Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1103  —  641. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að gera almennum fjárfestum kleift að skilja og bera saman helstu eiginleika pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða og meðfylgjandi áhættu.

2. gr.

Lögfesting.

    Ákvæði eftirfarandi reglugerða, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020 sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:
     1.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta.
     2.      Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2340/2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta.

3. gr.

Eftirlit og upplýsingagjöf.

    Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Um eftirlitið og upplýsingagjöf innlendra aðila fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

4. gr.

Almennar íhlutunarheimildir.

    Að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014 er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna eða takmarka:
     a.      markaðssetningu, dreifingu eða sölu vátryggingatengdra fjárfestingarafurða, vátryggingatengdra fjárfestingarafurða með tiltekna, tilgreinda eiginleika eða
     b.      tiltekna tegund fjármálastarfsemi eða framkvæmd vátrygginga- eða endurtryggingafélags.
    Fjármálaeftirlitinu ber að lágmarki mánuði áður en ráðstöfun skv. 1. mgr. er ætlað að taka gildi að greina öllum viðkomandi lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni frá fyrirætlunum sínum til samræmis við 3. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.
    Að uppfylltum skilyrðum 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014 er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til ráðstafana skv. 1. mgr. með minnst sólarhrings skriflegum fyrirvara til handa öllum öðrum viðkomandi lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni.
    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum tilkynningu um allar ákvarðanir skv. 1. mgr. þar sem fram koma upplýsingar um bann eða takmörkun, hvenær ráðstafanirnar taka gildi eftir birtingu tilkynningarinnar og þau gögn sem það byggir ákvörðun sína á.

5. gr.

Aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og dóma EFTA-dómstólsins.

    Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.

6. gr.

Úrbótakrafa vegna brots.

    Komi í ljós að ákvæðum laga þessara sé ekki fylgt skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

7. gr.

Bann við afhendingu lykilupplýsingaskjals.

    Ef lykilupplýsingaskjal er ekki í samræmi við 6., 7., 8. eða 10. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014, og stjórnvaldsfyrirmæli sett með stoð í þeim, getur Fjármálaeftirlitið bannað hvers konar miðlun á skjalinu og krafist þess að endurbætt lykilupplýsingaskjal verði gefið út.

8. gr.

Bann við markaðssetningu.

    Vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr., 1.–3. mgr. 8. gr., 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 1., 3. og 4. mgr. 13. gr., 14. gr. eða 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014, og stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna eða stöðva tímabundið markaðssetningu á pakkaðri og vátryggingatengdri fjárfestingarafurð fyrir almenna fjárfesta.

9. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirfarandi ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 og stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í lögum þessum:
     1.      1. mgr. 5. gr. um skyldu til að semja lykilupplýsingaskjal.
     2.      6. gr., 7. gr. og 1.–3. mgr. 8. gr. um form og efni lykilupplýsingaskjals.
     3.      9. gr. um markaðsefni.
     4.      1. mgr. 10. gr. um endurskoðun upplýsinga í lykilupplýsingaskjali.
     5.      1., 3. og 4. mgr. 13. gr. og 14. gr. um afhendingu lykilupplýsingaskjals.
     6.      19. gr. um viðeigandi verkferla og ráðstafanir vegna kvartana.
    Þá getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssekt á hvern þann sem hlítir ekki ráðstöfun eftirlitsins skv. 4. gr. laga þessara eða fer ekki að kröfum þess um samstarf við rannsókn í tengslum við eftirlit eða beiðni um upplýsingar skv. 2. mgr. 3. gr laganna.
    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 110 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. eða allt að 3% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða allt að 3% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Þrátt fyrir 3. mgr. er heimilt að ákvarða lögaðila eða einstaklingi stjórnvaldssekt allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti eða tapi sem forðað er með broti.
    Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

10. gr.

Ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga og annarra ráðstafana.

