Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1141  —  672. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um matvælaframleiðslu- og menntunarklasa á Árborgarsvæðinu.


Flm.: Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á fót starfshóp sem vinni tillögur um hvernig best verði komið á fót klasa um innlenda matvælaframleiðslu og menntun henni tengda í Árborg. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Sambands garðyrkjubænda, Garðyrkjuskólans að Reykjum, Landgræðslunnar og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga auk viðeigandi ráðuneyta. Samráð verði haft við Landbúnaðarháskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri, Háskólann á Hólum, Fisktækniskólann í Grindavík, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Ísland og aðra sem að málefninu koma. Alþingi verði gefin skýrsla um málið fyrir 1. desember 2021.

Greinargerð.

    Heimsfaraldur og loftslagsvá hafa sýnt fram á nauðsyn þess að hvert samfélag sé sem sjálfbærast. Því skiptir máli að nýta sem best þau tækifæri sem hér bjóðast varðandi innlenda matvælaframleiðslu, með sjálfbærni að leiðarljósi og einnig sem lið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í því samhengi er mikilvægt að stuðla að og styrkja starfsemi í geiranum og efla menntun sem næst þeim svæðum þar sem framleiðslan fer fram.
    Matvælastefna fyrir Ísland til 2030 var samþykkt í desember 2020 og snýst hún m.a. um að nýta tækifæri innlendrar matvælaframleiðslu til fulls. Stefnt er að því að matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus, með því að draga úr losun og auka bindingu. Er þetta einnig mikilvægt þar sem eftirspurn eftir heilnæmum matvælum sem framleidd eru með litlu kolefnisspori hefur farið vaxandi. Stefnt er að því að fólki gefist kostur á að fá allar upplýsingar um matvælin á einfaldan hátt, hvar þau eru framleidd, hvernig framleiðsluhættirnir eru og loftslagsáhrifin af þeim.
    Suðurland er blómlegt matvælaframleiðsluhérað. Þar fer stór hluti grænmetisframleiðslu landsins fram, enda aðstæður sérstaklega góðar hvað jarðhita varðar og stutt er á helsta markað. Þar er kornrækt mikil og tækifæri til að efla hana mýmörg. Mjólkurframleiðsla er öflug á svæðinu enda landkostir miklir hvað hana varðar. Þá má nefna nýjar greinar eins og landeldi sem mætti í raun flokka sem landbúnað.
    Ætli stjórnvöld að ná fram markmiðum sínum í matvælastefnu er ljóst að efla þarf vísindi, þróun og menntun í matvælaframleiðslu. Á Suðurlandi er að finna ýmsa þá starfsemi sem horfa þarf til þegar kemur að menntun í matvælarækt. Garðyrkjuskólinn að Reykjum hefur verið vagga íslenskrar garðyrkju áratugum saman og nú er hafið samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi um kennslu. Einboðið er að nýta aðstöðu og búnað að Reykjum í tengslum við matvælaframleiðsluklasa. Í Gunnarsholti eru stundaðar umfangsmiklar rannsóknir á ýmiss konar ræktun sem nauðsynlegt er að verði hluti af samstarfi um klasann. Þegar horft er til landeldis má sjá fyrir sér samstarf við Fisktækniskólann í Grindavík, en Suðurstrandarvegur og auknar tækniframfarir bjóða upp á mikla möguleika til framtíðarþróunar í landeldi, bæði fræðum og framkvæmd, frá Suðurlandi til Suðurnesja. Þá má nefna að nú þegar er á svæðinu ýmiss konar starfsemi tengd vísindum í faginu, Matvælastofnun hefur t.d. höfuðstöðvar sínar á Selfossi.
    Hugsanlegt er að nokkurt samstarf geti átt sér stað við Landbúnaðarklasann, sem var stofnaður árið 2014 að frumkvæði Bændasamtakanna og hefur það að markmiði að gæta sameiginlegra hagsmuna og kynna þá fjölþættu starfsemi sem tengist landbúnaði, deila þekkingu, stuðla að framþróun og nýsköpun, stuðla að upplýstri umræðu um markaðssetningu landbúnaðarafurða og matvæla og stuðla að viðburðum sem styðja við aukna verðmætasköpun á öllum stigum matvælaframleiðslu og annarri framleiðslu innan landbúnaðarins. Starfshópurinn skoði það sérstaklega, en Bændasamtökin munu eiga sæti í honum.
    Nýsamþykkt matvælastefna fyrir Ísland er byggð á fimm lykilþáttum: verðmætasköpun, neytendum, ásýnd og öryggi, umhverfi og lýðheilsu. Þá er mikið lagt upp úr mikilvægi matvælaöryggis og fæðuöryggis og hringrásarhagkerfis. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.
    Sett eru fram markmið um hverju skuli hafa verið náð fram árið 2030 og á meðal þeirra eru:
     *      Að verðmætasköpun hafi verið aukin með bættum framleiðsluaðferðum, vöru- og þjónustuþróun og nýsköpun.
     *      Að þekking, hæfni og áhugi á matvælum hafi verið efld á öllum námsstigum.
     *      Að fræðsla til neytenda um matvæli og tengsl mataræðis við lýðheilsu hafi verið aukin.
     *      Rannsóknir og þróun séu öflugur bakhjarl matvælaframleiðslu og samstarf stofnana öflugt.
    Til að þessi markmið náist er nauðsynlegt að efla rannsóknir og menntun á þessu sviði og matvælaframleiðsluklasi er mikilvægt tæki til þess. Efla þarf það góða starf sem þegar er unnið víða. Svo hægt sé að efla kornrækt til manneldis, sem er ákaflega mikilvægt til þess að styrkja fæðuöryggi landsins, þarf að stunda yrkjaprófanir með reglubundnum hætti. Sú starfsemi getur ekki sótt í nýsköpunarsjóði þar sem nýnæmi yrkjaprófana er takmarkað og ætti að teljast til grunnrannsókna sem væru fjármagnaðar sem slíkar af fjárlögum.
    Árborgarsvæðið hentar gríðarlega vel fyrir klasann út frá landkostum og þeirri starfsemi sem þegar er í nágrenninu. Þá má benda á að mikilvægt er að auka hlutfall háskólamenntaðra á Suðurlandi og háskólanám í heimabyggð er besta leiðin til þess. Íbúum á svæðinu hefur fjölgað umtalsvert og allir innviðir eru til staðar til öflugrar starfsemi matvælaframleiðsluklasa.