Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1168  —  345. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Arnór Snæbjörnsson og Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Elías Blöndal Guðjónsson og Jón Helga Björnsson frá Landssambandi veiðifélaga, Jörund Gauksson frá Veiðifélagi Árnesinga, Guðna Magnús Eiríksson frá Fiskistofu og Guðna Guðbergsson frá Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna og Guðjón Ármannsson og Víði Smára Petersen.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Landssambandi veiðifélaga og Veiðifélagi Árnesinga.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um lax og silungsveiði, nr. 61/2006, sem miða einkum að því að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Sambærilegt stjórnarfrumvarp var lagt fram á síðasta löggjafarþingi (251. mál, þskj. 272). Það var kynnt í frumdrögum í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-162/2019) auk þess sem það fór í gegnum hefðbundið umsagnarferli hjá atvinnuveganefnd. Í greinargerð með frumvarpi þessu segir að brugðist hafi verið við þeim athugasemdum sem bárust nefndinni með því leggja til aðra nálgun til að ná sömu markmiðum um vernd minni hluta. Ráðuneytið hafði við vinnslu þess samráð við Landssamband veiðifélaga og Fiskistofu. Þær breytingar sem hafa verið gerðar frá því að fyrra frumvarpið var lagt fram snúa einkum að breyttu fyrirkomulagi um vernd minni hluta en í fyrra frumvarpi var kveðið á um hámarksatkvæðavægi. Lögð eru til nýmæli um annars vegar fyrirsvar jarða á félagsfundum og hins vegar að Fiskistofu verði veitt úrræði til að bregðast við vegna framkvæmda sem gerðar eru í óleyfi og fara gegn lögunum. Þá er lagt til að við tilteknar aðstæður geti veiðiréttarhafar átt rétt til bóta vegna ákvarðana sem teknar eru á félagsfundi.

Umfjöllun meiri hlutans.
Úrskurðarvald Fiskistofu.
    Með 1. mgr. a-liðar 2. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við nýju lagaákvæði um að á fundi veiðifélags megi ekki taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Í greinargerð segir að um sé að ræða vísireglu um góða stjórnarhætti sem telja verður að rími við m.a. viðurlagaákvæði i-liðar 50. gr. og er þekkt úr m.a. félagarétti, sbr. 70. gr. laga um einkahlutafélög og 95. gr. laga um hlutafélög. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er því ætlað að vernda alla félagsmenn sem og félagið sjálft en ekki aðeins minni hluta félagsmanna fyrir ákvörðunum sem geta aflað félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins. Félagsmenn geta, hver um sig, nýtt sér kæruheimild 43. gr. laganna ef uppi er ágreiningur um lögmæti ákvörðunar sem tekin hefur verið á fundi veiðifélags eða af félagsstjórn. Kæru er þá beint til Fiskistofu sem skv. 43. gr. laganna er falið að skera úr um lögmæti ákvarðana sem teknar eru á fundi veiðifélags eða af félagsstjórn.
    Í umsögn sinni um málið bendir Fiskistofa á að mögulega fari betur um úrlausn slíks ágreinings hjá dómstólum, ekki síst í ljósi þess að þeir tveir mánuðir sem veittir eru til afgreiðslu máls samræmist illa meginreglum stjórnsýsluréttar um málshraða. Verði Fiskistofu hins vegar falið að úrskurða um slíkan ágreining leggur hún í umsögn sinni til að fá heimild til að beita dagsektum ef umbeðin gögn og upplýsingar eru ekki veittar innan tímamarka. Í umsögnum Bændasamtaka Íslands og Landssambands veiðifélaga er einnig lýst áhyggjum af því að Fiskistofa nái að vinna innan þeirra tímamarka sem sett eru.
    Meiri hlutinn hefur skilning á þessu sjónarmiði en telur í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir mikilvægt að skorið sé úr slíkum ágreiningi sem fyrst en Fiskistofu er skv. 2. mgr. 43. gr. gert að ljúka afgreiðslu máls innan tveggja mánaða frá því að kæra berst.

