Ferill 375. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1162  —  375. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004 (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskylda o.fl.).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Arnór Snæbjörnsson, Elísabetu Önnu Jónsdóttur og Salvöru Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Einar K. Jónsson og Jón Jónsson frá Húnavatnshreppi, Eyjólf Ingva Bjarnason og Kristján Sturluson frá Dalabyggð, Jóhann Gísla Jóhannsson og Hlyn Gauta Sigurðsson frá Landssamtökum skógareigenda, Gísla Ásgeirsson frá Veiðiklúbbnum Streng, Sigurð Árnason frá Byggðastofnun, Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur og Hrafnhildi Bragadóttur frá Skipulagsstofnun, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Aðalstein Sigurgeirsson og Hrefnu Jóhannesdóttur frá Skógræktinni, Brynjólf Jónsson og Jónatan Garðarsson frá Skógræktarfélagi Íslands, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Jóhann F. Þórhallsson frá Fljótsdalshreppi og Árna Geirsson frá Alta ehf.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alta ehf., Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Dalabyggð, Fljótsdalshreppi, forsætisráðuneytinu, Húnavatnshreppi, Húnaþingi vestra, Landssamtökum skógareigenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Skattinum, Skipulagsstofnun, Skógræktarfélagi Íslands, Skógræktinni, Skorradalshreppi, Veiðiklúbbnum Streng ehf. og Þjóðskrá Íslands.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á jarðalögum í þeim tilgangi að einfalda regluverk og stjórnsýslu jarðamála, þar á meðal að felld verði brott skylda ráðherra til að samþykkja breytta landnotkun á landbúnaðarsvæðum og þess í stað verði mælt fyrir um skyldu til að gæta hagsmuna landbúnaðar betur við gerð skipulags. Þá er lagt til að land verði flokkað með tilliti til ræktunarmöguleika, að forkaupsréttur ábúenda verði styrktur, að styrkt verði ákvæði 10. gr. b um öflun upplýsinga og miðlun þeirra til þarfa samþykkisreglu 10. gr. a.

Skylda ráðherra til aðkomu að tilteknum skipulagsákvörðunum sveitarfélaga felld brott.
    Með 2. og 3. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði úr gildi ákvæði sem áskilja að samþykki ráðherra þurfi til breytingar á landnotkun landbúnaðarlands eða til staðfestingar á landskiptum. Þess í stað verði styrktur lagagrundvöllur sveitarstjórna til gerðar skipulags í þágu landbúnaðar og verndar ræktunarlands. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að betur færi á að styrkja frekar ráðuneytið til ákvarðanatöku á grundvelli stefnu um nýtingu jarða til landbúnaðar í stað þess að samþykkja ákvarðanir sveitarstjórna, þar sem upp geti komið flókin álitamál um skiptingu lands og því æskilegt að yfirsýn sé á einum stað. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að í framkvæmd hefur ráðuneytið í raun ekki haft forsendur til að leggja efnislegt mat á þau erindi sem því berast og litið til mats sveitarfélaganna við ákvarðanatöku um skipulag. Með þeirri breytingu sem lögð er til sé skipulagsvald sveitarfélaga virt um leið og stjórnsýsla er einfölduð.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er almennt lýst jákvæðri afstöðu til efnis frumvarpsins. Þó telur sambandið að ákvæði frumvarpsins um skyldu til flokkunar landbúnaðarlands feli í sér óþarflega íþyngjandi kvöð á sveitarfélög með tilheyrandi kostnaði og gagnrýnir að ekki hafi verið gert kostnaðarmat um fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélög. Nefndin hefur skilning á þessum sjónarmiðum sambandsins en bendir á að ráðuneytið hafi vakið athygli á því við meðferð málsins að ekki sé um nýja skyldu að ræða, þar sem þegar sé í jarðalögum skylt að flokka landbúnaðarland. Auk þess hafi ráðuneytið bent á að frumvarpið feli í sér að aflétt sé verkefnum á sveitarfélög varðandi landskipti og lausn lands úr landbúnaðarnotum, sem hafi jákvæð kostnaðaráhrif fyrir sveitarfélög. Þá hefur komið fram fyrir nefndinni, við meðferð málsins, að almennt sé ekki um að ræða hlutfallslega mikinn viðbótarkostnað við þann kostnað sem fylgir skipulagsgerð innan sveitarfélags.
    Þá bendir nefndin á að með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði skylt, í samvinnu við skipulagsyfirvöld, að gefa út leiðbeiningar um hvernig skuli flokka landbúnaðarland í aðalskipulagi en áður var kveðið á um að ráðherra væri slík útgáfa heimil, sbr. 55. gr. laganna. Leiðbeiningunum er m.a. ætlað að auðvelda sveitarfélögum að gæta að landbúnaðarhagsmunum og vernd ræktunarlands við gerð aðalskipulags og aðra áætlanagerð. Nefndin vekur athygli á því að á meðan málið var til meðferðar fyrir nefndinni gaf ráðuneytið, í samstarfi við Skipulagsstofnun og Landbúnaðarháskólann, út leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands, m.a. með hliðsjón af sjónarmiðum um fæðuöryggi og markmiðum jarðalaga.

