Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1065  —  613. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum (skyldur flugrekenda vegna COVID-19).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, er ráðherra heimilt að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðanda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð, sem hér segir:
     a.      Skyldu til að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 (SARS-CoV2), vottorð um að COVID-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 (SARS-CoV2) áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.
     b.      Skyldu til að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið.
     c.      Skyldu til að flytja farþega til baka til brottfararstaðar geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið við komu til landsins.
    Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssekt á einstakling eða lögaðila fyrir brot gegn 1. mgr. og reglugerð sem sett er á grundvelli 1. mgr. Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 1. mgr. og reglugerð settri á grundvelli 1. mgr. óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekið fyrirsvarsfólk lögaðilans, starfsfólk hans eða annan aðila sem starfar á vegum hans. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 100 þús. kr. til 500 þús. kr. fyrir einstök brot vegna sérhvers farþega.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt má skjóta til ráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum. Ber Samgöngustofu að leiðbeina aðila um rétt til kæru. Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á stjórnvaldssekt eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför og er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.
    Heimild Samgöngustofu til að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæði þessu fellur brott þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur rofnar þegar Samgöngustofa tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.
    Ítrekuð eða stórfelld brot gegn 1. mgr. og reglugerð sem sett er á grundvelli 1. mgr. varða refsingu skv. 1. mgr. 141. gr. Gera má lögaðila sekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir slík brot. Brot samkvæmt ákvæði þessu sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Samgöngustofu.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2022.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram með vísan þess ástands sem nú ríkir vegna COVID-19 (SARS-CoV-2) og þeirra sóttvarnaráðstafana sem þegar hefur verið gripið til og til stendur að grípa til. Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 16. mars 2021 var samþykkt tillaga dómsmálaráðherra um að breyta ákvæðum reglugerðar um för yfir landamæri, nr. 866/2017, þannig að almennt bann við tilefnislausum ferðum ríkisborgara þriðju ríkja yfir ytri landamæri nái ekki til einstaklinga með fullnægjandi bólusetningarvottorð. Í sömu reglugerðarbreytingu verður einnig kveðið á um skyldu ferðamanna til að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf við komu til landsins. Þá eru einnig ráðgerðar breytingar á eftirliti á innri landamærum í ljósi framangreindra breytinga. Samhliða hefur 6. gr. reglugerðar nr. 161/2021, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, verið breytt þannig að ákvæðið taki til allra bólusetningar- og mótefnavottorða sem gefin eru út í samræmi við reglur WHO um alþjóðleg bólusetningarskírteini án tillits til þess frá hvaða ríkjum þau stafi, að því gefnu að þau uppfylli að öðru leyti efnisskilyrði ákvæðisins, sbr. reglugerð nr. 286/2021. Einnig tiltekur sama reglugerð að sama gildi um bólusetningarvottorð sem vottar um bólusetningu með bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur mælst til að fái markaðsleyfi og sem uppfyllir leiðbeiningar sóttvarnalæknis.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sérstök heimild sem ætlað er að gildi til bráðabirgða til að tryggja fullnægjandi lagastoð svo að ráðherra geti, ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, kveðið á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðanda loftfars og kannað hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 (SARS-CoV2), vottorð um að COVID-19 sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 (SARS-CoV2) áður en farið er um borð í loftfar.
    Sambærilegt ákvæði til bráðabirgða og hér er lagt til að verði lögfest er nú þegar hluti af frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftferðir sem lagt hefur verið fram (sjá ákvæði til bráðabirgða í þskj. 994, 586. mál á yfirstandandi löggjafarþingi). Verði frumvarp þetta að lögum er samhliða ráðgert að ákvæðið verði fjarlægt við þinglega meðferð frumvarpsins.
    Í 1. gr. er lagt til að sett verði til bráðabirgða nýtt ákvæði sem gildi til 31. desember 2022. Samkvæmt ákvæðinu er ráðherra heimilt ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðanda loftfars í reglugerð.
    Bráðabirgðarákvæðinu er ætlað tryggja í framkvæmd þær skyldur sem lagðar eru á einstaklinga með sóttvarnalögum, nr. 19/1997, og reglugerðum settum samkvæmt þeim, þ.e. framvísun tiltekinna vottorða eða prófa á landamærum. Á grundvelli ákvæðisins getur ráðherra með reglugerð kveðið á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðanda loftfars til að tryggja sóttvarnir með könnun á forskráningu og vottorðum eða staðfestingu á vottorði gegn ónæmisaðgerð, vottorði um að COVID-19 sýking sé afstaðin eða vottorði eða staðfestingu á neikvæðu prófi gegn COVID-19 áður en farið er um borð í loftfar og úrræði ef farþegar koma að landamærum án tilskilinna vottorða eða staðfestingar. Sú skylda verður hins vegar ekki lögð á flugrekanda að kanna sannleiksgildi vottorða eða staðfestingar. Mun sú könnun fara fram á landamærum.
    Rétt er að benda á að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga um loftferðir getur ráðherra ákveðið að hve miklu leyti reglur settar samkvæmt heimild í lögum gildi utan íslensks yfirráðasvæðis. Er ráðgert að ef nýta þurfi þá heimild sem ákvæðið tiltekur þurfi gildissvið hennar einnig að ná til flugrekenda með staðfestu utan Íslands.
    Í 2. mgr. er tiltekið að uppfylli flugrekendur ekki skyldur sínar samkvæmt ákvæðinu og reglugerð settri samkvæmt því er Samgöngustofu heimilt að leggja stjórnvaldssekt á viðkomandi flugrekanda/umráðanda loftfars. Stjórnvaldssekt telst til stjórnsýsluviðurlaga, þ.e. refsikennd viðurlög sem stjórnvald leggur á einstakling eða lögaðila, og felst í skyldu til að greiða ákveðna fjárhæð til hins opinbera vegna þess að viðkomandi einstaklingur eða starfsmaður lögaðilans hefur brotið gegn ákvæðum laga, reglugerðar, stjórnvaldsákvörðunar eða fyrirmælum sem í lögum er mælt fyrir að varði stjórnvaldssektinni. Liggja hér nokkur sjónarmið að baki. Er almennt horft til þess að Samgöngustofa er í lykilaðstöðu á grundvelli eftirlits með flugrekendum/umráðendum loftfara til að sinna slíku eftirliti. Þá hafa viðurlög á borð við stjórnvaldssekt varnaðaráhrif. Brot í skilningi a-liðar 1. mgr. er talið fullframið þegar farþegi fer um borð án þess að könnun á forskráningu og vottorði eða staðfestingu á vottorði gegn ónæmisaðgerð, eða vottorði eða staðfestingu á neikvæðu prófi gegn COVID-19, hafi farið fram. Sama á við hlutist flugrekandi/umráðandi loftfars ekki til við að synja farþega um flutning sem ekki framvísar tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið 1. mgr. eða gerir ekki ráðstafanir til að flytja af landi brott farþega skv. c-lið 1. mgr.
    Í 6. mgr. ákvæðisins er lagt til að ítrekuð og stórfelld brot geti varðað refsingu, þ.e. sektum eða fangelsi skv. 1. mgr. 141. gr. Aðeins yrði þó hlutast til um rannsókn slíkra brota að kæra kæmi frá Samgöngustofu til lögreglu.