Ráðstöfun veiðiréttar – aukinn meiri hluti og bótaréttur.
    Með 2. og 3. mgr. a-liðar 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 40. gr. laganna um ráðstöfun veiðiréttar. Bætt er við nýju ákvæði um að samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða þurfi ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingarnar séu óverulegar. Slíkar ákvarðanir verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, þ.e. varða sjónarmið um sjálfbærni og fiskifræðilegan grunn eða stuðla betur að markmiðum laganna. Landssamband veiðifélaga gerir í umsögn sinni athugasemd við orðalag ákvæðisins, telur það óþarflega takmarkandi og leggur til að samþykki aukins meiri hluta þurfi til að draga mjög verulega úr veiði.
    Með 5. gr. frumvarpsins er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 49. gr. laganna þar sem hnykkt er á mikilvægi þess að ákvarðanir veiðifélags byggist á málefnalegum sjónarmiðum, með því að leggja til bótaskyldu ef ákvörðun veiðifélags leiðir til tjóns fyrir veiðiréttarhafa. Kemur sú regla til viðbótar bótareglu í 2. mgr. 49. gr. sem gerir ráð fyrir bótaskyldu ef ákvörðun veiðifélags veldur tilteknum veiðiréttarhafa tjóni umfram aðra. Hinni nýju reglu er því að ætlað að taka til þess ef sýnt er fram á tjón veiðiréttarhafa sem fái t.d. ekki notið eðlilegs arðs af hlunnindum sínum vegna ákvörðunar félagsfundar.
    Með 2. gr. frumvarpsins er bætt við nýju ákvæði um að aukinn meiri hluta atkvæða þurfi til að ráðstafa veiðirétti til félagsmanns í veiðifélaginu sem fer með að lágmarki 30% atkvæða eða til aðila sem tengjast honum. Þar er litið til þess að við tilteknar aðstæður geti verið ástæða til að heimila félagsmanni í veiðifélagi að ráðstafa til sín veiðirétti. Þó þykir rétt að aukinn meiri hluta þurfi til samþykkis um slíka ákvörðun. Telur meiri hlutinn tillögu um að aukinn meiri hluta þurfi til slíkrar ákvörðunar samrýmast sjónarmiðum um vernd minni hluta þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum í félagi.
    Veiðifélög hafa það hlutverk skv. 1. mgr. 37. gr. laganna að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra en einnig að tryggja að veiði eða arði af veiði sé skipt milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra. Af því leiðir að gert er ráð fyrir nýtingu fiskstofna félagsmönnum veiðifélaga til hagsbóta með sjálfbærni að leiðarljósi og tekur meiri hlutinn undir mikilvægi þess að skýra þær reglur er varða nýtingu þeirra mikilvægu hlunninda sem hér um ræðir.

Gildistökuákvæði (6. gr.).
    Með fyrri málslið 6. gr. er kveðið á um að lögin taki strax gildi. Þá segir í seinni málslið ákvæðisins: „Þó getur ákvæði 1. gr. gilt um framkvæmdir sem hafnar eru eða lokið er áður en lög þessi öðlast gildi.“ Í greinargerð með frumvarpinu segir að greinin þarfnist ekki skýringa, en með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að beita dagsektum fari aðili ekki að tilmælum. Því er um að ræða heimildir til að leggja á dagsektir til að þvinga fram rétta breytni, eða t.d. að framkvæmd í eða við veiðivatn án stoðar í lögunum verði fjarlægð og umhverfi endurgert.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skipan matsnefndar (1. mgr. 3. gr.).
    Með 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. mgr. 44. gr. laganna, er kveður á um skipun matsnefndar, á þann veg að Hafrannsóknastofnun í stað Hæstaréttar tilnefni einn nefndarmann. Ráðherra skipaði í janúar 2021 nýja matsnefnd til fjögurra ára, skv. 1. mgr. 44. gr. Í stað þess að ráðherra verði gert að endurskoða skipan nefndar við gildistöku laganna leggur meiri hlutinn til að aukið verði við lögin ákvæði til bráðabirgða er kveður á um að matsnefndin sitji út skipunartíma sinn.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. málsl. 4. mgr. a-liðar 2. gr. orðist svo: Matsnefnd skv. VII. kafla sker úr ágreiningi skv. 3. og 4. mgr.
     2.      Í stað orðanna „úrskurðað kæranda til“ í b-lið 4. gr. komi: gert kæranda.
     3.      Á eftir 5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Matsnefnd sem skipuð var af ráðherra í janúar 2021 á grundvelli 1. mgr. 44. gr. heldur valdheimild sinni óraskaðri út skipunartíma sinn, sbr. ákvæði 1. mgr. 44. gr.

Alþingi, 25. mars 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson, frsm. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson.