Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1040  —  541. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um vernd menningararfs og tjón á menningarverðmætum.


     1.      Hvaða áhrif höfðu skriður þær sem féllu í byggð á Seyðisfirði í desember í fyrra á menningararf á svæðinu og hvaða tjón varð á menningarverðmætum?
    Alls skemmdust eða eyðilögðust tíu hús, sem teljast til menningarminja samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, í skriðunum sem féllu á Seyðisfjörð. Til viðbótar eru fjögur hús óskemmd innan hættusvæðis en þau má ekki nýta til íbúðar. Ljóst er að skriðurnar höfðu veruleg áhrif á sögulega byggð Seyðisfjarðar.
    Meðal þeirra húsa sem skemmdust eða eyðilögðust er stór hluti húsakosts Tækniminjasafns Austurlands. Munir og skjöl í eigu safnsins urðu fyrir skemmdum.

     2.      Hefur mat verið lagt á kostnað við að bæta það tjón? Er markmið stjórnvalda að bæta tjónið að fullu leyti?
    Náttúruhamfaratryggingar Íslands hafa metið tjón á húsum sem skemmdust eða eyðilögðust í skriðunum. Bætur Náttúruhamfaratryggingar ná að hámarki til brunabótamats viðkomandi húss að frádreginni sjálfsábyrgð sem er 400 þús. kr. Eigendur friðaðra og friðlýstra húsa geta auk þess sótt um styrki í húsafriðunarsjóð. Sjóðnum er ætlað að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja.
    Sérfræðingar á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands hafa unnið á vettvangi á Seyðisfirði að björgun muna, skjala og ljósmynda í eigu Tækniminjasafnsins. Héraðsskjalasafn Austfirðinga, safnaráð, Borgarsögusafn og Minjasafn Austurlands hafa einnig lagt til vinnuframlag sérfræðinga. Þjóðminjasafnið hefur leitt faglega aðstoð við björgunarstarfið og greitt ferðir og uppihald allra sem koma að verkefninu. Vinnuframlag starfsfólks stofnana ríkis og sveitarfélaga vegna björgunar muna í eigu Tækniminjasafnsins nemur nú rúmlega 1.000 vinnustundum.

     3.      Er vernd menningararfs hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í ofanflóðavörnum?
    Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hafa verið meðal verkefna stjórnvalda um áratuga skeið. Ofanflóðanefnd hefur yfirumsjón með gerð hættumats og ákvarðanatöku varðandi byggingu varnarmannvirkja á íbúasvæðum sem stafar hætta af ofanflóðum og eru þær framkvæmdir fjármagnaðar af ofanflóðasjóði. Grunnáhersla í ofanflóðavörnum er að verja fólk á heimilum sínum. Í gildi eru lög um menningarminjar, nr. 80/2012, sem ætlað er stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.