    Við ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga, þar á meðal fjárhæð stjórnvaldssekta, og annarra ráðstafana vegna brots skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi eftir því sem við á:
     1.      alvarleika brots og tímalengdar brotsins,
     2.      ábyrgðar hins brotlega einstaklings eða lögaðila,
     3.      fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarveltu lögaðila eða árstekjum eða hreinni eign hins brotlegs einstaklings,
     4.      þýðingar ávinnings eða taps sem forðað var með broti fyrir hinn brotlega,
     5.      áhrifa brotsins á hagsmuni almennra fjárfesta,
     6.      samstarfsvilja hins brotlega,
     7.      fyrri brota hins brotlega, og
     8.      ráðstafana sem hinn brotlegi grípur til eftir brotið til að koma í veg fyrir að brotið verði endurtekið.
    Stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum vegna brots verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að aðili sem gerst hefur brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra sendi hlutaðeigandi almennum fjárfestum tilkynningu þar sem þeir eru upplýstir um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og hvar þeir geti lagt fram kvartanir eða kröfu um úrlausn deilumála.

11. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
    Seðlabanki Íslands setur reglur um framkvæmd 1. mgr., svo sem um inntak sáttar, ákvörðun sektarfjárhæðar og málsmeðferð.

12. gr.

Réttur grunaðs manns.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með stjórnsýsluviðurlögum hefur sá, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

13. gr.

Frestur til að beita stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum vegna brota samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum þeim sem staðið hafa að broti.

14. gr.

Birting ákvarðana.

    Fjármálaeftirlitið skal birta ákvarðanir um ráðstafanir vegna brota samkvæmt lögum þessum til samræmis við 29. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.

15. gr.

Tilkynningar um brot í starfsemi fyrirtækis.

    Fyrirtæki sem framleiða pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta skulu hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna sinna um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögunum. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
    Starfsmaður sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

16. gr.

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi fyrirtækis.

    Starfsmaður sem tekur við tilkynningum skv. 15. gr. og sér um vinnslu þeirra er bundinn þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
    Eftirlitsskyldir aðilar skulu vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum gegn því að hann sæti misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Ef fyrirtæki brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi milli starfsmanns og fyrirtækis.

17. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um þau atriði sem koma fram í eftirfarandi greinum hennar:
     1.      4. mgr. 8. gr. um verkferla sem notaðir eru til að ákvarða hvort pökkuð og vátryggingatengd fjárfestingarafurð beinist að tilteknum umhverfislegum eða félagslegum markmiðum.
     2.      8. mgr. 16. gr. og 7. mgr. 17. gr. um íhlutunarheimildir Fjármálaeftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um þau atriði sem koma fram í eftirfarandi greinum hennar:
     1.      5. mgr. 8. gr. um framsetningu og efni lykilupplýsingaskjals.
     2.      2. mgr. 10. gr. um endurskoðun upplýsinga í lykilupplýsingaskjali.
     3.      5. mgr. 13. gr. um miðlun lykilupplýsingaskjals.

18. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

19. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997:
    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilar skv. 3.–5. mgr. 8. gr. sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla skulu útbúa lykilupplýsingaskjal í samræmi við II. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sbr. lög um um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Tilgangur með framlagningu þess er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIPs-reglugerðin), sjá fylgiskjal I. Reglugerðin gekk í gildi innan Evrópusambandsins 1. janúar 2018 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020, frá 30. apríl 2020. Þar sem ákvörðunin hefur ekki verið birt í EES-viðbæti stjórnartíðinda ESB fylgir óopinber þýðing hennar frumvarpinu sem fylgiskjal III.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Almennir fjárfestar hafa kost á að fjárfesta í ýmsum fjölbreyttum pökkuðum og vátryggingatengdum fjárfestingarafurðum (e. packaged retail and insurance-based investment products (PRIIPs)). Oft og tíðum eru þessar afurðir flóknar og torskildar og sveiflast virði þeirra mikið þar sem þær eru háðar virði undirliggjandi eigna og markaðsaðstæðum. Upplýsingagjöf til almennra fjárfesta um slíkar afurðir hefur ekki verið samræmd og hefur almennum fjárfestum því reynst erfitt að bera saman ólíkar afurðir eða skilja séreinkenni þeirra. Það hefur leitt til þess að almennir fjárfestar hafa oft fjárfest í afurðum án þess að skilja meðfylgjandi áhættu og kostnað, sem í sumum tilvikum hefur leitt til ófyrirséðs taps. Mismunandi aðferðir við upplýsingagjöf í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins voru taldar raska samkeppni og leiða til ójafnrar fjárfestaverndar á innri markaðnum. Því var talið nauðsynlegt að koma á samræmdum reglum um upplýsingagjöf vegna pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Evrópusambandið gaf út PRIIPs-reglugerðina í nóvember 2014 í því skyni að koma á samræmdum evrópskum ramma um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarvörur fyrir almenna fjárfesta. Með reglugerðinni er lögð sú skylda á herðar þeim sem veita ráðgjöf um eða selja pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarvörur fyrir almenna fjárfesta að semja og gera almennum fjárfestum aðgengilegt lykilupplýsingaskjal (e. Key Information Document (KID)). Markmiðið er að auðvelda almennum fjárfestum að bera saman lykilupplýsingar ólíkra vara og skilja séreinkenni þeirra, meðfylgjandi áhættu og kostnað.
    Íslandi ber skv. a-lið 7. gr. EES-samningsins að taka gerðir sem samsvara reglugerðum Evrópusambandsins og eru teknar upp í EES-samninginn sem slíkar upp í landsrétt. Í frumvarpi þessu er lagt til að PRIIPs-reglugerðin verði tekin upp í íslenskan rétt með svokallaðri tilvísunaraðferð og þá að fullu innleidd samkvæmt orðanna hljóðan í samræmi við a-lið 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Gert er ráð fyrir að undirgerðir PRIIPs-reglugerðarinnar verði teknar upp í íslenskan rétt með reglugerð ráðherra og reglum Seðlabanka Íslands.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu PRIIPs-reglugerðarinnar í íslenskan rétt með setningu nýrra heildarlaga um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta. Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um gildissvið, hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fari fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, viðurlagaákvæði, kæru til lögreglu og heimild ráðherra til að setja reglugerðir og Seðlabanka Íslands til að setja reglur.
    Samkvæmt PRIIPs-reglugerðinni eru pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta þær afurðir sem eru annað eða hvort tveggja fjárfestingar þar sem fjárhæðin, sem hinn almenni fjárfestir getur vænst, er háð sveiflum sökum áhættu vegna viðmiðunargilda eða afkomu einnar eða fleiri eigna sem hinn almenni fjárfestir kaupir ekki með beinum hætti, og/eða vátryggingaafurð sem býður upp á líftíma eða endurkaupsvirði sem er að öllu leyti eða að hluta til háð markaðssveiflum.
    Í PRIIPs-reglugerðinni er ekki að finna tæmandi upptalningu á þeim afurðum sem teljast pakkaðar og vátryggingatengdar fjármálaafurðir en undir hugtakið falla meðal annars afurðir fjárfestingarsjóða og sérhæfðra sjóða, líftryggingar með fjárfestingaráhættu og samsettar fjármálaafurðir og -innstæður, að því gefnu að þær séu boðnar almennum fjárfestum. Framleiðendur geta því verið t.d. bankar, sjóðir og vátryggingafélög.
