Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1058  —  322. mál.
Framsögumaður.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Valgeirsdóttur, Brynhildi Pálmarsdóttur og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gunnhildi Gunnarsdóttur, Björn Karlsson og Ástu Margréti Sigurðardóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum, Inga K. Magnússon frá Ríkisendurskoðun, Hallgrím Jónasson frá Rannís, Jóhann Ólafsson, Herdísi Hallmarsdóttur og Hermann Jónasson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Pál Árnason frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Aðalstein Þorsteinsson frá Byggðastofnun, Guðrúnu V. Steingrímsdóttur og Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Odd M. Gunnarsson, Sæmund Sveinsson og Jónas R. Viðarsson frá Matís, Bergþóru Þorkelsdóttur og Guðmund V. Guðmundsson frá Vegagerðinni, Svönu Helen Björnsdóttur, Guðrúnu A. Sævarsdóttur og Árna B. Björnsson frá Verkfræðingafélagi Íslands, Ásgerði K. Gylfadóttur og Bjarna Guðmundsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Pál Snævar Brynjarsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Önnu G. Björnsdóttur og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþór Björnsson frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Sigurð Sigursveinsson frá Samtökum þekkingarsetra, Hildi Jönu Gísladóttur, Guðmund Baldvin Guðmundsson og Þórgný Dýrfjörð frá Akureyrarbæ, Björn Ingimarsson, Berglindi Hörpu Svavarsdóttur, Hildi Þórisdóttur og Þröst Jónsson frá Múlaþingi, Helenu Eydísi Ingólfsdóttur, Hjálmar Boga Hafliðason, Kristján Þór Magnússon og Kolbrúnu Ödu Gunnarsdóttur frá Norðurþingi, Írisi Róbertsdóttur frá Vestmannaeyjabæ, Svein Margeirsson frá Skútustaðahreppi, Sigríði Mogensen og Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Þórönnu K. Jónsdóttur frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Jón Atla Benediktsson, Sigurð M. Garðarsson, Halldór Jónsson, Ólöfu Vigdísi Ragnarsdóttur og Guðmund Frey Úlfarsson frá Háskóla Íslands, Ara Kristin Jónsson og Jónas Þór Snæbjörnsson frá Háskólanum í Reykjavík, Unnar Stein Bjarndal frá Háskólanum á Bifröst, Erlu Björk Örnólfsdóttur frá Háskólanum á Hólum, Rannveigu Björnsdóttur frá Háskólanum á Akureyri, Peter Weiss frá Háskólasetri Vestfjarða, Fríðu Björk Ingvarsdóttur frá Listaháskóla Íslands, Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Runólf Vigfússon frá Bandalagi háskólamanna, Maríönnu H. Helgadóttur frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Valdimar Össurarson frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Elinóru Ingu Sigurðardóttur frá KVENN, Frey Friðfinnsson frá Icelandic Startup, Atla Þór Fanndal frá Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands, Alexander Richter frá Orkuklasanum, Guðbjörgu Hrönn Óskarsdóttur frá Álklasanum, Ágúst Elvar Bjarnason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Sigríði Ó. Kristjánsdóttur frá Vestfjarðastofu, Einar Má Sigurðarson og Jónu Árnýju Þórðardóttur frá Austurbrú, Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur frá Íslenska ferðaklasanum, Konráð S. Guðjónsson frá Viðskiptaráði Íslands, Pál Björgvin Guðmundsson og Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Þór Sigfússon frá Sjávarklasanum, Finnboga Magnússon frá Landbúnaðarklasanum, Einar Gunnar Guðmundsson, Þorkel Sigurlaugsson, Ágúst Þór Jónsson, Kristján Leósson og Björn Marteinsson.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Akureyrarbæ, Bandalagi háskólamanna, Bláskógabyggð, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands, Háskóla Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Matís, Múlaþingi, Norðurþingi, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands, Ríkisendurskoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Samtökum þekkingarsetra, Skattinum, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Vegagerðinni, Verkfræðingafélagi Íslands, Vestmannaeyjabæ og Viðskiptaráði Íslands auk sameiginlegra umsagna frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna og KVENN annars vegar og Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins hins vegar.
