Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1160  —  690. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017 (tímabundnir gestaflutningar og vanræksluálag).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Tímabundnir gestaflutningar í farþegaflutningum: Óreglulegir farþegaflutningar á vegum innanlands gegn gjaldi sem flytjandi, sem hefur staðfestu í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, starfrækir í öðru aðildarríki á grundvelli bandalagsleyfis í allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði.

2. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tímabundnir gestaflutningar í farþegaflutningum.

    Flytjanda sem hefur staðfestu í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er heimilt að starfrækja tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi enda sé flytjandi handhafi bandalagsleyfis sem útgefið er í staðfesturíki. Flytjandi skal tilgreina í akstursskrá sem geymd er í ökutæki það tímabil innan almanaksmánaðar sem hann hyggst stunda tímabundna gestaflutninga á. Ef aksturstímabil nær yfir mánaðamót eða ef því lýkur við mánaðamót skulu hið minnsta tveir virkir dagar líða frá lokum aksturstímabils þar til flytjandi hefur akstur á nýju tímabili. Afrit af akstursskrá skal afhent tollgæslu til varðveislu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um skilyrði fyrir framkvæmd tímabundinna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi, þar á meðal um innihald akstursskrár og önnur skjöl og gögn sem geymd skulu í ökutæki sem notað er til umræddra flutninga.

3. gr.

    Við 1. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um endurskoðun vanræksluálags fer eftir ákvæðum 30. gr. a.

4. gr.

    Við 1. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
    Þá er lögreglu heimilt að fyrirskipa kyrrsetningu ökutækis sem notað er við tímabundna gestaflutninga fari flutningur fram utan tímabils sem tilgreint er í akstursskrá eða ef flutningur er ekki í samræmi við 11. gr. a að öðru leyti.

5. gr.

    Á eftir 6. tölul. 1. mgr. 30. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi:
     7.      11. gr. a um tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum.

6. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vanræksluálag.

    Farþega í almenningssamgöngum ber að framvísa farmiða eða sýna á annan hátt fram á greiðslu rétts fargjalds óski starfsmaður flytjanda eftir því. Farþega ber einnig að framvísa skilríkjum eða gera grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt óski starfsmaður flytjanda eftir því til að kanna hvort rétt fargjald hafi verið greitt eða vegna innheimtu vanræksluálags, sbr. 2. mgr.
    Geti farþegi í almenningssamgöngum ekki sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds þegar eftir því er leitað er flytjanda heimilt að krefja hann um vanræksluálag. Vanræksluálag getur numið allt að 30.000 kr. hverju sinni en fjárhæð þess skal taka hlutfallslegt mið af því fargjaldi sem farþega hefði borið að greiða. Sé vanræksluálag greitt innan 14 daga er heimilt að lækka það um 50%. Gera má fjárnám til tryggingar greiðslu vanræksluálags án undangengins dóms eða sáttar.
    Nánari ákvæði um hvernig vanræksluálag verður lagt á, fjárhæð þess og innheimtu skulu koma fram í sérstökum reglum flytjanda sem staðfestar eru af ráðherra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Vanræksluálag rennur til flytjanda.
    Telji farþegi að ákvörðun um að krefja hann um vanræksluálag hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik getur hann óskað eftir því að flytjandi taki hana til endurskoðunar. Ósk um endurskoðun skal berast flytjanda innan þriggja mánaða frá því farþegi var krafinn um gjaldið og skal ákvörðun flytjanda liggja fyrir innan þriggja mánaða frá því að ósk um endurskoðun berst. Ákvörðun flytjanda má kæra til Samgöngustofu og gilda málsmeðferðarreglur VII. kafla stjórnsýslulaga um slíkar kærur. Úrskurðir Samgöngustofu samkvæmt þessari grein eru endanlegir á stjórnsýslustigi.
    Reglur um vanræksluálag skulu vera farþegum sýnilegar um leið og stigið er upp í farartæki og kynntar sérstaklega í öllum samgöngumiðstöðvum, á vef flytjanda og á biðstöðvum þar sem því verður við komið.

7. gr.

