Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1100  —  640. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis.


Flm.: Halla Signý Kristjánsdóttir, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til þess að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Markmið starfshópsins verði:
     a.      að ná utan um heildargjaldtöku af fiskeldi og undir hverju tekjunum er ætlað að standa sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga,
     b.      að tryggja sveitarfélögum, þar sem sjókvíaeldi er stundað, skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi,
     c.      að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.
    Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi skuli lokið og skýrsla kynnt Alþingi eigi síðar en í lok árs 2021.

Greinargerð.

    Fiskeldi er nýleg atvinnugrein hér á landi sem hefur byggst upp á undanförnum áratug. Talið er að ef framleiðsla fer í það magn sem burðarþolsgeta svæða sem fiskeldinu er afmarkað segir til um verði útflutningsverðmætið nær 65 milljörðum kr. Fjárfesting upp á tugi milljarða króna liggur í greininni og frekari fjárfesting bíður eftir frekari leyfum til rekstrar. Munar þar mest um útflutning á eldislaxi en verðmæti hans í útflutningi jókst um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á árinu. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Þessi grein hefur farið hratt vaxandi á undanförnum áratug og má eiga von á að þessi atvinnugrein skili tuga milljarða króna verðmætum í þjóðarbúið. Innviðir þurfa að vera fyrir hendi sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt greinarinnar og sem mestan ávinning af henni.
    Árið 2004 var tekin ákvörðun af stjórnvöldum um að sjókvíaeldi yrði einungis leyft á hluta Austfjarða, Vestfjörðum og í Eyjafirði. Sú ákvörðun byggðist á því að vernda þyrfti ár þar sem stundaðar væru veiðar á villtum laxastofni landsins. Frá því að þessi ákvörðun var tekin hefur verið mikil uppbygging í sveitarfélögum á Vestfjörðum og Austfjörðum sem hýsa þessa starfsemi. Sveitarfélögin hafa unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla.
    Sveitarfélögin njóta þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist því að hlutfallsleg fjölgun yngra fólks hefur orðið í umræddum sveitarfélögum. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir til sveitarfélaga svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu.
    Á vordögum 2019 voru samþykkt lög nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Þar er gert ráð fyrir að þriðjungur tekna af gjaldtöku af fiskeldi renni á komandi árum í fiskeldissjóð sem sveitarfélög geta sótt í til innviðauppbyggingar. Ljóst má vera að það dugar þó skammt fyrir innviðauppbyggingu sem sveitarfélög þurfa að ráðast í svo að koma megi til móts við vaxandi þörf vegna aukinna umsvifa fiskeldis. Lítil vissa er hjá sveitarfélögum um hve mikilla tekna er að vænta þar sem sveitarfélögin sækja um hvert fyrir sig í sjóðinn og örðugt að áætla tekjur fram í tímann.
    Þar sem hér er um að ræða nýja og stóra atvinnugrein er brýn þörf á að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtökunnar í heild og sérstaklega það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tryggja þarf að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð.