Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1059  —  322. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar (LRM, HSK, ÁsF, HarB, NTF).


     1.      Við 3. gr.
                  a.      Orðin „rannsóknar- og“ í 1. mgr. falli brott.
                  b.      Við 3. mgr. bætist: m.a. búnaði til byggingarrannsókna.
     2.      Orðin „þremur til“ í 1. mgr. 6. gr. falli brott.
     3.      Orðin „og 1. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. 7. gr. falli brott.
     4.      9. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Nýsköpunarstuðningur.

                      Ráðherra er heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar, svo sem samninga um rekstur stafrænna smiðja.
                      Ráðherra skal setja á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun og tryggja að ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunarverkefna sé gjaldfrjáls og aðgengileg hvar sem er á landinu, m.a. leiðsögn við umsóknarferli innan stuðningsumhverfis nýsköpunar. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd ráðgjafar um nýsköpun.
                      Ráðherra skal veita sértæka styrki, Lóu – verkefnastyrki, til eflingar nýsköpun á landsbyggðinni. Hlutverk styrkjanna er að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verðmætasköpun og atvinnulíf sem byggist á hugviti og þekkingu, á forsendum svæðanna sjálfra. Lóu – verkefnastyrkjum skal úthlutað utan höfuðborgarsvæðisins, eins og það er skilgreint í gildandi byggðakorti ESA og leiðbeinandi reglum þar um. Styrkjum má einnig úthluta til verkefna sem stuðla að uppbyggingu vistkerfis fyrir nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðlastarf.
Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd styrkveitinga, fresti til að skila umsóknum um styrki, form og skilyrði umsókna og matsnefnd vegna styrkveitinga.
     5.      Í stað orðanna „1. maí 2021“ í 1. mgr. 10. gr. og í ákvæðum til bráðabirgða I, II og IV komi: 1. júlí 2021.
     6.      Við ákvæði til bráðabirgða III bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þegar starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar verður lögð niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða I, fer um réttindi og skyldur starfsfólks Efnis-, líf- og orkutækni og Rannsóknastofu byggingariðnaðarins jafnframt eftir lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eftir því sem við á. Félag skv. 2. gr. skal bjóða öllu fastráðnu starfsfólki framangreindra deilda störf.
     7.      Við frumvarpið bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (VI.)
                      Ráðherra skal gefa Alþingi skýrslu um stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar, þróun nýsköpunarmála á landsbyggðinni, árangur sem og ásókn í hvatastyrki til nýsköpunar sem ráðuneytið úthlutar og starfsemi tækniseturs eigi síðar en tveimur árum eftir samþykkt frumvarps þessa.
                  b.      (VII.)
                      Ráðherra er heimilt að semja við félag skv. 2. gr. um að hafa umsjón með langtíma, sérhæfðum byggingarrannsóknum í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og nýta til þess þá aðstöðu sem fyrir hendi er. Samhliða verði unnið að framtíðarfyrirkomulagi byggingarrannsókna í landinu og þeim komið í það horf sem best þykir henta fyrir árslok 2022.