Ferill 612. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1060  —  612. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.


Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa markvissar aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis í þeim tilgangi að draga úr hamfarahlýnun, auka dýravelferð, stuðla að ábyrgari auðlindanýtingu, minnka kolefnisspor matvæla og bæta heilsufar fólks. Forsætisráðherra skipi nefnd með helstu fag- og hagsmunaaðilum sem hafi þetta hlutverk og nefndin skili tillögum sínum sex mánuðum síðar.

Greinargerð.

    Hið opinbera hefur margs konar skyldum að gegna þegar kemur að framboði og eftirspurn eftir matvælum. Stjórnvöld styrkja ýmsa matvælaframleiðslu með beinum og óbeinum hætti m.a. með búvörusamningum en þau gegna einnig veigamiklu hlutverki í fræðslu um neyslu matvæla, bættu heilsufari og lýðheilsu.
    Þá standa stjórnvöld einnig fyrir margs konar innkaupum á fæði, svo sem í skólum, stofnunum og fyrirtækjum. Hlutverk hins opinbera er að sinna dýravelferð og hagsmunum neytenda sem ber að hafa í huga m.a. við alla matvælaframleiðslu, vörumerkingar, tolla og vörugjöld.
    Loks gegna stjórnvöld lykilhlutverki þegar kemur að aðgerðum gegn hamfarahlýnun, loftslagsbreytingum og allri auðlindanýtingu í landinu. Þannig geta sum innflutt matvæli haft hærra kolefnisspor en ef þau væru ræktuð hér á Íslandi þótt það sé ekki algilt. Það eru ekki síst þeir þættir sem kalla á markvissar aðgerðir í þessum efnum.
    Að mati flutningsmanna helst þetta allt saman í hendur og er brýn þörf fyrir hið opinbera að skoða þessi mál heildstætt með það að markmiði auka bæði framboð og valfrelsi neytenda en einnig neyslu á grænkerafæði.

Áskorun til stjórnvalda.
    Samtök grænkera á Íslandi hafa sent frá sér áskorun til stjórnvalda um aðgerðir í þessum efnum og vilja flutningsmenn þessarar tillögu að brugðist verði við þeirri áskorun hratt og vel. Þar segir m.a.: „Lítið virðist þó vera á döfinni varðandi einn mikilvægasta þáttinn í þessu samhengi [hamfarahlýnun], þ.e. að draga úr neyslu dýraafurða. Stjórnvöld hafa ekki gefið nein skýr skilaboð frá sér varðandi þennan þátt, en landbúnaður telur 13% af losun Íslands miðað við Kýótó-bókunina en 21% af losun sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Um 50% af þessari losun landbúnaðar er metangaslosun vegna dýraeldis, en metangas er gróðurhúsalofttegund sem er 25 sinnum skaðlegri umhverfinu en koltvísýringur, en að sama skapi þeim eiginleikum gædd að hreinsast fljótar úr andrúmsloftinu en koltvísýringur.
    Börnin okkar hafa sent skýr skilaboð um að grípa þurfi til aðgerða með loftslagsverkföllum sínum á föstudögum alla síðustu skólaönn en samt býðst þeim ekki einu sinni að velja sér grænkerafæði nú þegar þau koma í skólann eftir sumarfrí.“
    Þá hafa Samtök grænkera á Íslandi einnig sent öllum sveitarfélögum landsins, ásamt leikskólum og grunnskólum áskorun um aukið framboð grænkerafæðis í skólum.

