Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1104  —  642. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (innleiðing evrópskra gerða og endurbótaáætlanir).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.


    Í stað orðanna „hæfu fjármagni“ í 29. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna kemur: þætti 1, sbr. 84. gr. a, 84. gr. b og 85. gr.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     1.      Í stað orðanna „hæfu fjármagni“ fimm sinnum í greininni kemur: þætti 1.
     2.      Í stað tilvísunarinnar „84. gr., 84. gr. a – 84. gr. f og og 85. gr.“ í 1. mgr. kemur: „84. gr. a, 84. gr. b og 85. gr.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 85. gr. laganna:
     1.      Við c-lið bætist: að frátöldum varfærnislega metnum hugbúnaðareignum sem falla ekki í virði vegna skila- eða slitameðferðar fjármálafyrirtækis.
     2.      Við málsgreinina bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
              l.      hluti fjárhæðar vegna áhættuskuldbindinga í vanskilum sem hvorki hefur verið mætt með varúðarniðurfærslum né telst nægjanlega tryggður að því marki sem greinir í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a.
              m.      mismun á núvirði ábyrgðar sem fyrirtækið hefur veitt á virði hlutdeildarskírteina og hluta í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu annars vegar og markaðsvirðis hlutdeildarskírteinanna og hlutanna hins vegar hafi fyrirtækið ekki þegar greint frá rýrnun á almennu eigin fé þáttar 1 af þessum sökum.

4. gr.


    Við 107. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita litlum og einföldum fjármálafyrirtækjum undanþágur frá upplýsingagjöf skv. 18. gr. og gagnaskilum skv. a-lið 2. mgr. 117. gr. b.

5. gr.


    Við 116. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    IX. kafli A um endurbótaáætlun gildir ekki um Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 117. gr. b laganna:
     1.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
              e.      verklag og form fyrir samráð viðeigandi lögbærra yfirvalda varðandi yfirtöku á virkum eignarhlutum, sbr. VI. kafla.
              f.      útlistanir í tengslum við áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja, sbr. 78. gr. a – 78. gr. i.
     2.      Við 3. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
              i.      afmörkun á kerfislega mikilvægu fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu, sbr. 52. gr. e.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 1.–4. gr. gildi 28. júní 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Tilskipun 2013/36/ESB um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, sem er oft nefnd CRD IV (e. Capital Requirements Directive IV), reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sem er oft nefnd CRR (e. Capital Requirements Regulation), og tilskipun 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, sem er oft nefnd BRRD (e. Bank Recovery and Resolution Directive), mynda saman hryggjarstykkið í löggjöf Evrópusambandsins um lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Með þeim var leitast við að bæta úr vanköntum á lagaumgjörð fjármálafyrirtækja sem alþjóðlega fjármálakreppan leiddi í ljós og innleidd í Evrópu alþjóðleg viðmið um varfærniskröfur til lánastofnana, svonefndur Basel III-staðall. Gerðunum var ætlað að treysta fjármálastöðugleika, einkum