    Við 1. málsl. 33. gr. laganna bætist: sbr. þó 4. mgr. 30. gr. a.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem samið er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, felur í sér tvenns konar breytingar á gildandi lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.
    Annars vegar er lagt til að bætt verði við lögin skilgreiningu á tímabundnum farþegaflutningum (gestaflutningum) sem flutningafyrirtæki með staðfestu í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins starfrækja hér á landi gegn gjaldi á grundvelli bandalagsleyfis.
    Hins vegar eru lögð til ný úrræði til eftirlits með greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum til að opna fyrir og styðja við skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda með það að markmiði að efla þjónustu við notendur

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru til komnar af tvenns konar tilefni og verður því fjallað um þær í sitt hvoru lagi.

2.1 Skilgreining á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum.
    Með reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 474/2017, sem sett er með stoð í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, var innleidd hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa, sem tekin var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 frá 16. maí 2014.
    Samkvæmt reglugerðinni er sérhverju flutningafyrirtæki með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins og svonefnt bandalagsleyfi, sem annast farþegaflutninga á vegum gegn gjaldi, heimilt að stunda svonefnda gestaflutninga hér á landi í nánar tilgreindum tilvikum. Hafa erlend flutningafyrirtæki stundað slíka gestaflutninga hér á landi með ferðamenn á grundvelli heimildarinnar en þess konar gestaflutningar eru í reglugerðinni skilgreindir sem óreglubundnir farþegaflutningar á vegum innanlands gegn gjaldi sem flutningafyrirtækið starfrækir tímabundið í gistiaðildarríki.
    Nánari skilgreiningu á því hvað geti talist tímabundnir flutningar í þessu sambandi er hins vegar ekki að finna í reglugerð (EB) nr. 1073/2009. Fram hefur komið í umræðum á þingi Evrópusambandsins að tekin hafi verið sú ákvörðun að fela hverju aðildarríki fyrir sig að afmarka og skilgreina hvað felist í „tímabundnum“ flutningum í skilningi b-liðar 7. mgr. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1073/2009. Við innleiðingu gerðarinnar í íslenskan rétt var hins vegar ekki hugað að slíkri skilgreiningu. Hefur af þeim sökum skort grundvöll til að framfylgja þessum ákvæðum hér landi, þ.e. framfylgja því að gestaflutningar sem fram fara á grundvelli framangreindrar heimildar séu í raun tímabundnir. Úr því þarf að bæta með skýrri skilgreiningu í lögum á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum og jafnframt skýrum heimildum til að framfylgja reglum á þessu sviði.

2.2 Skylda farþega í almenningssamgöngum til að sýna fram á greiðslu fargjalds.
    Tilefni lagasetningarinnar er að þessu leyti að opna fyrir og styðja við skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum með það að markmiði að efla þjónustu við notendur án þess að því fylgi verulegt tekjutap flytjenda. Kallar það á að lögfestingu tiltekinna grundvallaratriða er varða skyldur farþega og heimildir flytjenda á þessu sviði.
    Það kallar á að kveðið sé skýrt í lögum á um skyldu farþega til að framvísa gildum farmiða eða sýna á annan hátt fram á greiðslu fargjalds sem og rétt flytjanda til að sannreyna að fargjald hafi verið greitt. Þá þarf einnig heimild til þess að krefja þá farþega um vanræksluálag sem ekki geta sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds sem og ákvæði um endurskoðun slíkra ákvarðana.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér tvenns konar breytingar á gildandi lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Annars vegar snúa þær að skilgreiningu á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum og hins vegar að skyldu farþega í almenningssamgöngum til að sýna fram á greiðslu fargjalds.

3.1 Skilgreining á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum.
    Samkvæmt frumvarpinu verður bætt við lögin skilgreiningu á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum en hana skortir í gildandi lög. Skilgreiningin er efnislega samhljóða skilgreiningu reglugerðar (EB) nr. 1073/2009 en bætt er við hana skýrri skilgreiningu á því hvað geti talist tímabundnir gestaflutningar. Er þar miðað við allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði. Er talið að gestaflutningar innan þeirra tímamarka geti talist tímabundnir í skilningi reglugerðarinnar og jafnframt byggi þau mörk á málefnalegum grunni gagnvart flutningsaðilum sem stunda gestaflutninga hér á landi.
    Þá verði tekin inn í lögin ákvæði um heimild flytjenda með bandalagsleyfi sem staðfestu hafa á Evrópska efnahagssvæðinu til að starfrækja tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi. Er það í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1073/2009. Jafnframt verði bætti við sérstakri reglugerðarheimild ráðherra til að kveða nánar á um skilyrði fyrir framkvæmd tímabundinna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi, þar á meðal um innihald akstursskrár og önnur skjöl og gögn sem geymd skulu í ökutæki sem notað er til umræddra flutninga.
    Loks verða skýrðar heimildir til eftirlits með því að framkvæmd gestaflutninga sé innan þess ramma sem markaður er um hana sem og heimild til beitingar sekta ef um brot er að ræða.