Væru kýr land …
    Næstu 30 árin fjölgar mannkyninu um 2 milljarða einstaklinga og þarf um 40–60% meiri fæðu til að mæta þeirri fjölgun.
    Í nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var talið nauðsynlegt að Vesturlandabúar færu að neyta frekar fæðu úr jurtaríkinu til þess að sporna við loftslagsbreytingum enda kjötneysla orðin of mikil.
    Þar kemur einnig fram að um 26% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda megi rekja til matvælaframleiðslu. Af losun af matvælaframleiðslu eru um 58% vegna dýraafurða.
    Væru kýr land væru þær í þriðja sæti yfir mestu framleiðendur gróðurhúsalofttegunda samkvæmt The Economist.
    Eigi að ná loftslagsmarkmiðum er því nauðsynlegt að draga úr neyslu dýraafurða, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Það hefur aukist að fólk tileinki sér grænmetis- og grænkeramataræði en sums staðar eykst kjötneysla. Sem dæmi eykst eftirspurn eftir nautakjöti sífellt í Kína.
    Í skýrslunni kemur einnig fram að verði land nýtt á áhrifaríkari hátt geti það geymt meira af því kolefni sem mannkynið losar út í andrúmsloftið.
    Gríðarleg notkun á vatni fylgir iðulega kjötframleiðslu ásamt mikilli landnýtingu og eyðingu skóga og náttúrulegs umhverfis. Ábyrgari auðlindanýting, þar á meðal á vatni og landi, er því stór hluti af nauðsynlegri neyslubreytingu mannkyns.
    Þá er matarsóun stór hluti af kolefnislosun, um 8–10% allrar losunar á heimsvísu. Samhliða því að draga úr neyslu á dýraafurðum þarf að taka á matarsóun og finna leiðir til að nýta það sem fellur til.

Innlend grænmetisframleiðsla.
    Vegna landfræðilegrar stöðu landsins þarf undantekningarlaust að flytja innflutt matvæli nokkuð langa leið sem þýðir að kolefnisspor innfluttra matvæla er stórt í mörgum tilvikum. Það er því kjörið tækifæri að minnka það kolefnisspor með því að auka innlenda framleiðslu grænkerafæðis þar sem það á við.
    Sömuleiðis má leiða að því líkur að kolefnisfótspor innlendrar ræktunar sé einnig minna þar sem mögulegt er að nýta græna orku og jarðvarma til ræktunar. Með ræktun fjölbreyttari íslenskra afurða í meira magni en áður gefst tækifæri á Íslandi til að minnka kolefnisspor umtalsvert og vera sjálfbærari í matvælaframleiðslu.
    Í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um fæðuöryggi sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kemur fram að innlend framleiðsla hefur ekki verið nægjanlega mikil fyrir íslenskan markað og nær aðeins um 43% hlutdeild af markaði grænmetis. Ýmis atriði takmarka aukna framleiðslu, helst hátt raforkuverð og hár launakostnaður.
    Mikilvægt er að taka tillit til þessa og leita leiða til að styðja við rekstrargrundvöll íslenskra garðyrkjufyrirtækja, m.a. með því að leitast við að lækka raforkukostnað til framleiðslu matvæla, tryggja aðgengi að heitu vatni, lækka tolla á innflutt aðföng og rekstrarvörur og auka lánafyrirgreiðslu.
    Þannig mætti bæta aðgengi að heilnæmu íslensku grænmeti og ávöxtum, samhliða því að auka fæðuöryggi og lækka kolefnisspor þeirra matvæla sem neytt er hér á landi.
    Flutningsmenn telja því mikilvægt að búvörusamningar framtíðarinnar taki mun meira mið af framleiðslu grænkerafæðis af öllu tagi en nú er gert.

Fleiri rök með grænkerafæði.
    Ýmislegt annað en aðgerðir gegn hamfarahlýnun og bætt nýting auðlinda mælir með aukinni neyslu á grænkerafæði. Má þar nefna heilsufarsástæður enda er aukin neysla grænmetis og ávaxta talin stuðla að bættri heilsu. Aukin grænmetisneysla og minni neysla af unnum kjötvörum getur komið í veg fyrir ýmsa lífsstílsjúkdóma og neysla á sjávarafurðum samhliða auknu grænkerafæði er æskileg að mati flutningsmanna.
    Þá eru siðferðisrök týnd til, ekki síst í ljósi dýravelferðar, en aðbúnaðar húsdýra getur verið skelfilegur, fyrir utan hina gegndarlausu ræktun þessara dýra. Flutningsmenn leggja ríka áherslu á aukna dýravernd og telja mikilvægt að sá þáttur verði hluti af umræðunni um umhverfismál.
    Efnahagsleg rök geta einnig verið fyrir aukinni neyslu á grænkerafæði, bæði fyrir hið opinbera og fyrir einstaklinga.
    Þótt flutningsmenn vilji leggja áherslu á aukna neyslu á grænkerafæði leggja þeir áherslu á að almenningur njóti að sjálfsögðu valfrelsis þegar kemur að neyslu matvæla.

Skilgreiningar landlæknis á grænkerafæði og jurtafæði.
    Grænkerafæði inniheldur engar dýraafurðir og samanstendur almennt séð af baunum, korni, ávöxtum, berjum, grænmeti, hnetum, fræjum og sjávarplöntum. Það inniheldur sáralitla harða fitu og ekkert kólesteról.
    Til upplýsingar má vísa hér í umfjöllun landlæknis um grænkerafæði og jurtafæði:
    „Vinsældir jurtafæðis hafa aukist að undanförnu og er það af ýmsum ástæðum t.d. umhverfis- og heilsufarsástæðum eða vegna dýravelferðar. Hollt mataræði og umhverfissjónarmið haldast í hendur og hefur hugtakið „ sjálfbært mataræði“ ( e. Sustainable diets) verið að hasla sér völl síðustu árin. Þetta felur í sér að opinberar ráðleggingar um mataræði taki ekki eingöngu mið af hollustu heldur einnig atriðum eins og kolefnisspori matvæla. Það er heilsufarslegur ávinningur af því að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum, ertum, baunum og öðrum mat úr jurtaríkinu. Þessi heilsufarslegi ávinningur af því að neyta jurtafæðis á einnig við um þá sem borða samkvæmt opinberum ráðleggingum um mataræði, þ.e. að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu án þess þó að útiloka fæði úr dýraríkinu. Það er ávallt mikilvægt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi, einnig fyrir þá sem neyta jurtafæðis.
    Nokkur mismunandi stig eru af jurtafæði eftir því hversu langt er gengið í að útiloka mat úr dýraríkinu en sameiginlegt er öllum tegundunum að grunnurinn í mataræðinu er matur úr jurtaríkinu. …
    Jurtafæði er yfirleitt flokkað í:
          Grænkerafæði ( e. Vegan) sem er eingöngu jurtafæði þá er allt úr dýraríkinu útilokað það er að segja kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur.
          Jurtafæði með eggjum ( e. Ovo vegetarian).
          Jurtafæði með mjólkurvörum ( e. Lacto vegetarian).
          Jurtafæði með mjólkurvörum og eggjum ( e. Lacto-ovo vegetarian).
          Jurtafæði með fiski ( e. Pescetarian), þá er auk jurtafæðis borðaður fiskur og sjávarafurðir og oft einnig mjólkurvörur og egg.
          Aðallega jurtafæði ( e. Flexitarian), þá er aðallega borðað jurtafæði en af og til dýraafurðir.
    Að lokum má nefna sjálfbært mataræði ( e. Sustainable diets) þar sem mikið er neytt af jurtafæði en einnig eitthvað úr dýraríkinu, kjöt, egg, fiskur og mjólkurvörur þó þetta flokkist e.t.v. ekki sem jurtafæði.“

Loftslagsmál, dýravelferð og heilsufar.
    Flutningsmenn vilja að lokum leggja áherslu á að þótt neytendur hafi valfrelsi þegar kemur að neyslu matvæla þá er hlutverk hins opinbera mikilvægt í þessum efnum. Aukin neysla grænkerafæðis hefur ýmsa kosti í för með sér og svarar kalli nútímans hvort sem litið er til loftslagsmála, dýravelferðar eða heilsufars.