með auknum kröfum um magn og gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja til að gera þau betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika, og stuðla að því að unnt væri að greiða úr erfiðleikum fjármálafyrirtækja án þess að leggja þyrfti þeim til opinbert fjármagn. CRR hefur verið breytt nokkrum sinnum, meðal annars með reglugerð (ESB) 2019/630, sem er oft nefnd NPE (e. Non-Performing Exposures), og reglugerð (ESB) 2019/876, sem er oft nefnd CRR II. Unnið er að því að taka NPE og CRR II upp í EES-samninginn.
    Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, hafa verið löguð að CRD IV í áföngum síðustu ár og CRR hefur verið veitt gildi í heild hér á landi með reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017. BRRD var að mestu leyti innleidd með lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, en ákvæði hennar um endurbótaáætlanir, sem eru áætlanir fjármálafyrirtækja um hvernig þau muni takast á við erfiðleika, voru þó innleidd með nýjum IX. kafla A í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 54/2018.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í október 2020 starfshóp til að vinna frumvarp til að ljúka innleiðingu CRD IV-pakkans með síðari breytingum. Starfshópurinn vinnur að frumvarpi þar sem lagðar verða til talsverðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í því skyni. Ekki næst þó að leggja það fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Með frumvarpi þessu eru því aðeins lagðar til afmarkaðar breytingar á lögunum sem talið er brýnt að taki gildi fyrir haustið 2021.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Innleiðing CRR-gerða.
    Frumvarpinu er annars vegar ætlað að gera ráðherra og Seðlabanka Íslands kleift að innleiða NPE, CRR II og fáeinar undirgerðir CRR. Það er nauðsynlegt til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og gæta samræmis við regluverk annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki síst er tímanleg innleiðing CRR II talin mikilvæg til að tryggja að upplýsingaskipti milli Fjármálaeftirlitsins og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar og annarra yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu geti áfram gengið snurðulaust fyrir sig eftir að meginefni CRR II tekur gildi í Evrópusambandinu 28. júní 2021.
    Ráðherra hefur sem fyrr segir innleitt CRR í heild með reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja. Ráðgert er því að innleiða NPE og CRR II með breytingu á þeirri reglugerð. Nokkur meginatriði CRR koma þó fram í lögum um fjármálafyrirtæki. Til að gera ráðherra kleift að innleiða NPE og CRR II þarf því að gera fáeinar breytingar á lögunum.
    CRR heimilar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að samþykkja undirgerðir til að útfæra nánar ýmis ákvæði gerðarinnar. Meiri hluti undirgerðanna byggist á tæknistöðlum frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni. Tíðkast hefur að Seðlabanki Íslands innleiði undirgerðir sem byggjast á tæknistöðlum frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni því hann á áheyrnaraðild að stofnuninni og tekur þátt í starfi vinnuhópa á hennar vegum sem fást við mótun tæknistaðla. Seðlabankinn hefur þegar innleitt nokkurn fjölda undirgerða á grundvelli heimildar í 117. gr. b laga um fjármálafyrirtæki. Hann skortir þó lagaheimild til að innleiða hluta undirgerða CRR sem byggjast á tæknistöðlum.