    Samhliða umfjöllun um málið fjallaði nefndin um frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð (þskj. 361, 321. mál).

Umfjöllun.
Markmið frumvarpsins.
    Nýsköpunarstefna fyrir Ísland var birt haustið 2019. Samkvæmt henni er nýsköpun og hæfni samfélagsins til að styðja við og veita hugmyndum í frjóan farveg lykillinn að aukinni fjölbreytni atvinnulífs, efnahagslegri velgengni og velferð. Það er því hlutverk stjórnvalda að skapa umgjörð og stuðningsumhverfi sem er samkeppnishæft á alþjóðavísu.
    Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar sé að beina fjármagni í rannsóknir og frumkvöðla frekar en umsýslu og yfirbyggingu. Markmið frumvarpsins er þannig að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Áhersla er lögð á eflingu nýsköpunar á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og rannsóknir og fræðslu í byggingariðnaði. Leitast er við að forgangsraða verkefnum, draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna sem því er veitt í. Þessu markmiði skuli náð með aðgerðum sem að hluta felast í frumvarpinu en einnig með verkefnum sem unnið er að af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
    Frá útgáfu nýsköpunarstefnunnar hefur verið unnið að því að koma tillögum og áherslum hennar í framkvæmd. Þar á meðal var endurskoðun og stefnumótun stuðningsumhverfis nýsköpunar með það að markmiði að mynda traustar undirstöður fyrir atvinnuþróun um allt land. Í febrúar 2020 kynnti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra áform um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) yrði lögð niður. Þeim verkefnum stofnunarinnar sem haldið yrði áfram yrði fundinn farvegur í nýju rekstrarformi. Í þeim tilgangi skipaði ráðherra stýrihóp og þrjá starfshópa um tiltekin verkefni og voru niðurstöður vinnuhópanna leiðarljós við gerð frumvarpsins samkvæmt því sem segir í greinargerð.
    Með frumvarpinu er því lagt til að felld verði brott lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð (321. mál, þskj. 361) sem færa skal ákvæði um sjóðinn í sérlög en nú er kveðið á um þá starfsemi í lögum nr. 75/2007. Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á öðrum lögum, þ.e. lögum um byggingarvörur, nr. 114/2014, lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987, og lögum um mannvirki, nr. 160/2010. Enn fremur eru í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem mæla fyrir um fyrirkomulag við niðurlagningu NMÍ, en hún er starfrækt á grundvelli laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Einföldun á stuðningskerfi við nýsköpun.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið fjölda gesta á sinn fund en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stuðningsumhverfi við nýsköpun sem er ætlað að vera til einföldunar. Þær aðgerðir felast m.a. í stofnun tækniseturs í samstarfi við háskólasamfélagið, stofnun samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir á grundvelli laga um mannvirki, nr. 160/2010, tilfærslu ýmissa verkefna sem byggjast á lagaskyldu og úrlausn mála varðandi starfsmenn stofnunarinnar sem kveðið er á um í ákvæðum til bráðabirgða.
    Þá hefur ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þegar fært til hluta af starfsemi og verkefnum NMÍ. Til að mynda hefur starfsemi Efnagreininga flust til Hafrannsóknastofnunar og ýmis verkefni ásamt starfsmönnum hafa flust annað innan stjórnsýslunnar. Má þar nefna verkefnið Enterprise Europe Network (EEN) sem fluttist til Rannís, verkefni á sviði nýsköpunar í ferðaþjónustu, nýsköpunar í ríkiskaupum og fleiri slík afmörkuð verkefni. Jafnframt mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið taka við hluta verkefna NMÍ og sinna stefnumörkun í málaflokknum sem og stýra þjónustu við frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki, með sérstakri áherslu á nýsköpunarstuðning á landsbyggðinni. Settir hafa verið á fót sérstakir verkefnastyrkir um nýsköpun á landsbyggðinni og unnið er að tillögum að nýrri aðgerð innan Byggðaáætlunar sem jafnframt er ætlað að styðja við innviði nýsköpunar á landsbyggðinni. Þá mun ráðuneytið jafnframt halda áfram stuðningi við rekstur Stafrænna smiðja og fleiri verkefna sem NMÍ hefur sinnt.