3.2 Skylda farþega í almenningssamgöngum til að sýna fram á greiðslu fargjalds.
    Bætt verður við gildandi lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, ákvæðum um heimild flytjenda til að kanna hvort farþegar í almenningssamgöngum hafi greitt rétt fargjald og um skyldu farþega til að framvísa farmiðum eða öðrum skjölum því til staðfestingar. Þá felur frumvarpið í sér heimild til að krefja þá farþega um sérstakt vanræksluálag sem það geta ekki gert. Með vanræksluálagi eru farþegar þannig krafðir um greiðslu gjalds sem er hærra en sem nemur því fargjaldi sem farþega hefði borið að greiða en vanræksluálagið tekur hlutfallslegt mið af fargjaldinu. Þannig er í reynd um að ræða greiðslu fargjalds með álagi.
    Kveðið er á um hámarksfjárhæð vanræksluálags í frumvarpinu en nánari útfærsla á því hvernig það er lagt á, fjárhæð þess og innheimtu þess skal koma fram í sérstökum reglum flytjanda sem staðfestar eru af ráðherra. Með þessum heimildum verður flytjendum í almenningssamgöngum gert kleift að auka og einfalda aðgengi að vögnunum en beita jafnframt skilvirku eftirliti með greiðslu fargjalda.
    Það skal tekið fram að farþegar munu geta óskað eftir því að flytjandi endurskoði vanræksluálag sem lagt hefur verið á telji þeir ákvörðunina byggja á röngum forsendum og jafnframt munu þeir geta kært niðurstöðu flytjanda til Samgöngustofu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Eins og fram hefur komið felur frumvarpið í sér nákvæmari skilgreiningu en er að finna í reglugerð (EB) nr. 1073/2009 á því hvað talist geta tímabundnir gestaflutningar í farþegaflutningum. Eru slíkir tímabundnir gestaflutningar skilgreindir þannig að þeir geti staðið í allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði en slík nákvæm tímamörk á tímabundnum gestaflutningum eru ekki í reglugerðinni. Hefur þetta kallað á mat á því hvort ákvæði frumvarpsins samræmist að þessu leyti reglugerðinni og þar með skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Það skal tekið fram að fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa skilgreint tímabundna gestaflutninga fyrir sitt leyti. Hafa dönsk yfirvöld litið svo á að slíkir flutningar geti staðið yfir í allt að sjö daga í hverjum almanaksmánuði. Þá liggur fyrir að norsk stjórnvöld hafa einnig talið þörf á nánari skilgreiningu á þessu sviði.
    Það er mat ráðuneytisins að eðli máls samkvæmt séu tímabundnir gestaflutningar tímabundnir en ekki viðvarandi. Því gangi það ekki gegn ákvæðum framangreindrar reglugerðar að skilgreina nánar hver tímamörk skuli vera enda sé það gert á málefnalegum grunni. Þau mörk sem hér eru lögð til, þ.e. tíu samfelldir dagar í hverjum almanaksmánuði, eru það rúm að þau eiga að nægja til ferða með hópa ferðamanna um landið en um leið ekki það rúm að þeir flutningar geti ekki lengur talist tímabundnir. Þá séu tiltekin skýr tímamörk nauðsynleg til að hægt sé að framfylgja þessum reglum, þ.e. framfylgja því að viðvarandi farþegaflutningar fari ekki fram hér á landi á grundvelli heimildarinnar til tímabundinna gestaflutninga.
    Líkt og segir í kafla 2. 1 hefur komið fram í umræðum á þingi Evrópusambandsins að tekin hafi verið sú ákvörðun að fela hverju aðildarríki fyrir sig að afmarka og skilgreina hvað felist í „tímabundnum“ flutningum í skilningi b-liðar 7. mgr. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1073/2009. Þannig óskaði þingmaður Evrópuþingsins með spurningu (E-011304-13) um gestaflutninga sem beint var til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eftir upplýsingum um það hvort framkvæmdastjórnin hygðist veita leiðbeiningar um það hvernig beri að skilgreina hugtakið „tímabundið“ þegar um gestaflutninga í skilningi reglugerðar (EB) nr. 1073/2009 er að ræða. Í svari framkvæmdastjórnarinnar kom fram að með reglugerð (EB) nr. 1073/2009 hafi aðildarríkjum verið eftirlátið að skilgreina hvað felist í farþegaflutningum sem starfræktir eru tímabundið. Framangreint rennir stoðum undir það mat að frumvarpið brjóti ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og að tilefni sé til að festa í lög nákvæma skilgreiningu á því hvað teljist til tímabundinna farþegaflutninga á vegum innanlands gegn gjaldi sem flutningafyrirtæki með staðfestu í öðru aðildarríki starfrækir tímabundið hér á landi.
    Frumvarpið hefur ekki að öðru leyti kallað á mat á samræmi þess við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Drög að frumvarpinu voru sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 4. febrúar 2021 og frestur gefinn til að koma að athugasemdum til 18. sama mánaðar, mál nr. S-34/2021. Alls bárust alls þrjár umsagnir í samráðsgáttina, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar og frá sýslumanninum á Vestfjörðum.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga voru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið að öðru leyti en því að fram kom að sambandið telji að eðlilegt hefði verið að ákvæði um vanræksluálag hefðu verið hluti frumvarps þess sem varð að lögum nr. 28/2017 og að sambandið geri ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins er varða tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum. Þá lýsti sambandið yfir óánægju með frumvarpið sem varð að lögum nr. 28/2017 auk þess sem fram kom að sambandið gerði kröfu um að vinna hefjist við gerð sérstakra laga um almenningssamgöngur. Ekki voru talin tilefni til að bregðast við umsögninni að sinni.
    Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar voru gerðar athugasemdir við orðalag 1. gr. frumvarpsins en samtökin telja orðalagið ekki nægilega skýrt og lögðu til nýjan texta. Fram kom í umsögn samtakanna að þau telji rétt að flytjendum verði skylt að láta færa ökutæki úr landi að lokinni tíu daga notkun þess við gestaflutninga hér á landi en að öðrum kosti telja þau að flytjendur muni koma sér upp þremur ökutækjum sem verði notuð við farþegaflutninga á þremur tíu daga tímabilum innan almanaksmánaðar. Samtökin benda á að í Danmörku hafi verið sett ákvæði um útsenda starfsmenn í þarlend lög um farþegaflutninga (d. Lov om buskørsel) og leggja til að sambærileg ákvæði verði sett í lög hér á landi. Ekki voru talin tilefni til að gera breytingar á orðalagi 1. gr. frumvarpsins til samræmis við tillögur Samtaka ferðaþjónustunnar. Að skylda flytjendur til að láta færa ökutæki úr landi að lokinni tíu daga notkun við tímabundna gestaflutninga þykir ganga gegn meðalhófi og ekki vera nauðsynlegt til að tilgangi um skilgreiningu á hugtakinu „tímabundnir gestaflutningar“ verði náð. Heimild til að stunda gestaflutninga er bundin við flytjanda en ekki við ökutæki eða ökumann og því er flytjanda óheimilt að notast við fjölda ökutækja í samfelldri röð aksturstímabila og stunda þannig viðvarandi gestaflutninga á grundvelli heimildar til að stunda tímabundna gestaflutninga. Samtökin bentu á í umsögn sinni að í Danmörku hafi verið farin sú leið að ákvæði um útsenda starfsmenn voru sett meðal annars í þarlend lög um akstur hópbifreiða. Samtökin lögðu til að ákvæði um útsenda starfsmenn verði sett í lög hér á landi svo sú krafa sé skýr að starfsmenn erlendra flutningsaðila njóti sambærilegra kjara og innlendir starfsmenn. Vert að benda á að lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr. 45/2007, gilda eftir því sem við á um útsenda starfsmenn flytjenda hér á landi en markmið þeirra laga er að m.a. að „tryggja að laun og önnur starfskjör starfsmanna sem erlend fyrirtæki senda tímabundið hingað til lands í því skyni að veita þjónustu hérlendis séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði hér á landi.“
    Í umsögn sýslumannsins á Vestfjörðum var þeirri afstöðu lýst að notkun hugtaksins „vanrækslugjald“, sem lagt var til í frumvarpsdrögunum sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda, gæti valdið ruglingi þar sem sama hugtak er notað yfir viðurlög fyrir að færa ekki ökutæki til lögmæltrar skoðunar. Embættið lagði til að þess í stað verði í lögum nr. 28/2017 notast við hugtakið „fargjaldsekt“. Brugðist var við umsögninni með þeim hætti að í frumvarpi þessu er notast við hugtakið „vanræksluálag“.
    Auk opins samráðsferlis sem fram fór í gegnum samráðsgátt stjórnvalda voru frumvarpsdrög kynnt fyrir dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, tollgæsluyfirvöldum og embættum lögreglustjóranna á Vesturlandi, Suðurlandi og Norðurlandi eystra.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun það skýra þær reglur sem gilda um heimildir flutningafyrirtækja með staðfestu í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins til að starfrækja tímabundna fólksflutninga hér á landi gegn gjaldi á grundvelli Bandalagsleyfis. Skýrari reglur munu auðvelda framfylgd þeirra.
    Þá munu ný úrræði til eftirlits með greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum opna fyrir og styðja við skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda með það að markmiði að auka skilvirkni og efla þjónustu við notendur
    Frumvarpið hefur áhrif á rekstraraðila með staðfestu utan Íslands sem stunda tímabundna gestaflutninga hér á landi og starfsmenn þeirra. Þá hefur það bein áhrif á þá sem koma sér hjá því að greiða fargjald í almenningssamgöngum. Frumvarpið mun bæta lítils háttar við eftirlit lögreglu og jafnframt mun fjölga kærumálum til afgreiðslu hjá Samgöngustofu. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessa er talinn óverulegur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að gerðar verði breytingar á 3. gr. laganna sem hefur að geyma orðskýringar. Lagt er til að við greinina bætist nýr töluliður þar sem hugtakið Tímabundnir gestaflutningar í farþegaflutningum verði skilgreint. Skilgreiningin sem hér er lögð til er efnislega í samræmi við skilgreiningu þá sem er að finna í reglugerð (EB) nr. 1073/2009 utan þess að bætt er við hana nánari skilgreiningu á því hvað felist í „tímabundnum“ gestaflutningum. Þannig er miðað við að um geti verið að ræða allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði. Telja verður að þau tímamörk sem lögð eru til veiti þannig flytjendum nægjanlegt svigrúm til að stunda tímabundna flutninga hér á landi, án þess að gerð sé krafa um að þeir afli sér almenns rekstrarleyfis hér á landi, en feli um leið í sér skýran en málefnalegan ramma sem flytjendur skulu starfa eftir svo hægt sé að fallast á að í raun sé um tímabundna starfsemi í skilningi reglugerðar (EB) nr. 1073/2009 að ræða.


