tilteknar hæfniskröfur um aðstoðarmenn dómara? Ef svo er, hverjar eru þær?
    Í 32. gr. laga um dómstóla kemur fram að til aðstoðar dómurum megi ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna. Í umræddum töluliðum er gerð krafa um að viðkomandi hafi íslenskan ríkisborgararétt, sé svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu, sé lögráða og hafi aldrei misst forræði á búi sínu, hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta og hafi lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.

     4.      Er að finna reglur um hagsmunaskráningu aðstoðarmanna héraðsdómara?
    Ekki hafa verið settar reglur um hagsmunaskráningu aðstoðarmanna. Rétt er að ítreka að aðstoðarmenn leysa ekki úr dómsmálum þar sem ágreiningur er til staðar og að dómstjóri ber ábyrgð á störfum þeirra.

     5.      Er hlutverk aðstoðarmanna dómara samræmt á milli héraðsdómstóla?
    Eins og áður hefur verið rakið er kveðið á um valdheimildir aðstoðarmanna í lögum og þeir vinna á ábyrgð dómstjóra. Að því leyti er hlutverk þeirra samræmt. Verkefni sem þeim eru falin geta hins vegar verið mismunandi á milli dómstóla.

     6.      Er aðkoma aðstoðarmanna dómara takmörkuð, m.a. hvað varðar dómsuppkvaðningu og setu í þinghöldum dómsins á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála?
    Fram kemur hjá dómstólunum að aðstoðarmenn geti lokið svokölluðum játningarmálum skv. 164. gr. laga nr. 88/2008, sem byggjast á því að ákærði játi sök við þingfestingu málsins. Til dómstóla rati fjöldinn allur af minni háttar sakamálum, sérstaklega á grundvelli brota gegn umferðarlögum. Hjá Héraðsdómi Reykjavíkur kom fram að flest öll brot gegn umferðarlögum og öðrum sérrefsilögum fari til aðstoðarmanna, sem þingfesta málin og ljúka þeim játi ákærði sök. Ef ákærði neitar sök fari málin til dómstjóra til úthlutunar til héraðsdómara. Brot gegn almennum hegningarlögum fara að meginstefnu til beint til héraðsdómara.

     7.      Hversu marga dóma hafa aðstoðarmenn dómara í sakamálum kveðið upp þar sem refsing er þyngri en eins árs óskilorðsbundið fangelsi? Svar óskast sundurliðað eftir refsiþyngd dóma, þ.e. fjölda dóma þar sem refsing er meira en eins árs óskilorðsbundið fangelsi ásamt útlistun á lengd fangelsisrefsingar sem dæmd var.
    Ekki var unnt að afla umræddrar tölfræði úr kerfum dómstólanna.

     8.      Telur ráðherra að núverandi fyrirkomulag um aðstoðarmenn dómara sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, sérstaklega mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994?
    Í 32. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, er kveðið á um að til aðstoðar dómurum megi ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna þar sem fjallað er um almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Skilyrði tilvitnaðra 2.–6. tölul. kveða á um að viðkomandi hafi íslenskan ríkisborgararétt, sé svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu, sé lögráða og hafi aldrei misst forræði á búi sínu, hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta og hafi lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum. Þar er enn fremur tekið fram að dómstjóri geti falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi og sakamálum frá því þau koma til aðalmeðferðar. Þá er kveðið á um í 42. gr. laganna að ákvæðin um réttindi og skyldur dómara eigi við um aðstoðarmenn þegar þeir fara með dómsvald þar sem það á við. Þá hefur nefnd um dómarastörf það hlutverk að taka við og leysa úr kvörtunum ef einhver telur að aðstoðarmaður hafi gert á sinn hlut í störfum sínum.
    Með lögum nr. 51/2012 var gerð breyting á lögum um dómstóla nr. 15/1998 og aðstoðarmönnum færð aukin verkefni frá því sem áður var. Var það fyrirkomulag tekið upp í lög um dómstóla nr. 50/2016. Með því að kveða á um í lögunum að heimildir aðstoðarmanna næðu ekki til að fara með og leysa að efni til úr einkamálum þar sem vörnum væri haldið uppi og sakamálum frá því að þau kæmu til aðalmeðferðar var talið að fyrirkomulagið væri í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og lög um mannréttindasáttmála Evrópu.