Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1117  —  650. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022 og koma til framkvæmda 1. febrúar 2022.

Greinargerð.

    Málið var áður flutt á 148. og 149. löggjafarþingi (24. mál) en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt.
    Í 31. gr. laga nr. 96/2017 er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Um er að ræða sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 25.000 kr. á mánuði. 1 Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Þar áður hafði frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum verið 109.000 kr. Eftir samþykkt laganna kom fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara.
    Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017. Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.
    Í kjölfar þinglokasamninga sumarið 2019 samþykkti Alþingi að láta framkvæma úttekt á því hver kostnaðurinn yrði ef frumvarpið næði fram að ganga. Félagsmálaráðuneytið fékk Capacent til að framkvæma úttektina. Capacent skilaði úttektinni snemma árs 2020. Samkvæmt niðurstöðum Capacent myndi frumvarpið leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð um 2,1 milljarð kr.
    Það vekur upp spurningar þegar tvær úttektir um sama viðfangsefnið skila misvísandi niðurstöðum. Þingmenn Flokks fólksins hafa ítrekað kallað eftir því að fá aðgang að þeim forsendum sem liggja að baki niðurstöðum Capacent en ráðuneytið hefur ekki enn veitt aðgang að þeim.
    Óumdeilt er þó að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna, sbr. 23. gr. laga um almannatryggingar.
1     www.althingi.is/altext/stjt/2017.096.html, sbr. .www.althingi.is/altext/148/s/0003.html.