Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1170  —  462. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um mötuneyti sveitarfélaga.


     1.      Hversu mörg mötuneyti eru starfrækt á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra og hver er áætlaður fjöldi máltíða sem þessi mötuneyti afgreiða á ársgrundvelli? Óskað er sundurgreiningar eftir því hvort aðilarnir reka eigið eldhús eða kaupa þjónustu að.
    Ráðuneytið óskaði eftir milligöngu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að afla upplýsinga vegna fyrirspurnarinnar. Eftirfarandi svör byggja á svörum sambandsins. Jafnframt var leitað viðbótarupplýsinga hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og embætti landlæknis.
    Sveitarfélög landsins eru nú 69 talsins og innan hvers sveitarfélags geta verið nokkrir byggðakjarnar. Hjá sveitarfélögum eru yfir 20.000 stöðugildi og starfsmenn líklega eitthvað fleiri þar sem ekki allir starfsmenn eru í 100% starfshlutfalli. Ekki eru til upplýsingar um fjölda mötuneyta á vegum sveitarfélaga fyrir starfsfólk sitt en ætla má að það ráðist að einhverju leyti af stærð og fjölda starfsmanna á hverri starfsstöð. Þannig gæti verið að sum sveitarfélög séu með mörg mötuneyti meðan önnur eru með eitt eða hugsanlega ekkert mötuneyti.
    Sveitarfélögin starfrækja alls 157 grunnskóla og 215 leikskóla og innan þeirra eru a.m.k. 46.000 grunnskólanemar og 19.000 leikskólanemar. Samkvæmt lögum um leikskóla og grunnskóla á að vera til staðar aðstaða fyrir nemendur til að neyta málsverða og má því ætla að yfir 65.000 nemendur eigi kost á mötuneytisþjónustu hjá sveitarfélögum. Flestir leik- og grunnskólar bjóða upp á mötuneyti fyrir sína nemendur og sum þeirra bjóða einnig upp á morgunmat og/eða morgun- og síðdegishressingu. Fyrirkomulagið er hins vegar mismunandi eftir stærð skóla, fjölda nemenda, samrekstri skólastiga og þess háttar. Á því bera sveitarfélögin sjálf ábyrgð.
    Að auki starfrækja sveitarfélög víða mötuneyti fyrir þjónustuþega, svo sem fatlað fólk eða eldri borgara, ásamt því að sveitarfélög hafa tekið að sér rekstur hjúkrunarheimila en þeim fylgir nánast undantekningarlaust mötuneyti. Með hliðsjón af ofangreindu er það mat sambandsins að ekki sé réttlætanlegt að fara í umrædda upplýsingaöflun þar sem upplýsingarnar eru verulega umfangsmiklar og liggja ekki þegar fyrir.

     2.      Hvert er áætlað kolefnisspor af mötuneytum sveitarfélaganna og hversu stór hluti þess er vegna
                  a.      framleiðslu matvæla, og þar af hversu mikið vegna framleiðslu á kjöti og öðrum dýraafurðum,
                  b.      flutninga á matvælum, og
                  c.      matarsóunar?

    Upplýsingarnar liggja ekki fyrir, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Rétt er þó að vekja athygli á því að öll sveitarfélög eiga að setja sér loftslagsstefnu fyrir árslok 2021, sbr. nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við breytingar á lögum um loftslagsmál í júní 2019. Loftslagsstefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Lykilþáttur í loftslagsstefnu er því að greina kolefnisspor í rekstri sveitarfélags, þ.m.t. kolefnisspor frá mötuneytum. Á fimmta tug sveitarfélaga hafa skuldbundið sig til að taka þátt í samstarfsvettvangi sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið og eitt af verkefnum þessa samstarfsvettvangs er að útbúa reiknivél og líkön svo sveitarfélög eigi auðveldara með að reikna kolefnisspor sitt og setja sér mælanleg markmið til að draga úr kolefnisspori frá rekstri.