    Með þessum aðgerðum er stefnt að endurskipulagningu og einföldun á stuðningskerfi nýsköpunar, eignarhald málaflokka er flutt, þjónusta samþætt og markvisst unnið að því að skerpa á stuðningi við nýsköpun á landsbyggðinni. Þannig muni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og nýsköpunarvirkni þess aukast. Í undirbúningi að gerð frumvarpsins, þá sérstaklega við mótun tækniseturs, var litið til erlendra fyrirmynda svo sem SINTEF í Noregi, RI.SE í Svíþjóð, VTT í Finnlandi og TNO í Hollandi.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt framfaramál að unnið sé eftir skýrri stefnu hvað varðar aðgerðir til að styðja við nýsköpun og aukna samkeppnishæfni á landsvísu. Þar eigi m.a. að leggja áherslu á að fylgja eftir og innleiða klasastefnu fyrir Ísland. Eins og fram kemur í skýrslu ráðherra um mótun klasastefnu (552. mál, þingskjal 880), er klasastefna verkfæri til að forgangsraða verkefnum og fjármunum með markvissum hætti og efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu nýsköpunar, í þágu framfara og bættra lífsgæða. Meiri hlutinn bendir á að klasaaðferðafræði er verkfæri sem er líklegt til árangurs við að takast á við þær samfélagslegu áskoranir sem eru framundan, m.a. á sviði stafrænnar umbreytingar, sjálfbærni, velferðar og alþjóðasóknar. Svo árangur náist þarf að fylgja stefnu eftir með aðgerðum og í klasastefnunni má finna skýrt leiðarljós um hvert ber að stefna.
    Meiri hlutinn hefur við vinnu sína lagt áherslu á að verið sé að endurskapa og þróa stuðningsumhverfi við nýsköpun með sem bestum formerkjum til framtíðar. Hefur því verið leitast við eftir megni að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram við meðferð málsins um hvernig megi styrkja og bæta frumvarp þetta.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Stuðningur og ráðgjöf við nýsköpun og aðstoð við frumkvöðla.
    Með 1. gr. frumvarpsins er sett fram það markmið að sérstök áhersla verði lögð á stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Stuðningsnet nýsköpunar verði eflt og þétt á forsendum landshlutanna sjálfra og í náinni samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, atvinnulíf og menntakerfi á einstökum svæðum. Í greinargerð segir að settur verði upp verkefnasjóður fyrir nýsköpun sem ætlað er að leggja grunn að öflugu vistkerfi fyrir nýsköpunarstarfsemi á landsbyggðinni.
    Í umsögnum um málið komu fram þau sjónarmið að útfæra þurfi markmið skýrar í lagatexta þannig að lögfest séu ákvæði um útfærslu á opinberum stuðningi við nýsköpun á landsbyggðinni. Þar vanti m.a. ákvæði um útfærslu og fjármögnun sem svari þeim markmiðum sem lögð eru til með 1. gr. frumvarpsins. Jafnframt komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að fjárfesta í innviðum og skapa aðstæður til nýsköpunar, stuðning við umsóknaskrif í samkeppnissjóði og fleira.