    Pakkaðar og/eða vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta geta verið af ýmsum toga. Sem dæmi má nefna vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir sem fela hvort tveggja í sér fjárfestingarhluta og vátryggingahluta. Vátryggingaafurðir sem fela ekki í sér fjárfestingartækifæri og einfaldari fjárfestingarkostir á borð við hlutabréfakaup og innlán sem eru eingöngu háð vöxtum falla því ekki undir gildissvið PRIIPs-reglugerðarinnar. Sambærilegar kröfur um skil á lykilupplýsingaskjali eru gerðar til verðbréfasjóða í tilskipun (ESB) 2009/65 (UCITS) sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt með lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, og gerir því 31. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar ráð fyrir að verðbréfasjóðir séu undanþegnir gildissviði laganna á meðan unnið er að formi fyrir lykilupplýsingaskjal fyrir verðbréfasjóði. Í upphafi var gert ráð fyrir að undanþágan félli úr gildi 1. janúar 2019 en hún hefur verið framlengd til 1. janúar 2022. Sömu skyldur eru lagðar á rekstraraðila fjárfestingarsjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Skv. 2. mgr. 31. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar munu fjárfestingarsjóðir því vera undanþegnir gildissviði PRIIPs-reglugerðarinnar með sama hætti og verðbréfasjóðir til 1. janúar 2022.
    Samkvæmt e-lið 2. mgr. 2. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar falla samningar um viðbótartryggingavernd utan gildissviðs hennar. Í 8. lið aðfaraorða reglugerðarinnar kemur fram að hún hafi ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að setja reglur um veitingu lykilupplýsinga um afurðir sem falla utan gildissviðs reglugerðarinnar. Í ljósi þess að samningar um viðbótartryggingavernd eru um margt líkir samningum sem falla undir ákvæði reglugerðarinnar og sambærileg upplýsingaskylda er ekki til staðar vegna slíkra samninga er hins vegar lagt til að gerð verði breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, þess efnis að aðilum sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd verði skylt að útbúa lykilupplýsingaskjal til samræmis við annan sparnað sem heimilt er að bjóða upp á hér á landi.
    Meginefni PRIIPs-reglugerðarinnar er eftirfarandi:
          Framleiðendum pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta er gert skylt að semja lykilupplýsingaskjal og gera almennum fjárfestum það aðgengilegt áður en gengið er til samninga svo að þeir geti skilið og borið saman lykilþætti og áhættu pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta. Lykilupplýsingaskjölum er ætlað að verða grundvöllur fjárfestingarákvarðana almennra fjárfesta.
          Lykilupplýsingaskjalið skal innihalda nákvæmar, óvilhallar og skýrar upplýsingar og sett fram þannig að það sé gagnort og auðvelt aflestrar á að minnsta kosti einu þeirra opinberu tungumála sem notuð eru í því aðildarríki þar sem afurðinni er dreift.
          Í lykilupplýsingaskjalinu skal meðal annars koma fram hver afurðin er, lýsing á áhættu sem hún ber með sér á móti mögulegum ávinningi, lýsing á bótum sem kunna að vera í boði og kostnaði sem tengist fjárfestingu í afurðinni, uppsagnartími og lágmarkstími eignarhalds og umkvörtunarleiðir fyrir almenna fjárfesta.
          Við sérstakar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur Fjármálaeftirlitið, eða í undantekningartilvikum Eftirlitsstofnun EFTA, bannað eða takmarkað markaðssetningu, dreifingu eða sölu vátryggingatengdra fjárfestingarafurða, vátryggingatengdra fjárfestingarafurða með tiltekna, tilgreinda eiginleika eða tiltekna tegund fjármálastarfsemi eða framkvæmd hjá vátrygginga- eða endurtryggingafélagi. Þá getur Fjármálaeftirlitið bannað miðlun á lykilupplýsingaskjali sem ekki er í samræmi við ákvæði PRIIPs-reglugerðarinnar og bannað eða stöðvað tímabundið markaðssetningu á pakkaðri og vátryggingatengdri fjárfestingarafurð fyrir almenna fjárfesta.
    Samkvæmt PRIIPs-reglugerðinni mega aðildarríki kveða á um refsiviðurlög í stað eða til viðbótar við stjórnsýsluviðurlög. Líkur eru á að alvarlegustu brot gegn reglugerðinni varði refsiábyrgð samkvæmt öðrum lögum, svo sem vegna fjársvika eða skjalafölsunar samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, eða markaðsmisnotkunar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem frumvarpið hnikar ekki. Í ljósi þess er ekki talin þörf á að mæla fyrir um refsiviðurlög í frumvarpinu til viðbótar við þau stjórnsýsluviðurlög sem PRIIPs-reglugerðin mælir fyrir um.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér upptöku á efnisákvæðum PRIIPs-reglugerðarinnar í íslenskan rétt. Í frumvarpinu felst framsal valdheimilda til handa Eftirlitsstofnun EFTA. Ekki verður talið að eðli þeirra framsalsheimilda sé verulega íþyngjandi eða umfram það sem áður hefur verið talið heimilt vegna EES-samningsins.