Ferill 615. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1070  —  615. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um lántökur ríkissjóðs á næstu árum, líklega vaxtaþróun og gengisáhættu og áhrif á peningahagkerfið.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Söru Elísu Þórðardóttur, Jóni Þór Ólafssyni og Ingu Sæland.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um væntanlegar lántökur ríkissjóðs á næstu árum, líklega vaxtaþróun og gengisáhættu og áhrif á peningahagkerfið. Skýrslan verði unnin af óháðum sérfræðingum.
    Í skýrslunni verði:
     .      lagt mat á fjármagnskostnað og gengisáhættu í samanburði við líklegan hagvöxt,
     .      metnir möguleikar á endurgreiðslum lána án þess að grípa þurfi til skattahækkana eða niðurskurðar á útgjöldum ríkissjóðs,
     .      gerð grein fyrir svigrúmi Seðlabankans til að greiða fyrir lántöku ríkissjóðs með peningaprentun,
     .      lagt mat á að hve miklu leyti unnt er að draga krónur úr hagkerfinu með sölu á gjaldeyri samtímis því að fjölga þeim með peningaprentun,
     .      gerð grein fyrir hvaða áhrif erlend lán eru líkleg til að hafa á gengi krónunnar við töku lána og síðan endurgreiðslu þeirra,
     .      gerður samanburður á ríkjandi aðstæðum og þeim möguleikum sem aðild að evru eða samkomulag við Evrópusambandið um gengisstöðugleika á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gæti skapað.

Greinargerð.

    Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann myndi með prentun peninga styðja ríkið við að fjármagna halla sem mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum vegna kórónuveirufaraldursins hafa skapað. Þessi stefna bankans er í samræmi við aðgerðir seðlabanka víðs vegar um heim. Lítið hefur þó farið fyrir því að bankinn efni þessi loforð. Vissulega rýmkaði bankinn svigrúm viðskiptabanka til lánveitinga á síðasta ári og stuðlaði að lækkun vaxta. Sú aðgerð hefur þó fyrst og fremst leitt af sér endurfjármögnun heimilanna á húsnæðislánum og aukna lántöku heimila til húsnæðiskaupa, en ekki til aukinna lánveitinga til illra stadda fyrirtækja í ferðaþjónustu. Enda þótt uppgangur á fasteignamarkaði styðji við byggingageirann kemur það eitt og sér ekki í staðinn fyrir aðgerðir ríkisins. Aukin umsvif viðskiptabankanna í fjármögnun fasteignalána hafa síðan leitt til þess að lífeyrissjóðirnir hafa að hluta glatað þeim valkosti í ávöxtun sjóðanna.
    Í haust lýsti Seðlabankinn því yfir, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, að geta hans til þess að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs sé takmörkuð vegna þess að prentun peninga leiði til halla á viðskiptum við útlönd, sem annaðhvort leiði til rýrnunar gjaldeyrisvaraforðans eða falls krónunnar. Í þessu felast þau skilaboð að bankinn muni ekki fjármagna lántökur ríkisins með prentun peninga. Þetta eru afar slæmar fréttir. Þær benda til þess að svigrúm íslenskra stjórnvalda til þess að halda uppi atvinnustigi sé mun takmarkaðra en stjórnvalda nágrannalandanna.
    Tvær leiðir eru færar fyrir ríkið, að leita annarra fjárfesta innan lands eða ráðast í erlenda lántöku. Báðir kostirnir eru varasamir. Stærstu aðilarnir á innlenda markaðinum eru lífeyrissjóðirnir, sem þegar eiga mikið af ríkisskuldabréfum. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru söfnunarsjóðir sem eiga að leggja áherslu á dreifða fjárfestingu til að tryggja hagsmuni sjóðfélaga, fyrst og fremst. Ef lífeyrissjóðirnir eiga að fjármagna halla ríkisins verður stigið stórt skref frá eiginlegu uppsöfnunarkerfi í átt til gegnumstreymiskerfis. Söfnunarsjóður sem einungis fjárfestir í ríkisskuldabréfum er í raun gegnumstreymissjóður. Lífeyrisréttindi þeirra sem eiga í slíkum sjóði ráðast alfarið af getu ríkisins til að greiða af skuldabréfunum með skatttekjum. Erlend lántaka er að því leyti varhugaverð að hún leggur ríkari kröfur á vöxt útflutningsatvinnuvega fremur en hagvöxt almennt, eigi hún ekki að leiða til gengisfalls þegar kemur að skuldadögum. Slík lántaka hefur því reynst mörgum ríkjum, þ.m.t. Íslandi, skammgóður vermir í niðursveiflum. Og ber að varast.
    Nauðsynlegt er að það liggi fyrir hverjar áætlanir stjórnvalda eru í þessu máli. Þessar áætlanir varða bæði framtíðarhorfur þjóðarinnar til skemmri og lengri tíma. Einnig er mikilvægt að bera saman aðra kosti til þess að ná fram auknum stöðugleika eins og aðild að evrópska myntbandalaginu, evrunni.