    Þá var í fjölda umsagna sem bárust nefndinni lagt til að svæðisbundnar skipulagsheildir, svo sem landshlutasamtök sveitarfélaganna, tækju við þjónustuhlutverki NMÍ á landsbyggðinni. Meiri hlutinn telur mjög mikilvægt að nánar verði kveðið á um ætlaðan stuðning ríkisins við nýsköpun á landsbyggðinni en efnisákvæði frumvarpsins kveða ekki skýrt á um hvernig staðið skuli að slíkum stuðningi. Aðeins er fjallað um almenna heimild ráðherra til þess að semja um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar. Þá er í greinargerð einnig fjallað um að sett verði sterkari umgjörð fyrir starfsemi stafrænna smiðja í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti og atvinnulífið.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að í lögum sé skýrar kveðið á um hvernig stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf verði háttað og leggur til breytingar á 9. gr. frumvarpsins í þessum tilgangi en þar er nú lagt til að ráðherra verði heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar.

Ráðgjöf við nýsköpun og nýsköpunargátt.
    Við meðferð málsins komu fram þau sjónarmið að stuðningur við nýsköpun væri brotakenndur og stuðningskerfið flókið. Meiri hlutinn leggur til að ráðuneytinu verði falið að setja upp stafræna upplýsingagátt – nýsköpunargátt sem hluta af stafrænu Íslandi. Þar verði hægt að nálgast á aðgengilegan hátt upplýsingar um það opinbera stuðningsumhverfi sem er til staðar við nýsköpun, hvort sem um er að ræða frumkvöðla með hugmynd á byrjunarstigi, rótgróið fyrirtæki með verkefni í nýsköpun eða erlenda aðila sem hafa áhuga á að vinna að nýsköpun hér á landi.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt til að ráðuneytið starfræki beina ráðgjöf við nýsköpun í tengslum við nýsköpunargáttina. Boðið verði þar upp á almenna ráðgjöf og svör veitt við algengum sem og sértækum spurningum. Fyrir nefndinni og í umsögnum um málið kom fram að kostnaður við að sækja ráðgjöf vegna hugmynda á frumstigi geti orðið mörgum þröskuldur og komið í veg fyrir að hugmyndir nái lengra. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að tryggt verði að frumkvöðlar hafi aðgang að gjaldfrjálsri ráðgjöf á fyrstu stigum hvar sem er á landinu og að sú ráðgjöf verði fjármögnuð af ráðuneyti en starfsemin boðin út í opinberu útboði. Slík ráðgjöf verði nánar skilgreind í reglugerð.
    Til viðbótar við aðstoð gegnum nýsköpunargátt verði ráðuneytinu falið að skoða hvernig byggja megi upp og þróa innviði fyrir nýsköpunarumhverfið gegnum Byggðaáætlun. Aðgerðin feli í sér að í landshlutunum sé starfsrækt samstarfsnet ráðgjafa sem veiti leiðsögn um styrki til frumkvöðlastarfs, og leiðsögn við undirbúning umsókna til nýsköpunar- og rannsóknaverkefna hjá samkeppnissjóðum, upplýsingar og leiðsögn við fyrstu skref nýsköpunarverkefna og séu ráðgefandi við hugmyndir að nýsköpunarverkefnum meðal annars.

Verkefnasjóður fyrir nýsköpun.
    Í greinargerð frumvarpsins segir að gert sé ráð fyrir að settur verði á fót verkefnasjóður fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshlutanna og hann tengdur við næstu byggðaáætlun. Þessi verkefnasjóður verður viðbót við þau verkefni og framlög sem nú eru til staðar á vegum sóknaráætlana landshlutanna.
