Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1069  —  614. mál.
Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Söru Elísu Þórðardóttur, Jóni Þór Ólafssyni og Ingu Sæland.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu. Skýrslan verði unnin af óháðum sérfræðingum.
    Í skýrslunni verði fjallað um:
     .      Hversu mikið lífeyrissjóðir geti átt af skuldum ríkissjóðs án þess að hætta verði á að söfnunarkerfi lífeyrisréttinda breytist í raun í gegnumstreymiskerfi.
     .      Hversu stórt hlutfall af eignum lífeyrissjóða er nauðsynlegt að festa erlendis með tilliti til eðlilegrar áhættudreifingar og með tilliti til greiðslujafnaðar þegar greiðsla lífeyris eykst.
     .      Hversu stóran hlut lífeyrissjóðir geti átt á íslenskum hlutabréfamarkaði án þess að raska samkeppni.
     .      Hver áhrif eðlilegrar áhættudreifingar lífeyrissjóða erlendis kunni að hafa á gengi krónunnar.
     .      Að hvaða marki fjárfesting lífeyrissparnaðar erlendis er forsenda fyrir útflutningsdrifnum hagvexti, efnahagslegum stöðugleika og myndun þjóðhagslegs sparnaðar.
     .      Hvaða áhrif upptaka evru hefði á stöðu lífeyrissjóða.

Greinargerð.

    Seðlabankinn hefur að undanförnu þrýst mjög á lífeyrissjóði að kaupa ríkisskuldabréf til þess að fjármagna þann gífurlega halla sem ríkissjóður þarf að fjármagna vegna kórónuveirukreppunnar. Þá hefur Samkeppniseftirlitið varað við því að lífeyrissjóðir fjárfesti frekar í bönkum og vakið athygli á háu eignarhlutfalli þeirra á innlendum hlutabréfamarkaði.
    Í bók Ásgeirs Jónssonar, núverandi seðlabankastjóra, og Hersis Sigurgeirssonar, núverandi ráðgjafa seðlabankastjóra, Áhættudreifing eða einangrun? Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga (2014), segir að rannsóknir þeirra sýni að nauðsynlegt sé að lífeyrissjóðir ávaxti að minnsta kosti fjörutíu til fimmtíu prósent eigna sinna erlendis.
    Þessi sjónarmið kalla öll á ítarlegt mat á stöðu lífeyrissjóða á fjármálamarkaði og eðlilega áhættudreifingu þeirra. Mikilvægt er að veikja ekki söfnunarkerfi lífeyrisréttinda og viðhalda fullu trausti launafólks á að þeir geti staðið undir framtíðarskuldbindingum í jafngildum verðmætum og iðgjöldum hvers tíma.
    Í þessu sambandi þarf einnig að skoða samanburð við aðrar leiðir eins og upptöku evru eða samninga um fasttengingu krónunnar við hana.