Um 2. gr.

    Ákvæði um gestaflutninga er að finna í reglugerð (EB) nr. 1073/2009 sem hefur verið innleidd hér á landi en ekki hefur verið fjallað um slíka flutninga með skýrum hætti í innlendri löggjöf til þessa. Því er lagt til að í greininni verði skýrlega kveðið á um reglur sem skulu gilda um tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um heimild flytjanda sem hefur staðfestu í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að starfrækja tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi, eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laganna, að því gefnu að flytjandi sé handhafi bandalagsleyfis sem hefur verið gefið út í staðfesturíki flytjandans. Þá er lagt til að kveðið verði á um það skýrt í lögunum að flytjandi sem hyggst stunda tímabundna gestaflutninga skuli geyma akstursskrá í ökutæki sem notað er við flutningana en í slíkri akstursskrá skal meðal annars tilgreina það tímabil innan almanaksmánaðar sem flytjandi hyggst stunda gestaflutninga á. Ákvæði um akstursskrá er þegar að finna í reglugerð (EB) nr. 1073/2009 og í reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 474/2017. Lagt er til að áður en flytjandi hefur tímabundna gestaflutninga skuli hann afhenda tollgæslu afrit af akstursskrá svo hafa megi eftirlit með því hvort í raun sé um að ræða tímabundna gestaflutninga. Þannig getur flytjandi á einfaldan hátt við komu til landsins afhent tollgæslu upplýsingar um það hvenær viðkomandi hyggst stunda gestaflutninga hér á landi.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði þar sem lagt er til að ráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði fyrir framkvæmd tímabundinna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði meðal annars kveðið nánar á um þau skjöl og gögn sem geymd skulu í ökutæki sem notað er til slíkra flutninga. Þannig verði til dæmis nánar útfært í reglugerð hvaða upplýsingar skuli færa í akstursskrá skv. 1. mgr.

