Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1095  —  11. mál.
Viðbót.

3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um það að nýju.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2022. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að fram að gildistíma verði farið frekar yfir ákvæði laga og reglugerða á málefnasviðum sem heyra undir önnur ráðuneyti og metin þörf á breytingum með hliðsjón af skiptri búsetu barns og öðrum atriðum eftir atvikum. Nefndin telur mikilvægt að efni greinargerðarinnar verði útfært í nýju ákvæði til bráðabirgða í barnalögunum. Með bráðabirgðaákvæðinu verði þannig tryggt að gerðar verði þær breytingar á lögum og reglugerðum sem leiði af lögfestingu fyrirkomulagsins um skipta búsetu áður en lögin taka gildi 1. janúar 2022. Telur nefndin að einkum sé um að ræða málefnasvið sem heyri undir félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Það leiði þó af samþykkt frumvarpsins að önnur ráðuneyti verði einnig að meta þörf á slíkum breytingum eftir því sem við á.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 31. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Skipa skal þrjá starfshópa, einn á vegum félagsmálaráðuneytis, annan á vegum heilbrigðisráðuneytis og þriðja á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem falið verði að leggja til hvernig breyta skuli lögum og reglugerðum sem heyra undir málefnasvið þeirra og meta þörf á breytingum með hliðsjón af skiptri búsetu barns og öðrum atriðum eftir atvikum. Hver starfshópur skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. október 2021. Ráðherra í hverju ráðuneyti leggi, eftir atvikum, fram frumvarp sem byggist á niðurstöðum viðkomandi starfshóps eigi síðar en 1. nóvember 2021.
     2.      Við 32. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó öðlast b-liður 31. gr. þegar gildi.

    Páll Magnússon og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 22. mars 2021.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Olga Margrét Cilia. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson, með fyrirvara.