Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1051  —  444. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Hrefnu Díönu Viðarsdóttur, Ingu Jónu Óskarsdóttur og Arndísi Pálsdóttur frá Félagi viðurkenndra bókara, Elvu Ósk S. Wiium, Magdalenu Gestsdóttur og Hrefnu Sigríði Briem frá prófnefnd viðurkenndra bókara, Benedikt S. Benediktsson, Rannveigu Lenu Gísladóttur og Sigurjón Bjarnason frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Guðmund Andra Bergmann frá Procura Home ehf., Aðalheiði Dögg Finnsdóttur og Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur frá Myndstefi og Huldu Ösp Atladóttur og Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu.
    Umsagnir bárust frá Félagi viðurkenndra bókara, hagsmunahópi bókhaldsstofa innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Myndstefi, Procura Home ehf., prófnefnd viðurkenndra bókara, Samkeppniseftirlitinu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að fella niður óþarfa leyfisveitingar, draga úr aðgangshindrunum að mörkuðum og stuðla að heilbrigðri samkeppni.

Umfjöllun nefndarinnar.
Eignarhald á fasteignasölu.
    Í 2. mgr. 7. gr. laga um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, er kveðið á um það skilyrði að sé fasteignasala stunduð í nafni félags þá skuli löggiltur fasteignasali eiga með beinum hætti meiri hluta í því. Samkeppniseftirlitið hvetur í umsögn sinni til þess að framangreint skilyrði verði fellt brott. Vísar Samkeppniseftirlitið í því sambandi til samkeppnismats OECD þar sem fjallað er um úrbætur til að draga úr samkeppnishindrunum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að litið hafi verið til þess hvort rök væru fyrir því að fella brott framangreint skilyrði. Þá segir að fallið hafi verið frá þeim áformum, m.a. með hliðsjón af sjónarmiðum um sjálfstæði og óhæði fasteignasala og hagsmunum neytenda.
    Meiri hlutinn bendir á að fyrirkomulag fasteignasölu hér á landi er að miklu leyti ólíkt því sem tíðkast í samanburðarlöndum og aðgangshindranir meiri, líkt og kemur fram í skýrslu OECD. Í skýrslu OECD er hvatt til þess að reglur um eignarhald á fasteignasölu verði teknar til endurskoðunar að því gefnu að lagðar verði til aðrar, og síður takmarkandi leiðir, til þess að tryggja hagsmuni neytenda og tryggja varnir gegn hagsmunaárekstrum. Meiri hlutinn hvetur ráðuneytið til þess að vinna að frekari afnámi aðgangshindrana á þessu sviði.

Breytingartillaga meiri hlutans.
Próf til viðurkenningar bókara.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 43. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994, falli brott. Í ákvæðinu segir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti skuli halda skrá yfir viðurkennda bókara auk þess sem kveðið er á um hvernig prófi til slíkrar viðurkenningar skuli háttað. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er kveðið á um að þeim sem það kjósa skuli gefinn kostur á að ljúka prófum til viðurkenningar bókara fyrir 1. mars 2023.
    Í umsögn prófnefndar viðurkenndra bókara er bent á að í 8. mgr. 5. gr. reglugerðar um próf til viðurkenningar bókara, nr. 649/2019, sé kveðið á um að allir prófhlutar skuli vera dagsettir innan þriggja ára frá dagsetningu elsta prófsins. Þeir sem hófu fyrsta prófhluta haustið 2020 kynnu að hafa haft væntingu um að geta lokið síðasta prófhluta haustið 2023 og eftir atvikum upptökuprófi að vori 2024. Leggur meiri hlutinn því til að þeim sem það kjósa verði gefinn kostur á að ljúka prófum til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2024. Meiri hlutinn vekur einnig athygli á því að í frumvarpinu er ekki skýrt við hvaða lög framangreint ákvæði til bráðabirgða skuli bætast. Leggur meiri hlutinn til leiðréttingu á þessu svo að ákvæðið bætist við lög um bókhald.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þeim sem lokið höfðu fyrsta prófhluta prófs til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2021 skal gefinn kostur á að ljúka öllum prófhlutum fyrir 1. apríl 2024.
                  Ráðherra skipar án tilnefningar þrjá menn í prófnefnd sem skal sjá um undirbúning og framkvæmd prófa samkvæmt ákvæði þessu.
                  Kostnaður við prófin, þ.m.t. þóknun prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður. Prófnefndin skal ljúka störfum eigi síðar en 1. apríl 2024.
     2.      Ákvæði til bráðabirgða falli brott.

Alþingi, 16. mars 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson, frsm. Jón Steindór Valdimarsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þórarinn Ingi Pétursson.