Um 3. gr.

    Í 22. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi eru ákvæði um hvernig farþegar eða aðrir sem hagsmuna eiga að gæta geta kvartað til Samgöngustofu telji þeir að flytjandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum. Þessi kvörtunarleið hentar hins vegar illa sem kæruleið fyrir þá sem kæra vilja ákvörðun um að leggja á vanræksluálag. Því er í nýrri 30. gr. a mörkuð sérstök kæruleið vegna vanræksluálags og þau mál undanskilin málsmeðferð 22. gr.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 29. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi er að finna sérstakar heimildir lögreglu til að stöðva hvenær sem er ökutæki sem falla undir lögin til að kanna um hvernig flutning sé að ræða, þar á meðal um hvort flutningurinn sé leyfisskyldur, hvort brotið sé gegn einkarétti eða hvort flutningur sé að öðru leyti í samræmi við ákvæði laganna. Lögreglu er enn fremur veitt heimild til að fyrirskipa kyrrsetningu ökutækis ef um er að ræða leyfisskyldan flutning sem fer fram án tilskilins leyfis. Heimild lögreglu til kyrrsetningar ökutækis samkvæmt ákvæðinu nær þannig aðeins til ökutækja sem notuð eru við leyfisskyldan flutning án þess að tilskilið leyfi sé fyrir hendi. Heimild lögreglu til kyrrsetningar ökutækis samkvæmt gildandi lögum þykir ekki taka til þess með nægilega skýrum hætti þegar gestaflutningar skv. 11. gr. a fara fram utan heimils tímabils sem tilgreint er í akstursskrá og er því lagt til að úr því verði bætt. Þannig er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 29. gr. laganna sem veiti lögreglu skýra heimild til að kyrrsetja ökutæki sem notað er við tímabundna gestaflutninga utan þess tímabils sem tilgreint er í akstursskrá sem geymd er í ökutæki og tollgæsla hefur fengið afrit af eða ef flutningur er ekki í samræmi við reglur um gestaflutninga að öðru leyti. Kyrrsetji lögregla ökutæki samkvæmt heimildinni verður flytjanda gert ókleift að halda áfram ólögmætum gestaflutningum. Flytjandi getur eftir sem áður hafið gestaflutninga í næsta almanaksmánuði að því gefnu að skilyrði laganna séu uppfyllt að öllu leyti.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. 30. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi er að finna upptalningu á þeim ákvæðum laganna sem refsivert er að brjóta gegn. Brot gegn umræddum ákvæðum varða sektum liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.
    Lagt er til að brot gegn 11. gr. a um tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum verði gerð refsiverð til að varna því að flytjendur brjóti gegn þeim reglum sem gilda um tímabundna gestaflutninga.

Um 6. gr.

