Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1118  —  275. mál.
Fyrirvari.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Dige Baldursson, Hafstein Pálsson og Steinunni Fjólu Sigurðardóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Svövu S. Steinarsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Björn Axelsson, Ernu Hrönn Geirsdóttur og Glóeyju Helgudóttur Finnsdóttur frá Reykjavíkurborg, Höllu Björk Reynisdóttur, Guðríði Friðriksdóttur og Pétur Inga Haraldsson frá Akureyrarbæ, Þormóð Sveinsson, Ólaf Inga Tómasson, Ívar Bragason, Friðþjóf Helga Karlsson og Öddu Maríu Jóhannsdóttur frá Hafnarfjarðarbæ, Jón Eirík Einarsson, Pétur Davíðsson og Sigurbjörgu Ósk Áskelsdóttur frá Skorradalshreppi, Boga Kristinsson Magnusen frá Hvalfjarðarsveit, Matthildi Ásmundardóttur og Brynju Dögg Ingólfsdóttur frá sveitarfélaginu Hornafirði, Auði Önnu Magnúsdóttur, Pétur Halldórsson og Tryggva Felixson frá Landvernd, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur og Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Guðmund I. Ásmundsson og Sverri Jan Norðfjörð frá Landsneti, Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Óskar Frank Guðmundsson, Rún Knútsdóttur og Þórunni Lilju Vilbergsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Baldur Dýrfjörð frá Samorku, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur og Ólaf Árnason frá Skipulagsstofnun og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur og Líf Magneudóttur borgarfulltrúa.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Akureyrarbæ, Hafnarfjarðarbæ, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Hvalfjarðarsveit, Landsneti, Landvernd, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtökum iðnaðarins, Skipulagsstofnun, Skorradalshreppi og sveitarfélaginu Hornafirði. Þá barst nefndinni minnisblað frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Umfjöllun nefndarinnar.
Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum vegna breyttrar stjórnsýslu í tengslum við framkvæmdir í flutningskerfi raforku með skipan svokallaðrar raflínunefndar sem annist gerð raflínuskipulags, veiti framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku sem byggist á staðfestri kerfisáætlun og hafi eftirlit með þeim framkvæmdum. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem viðkomandi skipulagsákvörðun á að ná til auk fulltrúa Skipulagsstofnunar. Þá er lagt til að lágmarksathugasemdafrestur við auglýsingar aðal- og deiliskipulagstillagna sem varða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og ekki eru háðar mati á umhverfisáhrifum verði styttur úr sex vikum í fjórar. Að lokum er í frumvarpinu að finna nýmæli um landfræðilega gagna- og samráðsgátt sem starfrækt verði af Skipulagsstofnun sem liður í aukinni rafrænni og stafrænni stjórnsýslu.

Raflínunefnd og raflínuskipulag.
    Í 5. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um raflínunefnd. Skv. 1. mgr. 5. gr. er ráðherra heimilt, að beiðni aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd í flutningskerfi raforku, að skipa sérstaka raflínunefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa, kynna og samþykkja raflínuskipulag fyrir framkvæmd í flutningskerfi raforku sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og veita framkvæmdaleyfi fyrir henni. Tekur raflínunefndin þar með sameiginlega skipulagsákvörðun sem nær til einnar framkvæmdar vegna flutningskerfis raforku, þvert á sveitarfélagamörk. Skv. 3. mgr. skulu einn fulltrúi hvers sveitarfélags sem viðkomandi framkvæmd á að ná til auk eins fulltrúa Skipulagsstofnunar eiga sæti í nefndinni.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu með raflínunefnd vegi að skipulags- og sjálfsákvörðunarvaldi sveitarfélaga og skapi með því óásættanlegt fordæmi um takmörkun á þeim rétti sveitarfélaga. Þá væri ekki ljóst að þetta fyrirkomulag mundi leysa nokkurn vanda.
    Ljóst er að frumvarpið felur í sér frávik frá meginreglum skipulagslaga um að sveitarfélög fari með skipulagsvaldið. Öll slík frávik ber að túlka afar þröngt. Meiri hlutinn bendir á að nú þegar setja ýmis lög takmarkanir á heimildir sveitarfélaga til ákvarðanatöku um landnotkun við skipulagsgerð eins og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins. Meiri hlutinn áréttar að ákvæði frumvarpsins eru skýrt afmörkuð að efni, þ.e. taka einungis til lagningar raflína í flutningskerfi raforku. Ákvæðin ná ekki til annarra innviða eins og samgönguframkvæmda og er það mat meiri hlutans að þær skapi ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku eru sérstaks eðlis, liggja yfir mörk nokkurra sveitarfélaga og eru ólíkar ýmsum öðrum samfélagslegum innviðum, sem að mati meiri hlutans réttlæta að umfjöllun um skipulagsbreytingar og framkvæmdaleyfi hljóti sérstaka málsmeðferð. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu kom fram við athugun starfshóps sem skipaður var vegna fárviðrisins í desember 2019 að töluverðar tafir hafi orðið síðustu ár í undirbúningsferli framkvæmda við flutningskerfi raforku og þá sérstaklega við meginflutningskerfið sem er á ábyrgð Landsnets. Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt með hliðsjón af markvissri atvinnu- og byggðaþróun og þar með brýnt að einfalda og flýta ferli ákvörðunartöku um lagningu raflína.