    Í umsögnum og hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina kom almennt fram það sjónarmið að betur færi á að geta verkefnasjóðs sérstaklega í efni frumvarpsins, til að gert sé skýrt hvort, hvenær, til hvaða verkefna og hversu mikið fjármagn fer til slíks sjóðs auk þess sem skýrt verði hvernig fjármögnun hans sé háttað. Sveitarfélög og landshlutasamtök leggja áherslu á að umsýsla verði sem næst landsbyggðinni. Skiptar skoðanir voru um hvort nýta ætti þann ramma sem fyrir er til úthlutunar, t.d. í gegnum uppbyggingarsjóði sóknaráætlana landshlutanna. Við meðferð málsins kom fram að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur þegar hrint af stað slíkum verkefnastyrkjum undir heitinu Lóa – nýsköpunarstyrkir en styrkirnir eru veittir beint af ráðherra á grundvelli heimildar ráðherra í 42. gr. laga um opinber fjármál. Styrkirnir eru veittir á grundvelli skriflegra úthlutunarreglna sem birtar eru á vef ráðuneytisins, sbr. reglugerð um styrkveitingar ráðherra, nr. 642/2018.
    Meiri hlutinn leggur því til að sérstaklega verði kveðið á um slíka verkefnastyrki í breyttri 9. gr. um stuðning við nýsköpun.

Stafrænar smiðjur (Fab labs).
    Stafrænar smiðjur eru reknar víða um land í samvinnu við framhaldsskóla, atvinnulíf og sveitarfélög sem liður í auknu samstarfi atvinnulífs og menntakerfis þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Í umsögnum og hjá fulltrúum sveitarfélaga og landshlutasamtaka sem komu fyrir nefndina var mikil áhersla lögð á að umgjörð um starfrænar smiðjur yrði styrkt og ákvæði þar um fært í texta sjálfs frumvarpsins. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að stafrænar smiðjur muni áfram njóta faglegrar forystu frá Fab Lab Íslandi sem er tengiliður við Fab Foundation við MIT.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að styrkja umgjörð um stafrænar smiðjur og bendir á að samningar um rekstur stafrænna smiðja falli einnig undir heimild ráðherra til að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn minnir jafnframt á að það er ekki eingöngu á hendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að semja um rekstur stafrænna smiðja, enda er um að ræða verkefni sem unnið er í samstarfi við bæði mennta- og menningarmálaráðuneytið og fulltrúa viðkomandi svæðis. Að þessu sögðu leggur meiri hlutinn til að aukið verði við ákvæði 9. gr. frumvarpsins heimild ráðherra til að semja um rekstur stafrænna smiðja.

Tæknisetur og landsbyggðin.
    Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að í stjórn félags um tæknisetur sitji þrír til fimm einstaklingar. Í umsögnum um málið og hjá gestum sem komu fyrir nefndina var lögð áhersla á að tryggja aðkomu landsbyggðarinnar, bæði að stjórn félagsins og einnig aðgengi landsbyggðar að aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að skýrt sé að tæknisetrið muni þjóna öllu landinu og aðkoma landsbyggðar verði tryggð í stofnsamþykktum félagsins. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að í stjórn sitji fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, háskólasamfélags á landsbyggðinni, atvinnulífs og frumkvöðla. Stjórnina skipi því fimm einstaklingar hið minnsta og leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.
    Þá ræddi nefndin hvort ástæða væri til að bæta við frumvarpið bráðabirgðaákvæði til tveggja ára um að fulltrúaráð hittist tvisvar á ári, stjórn til ráðgjafar. Ráðherra gæti þá gefið Alþingi skýrslu og framhaldið síðan metið. Ákveðið var að hverfa frá þeirri hugmynd að skipa fulltrúaráð. Slíkt væri of kostnaðarsamt fyrir félag sem í upphafi starfsemi mun aðeins velta um 200-300 millj. kr. árlega og hafi á um annan tug starfsmanna.
    Meiri hlutinn leggur þess í stað til að aukið verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að unnin verði greining á starfsemi félagsins þegar það hefur starfað í tvö ár og að þá gefi ráðherra Alþingi skýrslu um starfsemi tækniseturs. Í kjölfarið skuli meta þörf fyrir sérstakt fulltrúaráð sem sé stjórn félagsins til ráðgjafar.

Byggingar- og mannvirkjarannsóknir.