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Fjármálaeftirlitið. Áformaskjal var birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 20. febrúar 2021 og barst ein umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja þar sem kallað var eftir rúmum tíma fyrir haghafa til undirbúnings vegna innleiðingarinnar. Frumvarpsdrög voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 5.–19. febrúar 2021 en engar umsagnir bárust þá.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpi þessu eru innleidd í íslenskan rétt ákvæði PRIIPs-reglugerðarinnar. Með henni er settur samræmdur rammi um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta. Aukin þátttaka almennra fjárfesta á fjármálamarkaði getur stuðlað að dýpkun markaða og skilvirkari verðmyndun auk þess sem bætt aðgengi fjárfesta að upplýsingum kann að leiða af sér ákvarðanatöku um fjárfestingar sem betur endurspeglar raunverulegan áhættuvilja fjárfestis. Þá kann aukið gagnsæi að leiða af sér fjölbreyttari fjárfestingar sem að öðru óbreyttu hefur í för með sér betri áhættudreifingu í fjárfestingarsafni. Sú samræming lykilupplýsinga sem reglugerðin felur í sér er jafnframt til þess fallin að auka samkeppni milli þeirra sem bjóða upp á þjónustuna sem reglugerðin nær til sem ætti að draga úr viðskiptakostnaði.
    Hvorki er gert ráð fyrir verulegum áhrifum á stjórnsýslu né því að útgjöld ríkisins aukist vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Frumvarpið einfaldar stjórnsýslumeðferð þar sem reglur um gagnsæi til almennra fjárfesta eru samræmdar innan Evrópska efnahagssvæðisins, eykur skilvirkni við upplýsingagjöf til almennra fjárfesta og gerir það að verkum að markaðir hér á landi verða samkeppnishæfari innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni kemur fram markmið frumvarpsins um að tryggja að almennum fjárfestum verði kleift að skilja og bera saman helstu eiginleika og áhættu pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 (PRIIPs-reglugerðarinnar) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2340/2016, sjá fylgiskjal II, eins og þær hafa verið aðlagaðar og teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020, frá 30. apríl 2020, skuli hafa lagagildi hér á landi. Íslenskar þýðingar á reglugerðunum og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa ekki verið birtar í EES-viðbæti stjórnartíðinda ESB og fylgja því frumvarpinu sem fylgiskjöl I–III.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar ber aðildarríkjum að tilgreina hvaða stjórnvald telst lögbært yfirvald til að hafa eftirlit í ríkinu. Í greininni er Fjármálaeftirlitinu falið það hlutverk. Í 1. mgr. segir að Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annist eftirlit samkvæmt ákvæðum frumvarpsins í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Einnig ber að líta til samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls en um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits er fjallað í 25. gr. a í þeim samningi og bókun 8 við hann.
    Um eftirlitið og upplýsingagjöf innlendra aðila gilda lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, sbr. 1.–3. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga, og lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, sbr. einkum 1. mgr. 5. gr. og 6. gr. þeirra laga, auk stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og annarra almennra reglna stjórnsýsluréttar. Um kostnað við eftirlitið fer samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið aðstoði Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina eftir föngum við framkvæmd eftirlits í samræmi við ákvæði frumvarpsins sem og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett verða á grundvelli þeirra. Þá skyldu leiðir af þjóðréttarlegum skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum í samræmi við upptöku reglugerðanna þriggja um evrópskar eftirlitsstofnanir, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, og annarri löggjöf á sviði fjármálastarfsemi.
    Laga- eða samningsákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu stjórnenda og annarra eininga undir eftirliti til að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar samkvæmt frumvarpinu. Aftur á móti eru upplýsingar og gögn sem lögmaður fær við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál sérstaklega undanþegnar með hliðsjón af samsvarandi undanþágu í 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Undanþágan nær ekki aðeins til upplýsinga sem verða til meðan á dómsmáli stendur heldur einnig ráðgjafar um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli og annarra upplýsinga sem verða til fyrir eða eftir lok dómsmáls og hafa bein tengsl við það. Ef óviljandi hefði verið lagt hald á slík gögn, t.d. ef í ljós kæmi að í safni gagna væru samskipti við lögmann um dómsmál, bæri Fjármálaeftirlitinu að eyða eða skila þeim þegar það kæmi í ljós og ekki nota upplýsingar sem þar væri að finna.

Um 4. gr.

    Greinin kveður á um heimild Fjármálaeftirlitsins til almennrar íhlutunar til verndar almennum fjárfestum, eðlilegri starfsemi og heilleika fjármálamarkaða eða stöðugleika fjármálakerfisins í heild eða hluta til, sbr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, bannað eða takmarkað annars vegar markaðssetningu, dreifingu eða sölu vátryggingatengdra fjárfestingarafurða, vátryggingatengdra fjárfestingarafurða með tiltekna, tilgreinda eiginleika og hins vegar tiltekna tegund fjármálastarfsemi eða framkvæmd hjá vátrygginga- eða endurtryggingafélagi.
    Í 2. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar er kveðið á um þau skilyrði sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um íhlutun þarf að fullnægja. Í fyrsta lagi þarf Fjármálaeftirlitið að hafa gilda ástæðu til að telja að vátryggingatengd fjárfestingarafurð, starfsemi eða framkvæmd valdi verulegum áhyggjum varðandi fjárfestavernd eða ógni eðlilegri virkni og heilleika fjármálamarkaða eða stöðugleika alls eða hluta fjármálakerfisins í einu eða fleirum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt þarf Fjármálaeftirlitið að færa rök fyrir því að gildandi kröfur sem eiga við um vátryggingatengda fjárfestingarafurð, starfsemi eða framkvæmd taki ekki nægjanlega á fyrrgreindri áhættu og að ekki verði betur tekið á málinu með bættu eftirliti eða framfylgd gildandi krafna. Í þriðja lagi verður Fjármálaeftirlitið að gæta meðalhófs við beitingu íhlutunarinnar. Þá ber Fjármálaeftirlitinu að hafa samráð við lögbær yfirvöld annarra aðildarríkja sem afurðin, starfsemin eða framkvæmdin varðar. Loks má íhlutunin ekki mismuna starfsemi eða þjónustu sem veitt er frá öðru aðildarríki. Skv. 6. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar er ráðstöfunin háð því að skilyrði 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar eigi við á gildistíma ráðstöfunarinnar. Því ber Fjármálaeftirlitinu að afnema bann eða takmörkun ef skilyrðin eiga ekki lengur við.
    Í 2. mgr., sem byggist á 3. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, er Fjármálaeftirlitinu gert skylt að greina öllum viðkomandi lögbærum yfirvöldum og EIOPA frá fyrirætlunum sínum að minnsta kosti einum mánuði áður en ráðstöfuninni er ætlað að taka gildi til samræmis við 3. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar. Samkvæmt ákvæði reglugerðarinnar skal tilkynningin vera skrifleg eða með öðrum umsömdum hætti þar sem greint er frá fjárfestingarafurðinni, starfseminni eða framkvæmdinni sem fyrirhuguð aðgerð tengist, greint skal ítarlega frá eðli fyrirhugaðs banns eða takmörkunar og hvenær slíku banni eða takmörkun er ætlað að taka gildi, og þeim gögnum sem ákvörðunin byggist á og hvernig öll skilyrði 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar eru uppfyllt.
    Í 3. mgr., sem byggist á 4. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, er undanþáguheimild frá tilkynningarskyldu skv. 2. mgr. í þeim tilvikum þegar Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að grípa til brýnna aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir tjón af völdum fjárfestingarafurða, starfsemi eða framkvæmdar sem um getur í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Fjármálaeftirlitið getur í þeim aðstæðum gripið til aðgerða til bráðabirgða með minnst 24 klukkustunda skriflegum fyrirvara til allra lögbærra yfirvalda og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar áður en ráðstöfuninni er ætlað að taka gildi, að því tilskildu að öll viðmið 17. gr. reglugerðarinnar séu uppfyllt. Auk þess þarf að hafa verið sýnt skýrt fram á að eins mánaðar fyrirvari kæmi í veg fyrir að tekið væri á fyrirliggjandi vandamáli eða ógn á fullnægjandi hátt. Ráðstöfun á grundvelli 3. mgr. skal einungis vera tímabundin og að hámarki til þriggja mánaða.
    4. mgr. byggist á 5. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar og kveður á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að birta á vef sínum tilkynningu um allar ákvarðanir skv. 1. mgr. þar sem fram koma upplýsingar um bann eða takmörkun, hvenær ráðstafanirnar taka gildi eftir birtingu tilkynningarinnar og þau gögn sem það byggir ákvörðun sína á. Gögnin sem birt eru eru samhliða ákvörðuninni verða að bera með sér rökstuðning fyrir því að skilyrði 2. mgr. 17. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar séu uppfyllt.