Athugasemdafrestur við breytingar á deiliskipulagi íbúðarhúsnæðis.
    Með 18. gr. er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að víkja frá meginreglunni um sex vikna lágmarksfrest til að veita umsögn um tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem varðar einvörðungu uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Sveitarstjórn geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum ákveðið að fresturinn verið að lágmarki fjórar vikur.
    Skiptar skoðanir voru meðal umsagnaraðila um þetta ákvæði frumvarpsins. Komu annars vegar fram sjónarmið þess efnis að heimildin gengi ekki nægilega langt og ætti að stefna að því að stytta málsmeðferðartíma allra skipulagstillagna og hins vegar að óæskilegt væri að hrófla við umsagnarfresti þar sem slíkt fæli í sér skerðingu á aðkomu almennings að skipulagsferlinu. Að mati meiri hlutans er hér farið bil beggja og telur meiri hlutinn ráðlegt að miða breytinguna að sinni einvörðungu við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en beinir því til ráðuneytisins að fara heildstætt yfir kynningar- og samráðskröfur skipulagslaga með það að markmiði að tryggja skilvirka stjórnsýslu en um leið gæta að rétti almennings til að taka þátt í skipulagsbreytingum í sínu nærumhverfi.

Landfræðileg gagna- og samráðsgátt.
    Mælt er fyrir um nýja landfræðilega gagna- og samráðsgátt á vegum Skipulagsstofnunar í 20. gr. Að mati meiri hlutans er gáttin afar jákvætt skref í þeirri vegferð að einfalda aðgengi hagsmunaaðila að gildandi skipulagsáætlunum og málsmeðferð nýrra skipulags- og framkvæmdamála. Umsagnaraðilar lýstu ánægju sinni með tilkomu gáttarinnar og hvöttu til þess að hún yrði tekin í notkun sem fyrst. Hins vegar þyrfti að gæta að því að gáttin væri sniðin að þörfum og verklagi sveitarfélaga jafnt sem Skipulagsstofnunar og læra af þeim hnökrum sem urðu við innleiðingu nýrrar byggingargáttar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Meiri hlutinn tekur heilshugar undir þessi sjónarmið.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Vísun til kerfisáætlunar um uppbyggingu raforkukerfisins.
    Bent var á að samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, væri kerfisáætlun háð samþykki en ekki staðfestingu Orkustofnunar. Þá hefði hugtakið staðfesting tiltekna merkingu í skipulagslögum og færi betur á því að samræma orðalagið að þessu leyti raforkulögum. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur til breytingu þess efnis að vísað sé til samþykktrar kerfisáætlunar í stað staðfestrar í 1., 2. og 7. gr. frumvarpsins.

Afgreiðsla raflínuskipulags.
    Í 1. mgr. d-liðar 7. gr. (11. gr. d) er kveðið á um að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli raflínunefnd fjalla um tillögu að raflínuskipulagi á nýjan leik og taka afstöðu til umsóknar um framkvæmdaleyfi. Bent var á að á þessu stigi í ferlinu liggur hvorki fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi né er tímabært að taka afstöðu til leyfisumsóknar. Það sé gert þegar raflínuskipulag hafi tekið gildi með staðfestingu ráðherra og birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til að orðin „umsóknar um framkvæmdaleyfi, þ.m.t.“ falli brott úr ákvæðinu.

Kostnaður við gerð raflínuskipulags og eftirlit með framkvæmdum.
    Í 4. og 13. gr. er kveðið á um að kostnaður við gerð raflínuskipulags og eftirlit með framkvæmdum skuli greiddur af framkvæmdaraðila. Fram kom að ósamræmi er milli þess og ákvæðis 14. gr. þar sem fram kemur að raflínunefnd sé heimilt að innheimta kostnað vegna skipulagsvinnu nefndarinnar af framkvæmdaraðila. Meiri hlutinn leggur til breytingu á 14. gr. þannig að samræmi verði milli þessara ákvæða, þ.e. að raflínunefnd innheimti kostnaðinn.
    Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 22. mars 2021.

Bergþór Ólason,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Jón Gunnarsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.