    Með b-lið 3. tölul. 11. gr. frumvarpsins er lagt til að komið verði á sérstökum samkeppnissjóði um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Hlutverk sjóðsins er að styrkja byggingarrannsóknir með áherslu á nýsköpun og samfélagslegar áskoranir á sviði mannvirkjagerðar hverju sinni. Umsýsla verður hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem heyrir undir félagsmálaráðherra.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að fjölþættar byggingarrannsóknir hafa farið fram hér á landi, allt frá ýmiss konar rannsóknum sem varða byggingarefni, t.d. þróun steinsteypu, og byggingareðlisfræði til viðamikilla rannsókna á alkalískemmdum í steinsteypu, húsamyglu og veðrunarþoli byggingarhluta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að rjúfa ekki samfellu í þessum rannsóknum. Þær hafa m.a. farið fram á Iðntæknistofnun, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins, hjá verkfræðistofum og í tveimur stærstu háskólum landsins. Í allmörg ár var hluti rannsóknanna vistaður hjá NMÍ í Keldnaholti og þar er sérhæfð aðstaða til sumra rannsóknarþátta. Nú þegar NMÍ hættir starfsemi leggur meiri hlutinn áherslu á að endurskoða þurfi vistun, samstarf og fjármögnunarleiðir slíkra grunnrannsókna sem meiri hlutinn telur ekki falla undir gildissvið hins nýja samkeppnissjóðs. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á frumvarpinu sem fela í sér að lögð er áhersla á að rannsóknirnar fari óslitið fram til ársloka 2022 innan vébanda nýs tækniseturs, í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, og að gerðir verði samningar milli þessara aðila um framkvæmd og fjármögnun skilgreindra verkefna. Tæknileg aðstaða sem er fyrir hendi verði nýtt eins og unnt er og þær rannsóknir sem nú standa yfir verði í forgangi. Á fyrrgreindu tímabili verði unnið að því að endurskipuleggja rannsóknastarfsemina hvað varðar fyrirkomulag, starfshætti og fjármögnun með það að markmiði að tryggja samfélagslegan og vísindalegan ávinning af henni.
    Á meðan málið var til meðferðar fyrir nefndinni undirrituðu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fyrir hönd hins óstofnaða félags, rektor Háskóla Íslands og rektor Háskólans í Reykjavík viljayfirlýsingu um samstarf tækniseturs og háskólanna sem felur m.a. í sér að háskólarnir leggi þann búnað sem þeir eiga hlut í með forvera tækniseturs, NMÍ, inn í tæknisetur. Að auki munu aðilarnir sameinast um sýn og mögulegar umsóknir í Innviðasjóð og aðra styrktarsjóði eftir því sem við á, í þeim tilgangi að styrkja tæknilega innviði sem henta bæði grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum hér á landi.
    Meiri hlutinn leggur til að aukið verði við frumvarpið bráðabirgðaákvæði er veiti ráðherra heimild til að semja við hið nýja félag um að hafa umsjón með langtíma, sérhæfðum byggingarrannsóknum í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og nýta til þess þá aðstöðu sem fyrir hendi er nú þegar. Samhliða því verði unnið að framtíðarfyrirkomulagi byggingarrannsókna og þeim komið í það horf sem best þykir fyrir árslok 2022.

Prófanir og fræðsla í byggingariðnaði.
    Nefndin ræddi stöðu prófana í byggingariðnaði með tilliti til faggildingar en í greinargerð með frumvarpinu segir að unnið verði að því að prófanir á byggingarvörum verði framkvæmdar af faggildum aðilum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Þær prófanir sem forsendur eru til að framkvæma á markaði verða látnar einkaaðilum eftir.
