Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1049  —  535. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (leiðrétting o.fl.).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vöndu Úlfrúnu Liv Hellsing og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Markmið frumvarpsins er að leiðrétta mistök sem urðu við setningu breytingalaga nr. 98/2020 auk þess að innleiða tvær gerðir Evrópusambandsins.
    Með breytingalögum nr. 98/2020 var sett nýtt reglugerðarákvæði í 3. mgr. 6. gr. laganna með vísan til 2. mgr. en það láðist að vísa jafnframt til 1. mgr. Þá er leiðrétt ófullnægjandi reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. b og 6. mgr. 8. gr. sem og leiðrétt tilvísun í kafla í 3. mgr. 38. gr. Jafnframt er lagt til að tvær gerðir Evrópusambandsins verði innleiddar og þeim bætt við 47. gr. laganna. Um er að ræða tilskipun (ESB) 2018/410 og framselda ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1071. Loks er lögð til breyting á II. viðauka við lögin í samræmi við áðurnefnda framselda ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1071 frá 18. maí 2020 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar að útiloka flug sem kemur frá Sviss frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
    Meiri hlutinn telur að þegar leiðrétta þarf meinbugi eða aðra annmarka á lögum þurfi að bregðast við skjótt svo að löggjöf verði eins vönduð og kostur er.

Breytingartillaga meiri hlutans.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilega lagfæringu sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað dagsetningarinnar „24. júlí“ í 5. gr. komi: 14. júlí 2020.

    Hanna Katrín Friðriksson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hanna Katrín Friðriksson skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Alþingi, 15. mars 2021.

Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Guðjón S. Brjánsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.