    Í greininni eru ný ákvæði um skyldu farþega í almenningssamgöngum til að sýna fram á greiðslu rétts fargjalds, sé óskað eftir því, og vanræksluálag sem lagt er á, geti farþegi ekki sýnt fram á greiðslu, og kæruleið í því sambandi. Vísast til almennra athugasemda með frumvarpinu varðandi tilefni og tilgang þeirra breytinga.
    Í 1. mgr. er nánar kveðið á um skyldu farþega til að framvísa farmiða eða sýna á annan hátt fram á greiðslu rétts fargjalds óski starfsmaður flytjanda eftir því. Munu farþegar því þurfa að halda til haga farmiða sínum eða annars konar staðfestingum á greiðslu fargjalds þar til ferð er lokið og jafnframt framvísa sönnun á greiðslu fargjalds óski starfsmaður flytjanda eftir því. Þá ber farþegum einnig að framvísa skilríkjum eða gera grein fyrir sér með öðrum fullnægjandi hætti telji starfsmaður flytjanda þörf á því til staðfestingar á því að rétt fargjald hafi verið greitt eða til innheimtu vanræksluálags. Sem dæmi um hið fyrra er ef farþegi framvísar árskorti sem gefið er út til tiltekins einstaklings. Með ákvæðinu er starfsmönnum flytjanda ekki veitt lögregluvald og er þeim rétt að óska eftir aðstoð lögreglu við að framfylgja skyldum farþega samkvæmt framangreindu, geri farþegar það ekki sjálfviljugir.
    Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að innheimta vanræksluálag hjá þeim farþegum sem ekki geta sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds, hvort sem er með framvísun á gildum farmiða eða staðfestingu á greiðslu fargjalds á annan hátt. Kveðið er á um að vanræksluálag geti að hámarki numið 30 þús. kr. hverju sinni en nánari ákvæði um hvernig það verði lagt á, fjárhæð þess og innheimtu skulu koma fram í sérstökum reglum flytjanda, sbr. 3. mgr. Kveðið er á um að fjárhæð gjaldsins sé þar ákvörðuð í hlutfallslegu samræmi við það fargjald sem farþeganum hefði borið að greiða. Vanræksluálag sem lagt er á inniheldur þannig það fargjald sem farþega hefði borið að greiða og álag ofan á fargjaldið til viðbótar en samanlagt getur fjárhæðin vanræksluálags því ekki orðið hærri en 30 þús. kr. Reglurnar eru lagðar fyrir ráðherra til staðfestingar og hefur ráðherra þannig eftirlit með efni þeirra. Vanræksluálag rennur til flytjanda og kemur þannig á móti tekjutapi hans af því að farþegar greiði ekki fargjald.
    Farþegi ber sjálfur áhættuna af því ef hann týnir farmiða eða ef aðrar aðstæður hamla því að hann geti sýnt fram á greiðslu fargjalds þegar þess er óskað. Hins vegar er flytjanda heimilt í reglum sínum að kveða á um niðurfellingu vanræksluálags að hluta eða öllu leyti ef farþegi getur síðar sýnt fram á að fargjaldið hafi sannarlega verið greitt. Sérstök heimild er til þess að lækka vanræksluálag um 50% sé það greitt innan 14 daga sem felur í sér jákvæðan hvata til að greiða gjaldið sem fyrst. Rétt er að taka fram að heimild til að leggja á vanræksluálag tekur til allra gjaldskyldra farþega sem ekki geta sýnt fram á greiðslu fargjalds, þ.m.t. barna.
    Í 4. mgr. er mörkuð sérstök kæruleið vegna vanræksluálags. Telji farþegi að ákvörðun um að krefja hann um gjaldið hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik getur hann óskað eftir því að flytjandi taki hana til endurskoðunar. Niðurstöðu flytjanda getur hann síðan skotið til Samgöngustofu og er niðurstaða Samgöngustofu endanleg innan stjórnsýslunnar.
    Mikilvægt er að tryggja að farþegar geti auðveldlega kynnt sér þær reglur sem gilda um fargjöld og vanræksluálag, sé slíkt kerfi tekið upp. Því er kveðið á um það í 5. mgr. að reglur um vanræksluálag skulu vera farþegum sýnilegar um leið og stigið er upp í farartæki og kynntar sérstaklega í öllum samgöngumiðstöðvum, á vef flytjanda og á biðstöðvum þar sem því verður við komið.

Um 7. gr.

    Þar sem úrskurðir Samgöngustofu um vanræksluálag skv. 4. mgr. nýrrar 30. gr. a eru endanlegir á stjórnsýslustigi sæta þeir ekki kæru til ráðherra eins og aðrar stjórnsýsluákvarðanir Samgöngustofu skv. 33. gr. laganna. Því er bætt við 33. gr. tilvísun til sérreglu 4. mgr. 30. gr. a.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki nánari skýringar.