Öflun upplýsinga (4. gr.).
    Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að styrkt verði ákvæði 10. gr. b um öflun upplýsinga og miðlun þeirra til þarfa samþykkisreglu 10. gr. a. Í umsögn Skattsins er sett fram athugasemd um að hvorki sé í 10. gr. b jarðalaga né frumvarpinu kveðið á um sérstaka þagnarskyldu um þær upplýsingar og gögn sem veitt eru ríkisskattstjóra eða aflað á grundvelli ákvæðisins. Í minnisblaði frá forsætisráðuneytinu kemur fram að ráðuneytið telur að þau úrræði sem þar er rakið að séu til staðar stuðli nægilega að því að upplýsingagjöf á grundvelli 10. gr. b jarðalaga verði sinnt á fullnægjandi hátt af hálfu upplýsingaskyldra lögaðila. Sérstök þagnarskylda sé ónauðsynleg til að ná því markmiði. Með vísan til þessa telur nefndin ábendingar Skattsins ekki gefa tilefni til breytinga á efni frumvarpsins.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Land í skógrækt (c-liður 1. gr.).
    Með c-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðin „land í skógrækt“ í 20. mgr. 2. gr. laganna falli brott, en þar er að finna skilgreiningar á hugtökunum ræktun eða ræktað land í skilningi laganna. Í greinargerð með frumvarpinu segir að flestum sé ljóst að skógur sé ekki ræktað land í sama skilningi og tún og sáðlönd. Þar sé ekki tekin afstaða gegn skógrækt, sem fari oft fram á landbúnaðarsvæðum með góðum árangri sem skjólbeltarækt, en breytingunni sé fyrst og fremst ætlað að endurspegla að skógrækt er nú sérstakur landnotkunarflokkur samkvæmt skipulagsreglugerð. Í umsögnum og í máli gesta sem komu fyrir nefndina var lýst áhyggjum af því að með slíkri breytingu á afmörkun ræktaðs lands væri verið að aftengja hugtakið skógrækt. Sett var fram það sjónarmið að skógrækt væri almennt talin til landbúnaðar og slík ræktun gjarnan aukabúgrein með hefðbundnum landbúnaði.
    Nefndin bendir á að líkt og kemur fram í skýringum með frumvarpinu fjalla skipulagsáætlanir með ýmsum hætti um skipulag landbúnaðarsvæða. Samkvæmt skipulagsreglugerð er skógrækt sérstakur landnotkunarflokkur sem nefnist „skógræktar- og landgræðslusvæði“ þar sem sveitarfélagi er skylt að gera í aðalskipulagi sérstaklega grein fyrir skógrækt og landgræðslu innan landbúnaðarsvæða. Nefndin fellst á að með frumvarpinu sé ekki verið að leggja til að reisa skorður við skógrækt heldur er áherslan á flokkun lands sem nýtt er til ræktunar sem landbúnaðarland, út frá skipulagssjónarmiðum sveitarfélaga. Jafnframt áréttar nefndin að skógrækt telst almennt til landbúnaðar og þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu breyta engu þar um þó að reglur um landflokkun verði settar fram. Nefndin leggur því til að fella brott ákvæði c-liðar 1. gr. sem kveður á um að skógrækt skuli ekki falla undir skilgreiningu á ræktun eða ræktuðu landi.

Frestun gildistöku.
    Í umsögnum og fyrir nefndinni voru sett fram sjónarmið um að verði frumvarpið samþykkt sé æskilegt að fresta gildistöku laganna. Nefndin hefur skilning á því að sveitarfélög þurfi svigrúm til að bregðast við og leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2021.
    Breytingartillögur nefndarinnar eru að öðru leyti tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      C-liður 1. gr. falli brott.
     2.      Í stað orðanna „milli breyttrar landnotkunar“ í b-lið 1. efnismgr. 2. gr. komi: milli lands með breyttri landnotkun.
     3.      Í stað orðsins „þeirra“ í 1. málsl. 2. efnismgr. 3. gr. komi: hennar.
     4.      Á eftir orðunum „yfirráð hefur“ í lokamálslið efnismálsgreinar 6. gr. komi: hér.
     5.      7. gr. orðist svo:
                  42. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lausn óðalsbanda.

                  1. júlí 2021 falla öll bönd á meðferð og ráðstöfun jarða sem töldust eða enn teljast til ættaróðala úr gildi.
     6.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Orðin „ákvæðum IV. kafla um landskipti, sameiningu lands o.fl.“ í 1. mgr. 54. gr. a laganna falla brott.
     7.      10. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

    Haraldur Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 22. mars 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.