     3.      Hvernig er unnið að því að draga úr kolefnisspori af mötuneytum sveitarfélaganna og hvernig eru slíkar aðgerðir tengdar vinnu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum?
    Líkt og kemur fram í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar ber sveitarfélögum að setja loftslagsstefnu fyrir árslok 2021, sbr. 5. gr. c laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, og þar verður hægt að finna markmið sveitarfélaga til að draga úr kolefnisspori í rekstri. Samkvæmt sömu lagagrein ber Umhverfisstofnun að skila til ráðherra skýrslu um árangur sveitarfélaga í loftslagsmálum og hafa eftirlit með að sveitarfélög setji sér loftslagsstefnu og innleiði aðgerðir samkvæmt henni. Loftslagsstefnur annarra opinberra aðila, þar á meðal sveitarfélaga, er aðgerð G.10 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Því ættu allar tillögur sveitarfélaga til að draga úr kolefnisspori í mötuneytum að falla undir þá aðgerð.

     4.      Hvernig hefur hlutfall matvæla sem uppfylla vistvæn skilyrði þróast undanfarin ár hjá mötuneytunum?
    Upplýsingarnar liggja ekki fyrir, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Að hve miklu leyti hefur innkaupastefna matvæla fyrir ríkisaðila verið nýtt af sveitarfélögum, m.a. hvað varðar aðgerðir til að auka áherslu á fæði úr jurtaríkinu og draga úr neyslu á kjöti í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis?
    Innkaupastefna matvæla fyrir ríkisaðila var samþykkt 2019 og flestar aðgerðir er þar koma fram eiga að koma til framkvæmda á árunum 2020–2021. Flestar þær aðgerðir er sveitarfélög geta nýtt í sinni starfsemi eru því ekki komnar til framkvæmda eða ekki komin nægjanleg reynsla á breytt verklag til þess að sveitarfélög geti nýtt sér umrædda innkaupastefnu í sinni starfsemi. Rétt þykir þó að vekja athygli á því að Embætti landlæknis hefur gefið út ráðleggingar um næringu fyrir ungbörn, börn á leikskólaaldri, börn 6–12 ára, unglinga og ungt fólk, fullorðna og aldraða. Einnig stendur embættið fyrir heilsueflandi starfi líkt og heilsueflandi samfélög, grunnskólar, leikskólar og vinnustaðir. Fjöldi sveitarfélaga tekur þátt í þessum verkefnum og nýtir sér leiðbeiningar og handbækur Embættis landlæknis í starfi mötuneyta en samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis eru 33 sveitarfélög þátttakendur í heilsueflandi samfélögum og í þeim búa 93,5% landsmanna. Þá eru í sveitarfélögunum um 200 heilsueflandi leik- og grunnskólar en í lögum um grunnskóla er jafnframt sérstaklega kveðið á um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið.

     6.      Hvaða stefnu er fylgt með tilliti til framboðs á grænkerafæði? Kemur til álita að öll mötuneyti yfir ákveðinni stærð bjóði daglega upp á grænkeravalkost eða að ákveðinn hluta daga verði eingöngu grænkerafæði í boði?
    Sveitarfélögum er tryggður sjálfsstjórnarréttur í 78. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þá hefur Ísland fullgilt Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga og öðlaðist sáttmálinn gildi 1. júlí 1991 hvað Ísland varðar. Í honum kemur m.a. fram að aðildarríki sáttmálans telja að sveitarstjórnir séu einn af helstu hornsteinum hvers lýðræðislegs stjórnarfars. Enn fremur að réttur þegnanna til þátttöku í stjórnun opinberra mála sé ein af þeim lýðræðislegu meginreglum sem séu sameiginlegar öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins og að aðildarríkin séu þess fullviss að eðlilegast sé að njóta þessa réttar í sveitarfélögum. Því er einnig lýst yfir að tilvist ábyrgra sveitarstjórna getur haft í för með sér stjórnsýslu sem bæði er virk og í nánum tengslum við borgarana. Þannig er hverju og einu sveitarfélagi í sjálfsvald sett að skipuleggja þjónustu mötuneyta. Þó má telja eðlilegt að horft sé til ráðlegginga embættis landlæknis sem samkvæmt lögum er ætlað að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf í landinu.