2.2. Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf.
    Frumvarpinu er hins vegar ætlað að undanþiggja Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf. skyldu til að vinna endurbótaáætlanir. Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf. voru undanþegnar gildissviði BRRD með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 með tilliti til þess að ekki er um hefðbundna banka eða verðbréfafyrirtæki að ræða heldur lánastofnanir í eigu opinberra aðila sem gegna lögbundnu hlutverki. Á þeim grundvelli eru stofnanirnar undanþegnar lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Ekki hefur þó verið mælt fyrir um sambærilega undanþágu frá IX. kafla A laga um fjármálafyrirtæki um endurbótaáætlanir. Stofnanirnar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, sem fer með málefni þeirra, hafa lýst þeirri afstöðu gagnvart fjármála- og efnahagsráðuneytinu að brýnt sé að undanþiggja þær kaflanum sem fyrst.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Innleiðing CRR-gerða.
    Ákvæði 1.–4. gr. frumvarpsins miða að því að gera ráðherra kleift að innleiða NPE og CRR II.
    NPE áskilur að fjármálafyrirtæki dragi hluta lána í vanskilum frá eiginfjárgrunni ef ekki eru til staðar varasjóðir til að mæta væntu tapi af lánunum. Lán teljast í grófum dráttum í vanskilum ef lántaki hefur ekki efnt greiðsluskyldu í 90 daga eða ætla má af öðrum sökum að hann muni ekki standa í skilum. Umfang frádráttarins ræðst af því hvort um tryggt eða ótryggt lán sé að ræða og hve lengi það hefur verið í vanskilum. Frádrátturinn gildir aðeins um lán sem eru veitt eftir að gerðin tekur gildi svo ekki þarf að endurreikna eiginfjárgrunn vegna áður veittra lána.
    Til að gera ráðherra kleift að innleiða NPE með reglugerð er með frumvarpinu lögð til breyting á 1. mgr. 85. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Málsgreinin tilgreinir liði sem fjármálafyrirtæki skulu draga frá almennu eigin fé þáttar 1. Lagt er til að við hana bætist liður um hluta áhættuskuldbindinga í vanskilum sem fjármálafyrirtæki hefur ekki mætt með varúðarniðurfærslum og eru ekki með fullnægjandi tryggingar.
    CRR II breytir allmörgum ákvæðum CRR, einkum til að skýra ákvæði sem hafa þótt óljós og til að taka mið af öðrum breytingum á evrópsku regluverki og á Basel-stöðlunum. CRR II mælir fyrir um 3% lágmarks vogunarhlutfall til að takmarka vogun banka og lágmark stöðugrar fjármögnunar til að vinna gegn því að bankar reiði sig um of á óstöðuga skammtímafjármögnun. Hún herðir kröfur um stórar áhættuskuldbindingar með því að reikna þær sem hlutfall af eigin fé þáttar 1 eingöngu fremur en af hæfu fjármagni sem tekur einnig að vissu marki til eigin fjár þáttar 2. Þá rýmkar hún skilyrði fyrir afslætti af eiginfjárkröfum vegna lánveitinga til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og veitir afslátt af eiginfjárkröfum vegna lánveitinga til innviðaverkefna.
    Lagðar eru til þrenns konar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til að gera ráðherra kleift að innleiða CRR II með reglugerð. Í fyrsta lagi er lagt til að takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækja miðist við þátt 1 af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja frekar en hæft fjármagn. Í öðru lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilað að undanþiggja lítil og einföld fjármálafyrirtæki tilteknum kröfum um birtingu upplýsinga og gagnaskil. Í þriðja lagi er lagt til að fjármálafyrirtækjum verði heimilað að draga vissar hugbúnaðareignir ekki frá almennu eigin fé þáttar 1 en í ákveðnum tilvikum gert að draga frá fjárhæðir vegna ábyrgða sem þau hafa veitt á virði fjárfestinga í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu.
    Með 6. gr. frumvarpsins er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilað að innleiða undirgerðir sem fjalla um verklag og form fyrir samráð viðeigandi lögbærra yfirvalda varðandi yfirtöku á virkum eignarhlutum, útlistanir í tengslum við áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja og afmörkun á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum á alþjóðavísu.

3.2. Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að IX. kafli A laga um fjármálafyrirtæki, um endurbótaáætlun, gildi ekki um Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf. Verði það samþykkt mun þeim ekki bera skylda til að vinna endurbótaáætlanir.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá.
    Íslandi ber þjóðréttarleg skylda til að innleiða tímanlega gerðir sem eru teknar upp í EES-samninginn. Frumvarpið gerir Íslandi kleift að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum til að innleiða NPE, CRR II og undirgerðir CRR.
    Fyrrgreind aðlögun í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 gefur Íslandi færi á að undanþiggja Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf. ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki um endurbótaáætlanir.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið af starfshópi þar sem sæti eiga fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Tillaga um að Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf. verði undanþegnar skyldu til að gera endurbótaáætlanir var mótuð á grundvelli samráðs við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Byggðastofnun og Lánasjóðinn.
    Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 2. desember 2020 (mál nr. S-260/2020). Þar voru kynnt áform um að ljúka innleiðingu CRD IV og CRR með síðari breytingum, þar á meðal samkvæmt NPE og CRR II, í landsrétt. Engin umsögn barst um áformin.
    Drög að frumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 2. mars 2021 (mál nr. S-68/2021). Umsögn barst frá Byggðastofnun sem lýsti stuðningi við frumvarpið.
    Að tillögu Seðlabanka Íslands var bætt við 6. gr. frumvarpsdraganna heimild fyrir Seðlabankann til að setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdarstöðlum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar um útlistanir í tengslum við áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á fjármálafyrirtæki.
    Megináhrif frumvarpsins á fjármálafyrirtæki almennt eru þrenns konar:
     1.      Hert afmörkun á stórum áhættuskuldbindingum: Áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja vegna einstakra viðskiptamanna eða hópa tengdra viðskiptamanna mega almennt ekki fara yfir 25% af hæfu fjármagni fyrirtækjanna skv. 1. mgr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Reglunni er ætlað að takmarka áhættu fjármálafyrirtækja af gengi einstakra viðskiptamanna. Til hæfs fjármagns telst eigið fé þáttar 1 og þáttar 2, þó að hámarki að þriðjungi af eiginfjárþætti 1. Til samræmis við CRR II gerir frumvarpið ráð fyrir því að stórar áhættuskuldbindingar reiknist sem hlutfall af eigin fé þáttar 1 eingöngu fremur en af hæfu fjármagni. Þar sem eigið fé þáttar 2 getur numið allt að fjórðungi af hæfu fjármagni fjármálafyrirtækis felur breytingin í sér að nefnarinn í útreikningum á stórum áhættuskuldbindingum getur verið allt að fjórðungi lægri og fleiri áhættuskuldbindingar en ella geta því fallið undir takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum.
     2.      Vægari upplýsingaskylda minni fjármálafyrirtækja: Í CRR II er leitast við að sníða skyldur fjármálafyrirtækja til að birta og skila upplýsingum og gögnum að stærð þeirra og kerfislegu mikilvægi til að gæta meðalhófs gagnvart smærri og einfaldari fjármálafyrirtækjum. Þannig er gert ráð fyrir að lítil og einföld fjármálafyrirtæki þurfi ekki að birta og skila jafn ítarlegum upplýsingum og gögnum og stærri og kerfislega mikilvægari fyrirtæki og ekki jafn oft. Til samræmis við þá fyrirætlan er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitið geti létt á skyldum lítilla og einfaldra fjármálafyrirtækja til að birta og skila upplýsingum og gögnum. Lítil og einföld fjármálafyrirtæki eru skilgreind í CRR II sem gert er ráð fyrir að veita gildi með breytingu á reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja.
     3.      Frádráttur frá almennu eigin fé þáttar 1: Almennt eigið fé þáttar 1, sem svipar til eigin fjár í hefðbundnum skilningi, er kjarninn í eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja og tiltekið hlutfall eiginfjárgrunns þeirra verður að samanstanda af almennu eigin fé þáttar 1. Í 84. gr. a laga um fjármálafyrirtæki er tilgreint hvað megi telja til almenns eigin fjár þáttar 1 og í 85. gr. laganna hvað beri að draga frá við útreikning þess. Til samræmis við NPE og CRR er gert ráð fyrir þremur breytingum á frádráttarliðum 85. gr. laganna:
                  a.      Hugbúnaðareignir: Skv. c-lið 1. mgr. 85. gr. laga um fjármálafyrirtæki ber að draga viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir frá almennu eigin fé þáttar 1. Til samræmis við CRR II er með frumvarpinu lagt til að hugbúnaðareignir sem falla ekki í virði vegna skila- eða slitameðferðar fjármálafyrirtækis verði undanþegnar frádrættinum. Það felur í sér að almennt eigið fé fjármálafyrirtækja getur talist meira en ella.
                  b.      Áhættuskuldbindingar í vanskilum: Til samræmis við NPE er lagt til að draga beri hluta áhættuskuldbindinga í vanskilum sem hefur ekki verið mætt með varúðarniðurfærslum og eru ekki með fullnægjandi tryggingar frá almennu eigin fé þáttar 1. Það felur í sér að almennt eigið fé fjármálafyrirtækja getur talist minna en ella.
                  c.      Ábyrgðir á fjárfestingum í sjóðum: Til samræmis við CRR II er lagt til að hafi fjármálafyrirtæki ábyrgst virði fjárfestingar í sjóði beri því að draga ábyrgðina frá almennu eigin fé þáttar 1 að því marki sem líkur eru á að á hana reyni. Það felur í sér að almennt eigið fé fjármálafyrirtækja getur talist minna en ella.
    Fjármálaeftirlitið metur samanlögð fjárhagsleg áhrif breytinganna á fjármálafyrirtæki óveruleg.