    Þá er því lýst að áhersla verði lögð á að tryggja samfellu í rannsóknum og prófunum í byggingariðnaði og að lagður verði grundvöllur að nýsköpun og aðlögun byggingariðnaðarins að alþjóðlegum gæðakröfum. Aðstaða til rannsókna og prófana verður áfram í núverandi húsnæði Rannsóknastofu byggingariðnaðarins í Keldnaholti, undir hatti tækniseturs, ásamt því að áfram verður unnið með félagsmálaráðuneyti og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að varanlegu fyrirkomulagi prófana í byggingariðnaði þar sem horft verði til þess að prófanir verði framkvæmdar af faggildum aðilum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur.
    Í greinargerð frumvarpsins er jafnframt fjallað um að áfram verði unnið að fræðslu og gagnasöfnun í tengslum við mannvirkjagerð, þar á meðal útgáfu svonefndra Rb-blaða. Framhald þeirrar starfsemi verður á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og er með því stefnt að samlegðaráhrifum í fræðslu- og upplýsingamiðlun um byggingariðnaðinn.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að mikilvægt væri að koma á fót sérstakri prófunarstofu sem fari með sérhæft mat á byggingarvörum. Til að styrkja þá einingu mætti einnig færa mælifræðistarfsemi Neytendastofu, sem er faggilt starfsemi, þar undir. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að styrkja faggilta starfsemi og beinir því til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis að kanna grundvöll þess að koma á sérhæfðri prófunarstofu sem og meta samlegðaráhrif af því að færa mælifræðistarfsemi Neytendastofu þar undir.

Starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
    Með 10. gr. frumvarpsins er lagt til að fella úr gildi lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Starfsemi NMÍ hefur byggst á ákvæðum þeirra laga og með niðurfellingu laganna er lagagrundvöllur fyrir starfseminni fallinn úr gildi.
    Um starfslok almennra ríkisstarfsmanna gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (starfsmannalögin). Ákvæði um starfslok þeirra eru fyrst og fremst í IX. kafla laganna en þau fjalla um rétt aðila, starfsmanns annars vegar og forstöðumanns hins vegar, til að segja upp ráðningarsamningi. Þá eru þar ákvæði um málsmeðferð uppsagna af hálfu stofnunar.
    Ekki eru sérstakar skyldur í lögum sem gilda eiga þegar stofnun er lögð niður heldur er þar um að ræða hefðbundin starfslok samkvæmt ákvæðum starfsmannalaganna og þarf að fara fram formleg uppsögn allra starfsmanna stofnunar, ef það á við. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að þegar það hefur verið samþykkt komi til uppsagna þeirra starfsmanna stofnunarinnar sem ekki hafa verið fluttir til í starfi eða boðið hefur verið annað starf.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum kom fram að mikil áhersla er lögð á að farið verði að lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, hvað varðar starfsmenn Efnis-, líf- og orkutækni og Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og þeim boðið starf hjá nýju tæknisetri. Verði lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum talin eiga við í þessari stöðu felst í því að virða skal áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu hjá fyrri vinnuveitanda og jafnframt gildir að ekki sé heimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafi í för með sér breytingar á starfsmannahaldi.
    Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að lög um aðilaskipti skuli eiga við í þessu tilfelli og leggur áherslu á að fastráðnir starfsmenn í nefndum hluta af starfsemi NMÍ færist til tækniseturs. Nefndin leggur því til að við ákvæði til bráðabirgða III bætist ný málsgrein þar sem tilgreint er að um réttarstöðu hinna fastráðnu starfsmanna deildanna tveggja fari eftir lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Jafnframt verði kveðið á um að hið nýja félag, sbr. 2. gr. frumvarpsins, skuli bjóða öllum fastráðnum starfsmönnum framangreindra deilda starf.

Frestun gildistöku til 1. júlí 2021.
    Meiri hlutinn leggur til, að tillögu ráðuneytisins, að lögin komi til framkvæmda 1. júlí n.k. í stað 1. maí og dagsetningum í ákvæðum til bráðabirgða I, II og IV breytt til samræmis. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóður munu því starfa til og með 30. júní 2021 í samræmi við lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. mars 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson.