Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1112  —  478. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga
(sveitarfélög og kórónuveirufaraldur).


(Eftir 2. umræðu, 24. mars.)


I. KAFLI

Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 131. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að sveitarstjórn sé heimilt að víkja frá skilyrðum 14.–18. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. og 2. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr., samþykktum um stjórn sveitarfélags og/eða lögákveðnum frestum sem getið er um í lögum þessum, til að tryggja starfhæfi hennar og til að auðvelda ákvarðanatöku vegna neyðarástands.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Neyðarástand í sveitarfélagi.

2. gr.

    Í stað ártalsins „2022“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2025.

II. KAFLI

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

3. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XXII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. fylgir fasteignaskatti skv. c-lið 3. mgr. 3. gr., vegna áranna 2020–2022, lögveð í fasteign þeirri sem hann er lagður á, ásamt dráttarvöxtum í fjögur ár frá gjalddaga, sem skal ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla.

    b. (XXIII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 32. gr. er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður dráttarvexti á kröfur vegna fasteignaskatta sem lagðir eru á skv. c-lið 3. mgr. 3. gr., á árunum 2020–2022, hjá gjaldendum sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins eða gjaldendum sem leigja húsnæði til rekstraraðila sem sömu skilyrði eiga við um, á grundvelli reglna sem sveitarfélög setja sér.

III. KAFLI

Breyting á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 150/2006.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. mgr. 3. gr. skal Lánasjóði sveitarfélaga heimilt að veita lán til að mæta rekstrarhalla sveitarfélaga, auk rekstrarhalla stofnana og fyrirtækja þeirra sem sinna lögmæltum verkefnum og ekki eru í samkeppnisrekstri, á reikningsárunum 2020–2022.     

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.