6.2. Áhrif á Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf.
    Samþykkt frumvarpsins léttir skyldu af Byggðastofnun og Lánasjóði sveitarfélaga til að vinna endurbótaáætlanir. Stofnanirnar telja skylduna mjög íþyngjandi og eiga illa við um sína starfsemi.

6.3. Áhrif á Fjármálaeftirlitið.
    Fjármálaeftirlitið, sem hefur eftirlit með framkvæmd laga um fjármálafyrirtæki, telur samþykkt frumvarpsins ekki kalla á aukin verkefni eða kostnað hjá sér. Aftur á móti telur eftirlitið tímanlega innleiðingu CRR II, sem er háð þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu, mjög mikilvæga til að tryggja að upplýsingaskipti milli þess og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar og annarra yfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu geti áfram gengið snurðulaust fyrir sig.

6.4. Áhrif á fjárhag ríkisins.
    Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á fjárhag ríkisins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 29. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki er „stór áhættuskuldbinding“ nú skilgreind sem „[á]hættuskuldbinding fjármálafyrirtækis vegna einstaks viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna [sem] nemur 10% eða meira af hæfu fjármagni.“ Skilgreiningin byggist á 392. gr. CRR. Með 95. lið 1. gr. CRR II var sú breyting gerð á 392. gr. CRR að „hæfu fjármagni“ var skipt út fyrir „eiginfjárþætti 1“. Lögð er til samsvarandi breyting á 29. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.
    Sá munur er á hæfu fjármagni og eiginfjárþætti 1 að hið fyrrnefnda tekur einnig til þáttar 2 í eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja, þó að hámarki að þriðjungi af þætti 1. Breytingin felur því í sér að ekki verður tekið tillit til þáttar 2 við afmörkun á stórum áhættuskuldbindingum. Til þáttar 2 teljast einkum skuldagerningar sem hafa vissa samsvörun við eigið fé í hefðbundnum skilningi, svo sem víkjandi lán sem uppfylla tilgreind skilyrði.

Um 2. gr.


    Ákvæði 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki um takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum byggjast á 4. hluta CRR um stórar áhættuskuldbindingar. Með CRR II var sú breyting gerð á kaflanum að miða takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækja við hlutfall af þætti 1 í eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja frekar en hæft fjármagn. Lagt er til að 30. gr. laganna verði breytt samsvarandi. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 1. gr.

Um 3. gr.


     Um 1. tölul. Skv. c-lið 1. mgr. 85. gr. laga um fjármálafyrirtæki skulu fjármálafyrirtæki draga viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir frá almennu eigin fé þáttar 1. Stafliðurinn byggist á b-lið 1. mgr. 36. gr. CRR. Með 18. lið 1. gr. CRR II voru varfærnislega metnar hugbúnaðareignir sem falla ekki í virði vegna skila- eða slitameðferðar fjármálafyrirtækja undanþegnar fyrirmælum b-liðar 1. mgr. 36. gr. CRR. Lagt er til að samsvarandi breyting verði gerð á c-lið 1. mgr. 85. gr. laganna.
     Um 2. tölul. Í 1. mgr. 85. gr. laga um fjármálafyrirtæki eru tilgreindir liðir sem fjármálafyrirtæki skulu draga frá almennu eigin fé þáttar 1. Ákvæðið byggist að stærstum hluta á 1. mgr. 36. gr. CRR. Með NPE og CRR II var tveimur liðum bætt við 1. mgr. 36. gr. CRR, annars vegar vegna áhættuskuldbindinga í vanskilum sem hefur ekki verið mætt með varúðarniðurfærslum og eru ekki með fullnægjandi tryggingar og hins vegar vegna ábyrgða sem fjármálafyrirtæki hafa veitt á virði fjárfestinga í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Lagt er til að samsvarandi liðum verði bætt við 1. mgr. 85. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Nýju liðirnir eru útfærðir nánar í NPE og CRR II, meðal annars hvað telst til áhættuskuldbindinga í vanskilum, sem gert er ráð fyrir að veita gildi í heild hér á landi með breytingu á reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja.

