Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1052  —  366. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (upplýsingaréttur almennings).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Odd Þorra Viðarsson frá forsætisráðuneyti, Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Blaðamannafélagi Íslands og Persónuvernd.
    Markmiðið með frumvarpinu er að skýra lagaumhverfi Ríkisútvarpsins ohf. varðandi upplýsingarétt almennings um aðgang að gögnum um starfsemi og málefni starfsmanna þess. Í því skyni er lögð til breyting á 18. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.
    Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins er enn fremur heimilt að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki verði séð að ríkir almannahagsmunir séu af því að gert sé uppskátt um áminningu sem stjórnandi hefur hlotið vegna áfengisneyslu í samanburði við hagsmuni viðkomandi starfsmanns af því að vera gefinn kostur á því að bæta ráð sitt án þess að eiga á hættu að vera um ókomna tíð stimplaður fyrir slíka háttsemi. Í þessu sambandi var bent á að samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, eru viðkvæmar persónuupplýsingar m.a. skilgreindar sem upplýsingar um stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð og lífsskoðun, heilsufarsupplýsingar, upplýsingar um lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun og upplýsingar um kynlíf manna og kynhneigð. Taka þurfi af allan vafa ef ætlunin er ekki að veita heimild til upplýsingagjafar um forsendur viðurlaga eða áminningar sem æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins hafi sætt ef viðurlögin eru byggð á viðkvæmum persónuupplýsingum.
    Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn betur fara á því að texta 1. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins verði breytt til samræmis við efni greinargerðarinnar og þannig áréttað að upplýsingaréttur almennings nái ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga. Meiri hlutinn leggur til breytingar þess efnis.

    Að öðru leyti leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Orðið „aðrar“ í 1. efnismálsl. a-liðar falli brott.
     b.      Á eftir orðunum „veita upplýsingar“ í 1. efnismgr. b-liðar komi: aðrar en viðkvæmar persónuupplýsingar.
     c.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Fyrirsögn greinarinnar verður: Önnur lög og upplýsingaréttur almennings.

    Þorsteinn Sæmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. mars 2021.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Olga Margrét Cilia. Steinunn Þóra Árnadóttir.