Ferill 692. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1164  —  692. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum (ættleiðendur).

Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir hafi einstaklingur verið í hjúskap eða óvígðri sambúð en slitið samvistum við hinn enda hafi hjúskapur eða óvígð sambúð varað í a.m.k. fimm ár.
     b.      Á eftir orðunum „ef hitt er“ í 3. mgr. kemur: látið.

2. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú ættleiðir einstaklingur barn eða kjörbarn maka eða sambúðarmaka en samvistum hefur verið slitið eða maki eða sambúðarmaki hefur fallið frá og fær barnið þá réttarstöðu sem væri það eigið barn þessara einstaklinga.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. og 25. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum. Í breytingunni felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá. Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja að umsækjandi sem alið hefur upp barn geti fengið ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð eða hjónabandi við foreldrið. Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að ættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Mögulega eiga þessir einstaklingar önnur börn saman og sá sem óskar eftir ættleiðingunni vill tryggja að barn sem hefur alist upp hjá viðkomandi hafi sömu réttindi og önnur börn hans. Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, sbr. 4. mgr. 2. gr., en það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl við báða blóðforeldra rofnar.