Um 4. gr.


    Í nýrri 433. gr. b CRR, sem var bætt við gerðina með 119. lið 1. gr. CRR II, er ráðgert að lítil og einföld fjármálafyrirtæki sæti vægari kröfum um birtingu upplýsinga en stærri og flóknari fjármálafyrirtæki. Til samræmis við þá fyrirætlan er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti létt á skyldum lítilla og einfaldra fjármálafyrirtækja til að birta upplýsingar skv. 1. mgr. 18. gr. laga um fjármálafyrirtæki og skila gögnum skv. a-lið 2. mgr. 117. gr. b sömu laga.
    „Lítil og einföld fjármálafyrirtæki“ eru skilgreind í nokkrum liðum í 145. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR, sem var bætt við gerðina með CRR II. Gert er ráð fyrir að veita CRR II og þar með skilgreiningunni gildi með breytingu á reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja.

Um 5. gr.


    Lagt er til að IX. kafli A laganna um endurbótaáætlanir gildi ekki um Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf. Af því leiðir að þeim ber ekki að semja og afhenda Fjármálaeftirlitinu endurbótaáætlun. Jafnframt leiðir af því að fyrirmæli 1. tölul. 2. mgr. 86. gr. h laganna, um heimild Fjármálaeftirlitsins til að krefjast þess að fjármálafyrirtæki grípi til aðgerða samkvæmt endurbótaáætlun eða uppfæri endurbótaáætlun, 9. mgr. 109. gr. e, um endurskoðun endurbótaáætlunar, og 65. tölul. 1. mgr. 110. gr., um stjórnvaldssekt fyrir að brjóta gegn skyldu til að gera eða uppfæra endurbótaáætlun, eiga ekki við um Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf.

Um 6. gr.


    Lagt er til að Seðlabanka Íslands verði heimilað að innleiða undirgerðir sem fjalla um verklag og form fyrir samráð viðeigandi lögbærra yfirvalda varðandi yfirtöku á virkum eignarhlutum, útlistanir í tengslum við áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja og afmörkun á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum á alþjóðavísu. Það gerir Seðlabankanum kleift að innleiða reglugerðir (ESB) nr. 1222/2014, 2015/233, 2015/2344, 2016/1608, 2016/1646 og 2017/461 sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt á grundvelli 9. mgr. 22. gr. og 18. mgr. 131. gr. CRD IV og 8. mgr. 197. gr., 5. mgr. 416. gr. og 4. mgr. 419. gr. CRR, svo og síðari undirgerðir sem framkvæmdastjórnin samþykkir á sama grundvelli.

Um 7. gr.


    Flest ákvæði CRR II taka gildi í Evrópusambandinu 28. júní 2021 og ráðgert er að taka NPE upp í EES-samninginn þann mánuð. Því er lagt til að 1.–4. gr. frumvarpsins, sem miða að því að gera ráðherra kleift að innleiða CRR II og NPE, taki gildi 28. júní 2021. Ráðgert er að breyting á reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, sem veiti CRR II og NPE gildi hér á landi, taki einnig gildi þann dag.
    Ekki er talin ástæða til að fresta gildistöku undanþágu Byggðastofnunar og Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. frá ákvæðum um endurbótaáætlanir. Því er lagt til að 5. gr. frumvarpsins taki gildi þegar í stað. Jafnframt er lagt til að 6. gr. frumvarpsins taki gildi þegar í stað því talið er æskilegt að gera Seðlabanka Íslands kleift að innleiða sem fyrst undirgerðir CRD IV-pakkans sem byggjast á tæknistöðlum og er búið að taka upp í EES-samninginn.


Fylgiskjal.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi laga.

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1104-f_I.pdf