Um. 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og dóma EFTA-dómstólsins og tryggt að ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA verði fullnustaðar með atbeina íslenskra stjórnvalda. Í 11. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, er gerður lagaáskilnaður um aðfararhæfi krafna samkvæmt úrlausnum erlendra dómstóla og yfirvalda. Í ákvæðinu kemur fram að úrlausnir eða ákvarðanir erlendra dómstóla eða yfirvalda eða sættir gerðar fyrir þeim séu aðfararhæfar ef íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti og með lögum til að viðurkenna slíkar aðfararheimildir, enda verði fullnusta kröfu talin samrýmanleg íslensku réttarskipulagi. Að öðru leyti gilda lög um aðför um fullnustu ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um úrbótakröfu vegna brots. Ákvæðið er árétting á heimildum sem telja verður að eftirlitsaðilar hafi almennt í krafti eftirlitsskyldu sinnar gagnvart tilkynningarskyldum aðilum og er sambærilegt 1. mgr. 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Um 7. gr.

    Í greininni, sem er til innleiðingar á a-lið 2. mgr. 24. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, er að finna heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að banna hvers konar miðlun á lykilupplýsingaskjali, sem ekki er í samræmi við tiltekin ákvæði PRIIPs-reglugerðarinnar, og krefjast þess að framleiðandi gefi út endurbætt lykilupplýsingaskjal.

Um 8. gr.

    Greinin kveður á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að banna eða stöðva tímabundið markaðssetningu á pakkaðri og vátryggingatengdri fjárfestingarafurð fyrir almenna fjárfesta þegar brotið hefur verið gegn tilteknum ákvæðum PRIIPs-reglugerðarinnar. Greinin felur í sér innleiðingu á b-lið 2. mgr. 24. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota samkvæmt frumvarpinu. Greinin felur í sér innleiðingu á c-lið 2. mgr. 24. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar sem fjallar um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðarinnar.
    Í 1. mgr. eru talin upp þau tilvik sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum sem fram koma í ákveðnum greinum PRIIPs-reglugerðarinnar. Sama máli gegnir hlíti aðili ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins skv. 2. mgr. 3. gr., 4. gr. eða 7. gr. frumvarpsins, svo sem ef hann afhendir ekki umbeðnar upplýsingar, heldur áfram starfsemi sem Fjármálaeftirlitið hefur gert honum að láta tímabundið af eða verður ekki við kröfu um úrbætur innan hæfilegs frests. Einstaklingur sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot yrði þó ekki beittur stjórnvaldssekt fyrir að nýta rétt sinn skv. 12. gr. og neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni. Hér er lagt til að eftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir bæði á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn þeim ákvæðum sem fram koma í viðkomandi greinum, enda geta einstaklingar fallið undir skilgreiningu reglugerðarinnar á hæfum fjárfestum.
    Heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota gegn ákvæðum frumvarpsins um tilkynningar til eftirlitsins eiga við hvort sem ekki er tilkynnt eða tilkynnt er of seint.

Um 10. gr.

    Greinin, sem byggist á 23. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, kveður á um að Fjármálaeftirlitið skuli taka tillit til allra atvika sem máli skipta þegar það ákveður tegund og umfang stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt frumvarpinu. Talin eru upp nokkur atriði sem skal líta til eftir því sem við á hverju sinni. Meginatriðið er að viðurlög hafi tilhlýðileg varnaðaráhrif. Þau þurfa því meðal annars að vinna gegn því að brotlegir aðilar hagnist á brotum eða komi sér undan tapi.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að ljúka málum með sátt. Til að unnt sé að ljúka máli með sátt verður samþykki málsaðila að liggja fyrir. Sættir eru því ekki einhliða ákvarðanir stjórnvalds heldur koma málsaðilar einnig að þeim. Því er lagt til að kveðið verði skýrt á um að þær séu bindandi fyrir aðila þegar hann hefur samþykkt sáttina og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið hefur á grundvelli annarra laga á sviði fjármálamarkaða sett reglur um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt, nr. 326/2019.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um rétt manns til að neita að tjá sig um viðkomandi mál eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans.

Um 13. gr.

    Í greininni er fjallað um frest Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssekt. Lagt er til að heimildin falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk til að knýja á um úrlausn mála.

Um 14. gr.

    Með greininni er áréttuð skylda Fjármálaeftirlitsins skv. 29. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, sbr. einnig c-lið 2. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar, til að birta ákvarðanir um stjórnvaldssektir og aðrar ráðstafanir vegna brota gegn ákvæðum frumvarpsins á vef eftirlitsins. Tilteknar undantekningar eru gerðar á skyldunni í 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar þegar birting er ekki talin samræmast reglum um meðalhóf eða er talin tefla stöðugleika fjármálamarkaðar eða áframhaldandi rannsókn í tvísýnu.

Um 15. og 16. gr.

    Ákvæðin, sem byggjast á 28. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar, fjalla um tilkynningar starfsmanna um brot í starfi. Sambærileg ákvæði er að finna í 60. gr. a og 60. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um 17. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra og Seðlabanki Íslands skuli setja reglugerðir sem fela í sér innleiðingu á undirgerðum PRIIPs í íslenskan rétt. Nánar tiltekið er um að ræða innleiðingu á framseldum reglugerðum framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2016/1904 um afurðaíhlutun og 2017/653 um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té.

Um 18. gr.

    Í greininni er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2021. Áform um innleiðingu PRIIPs-reglugerðarinnar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í ágúst 2020 og haghafar hafa því haft nokkurn tíma til aðlögunar og undirbúnings vegna innleiðingarinnar.

Um 19. gr.

    Með ákvæðinu er lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, á þá leið að þeim aðilum sem hafa heimild til að bjóða upp á viðbótartryggingarvernd samkvæmt lögunum verði gert að útbúa lykilupplýsingaskjal í samræmi við II. kafla reglugerðar (ESB) 1286/2014, neytendum til hagsbóta. Einn megintilgangur PRIIPs-reglugerðarinnar er að gera almennum fjárfestum kleift að bera saman mismunandi afurðir á einfaldan máta. Telja verður að með því að krefja alla aðila sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd um að útbúa lykilupplýsingaskjal verði neytendum gert kleift að bera saman mismunandi afurðir og meta hvað hentar hverjum og einum best.
    Á undanförnum árum hafa verið gerðar auknar kröfur um upplýsingagjöf til handa almennum fjárfestum. Sambærilegar kröfur um skil á lykilupplýsingaskjali eru gerðar til rekstraraðila verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða í lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Stór hluti íslensks séreignarsparnaðar á margt skylt við slíkan sjóðarekstur þar sem flestir aðilar sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd bjóða upp á að iðgjöld fari í eignastýringarsöfn sem bundin eru til að lágmarki 60 ára aldurs. Þá falla einnig vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir sem bera fjárfestingaráhættu undir PRIIPs en heimilt er að ráðstafa iðgjöldum til séreignarsparnaðar í slíkar afurðir. Þá ber einnig að líta til þess að þær vátryggingatengdu fjárfestingarafurðir sem bera ekki fjárfestingaráhættu og sem í boði eru hérlendis, bera engu að síður gjaldmiðlaáhættu og því mikilvægt að neytendur séu vel upplýstir um hvað felst í þeirri afurð sem í boði er.
    Í umræðuskjali norska fjármálaeftirlitsins (Finanstilsynet) um innleiðingu PRIIPs-reglugerðarinnar í norskan rétt er lagt til að við innleiðinguna verði norska fjármálaráðuneytinu veitt heimild til að útvíkka gildissvið reglugerðarinnar svipað og lagt er til að gert verði hér, með vísan til 8. liðar í aðfaraorðum hennar.
    Á grundvelli 5. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar hefur framkvæmdastjórn ESB samþykkt framselda reglugerð (ESB) nr. 2017/653, um tæknilega eftirlitsstaðla, að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té. Í frumvarpi til laga um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta er gert ráð fyrir að Seðlabanka Íslands verði veitt heimild til að innleiða reglugerðina með reglum og munu þær reglur því gilda einnig um lykilupplýsingaskjöl sem aðilum sem bjóða upp á viðbótartryggingarvernd er gert að útbúa.


Fylgiskjal I.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 frá 26. nóvember 2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta.

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1103-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2340/2016 frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta.

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1103-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta).

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1103-f_III.pdf